Ís­lensk­ar bók­mennt­ir eru full­ar af sjó­manna­bók­mennt­um og sveita­bók­mennt­um og banka­menn og hrun­ið hafa líka feng­ið sinn skammt. En á Ís­landi er alltaf nýtt gullæði og það hef­ur sár­vant­að bók­mennt­ir sem tók­ust al­menni­lega á við massa­t­úr­is­mann sem skall á land­inu eins og högg­bylgja fyr­ir rösk­um ára­tug síðan.

En núna er ein slík komin, skrifuð úr brjálæðinu miðju, eða kannski rétt eftir það, og sækir sum meðul sín í helsta gullæði íslenskra bókmennta síðustu ár, glæpasöguna. Út að drepa túrista er skáldsaga eftir rithöfund sem gerðist leiðsögumaður og gerðist svo rithöfundur aftur þegar ferðamennirnir hurfu. Þótt hann hafi vissulega aldrei alveg hætt að skrifa.

Strax í byrjun er þó dregið úr því hversu mikill skáldskapur þetta er. Áður en sagan hefst fáum við að vita að „Frásögn þessi er byggð á sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað á Íslandi í mars 2020. Nöfnum hlutaðeigandi hefur í sumum tilvikum verið breytt af tillitssemi við aðstandendur hinna látnu. Athugið að fordómar, kynþáttahatur, fitusmánun, karlremba, kvenfyrirlitning, minnihlutasmánun, mistök í leiðsögn og ýmiskonar óeðli eru ekki höfundar.“

Þetta er kerknislegur formáli, við þykjumst vita að þessi morð eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum – nema Þórarinn sé hér að fletta ofan af einhverri svakalegustu yfirhylmingu seinni ára – en það er ekki þar með sagt að ýmislegt annað í sögunni hafi ekki gerst í þessum þúsundum ferða sem íslenskir leiðsögumenn fóru með erlenda ferðamenn í síðasta áratuginn. Eiginlega eru allar líkur á að flest í bókinni hafi gerst. Bara ekki endilega allt í sömu ferð eða hjá sama leiðsögumanni. En gæti allt hafa verið rætt á sömu kaffistofunni.

Formálinn sýnir líka fram á hvernig hversdagsrasisminn verður oft undirliggjandi þegar ferðamenn eru skilgreindir sem gjaldeyristekjur frekar en manneskjur, þegar þeir eru meðhöndlaðir sem nýjasta síldartorfan í síldarævintýrinu – það er látið vel að þeim svo þeir láti okkur eftir peningana sína og syndi ekki í burtu á hlýlegri mið.

Við hötum líka mörg öll þessi gullæði; þau þvinga okkur sjálf ítrekað öll á sama bás, að elta sömu síldartorfuna, og hér birtast okkur örþreyttir leiðsögumenn og bílstjórar, langþreyttir á endalausum túristaflaum. Menn sem ætluðu að gera eitthvað allt annað við líf sitt en voru gleyptir af túrismanum, rétt eins og bankarnir og síldin höfðu gleypt fyrri kynslóðir.

Hinn örþreytti gæd

Leiðsögumaður okkar megnið af ferðinni er leiðsögumaðurinn Kalman. Sem er síþreyttur og rækilega útbrunninn.

„Hann lagði af stað ósofinn í níu af hverjum tíu skiptum og það var löngu komið upp í vana, líf hans eins og ein samfelld martröð þar sem svefn, túristaferðir og tölvuleikir runnu saman í eitt. Nú þegar hann sá allt í einu fyrir endann á þessu ástandi var hann svolítið í lausu lofti.“

Kalman er klár og virðist einu sinni í nokkuð nálægri fortíð hafa verið kvennagull. En núna er hann hálfgert flak, fastur á vertíð sem hann valdi sér aldrei í lífi sem er engan veginn eftir áætlun. Við fáum samt aldrei almennilega að vita hvert planið var, það er grafið of djúpt í sálardjúpi gædsins okkar. Já, þetta er veröld slettunnar, þar sem enskan og íslenskan blandast saman í eitt sameiginlegt túrismamál.

Kalman er raunar um margt forvitnileg persóna, viðkunnanlegur upp að vissu marki þegar við erum í hausnum á honum en að því er virðist ekki jafn viðkunnanlegur miðað við frásagnir annarra – og á sér sínar beinagrindur í skápnum, þótt það sé nokkuð óljóst hversu alvarlegar þær fortíðarsyndir eru.

Bókin nær nefnilega fjandi vel að spegla fordóma okkar gagnvart hvert öðru, og þeir fordómar eru eins og segir í formálanum margir og fjölbreytilegir. En með því að kíkja stuttlega í hugskot flestra persóna bókarinnar sjáum við bæði hvernig þau eru flest óþarflega dómhörð við Kalman og hann oftast óþarflega dómharður við þau. Hann gerir sér raunar fyllilega grein fyrir því, þetta eru nánast innbyggðir fordómar sem fylgja starfinu.

„Þessi sæta spænska, kanarnir, dreddadruslan, þessi í ljósa leðurjakkanum, þessi skandínavíska, krakkinn, mamma krakkans og svo framvegis. Þetta voru oftast neikvæðir merkimiðar sem milduðust smám saman þegar hann fór að sjá þau sem manneskjur. Kalman var nefnilega ekkert öðruvísi en aðrir íslenskir leiðsögumenn hvað varðar staðalímyndir sem hann hafði komið sér upp um erlenda ferðamenn.“

Þessi hversdagsrasismi túrismans sem þarna birtist minnir mig raunar helst á ógleymanlegt atriði í öðru lykilverki um túrisma samtímans, Up in the Air, þar sem George Clooney leikur flugfíkilinn Ryan Bingham, sem svarar samstarfskonu sinni þegar hún sakar hann um rasisma að hann hafi þetta bara frá mömmu sinni: „I’m like my mother, I stereotype. It’s faster.“ Hið sanna sjálf fólks getur svo birst manni þegar maður hefur betri tíma. En þar sem við höfum sjaldnast nægan tíma er auðvitað hætt við því að við festumst í staðalmyndunum – og þaðan er stutt í rasismann.

Kalman er þó kórdrengur samanborið við veðraðan bílstjórann, hann Magnús. „Loðnar krumlurnar gældu við stýrishjólið og renndu um það bil tonni af alþjóðlegu mannakjöti fram úr hægfara Dacia Duster-jepplingi,“ er ágætis kynning á Magnúsi, en þar leiðir haltur blindan, Kalman meiraprófslaus og Magnúsi er alls ekki treyst að tala við túrista, enda á hann pottþétt eftir að móðga þá. Eitthvað sem Kalman daðrar vissulega alveg við – og í raun er vandræðagangur hans við að segja brandara oft fyndnari en brandararnir sjálfir – það er ómögulegt að vita hvað svona fjölþjóðlegum hópi finnst fyndið, fyrir utan það að ófáum bröndurum nálægrar fortíðar er löngu búið að slaufa.

Þórarni tekst þó að gera rasismann lúmskt fyndinn á köflum. Hér erum við í upphafi ferðar. „Djöfulsins Dalvíkingar!“ tautaði Magnús á milli samanbitinna tanna.“ Þarna er þó ekki á ferð alvöru Dalvíkinga-hatur, heldur eru Dalvíkingar dulnefni bílstjóra og leiðsögumanna fyrir Asíubúa. Það hafa ýmsar venjur og lingó orðið til í þessum hliðarheimi, heimi sem flestir Íslendingar urðu vissulega varir við – en flestir utan frá eða á ská, ef þeir voru ekki sjálfir að vinna í bransanum.

Hér bregður einnig reglulega fyrir hlýlegri greiningu á hlutskipti farandverkamannanna sem halda þessu þjóðfélagi uppi og rasismanum sem þeir verða fyrir.

„Þær voru báðar frá austantjaldsríkjunum og í raun og veru ekki hluti af samfélaginu. Erlendir farandverkamenn lifðu í nokkurs konar hliðarveröld og tilheyrðu lágstétt þótt enginn Íslendingur léti hafa slíkt eftir sér, hvorki í ræðu né riti.“

Þetta er líka stundum bara dálítið eins og dæmigert unglingadrama. Rétt eins og kennarinn er dauðþreyttur á börnunum og þau baktala kennarann reglulega þá er leiðsögumaðurinn dauðþreyttur á túristunum sem baktala reglulega þennan ljóshærða gæd og eru með ýmis uppnefni á hann. Sem stingur okkur pínulítið líka, svo löngum tíma höfum við eytt í hausnum á Kalmani að við erum farin að finna til með honum. Fyrir utan það að hann má alveg eiga það að eiga góða spretti sem leiðsögumaður – allavega á pappír, á íslensku – en það skilar sér mögulega ekki nógu vel til ferðamanna sem margir kvarta yfir enskunni hans.

Afmennskan fullkomnast svo þegar mennskunni er gefin einkunn á TripAdvisor, einkunnirnar sem við svitnuðum yfir í skóla hafa nú fylgt okkur út í lífið og allt er vegið og metið og gefin einkunn, alls ekki alltaf á faglegum forsendum. „Fólk var meira að segja farið að vitna í umsagnir ferðamanna í minningargreinum: Hann var fimm stjörnu maður!“ Sem minnir mig á að ég þarf að fara að huga að stjörnugjöfinni bráðum.

Trumpetta, dópistar og vafasamur Svíi

Strax í upphafi eru allar persónur kynntar til leiks – eða nánar tiltekið allir ferðamennirnir, aðrar persónur eru kynntar til leiks þegar sagan kemur að þeim. Við áttum okkur seinna á að þetta er vinnuskjal lögreglunnar – listi yfir farþega og örstutt lýsing á þeim – en þýðir að við bíðum alltaf eftir að fá að vita meira um hvað er á bak við þessi nöfn og þessar örlýsingar. Og flest fá þau sína kafla.

Þar má nefna Trumpetinn Lorettu, eldheitan stuðningsmann þáverandi Bandaríkjaforseta, sem er þó hin mesta barnagæla. „Litli drengurinn leyfði Lorettu Schnicket að teyma sig frá hestunum og Kalmani flaug í hug að kannski tengdi einföld heimsmynd þau saman. Að einhverju leyti væru þau bæði sjö ára gömul í anda.“ Hún verður líka óvænt vinkona ísraelskrar blökkukonu og dópista sem leynir á sér þegar bráir af henni. Kalman er svo skotin í spænskri stelpu sem vill ekkert með hann hafa og sænsk-finnsk menntakona virðist skotin í Kalmani sem og dularfullum Serba. Í hópnum eru líka bandarísk hjón sem virðast varla stíga í vitið og sonur þeirra, TikTok stjarnan sem á sjálfsagt bjartari framtíð fyrir sér en þau öll. Loks eru þrjár kínverskar konur sem eru ítrekað vanmetnar af öllum í kringum sig. Ein þeirra er raunar dálítið í hlutverki viturrar véfréttar og spyr Kalman spurninga á borð við þessa:

„Verða Íslendingar sem fara í Gullhring færir um að sjá annað en glataða fjármuni þegar þeir koma á þessa staði? Er íslensk náttúra falleg án túrista? Verðið þið í raun og veru fær um að skilja alla þessa fegurð? Og eigið þið hana í raun og veru skilið?“

Hún er iðulega horfin áður en hann getur svarað – sem betur fer, af því hann gæti líklega ekki svarað þessu.

Hér hef ég bara talið upp brot af öllum þessum ferðamönnum, en þeir virðast á einhvern dularfullan hátt allir tengjast sænska durginum Paul Davida, fyrrverandi atvinnumanni í fótbolta, sem núna er orðinn ófyrirleitinn athafnamaður með slóð lífa sem hann hefur eyðilagt. En hann finnst látinn snemma bókar og þar með erum við komin á lendur glæpasögunnar.

Glæpasögur þurfa auðvitað sína löggu og það hlutverk tekur rannsóknarlögreglumaðurinn Baldur að sér, en hann á viku í eftirlaun. Hann er að bugast við rannsókn málsins og hugsar með sér: „Ekki láta þau sjá að þú ert algjörlega týndur í kófinu, þú ert enginn Poirot. Þú ert bara elliær alkamús í krísu.“ Hann er samt dálítill Hercuel Poirot og fær eina mjög Poirot-lega senu. Hann á líka barnabarn í neyslu sem minnir aðeins á Erlend hans Arnaldar, en mest hugsaði ég samt um hálflúðalegan íslenskan Columbo þegar Baldri var lýst. Skemmtilegast við Baldur eru þó samskipti hans við hitt barnabarnið, sem sjálf er orðin lögreglukona og sér að mestu um samskipti deildarinnar við þann gamla.

Höfundur er sannarlega að gera grín að hefðinni, hvort sem er Agöthu Christie eða Skandí-krimmunum – en þótt sum morðin séu það grótesk að þau verði fyndin gengur þetta sjaldnast almennilega upp, glæpasagan er langsamlega veikasti hlekkur bókarinnar, oft ósannfærandi og dregur athyglina að ósekju af þeirri forvitnilegu aldarfarslýsingu sem annars er dregin upp.

En gleymum ekki að þetta er líka merkileg skrásetning á fyrstu dögum kófsins, þegar allir voru nett ringlaðir og óraunveruleikatilfinningin vegna þessarar dularfullu veiru enn þá í botni. Eða eins og Sigga í móttökunni orðar það:

„Lestu ekki fréttirnar? Það eru engir túristar eftir á Íslandi. Já … nei … Horfðu frekar á björtu hliðarnar. Þú getur farið að selja ljósritaðar ljóðabækur aftur.“

Þetta gæti jafnvel verið meðvitað skot höfundar á sjálfan sig, kominn aftur á bak við ritvélina eftir smá síldarævintýri í túrismanum. Fyrst þarf hann samt að hjálpa Baldri að komast að því hver morðinginn er, rannsóknarlögreglumaðurinn útvistar í raun stórum hluta skylduverkanna til Kalmans til að geta sjálfur leynst í skugganum. Eða kannki er hann innst inni þegar kominn á eftirlaun?

Á meðan hafa yfirvöld meiri áhuga á að þagga þetta óþægilega mál niður en að beinlínis leysa það.

„Hlustaðu nú vel á mig,“ sagði hún. „Við viljum ekki sjá fyrstu frétt á CNN um að tveimur ferðamönnum hafi verið banað á innan við sólarhring og öðrum þeirra meira að segja troðið inn í þurrkara – og það í miðju veirufári. Ferðamennirnir eru allir nettengdir, ein skilaboð frá þeim geta eyðilagt margra ára uppbyggingarstarf í ferðaþjónustu.“

Þannig eru bæði ferðamenn og starfsmenn á plani ferðaþjónustunnar leiksoppar á tafli valdsins, ferðast með síldartorfu sögunnar á næsta áfangastað í lífinu.

Niðurstaða: Merkileg og ansi fyndin og skemmtileg lýsing á nýlegri en þó merkilega illa skrásettri Íslandssögu, túristabrjálæðinu og árdögum kófsins. Óþarfa glæpasaga dregur annars fína bók töluvert niður, en truflar þó ekki um of, það má hreinlega leiða þetta glæpabrölt hjá sér og njóta þess að virða fyrir sér persónugalleríið og skemmtilegar hugleiðingar um þetta nýliðna síldarævintýri túrismans.
Þórarinn Leifsson er rithöfundur, myndlistarmaður og leiðsögumaður. Hann myndskreytti bækur ýmissa höfunda áður en hann hóf sjálfur að skrifa og þreytti frumraun sína með barnabókinni Leyndarmálið hans pabba. Í kjölfarið fylgdu barnabækurnar Bókasafn Ömmu Huldar og Maðurinn sem hataði börn, en sú síðastnefnda var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Norrænu bókmenntaverðlaunanna. Í kjölfarið færði hann sig yfir í skáldsögur fyrir fullorðna með skáldævisögunni Götumálaranum og skáldsögunni Kaldakol, sem fjallar um það þegar gervöll íslenska þjóðin er send til Berlínar á yfirgefinn flugvöll. Á meðan hann vann sem leiðsögumaður sendi hann svo frá sér ljósmynda- og smáprósabókina Bekkinn, sem líkt og Út að drepa túrista fjallar um massatúrismann á Íslandi, þó á allt annan hátt. Allar sínar bækur hefur hann svo myndskreytt og brotið um sjálfur.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 26. desember 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson