„Öll þessi líf. Fíflar í órækt.“ Þessi orð eru fyrstu kynni okkar af Björt, sögumanni okkar sem er önnum kafin við að skrásetja líf ókunnugra í miðbæ Reykjavíkur. Svo önnum kafin við að stúdera aðra að maður verður strax fyrst og fremst forvitinn um hvaða sjálf hún sé um leið að fela, þessi draugur sem annað fólk virðist varla taka eftir núorðið og talar um eins og hún sé ekki viðstödd.
Hún kallar sig ráfara, hennar helsta iðja er að skrásetja hegðun fólks og flokka hana í möppur á borð við „atvik“, „farsæld“, og „vafaatriði og athuganir“. Hún lætur eins og dýrafræðingur að flokka tegundir en afneitar um leið sinni raunverulegu iðju sem skáld hversdagsleikans. Skammar sjálfa sig þegar hún túlkar – en er þó nánast ófær um að gera það ekki.
„Hér staldra ég við. Veit samt betur … Hvað er hlaupið í mig? Er ég að túlka fólk og atvik með gildisdómum mínum? Veit ekki hvort ég á að halda aftur af mér eða leyfa orðunum að flæða. Stríðir gegn mínum venjubundnu athugunum að álykta. Hversu mikið get ég leyft mér að túlka? Býr sannleikurinn kannski í því óræða?“
Það er ekkert efnisyfirlit með bókinni, sem er hálfgerð synd, af því kaflaheitin mynda í raun sjálfstætt ljóð, hver einasti kafli bókarinnar innifelur orðið „ást“ í einhverri mynd, þeir fyrstu eru „ÁST Á SÍÐASTA SÖLUDEGI“, „ÁNETJANDI ÁST“, „ÁSTIN Í NÆRVERUNNI“, „ÁSTIR ENGLA“, „ÁSTIN Í SÖGUNUM“ og „ÁSTIN Í HOLDINU“.
ÁST Á SÍÐASTA SÖLUDEGI
ÁNETJANDI ÁST
ÁSTIN Í NÆRVERUNNI
ÁSTIR ENGLA
ÁSTIN Í SÖGUNUM
ÁSTIN Í HOLDINU
ÁSTIN LIFANDI
ÁSTIN Í AUGNABLIKINU
ÁSTIN Í UPPHAFI
ÁST ANNARRA
ÁST Á FUGLUM
ÁST MEÐ SKILYRÐUM
ÁSTIN Í LEIKNUM
ÁST OG SKÖMM I
ÁST OG SKÖMM II
ÁST OG HÖFNUN
ÁSTIN Í UPPHAFI
ÁSTIN Í SPEGLINUM
ÁSTIN Í OFBELDINU
ÁSTIN Í KULDANUM
ÁST OG SORG
GETULAUS ÁST
ÁSTIN Í OFBELDINU
ÁST OG LYKT
ÁSTIN BEYGLUÐ
ÁSTIN Í HLÝJUNNI
ÁSTIN ER SKÁK
ÓFYRIRSJÁANLEG ÁST
ÁSTIN Í SKYNJUN
ÁSTIN TÆR
VANMÁTTUG ÁST
En þetta eru oftar en ekki öfugmæli, ástleysi er helsta stef bókarinnar. Þótt fuglarnir fljúgi allir í ljósið komast þeir fæstir þangað. Þetta er saga um vængbrotna fugla og fugla sem villast af leið. Sú ást sem á annað borð birtist okkur hér er afskræmd og grótesk, afskaplega líkamleg og svikul. Þetta er saga um öll þau trámu sem koma í veg fyrir að við getum elskað eða koma í veg fyrir að við séum elskuð.
Við fáum vissulega brotakennda mynd af Björt í byrjun; hún hittir snemma útigangskonuna Veru, æskuvinkonu sína, og við heyrum lítillega af Steingrími og Hálfdáni, mönnunum í lífi hennar. En við fáum ekki almennilega mynd af þeim fyrr en seint í bókinni, það er eins og óvissan eigi að gera bókina spennandi og drífa lesanda áfram til að fá að vita meira – en þess í stað er þetta stærsti Akkilesarhæll bókarinnar. Veldur því að hún er alltof lengi í gang. Bókin er nefnilega þrælgóð seinni hlutann, þegar sögumaður fer hægt og rólega að sýna á spilin, en ansi köflótt fram að því, einfaldlega frekar langdregin.
Það tráma sem birtist okkur þó helst framan af bók er annars vegar sambandið við Veru og svo skelfileg æska á brotnu heimili. „Hann drap næstum því mömmu þína og þú hélst áfram að elska hann. Þú þráðir svo að það vonda hefði ekki gerst að þú lést eins og það væri draumur. Allt vont gerðist aldrei.“
50 til 130 kíló af óhamingju
Þá virðist Björt vera Christian Bale íslenskra bókmennta, fær um að bæta á sig tugum kílóa og missa þau aftur, og ólíkt þeim alveg án hjálpar næringarfræðinga og einkaþjálfara.
„Það róar mig að kaupa akkúrat það sem ég þarf, ég veit hversu marga bita af hverju ég borða klukkan hvað, samkvæmt dagskipan minni sem er alltaf eins; það eyðir óróanum og heldur mér í jafnvægi, þó að innra með mér ólgi hættan á stjórnleysi. Braust fram sem aldrei fyrr í bönkernum mínum í Breiðholtinu. Mig langaði stanslaust í eitthvað. Í pizzunni bjó koss. Líka í öllum hamborgurunum sem ég steikti og borðaði oft fjóra í örfáum bitum.“
Þannig breyttist hún úr þybbinni stelpu í 50 kílóa unga konu og svo í 130 kílóa miðaldra konu, áður en hún grennir sig aftur í sitt gamla sjálf. Hún var grönn með Veru, fyrstu og mögulega einu alvöru vinkonunni. Þær eru bandamenn í rennblautu skvísulífi, Vera bjargar Björt í raun frá ósýnileikanum – Björt er hennar Eliza Doolittle – sem hún breytir í álíka frakka skvísu og hún er sjálf, Vera sem sefur hjá og drekkur en forðast ástina eins og heitan eldinn.
Núna er Björt svo lent í einhverjum leiguhjalli þar sem Pepsi-sjálfsali er orðinn sameiginlegur ísskápur leigjenda í fyrrverandi skrifstofuhúsnæði. Þarna búa týndar sálir, fólk sem vill hverfa eða er þegar horfið. „Í niðurníddu húsi með innflytjendum í leit að betra lífi og afgöngum eins og mér.“ Húsi sem maður bíður bara eftir fréttum um að hafi kviknað í.
Innflytjendur sögunnar skortir þó rödd. Björt veltir vissulega fyrir sér sögu þeirra, bæði pólska parsins sem vaknar fyrir allar aldir og er sífellt í vinnunni eða rúmenska götuspilaranum sem „er svo utangátta hér, í gatslitinni úlpu með skíðahúfu á hausnum, ég veit ekki hvort hann er löglegur, að spila fjörugu en angurværu tónlistina sína fyrir vegfarendur. Ofur fínlegur með augnaráð tjáningar, augun áberandi í mjóleitu andlitinu. Svo ungur, svo horaður, í mesta lagi tvítugur. Ein af furðum lífsins, happdrættið við getnað. Hvar við lendum, í hvaða aðstæðum.“
Útlendingunum er fallega lýst, þeir eru nánast eins og englar sögunnar. Líklegri til að spjara sig en ógæfu-Íslendingarnir sem þau deila húsnæði með. En þótt innflytjendur skorti rödd þá gefur sagan dreggjum íslenska leigumarkaðarins rödd. „Við sitjum uppi með veruleikann, oddhvöss horn hans, skilyrðin í heiminum sem við höfum búið til. Við þessi valdalausu.“
Og þótt hún rekist í fyrstu á horn meðleigjenda sinna þá verða þeir á endanum hálfgerð fjölskylda hennar, þau Sandra Mjöll og Gestur, kornung verðandi áhrifavaldur og gamall sjóari og fuglaskoðari að vestan.
En loks kemur að því að við fáum að kynnast almennilega mönnunum í lífi Bjartar. Þeir voru vissulega margir, en aðeins tveir virðast hafa skipt verulegu máli. Sá fyrri var Steingrímur, útrásarvíkingurinn og fyrrverandi eiginmaðurinn. Hún hittir hann þegar hún er loksins að ná sér á strik í lífinu, er orðin afburðanemandi í Myndlistarskólanum – en hann einsetur sér að breyta henni úr listamanni í athafnaskáld.
„Ekki viltu vera enn eitt meindýrið að sjúga ríkisspenann eins og grautarliðið sem var með þér í skóla! Svindlöryrkjar – nú flissaði hann með sjálfum sér – að nota listina til að níðast á kerfinu. Þú ert svo miklu klárari. Við erum bæði súper talent! Það sem þú sérð fyrir þér, það verður. Trúðu, trúðu á þig, eins og ég.“
Þetta var auðvitað áður en allt hrundi og hrunverjar eins og Steingrímur hlutu stærri ríkisstyrk en nokkrir listamenn munu nokkurn tímann fá. En listamenn fengu vissulega einhverja aura frá mönnum eins og Steingrími. Hann fær Björt til þess að fjárfesta í listaverkum fyrir sig – og meðal þess sem hún kaupir eru verk eftir gamlan skólafélaga, Egil Sæbjörnsson, sem er einmitt maðurinn sem teiknar gullfallega kápumyndina af hröfnunum tveimur. Sem eru nánast eins og englar sögunnar, ásamt innflytjendunum. Huginn og Muninn sem krunka yfir örlögum mannfólksins og gefa alföður skýrslu.
Eftir að hjónabandinu lýkur finnur hún svo Hálfdán, ástina í lífinu. Hálfdán er bóhem sem brennir bóhemakertið í báða enda. Engan veginn tilbúinn í samband, lauslátur að eðlisfari en hún virðist samt alltaf vera haldreipið í lífi hans. Þrátt fyrir að hún beiti hann reglulega líkamlegu ofbeldi – og raunar var stuðandi að heyra gagnrýnanda Kiljunnar kalla hann skúrkinn í sambandinu, sem maður efast um að væri tilfellið ef kynhlutverkunum væri snúið við.
Mórall sögunnar reynist þó á endanum einfaldlega sá að allir eiga sér sína sögu. Og allir eiga sér sína von, þess vegna fljúga fuglarnir allir í ljósið. Þar sem þeir brenna sig vissulega ósjaldan. Svo oft að stundum hætta þeir því, eins og tilfellið er með Björt í upphafi sögunnar.
„Í brjóstinu logar það sem við fæðumst með, getan til að elska. Birtan hvítglóandi, svo kröftug að í henni búa allir litir, allir tónar, svo miklu fleiri blæbrigði en við skynjum. Við sjáum það sem við treystum okkur til að sjá, en mig grunar, ég veit, að í hverjum lit eru litirnir óteljandi.“
Niðurstaða: Bók sem er alltof lengi í gang og á það til að vera full melódramatísk á köflum – en þegar hún kemst almennilega í gang er hún full af innsæi um fólk á jaðri samfélagsins, lífið í leiguhjöllum höfuðborgarinnar og allt það tráma sem fylgir fólki í ógæfu sinni og fær það til að endurtaka sinn ógæfublús aftur og aftur.
Auður Jónsdóttir er rithöfundur og blaðamaður. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir frumraun sína, Stjórnlaus lukka, og hefur verið tilnefnd til sömu verðlauna fimm sinnum síðan – og vann verðlaunin fyrir bókina Fólkið í kjallaranum sem seinna varð leikrit. Þetta er tíunda bók Auðar, en nýlega var skáldsaga hennar, Stóri skjálfti, kvikmynduð undir nafninu Skjálfti og var hún frumsýnd á dögunum á Black Nights kvikmyndahátíðinni í Tallinn í Eistlandi. Áður hafði Tryggðarpantur einnig verið kvikmynduð sem Tryggð. Þá hefur Auður einnig skrifað barnabækur, meðal annars Skrítnastur er maður sjálfur, sem fjallar um afa hennar, Nóbelskáldið Halldór Laxness. Loks fékk hún Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka fyrir Þjáningarfrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla, sem hún skrifaði með þeim Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur.
Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 22. desember 2021.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson