Hvað er það sem drep­ur vináttu? Svik? Sam­skipta­leysi? Fjar­lægð­ir? Nei, dren auð­vit­að. Alla­vega er það mat Höllu, að­al­per­sónu bók­ar­inn­ar Til­finn­ing­ar eru fyr­ir aum­ingja.

„En það var komið að ögurstundu í vinahópnum. Bara eitt matarboð í viðbót þar sem ekki væri rætt um annað en dren og annað fasteignaviðhald og eitthvert okkar hefði hent sér fram af svölunum eða kveikt í sér.“

Það má sjálfsagt finna einhverjar metafórur hérna; hvernig allt snýst um að halda vatni og lífi frá sér, um viðhald, um að viðhalda ástandi þegar fólk þyrfti frekar að breyta til.

Þetta er vinahópur snemmiðaldra fólks, þau eiga öll stutt í fertugt. Þau kynntust þegar þau voru óformleg öldungadeild Fjölbrautaskólans í Ármúla, öll mætt til að klára stúdentinn nokkrum árum á eftir áætlun.

En Halla er krónískt einhleyp og virðist töluvert meiri krakki en þau hin, allavega í eigin augum – og þetta er allt með hennar augum, hún er sögumaðurinn. Hún sér ekki mikla rómantík í hjónaböndum þeirra giftu í vinahópnum og upplifir sig raunar sem hálfgerðan stuðpúða fyrir hjónaböndin.

„Fólk í hjónaböndum er oft þrautþjálfað í að varpa allri ábyrgð á óhöppum og axarsköftum sínum á vini sína. Það voru þeir, óþroskuðu vinirnir, sem vildu hanga úti til klukkan sex næsta morgun, vildu kaupa spítt og fara í partý þar sem ekkert paravænt fór fram.“

Hún er þessi óþroskaði vinur, það er hennar sjálfsmynd – og ekki síður sú fullvissa hennar að hún sé ekki nógu góð fyrir neinn, ekki nógu sæt né nógu sniðug, sem verður til þess að ástarlífið gengur ansi brösulega. Hún er að vísu í sambandi í blábyrjun bókarinnar – og eftir bráðfyndinn fyrsta kafla slær annar kaflinn annan og sorglegri tón, ekki endilega af því að sambandinu lauk heldur út af lýsingunum hvernig þau fjarlægðust og hvernig hún kennir sjálfri sér um þótt það virðist augljóst að þetta sé frekar honum að kenna.

Skortur á harmi

En harmurinn hverfur að mestu eftir þetta, þótt hann sé vissulega undirliggjandi á sinn hátt. Þetta samspil húmors og harms sem næst í fyrstu köflunum hverfur (þótt vissulega eimi enn að því) og þótt bókin sé aldrei leiðinleg verður hún dálítið eintóna – hún er oft helvíti fyndin, en ekki alveg nógu fyndin samt til að standa undir því að vera hrein gamansaga.

Halla er dálítið eins og úthverfaútgáfan af Hlyni Birni í 101 Reykjavík og Maríu í Millilendingu, sögð með kómík sem minnir örlítið á David Sedaris. Hún býr samt miðsvæðis en nær aldrei alveg að lifa sig inní miðbæjarlífið – og ekki úthverfalíf ráðsettra vina sinna heldur. Eiginlega er einn helsti vandi hennar að ná ekki almennilega að lifa sig inní hlutina. Eða öllu heldur, hún lifir sig rækilega inní ímynduð ástarsambönd en gengur ansi illa að lifa sig inní metal-hljómsveitina sem þau vinirnir stofna.

Hljómsveitin er uppátæki sem snýst um að endurheimta glataða æsku, finna lífi sínu tilgang – en kannski aðallega að gera eitthvað kúl. En til að lifa sig inní eitthvað svona, til að verða í alvörunni kúl í sínu hljómsveitarbrasi – þá þarf þá einlægni að lifa sig almennilega inní hlutina, ekki bara að fara eftir forskriftinni.

Vandi Höllu er þó ekki sá sami og hinna. Þau virðast fyrst og fremst of ráðsett, þessi æska sem hljómsveitin táknar þeim of fjarri. Halla er of sannfærð um að hún sé lúði sem enginn getur elskað, hún er rómantíska útgáfan af manninum í dæmisögunni um tjakkinn – ef hún bankar upp á og biður um ást þá strunsar hún í burtu áður en hún fær svar og segir fólki bara að eiga sína ást sjálft.

Eða svona nærri því, hún er alltof óörugg með sig til að vera með slíkan kjaft um viðkvæm málefni, þess í stað þá sannfærir hún sig einfaldlega um að hrifningin sé ekki gagnkvæm, oft eftir að hún var búin að sannfæra sig um hið gagnstæða í dagdraumum sínum. Þannig að í raun getur hún aldrei verið almennilega raunsæ um hvort mennirnir sem hún er skotin í eða sefur hjá (mengi sem skarast lítið) séu efni í framtíðarmaka.

Og jafnvel þótt hún hafi titilinn eftir sjálf, að tilfinningar séu fyrir aumingja, er sömuleiðis augljóst að hún sér sjálfan sig sem slíkan aumingja. Aumingja sem er alltaf að láta tilfinningar, oft nett kjánalegar tilfinningar, flækjast fyrir sér.

Fólk sem er sífellt að þykjast

Þetta er líka bók um fólk sem er sífellt að þykjast. Þykjast vera í metal-hljómsveit. Þykjast vera annað en það er. Sem virðist raunar vera þjóðaríþrótt þjóðar sem er búið að gleyma sér í ímyndunarsköpun fyrir ferðamenn.

„Af öllum listamönnum á Íslandi eru til margar mínútur ef ekki klukkustundir af vídjóefni þar sem þau, allt frá ljóðskáldum til fatahönnuða, eru látin horfa út á sjóinn. Oft er hluti af því í slow motion eða svarthvítu til áhersluauka, jafnvel þó flest þeirri sæki ábyggilega miklu meiri innblástur í verslunarmiðstöðina Glæsibæ en nokkra fjöru eða sjó.“

Þessi mótþróaröskun þeirra getur svo brotist út á ólíklegasta hátt, eins og þegar ein úr vinahópnum reynir að slá sér upp með löggu til að vera í uppreisn, af því „í vinahópum þar sem allir keppast við að vera líbó og bóhemar þá er pínku erfitt að vera með bad boy blæti. Þar er auðnuleysingjum og letihlunkum bara fagnað.“

Þetta er líka tíðarandasaga, svo langt sem það nær. Tæknin er nauðsynleg en púkaleg, hún missir áhuga á strák þegar hann les upp ljóð á síma (viðkvæmt mál í ljóðasenunni, treystið mér) – þótt öll þeirra einlægustu (og blautustu) ljóð séu ort á þessa sömu síma, samanber þessa útleggingu á kostum þess að fara á of dýra bari:

„Af tvennu illu vil ég frekar óttast heimabankann minn en outboxið í símanum mínum daginn eftir fyllerí.“

Svo ekki sé talað um hvernig bókin fangar stundum hugmyndastrauma þessara ára á ansi lunkinn hátt, sem og mótsagnirnar sem þær geta falið í sér.

„Palli vissi sko miklu meira um femíníska baráttu, aðferðir og birtingarmyndir karlrembu en við stelpurnar sjálfar og allir hrósuðu honum svaka mikið fyrir að vera svona óþreytandi við að tala alltaf fyrir okkur.“

Vandinn er ákveðið sjálfshatur

Vandinn við ástand þeirra er samt í grunninn ákveðið sjálfshatur. Hatur á þessari snemmiðöldrun – en líka hinni eilífu æsku, öllum komplexunum og kjánalegu hegðuninni sem þeim finnst þau eiga að vera vaxinn upp úr. Þetta er bók um það að vera orðinn stór og vera engu nær um svarið hvað maður ætli að verða þegar maður er orðinn stór. Eða mögulega bara ekki sátt við svarið.

Þessu fylgja varnarviðbrögð, eins og að fullyrða að „Skipulögðu fólki sem er með allt á hreinu fylgir alltaf eitthvað óþægilegt síkópatavæb“. En um leið áttar hún sig á að „það þarf eiginlega alltaf eina smá þurrkuntu til að láta skemmtileg plön verða að veruleika“.

Hvert er svo markmiðið? Jú, að komast í þáttinn hjá Gísla Marteini. En í markmiðinu er fallið falið, markmiðið er ekki að bjarga heiminum eða uppfylla tjáningarþörfina. Markmiðið er að fá að vera með, komast inn í hlýjuna, frægðina.

Halla er hins vegar alveg nógu sniðug til að eiga erindi í sjónvarpið. Hún trúir því bara ekki sjálf. Finnur ekki erindið sitt, finnur ekki sinn stað í lífinu, er einhvers staðar mitt á milli miðbæjar og úthverfis, mitt á milli bernsku og miðöldrunar. En þarf kannski bara helst að fara að leyfa sér að vera aumingi.

Niðurstaða: Skrambi fyndin samtímasaga um nærri fertugan eilífðarungling með sama og ekkert sjálfstraust, sem líður þó fyrir að vera dálítið eintóna og tíðindalítil. En manni leiðist samt aldrei.
Kamilla Einarsdóttir er bókavörður sem sendi frá sér smásöguna „Læsi í Burkina Faso og aðrar aðferðir til að taka einhvern á löpp“ í ritinu Ástarsögum íslenskra kvenna árið 2017. Ári síðar sendi hún frá sér fyrstu skáldsöguna, Kópavogskrónika - Til dóttur minnar með ást og steiktum, og hreppti sjálfa Rauðu Hrafnsfjöðrina fyrir – en henni útdeilir bókmenntafélagið Krummi fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum bókmenntum. Kópavogskrónika endaði svo á fjölum Þjóðleikhússins síðasta vetur, en þar leikstýrði Silja Hauksdóttir Ilmi Kristjánsdóttur í aðalhlutverkinu. Tilfinningar eru fyrir aumingja er önnur skáldsaga Kamillu og var nýlega tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 22. desember 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson