Kol­beins­ey er nyrsti oddi Ís­lands og sam­nefnd bók fjall­ar um fólk sem er á nyrsta odda til­ver­unn­ar, við það að detta út af landa­kort­inu. Við vit­um ekki hvað þetta fólk heit­ir, það er bú­ið að glata nöfn­um sín­um, sögu­mað­ur seg­ir aldrei til nafns og veit­ir öðr­um per­són­um líka nafn­leynd, kall­ar þær ein­göngu lýs­andi nöfn­um eins og „þung­lyndi vin­ur minn“, „kær­ast­an“, „mín fyrr­ver­andi“, „son­ur minn“, „trúba­dor­inn“ og „hjúkr­un­ar­kon­an“.

Hlutverk Kolbeinseyjar í bókinni er lengi að vitrast manni almennilega, en hún yrkir sig inn í hefð afskekktra eyja í mannkyns- og bókmenntasögunni. Napóleon og Sankti Helena koma við sögu og þótt Drangey Grettis sé ekki nefnd er hún einhvern veginn alltumlykjandi, þetta er nútíma Grettissaga á sinn hátt. En manni verður líka hugsað til verka á borð við Fight Club, The Square, Engla alheimsins og sérstaklega Gaukshreiðursins. Enda áðurnefnd hjúkrunarkona kostuleg og grótesk persóna, eins og Ratched hjúkrunarkona hefði verið skrúfuð rækilega upp, hún er fulltrúi hinnar röklegu firringar, fulltrúi kerfisins og skortsins á ímyndunarafli. Og hún ein öðlast nafn, þótt uppnefni sé, er kölluð Maddam Hríslukvist þegar líður á bókina.

„Kaldhæðni er ágætt stílbragð til að miðla hugsun, en sem lífsafstaða er hún sjúkdómur.“

Það einkennilega við þessa mögnuðu en kynjóttu bók er þó að fæstar lýsingar fanga hana almennilega – annaðhvort hljómar hún eins og miklu meiri farsi en raunin er eða miklu alvarlegri en hún er. Enda er hún iðulega farsakennd og spyr um leið hátimbraðra en um leið mjög einlægra tilvistarspurninga, oft á sömu blaðsíðu. Fyrsta setning bókarinnar gefur tóninn: „Ég er djúpfiskur, hrakinn á grunn.“ Dýpið og grynningarnar kallast á, þeir vinirnir, sögumaður og þunglyndi vinurinn, eru djúpfiskar sem eru strandaðir í grunnhyggnum nútíma, nútíma sem er harður ljóðelskum sálum.

„Allir ósvöruðu tölvupóstarnir byrjuðu að flæða inn í hugskotið,“ segir sögumaður okkur í byrjun. Hann er sítengdur nútímamaður sem hefur þó misst tengslin við það mikilvægasta; sjálfið. Hann hefur þurft að deyfa sig til að lifa af. Þegar kærastan hvetur hann til að heimsækja gamlan vin á geðdeild lætur hann tilleiðast – og maður skynjar strax að hann áttar sig innst inni á því að þetta verður hans þerapía, hann er haldinn flestum sömu kvillum og vinurinn þótt birtingarmyndirnar séu mismunandi – kannski eru þeir bara á mismunandi stað í ferlinu? „Hálfvolgi ræfillinn þinn. Það ert þú sem ert veikur, ekki ég,“ segir vinur hans við hann, á endanum er það geðsjúklingurinn sem tekur yfir hælið – og verður sálfræðingur gestsins.

Hann fær sögumann til að rifja upp einelti æskunnar, sem hann lýsir svo:

„Ég sagði honum að ég væri fastur í gömlum tilfinningum, vondum tilfinningum, tilfinningum sem ég skammast mín fyrir og reyni að flýja undan. Maður dragnast með þessar frumstæðu tilfinningar eins og einhverja uppblásna kynlífsdúkku sem er líkt og slímug og áföst við bakið á manni með sogskálum. Þar titrar hún eins og höfuðfat skottunnar þegar maður gengur um meðal manna. Ekki nóg með að maður hafi það skítt, maður skammast sín fyrir það líka.“

En vinurinn sýnir honum fljótlega að stærsti akkílesarhællinn sé líka hans stærsti styrkleiki.

„Hann sagði að þessi lífsreynsla væri besta menntunin. Tilfinningin af menningarleysinu, af fullkomnu fráhvarfi félagskenndar og kærleika, hugsunar og göfgunar í litlum skóla, í útjaðri ómerkilegs svefnbæjar, í frumstæðu landi. Reynslan af því að vera innikróað dýr sem eygir enga útleið en hugsar um það eitt að lifa af; þetta væri ef til vill nokkuð af því dýrmætasta sem ég ætti vegna þess innsæis sem það gæfi mér í mannskepnuna almennt. Og vegna þess að maður vissi að í slíkum tilfinningum vildi maður ekki búa.“

Sem er þó dýru verði keypt, þeir verða alltaf á útjaðri samfélagsins. Þeir munu alltaf búa í þessari tilfinningu þótt þeir byggi upp sína brynju og yrki um þetta ljóð. En á endanum gefast þeir upp á hælinu. Hjúkrunarkonan er ávallt í veginum þar, vaktar vininn við hvert fótmál og hefur sjúklegt vantraust á sögumanni. Þannig að þeir gera það eina rökrétta í stöðunni og flýja. Þá kemst kannski sagan sjálf á meiri hreyfingu og bókin breytist í vegabók, en hugleiðingarnar eru samt áfram jafn ríkulegur þáttur í sögunni, hún breytist bara í heimspekilega frásögn með bílaeltingarleikjum sem og snjósleðaeltingarleikjum.

Tortímandinn og gagnrýnandinn

Þeir losna nefnilega ekkert við hjúkrunarkonuna við flóttann, hún kemur þvert á móti á eftir þeim á „hinum hvíta Yaris dauðans“. Það er eins og Ratched hjúkrunarkona hafi breyst í brjálaðan Tortímanda – og það er furðu sannfærandi í innra heimi sögunnar, enda veruleikatengingin hægt og rólega að rakna upp. En samt ekki, Bergsveinn kann þá list að dansa á mörkunum, þessum mörkum sem þarf að dansa á til að við göngumst heimi þeirra veruleikafirrtu á hönd.

Við förum að átta okkur betur og betur á að hjúkrunarkonan er púkinn á öxl þeirra beggja. Já, og kannski ég – helvítis gagnrýnandinn?

„Hún sagði að vinur minn hefði bara verið tilnefndur til verðlauna, aldrei fengið nein verðlaun. Hann sagði þá að hann væri kannski ekki bara að skrifa bækur til að fá verðlaun og hló góðlátlega, en hún tók orðið af honum og benti á að hvers kyns drasltextar væru hafnir upp til skýjanna í gagnrýni blaðanna nútildags. Það væri ekkert að marka. Síðan benti hún á að hann væri orðinn hálffimmtugur og þetta væri ekkert útlit. Hann hefði aðeins skrifað örfáar bækur, bara fáar af þessum örfáu hefðu verið þýddar á önnur mál, engin verðlaun hefði hann fengið, og aldrei fengi hann alminlegan rithöfundastyrk heldur, bara einhverja bitlinga í nokkra mánuði í senn.“

Áður en hjúkrunarkonan fór að leika stórt hlutverk í sögunni hafði hins vegar fyrrverandi eiginkona sögumanns látið heldur illa gagnvart honum, bankað upp á hjá honum um nótt út af smámunum, til að smána hann fyrir smámuni. Sem þunglyndi vinurinn greinir svo:

„Hér er um svokallaðan ofurviðkvæman harðstjóra að ræða, hún virðist nærast á slæmri samvisku þinni og kveikir hana statt og stöðugt til að geta haft stjórn á þér, hún vitnar í það sem þú hefur sagt eða gert vitlaust að hennar mati, hvort heldur nú nýlega eða fyrir löngu síðan, hún mun alltaf finna eitthvað, setningu sem var sögð í miðju rifrildi fyrir mörgum árum.“

Eins og kannski sést á þessum textabrotum eru þær stöllur grunsamlega líkar – og það eru þeir vinirnir líka. Hér er ítrekað leikið með tvífaraminnið, án þess þó nokkurn tímann að gefa neitt upp. Tvífaraminnið og samgengilsminnið, sem er hugtak sem Laxness smíðaði (eða þýddi, það er löng saga) um manns fyrri sjálf og önnur sjálf, en á miðjum flóttanum safna þeir sínum yngri sjálfum saman á vélknúnum kassabíl á leið til Þórshafnar. Sem rímar skemmtilega við hugleiðingar þeirra um unglinga, um hvernig hætt er að faðma þá einmitt á viðkvæmasta skeiðinu, um leið og þeir átta sig á að þeir þurfa nýjan faðm, á eigin forsendum. Þurfa sína eigin ást og viðurkenningu, fjarri foreldraföðmum, en byrja þá alltof oft að slást um hana, snúa henni upp í andhverfu sína. Þeir skynja að þeir eru bráðum að fara út í heim og þurfa nýtt nesti út í þessa köldu veröld.

Völuspá og sýrutripp, jötnar og trúbadorar

Vinirnir hafa raunar báðir haft atvinnu af því að aftengja sig raunveruleikanum, eru báðir rithöfundar og það er órætt hversu hátt skrifaðir þeir eru, enda þýðir tætt sálarlífið að þeir eru ekki áreiðanlegar heimildir um það sjálfir.

Þetta býr til skemmtilega meðvitaðan sögumann, sem lætur lesandann vita hverju hann muni sannarlega sleppa.

„Ég ætlaði að segja honum að ég væri farinn að hata þessa skáldsöguhneigð þar sem fólk rembdist við að «fanga veruleikann» með því að lýsa því hvernig ljósið frá einhverri 60 vatta Osram-ljósaperu í rykugri perluljósakrónu félli niður á gráan kjól rauðhærðrar miðaldra konu og myndaði dimmbláa skugga í hvilftunum milli fellinganna.“

Þetta er skáldskaparfræði sem ég get skrifað upp á, svona nákvæmar lýsingar þjónuðu kannski sínum tilgangi árið 1894, en síðan þá hefur kvikmyndin gert akkúrat þetta miklu betur en skáldsagan – sem um leið undirstrikaði bara einn helsta styrk skáldsögunnar, að kafa dýpra í sálarlíf persóna en flestar aðrar listgreinar eru færar um.

Þerapíuaðferðir vinarins undirstrika þetta raunar; hann lærir sína sálfræði af bókmenntunum.

„Hann síteraði höfunda sem höfðu orðað það snilldarlega sem ég bögglaðist við að segja, hann var eins og alfræðiorðabók yfir mannlega þjáningu og var svo firn næmur; hann mætti mér með hlýju og húmor, gáfulegri hlýju.“

Bergsveinn er hér að stíga inn í nútímann eftir að hafa mest haldið sig í fortíðinni í undangengnum verkum – en fortíðin er þó alltaf nálægt hér. Íslendingasögurnar krauma undir og Platón, uppáhaldshöfundur Hitlers að sögn vinarins. Völuspá er lýst sem leiðslubókmenntum og bæði hún og reimleikar fornbókmenntanna eru sagðar eiga uppruna sinn á sýrutrippi og neyslu ofskynjunarsveppa og færð ágætis rök fyrir, kerknislega þó.

Sjálfan dreymir sögumann trúbador nokkurn, sem virðist raunar vera vinurinn í hliðarveruleika, trúbador sem er illa borgaður og lúbarinn skemmtikraftur – fær að spila þegar hentar fyrir ríkt fólk sem mun aldrei skilja lögin hans. En söngvaskáldin hafa ávallt verið fyrirlitin og dáð í senn.

„Trúbadorinn er það sem þeir gömlu kölluðu jötun, og jötnar eru, eins og við vitum, óæskilegir meðal manna þó svo við fáum skáldskapinn frá þeim. Við erum enn á sama stað og forfeðurnir. Mennirnir vilja heyra það fagra sem jötunninn syngur rétt áður en hann fellur í götuna. Og þegar þú hefur neitað tilfinningunni nógu oft og lengi, þá kemur að því að hún hættir að koma, hún visnar burt og deyr. Þá áttu engar tilfinningar lengur, eða öllu heldur: tilfinningin á ekki lengur heimili í þér.“

Þessi bók er í raun uppreisn gegn einmitt þessu. Hún er ákall um það að taka tilfinningar okkar alvarlega, það sé hreinlega lífsnauðsynlegt okkur öllum. „Vígvöllur lífsins eru tilfinningarnar og framtíð jarðar ræðst af því hvorn pakkann við veljum.“

Tilfinningarnar eru þó alls ekki andstaða skynsemi, heldur þvert á móti nauðsynlegur grunnur allrar alvöru skynsemi. Jarðvegurinn sem hugsanirnar spretta úr, næringin sem hugmyndirnar þurfa.

„Næsta skrefið í boðskap þeirra verður sú að mannleg hlýja hafi aldrei verið til. Og engu að síður veistu manna best að ef þú ratar í aðstæður þar sem enga hlýju er að finna, þá visnarðu og lærir ekkert nýtt. Í kuldanum vex ekki neitt.“

Það mætti vel kalla þetta bók um gamla menn að öskra á ský. En hér er öskrað af innlifun og heilmikilli visku. Hér birtist ákveðið óþol gagnvart samtímanum, en þetta er glöggt óþol. Og sprettur að miklu leyti af þeirri einföldu staðreynd að dólgakapítalisminn er einfaldlega kominn lengra í tortímingu alls hins góða en í fortíðinni. Og er fljótur að éta uppi allar framfarir, þegar „stórfyrirtækin keyptu upp þá litlu og bráðum yrði bara til ein búð og þá værum við komnir aftur í danska einokun: Nýfrjálshyggjan leiðir til einokunar og þrældóms!“

Og lífið er sífelld barátta um að lifa af án þess að ganga auðvaldinu á hönd, eða eins og vinurinn les í samskipti þriggja karla: „Hvað verður um hinn unga bindislausa þegar hinir verða búnir að hengja bindi á hann?“

Hjúkrunarkonan ógurlega er ekki síður tákngervingur nútímans – og kannski allra nútíma, tíðarandinn er í sjálfu sér eitraður – hjarðmennska og múgæsing er í rauninni einfaldlega það að merkja sig tíðaranda hvers tíma í blindni.

„Hún var ekki beinlínis heimsk, hélt þunglyndi vinur minn áfram, hún átti bara ekki til neitt viðnám, hún var opin eins og rör og lét hvaða skólp sem var renna í gegnum sig. Maddam Hríslukvist, eins og hann var farinn að kalla hjúkrunarkonuna, hafði einskonar barnalega tiltrú á tímana, sagði hann, hún var viðnámslaus neytandi, hún átti sér ekkert innra líf og var því varla manneskja lengur – eða það sem verra var, hún var manneskja en mennskan var úr henni. Hún var ekki beinlínis vond, illskan lá í undirlægjuhættinum.“

Þeir félagar verða vissulega ansi andstyggilegir á móti stundum. Andstyggilegheit ala ósjaldan í öðrum andstyggilegheit á endanum, þótt barist sé á móti – og þótt kærasta sögumanns sé elskuleg og skilningsrík þá eru ansi gróteskar kvenpersónur mögulega til marks um eitthvað óuppgert í þeirra eigin karlmennsku.

Kjarni bókarinnar er þó einfaldlega um hve berskjölduð mannssálin er í köldum og hranalegum heimi, eitthvað sem sagan nálgast af mýkt og hlýju.

„Hefur þér einhverju sinni dottið í hug, spurði vinur minn, að það sé kannski ekkert að þér? Að tilfinningaleysi þitt sé ekki þér að kenna. Að þitt stöðuga brotthvarf frá hjartanu sé viðbragð sem þú hefur þróað með þér sem barn, og fullkomlega náttúrulegt viðbragð við því samfélagi sem þú lifir í?“

Í kringum þennan kjarna svífur svo ótalmargt, mér hefur ekki gefist tími til að segja ykkur frá kostulegri jarðarför, metafórupokanum, fallegum óði til Kópaskers, hálfrar milljónar króna verslunarferð í fornbókabúð á Akureyri, frá Orwell og Zuckerberg, þannig að þið þurfið bara að lesa um það allt saman í bókinni sjálfri.

Ég á líka eftir að minnast á myndirnar, en líkt og nokkrar fyrri bækur Bergsveins er bókin myndskreytt af Kjartani Halli. Ég renndi yfir teikningarnar fyrir lestur en þær vitrast manni samt ekki almennilega fyrr en við lesturinn, myndirnar framkallast af sögunni og dýpka um leið söguheiminn listilega þannig að mynd og texti vinna frábærlega saman.

Og að lestri loknum sér maður fyrir sér skáld á hrjóstrugri eyju, bölvandi nútímanum sem við þurfum að fara að laga:

„Ég skammaðist mín fyrir hönd þeirrar menningar sem ég var hnepptur í, skammaðist mín fyrir að vera hluti af henni, ég skammaðist mín fyrir að vera búinn að missa uppreisnarandann gagnvart aldéflinu, eins og maddaman hafði gert fyrir löngu síðan, hún hafði gefið sig alfarið á vald þess.“

Niðurstaða: Kolbeinsey er heimspekileg ærslasaga um allt sem við erum að glata, skrifuð af endalausri hlýju, gáfum og kímni – og glöggu óþoli fyrir samtímanum. Fyrst og fremst er þetta þó einfaldlega mergjuð saga um hvað það er andskoti erfitt stundum að vera manneskja – en drepfyndið um leið. Já, og einfaldlega magnaðasta bókin sem ég náði að lesa fyrir þessi jól.
Bergsveinn Birgisson er rithöfundur og miðaldafræðingur og hefur sent frá sér skáldsögur og fræðibækur jöfnum höndum, sem og ljóðabækur. Hann var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sína fyrstu skáldsögu, Landslag er aldrei asnalegt. Hann fylgdi henni eftir með Handbók um hugarfar kúa en sló kannski almennilega í gegn með Svari við bréfi Helgu, sem auk tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlaut einnig tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, var sett upp í Borgarleikhúsinu og á næsta ári er kvikmynd byggð á bókinni væntanleg. Fræðibókin Leitin að svarta víkingnum og skáldsagan Lifandilífslækur voru einnig tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna og þá eru enn ótaldar þrjár ljóðabækur og nokkrar fræðibækur til viðbótar á íslensku sem og norsku.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 26. desember 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson