Orð, ekkert nema orð geymir þrenns konar orð: Ljóð, Bláar nótur og Prósa. Þrír kaflar, 64 síður – og ansi kaflaskipt þegar kemur að gæðum líka. Þetta er fimmta ljóðabók Bubba Morthens á sjö árum, fyrir utan auðvitað öll ljóðaheftin með geisladiskum og plötum rokkkóngsins.

Byrjum á fyrsta kafla – Ljóð. Þetta byrjar ekkert sérstaklega vel, hálfpartinn eins og afgangar úr ljóðabókum Einars Más. Þessar línur þótti mér þó nokkuð athyglisverðar – og skemmtilega torræðar.

Að þrá eitthvað

er merki um að þú sért mannlegur

að þrá ekki neitt

er til marks um að þú sért hamingjusamur

Maður veltir fyrir sér hvort hann er á sömu slóðum og menn eins og Orson Welles (sjá 15.12 í þessu yndislega viðtali) og Christopher Plummer (sjá 8.20 í seinna myndskeiðinu), sem afgreiða hamingjuna sem ódýra tilfinningu, jafnvel forheimskandi tilfinningu – tilfinninguna þegar það er ekkert eftir til að þrá, þegar mennskan hverfur í bjánalega hamingju. Eða er Bubbi kannski að meina hið gagnstæða?

Eins er lokaerindið í „Minning“ ansi öflugt, aðallega af því hvað þau eru óræð:

þessi rödd

ég á nammi í bílnum.

Ljóðmælandi gefur ekkert upp um hvort þetta sé björt eða myrk æskuminning, bæði gengur upp, nammi sem merki um mögulega gæsku sem og mögulega illsku.

Svo fer að lifna yfir ljóðunum. „Sunnudagskvöld“ er frábærlega fallegt og kómísk ljóð um skyndikynni og þegar líður á kaflann fer að bera á nokkuð forvitnilegum og óræðum draugagangi – ekki of bókstaflegum þó, á mörkum alvöru drauga og stemmings-drauga. Þetta byrjar í ljóðinu „Gamlársdagur,“ þar sem draugagangurinn er söknuður.

minningin fýkur milli blokkanna

allar þessar raddir

það marrar í snjónum

það marrar undan öllum þessum fótum

sem eru löngu horfnir

„Hrun“ fjallar um efnahagshrunið 2008 en tónninn er óvenjulegur, það er erfitt að staðsetja hann – og þó, mögulega stef við að byltingin éti börnin sín, samanber línur á borð við:

lygin sem mjúk rekkjuvoð á vitundinni

með byltingarsöngvum var efinn sunginn í svefn

Og vissulega getur maður ekki annað en hugsað um hvernig Bubbi upplifði þessa tíma sjálfur, hann átti alveg sína góðærisspretti og hefur þurft drjúgan tíma á eftirhrunsárunum að endurheimta eitthvað af gamla uppreisnarseggnum og bandamanni litla mannsins.

Önnur óvænt mynd birtist þegar hann lýsir trúgjarna skákmanninum.

þannig fer fyrir þeim trúgjarna

sem reykir pípu situr við skákborð

og telur tímann vera vin sinn

Maður hugsar ósjálfrátt um Bobby Fischer og skákklukkuna – og já, þótt maður tengi keðjureykjandi skákmann ekki beint við trúgirni þá má vissulega til sanns vegar færa að Fischer sé gott dæmi um eldklárann mann sem var ginkeyptur fyrir alls konar vitleysu.

„Sumarfrí“ er svo eitt albesta ljóð bókarinnar, fyndið og sannferðugt hversdagsljóð um viku í sumarfríi. Fimmti og sjöundi dagurinn voru bestir:

dagur fimm rigning

og þjóðflutningur ánamaðkanna er hafinn

og svo:

dagur sjö rigning

og við erum öll farin að rífast.

Við gagnrýnendur fáum svo fallega sendingu í einu ljóðinu.

orðið fellur framaf tungunni

fellur ofaní hyldýpið þar sem ránfiskar svamla um

(og já, ég segi þetta án allrar kaldhæðni, alltaf gaman að fá stundum að vera ránfiskur)

Samtíminn er svo tæklaður í netstormi, „Í auga stormsins.“

gott er að nema orð

á instagram og twitter

og hvíla í auga stormsins.

Heilt yfir eru hér ágætir sprettir, en um leið daðrar Bubbi stundum við lendur sjálfshjálparbókarinnar og það að vera óhóflega rómantískur. En það dimmir smámsaman yfir og draugarnir fara á stjá, og þá verður þetta allt mun áhugaverðara.

Haukur frændi, Bítlarnir og Steinþór

Þannig að maður flettir að miðkaflanum, svona temmilega bjartsýnn – en þar fer Bubbi svo sannarlega á flug. Bláar nótur eru samansafn erfiljóða um horfna risa úr tónlistinni (með hliðarskrefum í skáldskap og kraftlyftingar). Kaflinn byrjar á hálfgerðu sögulegu yfirliti með Bítlana í forgrunni og eftir rólega byrjun er seinni hluti ljóðsins mergjaður, með línum eins og þessum:

þann morgun talaði fólk tungum við dómkirkjuna

og rakarinn klippti heldri frú í eyrað

og það sem átti að verða varð ekki

Næsta ljóð er „seinasta kvöld steinþórs,“ og mér kæmi ekki á óvart að Steinþór þessi sé einhver goðsögn sem ég þekki ekki – en ljóðið þrælvirkar sem óður um óþekkta eða gleymda músík-bóheminn, smá Inside Llewyn Davis stemmning í gangi, en örugglega enn fleiri víddir í ljóðinu fyrir þá sem kannast við Steinþórinn í ljóðinu.

leðurjakkinn einkennisbúningur þeirra varnarlausu

og þriggjahljóma pönkið varnarræðan

Jón Múli, Þorvaldur Þorsteins og Jón Páll fá næstu ljóð – og svo sjálfur Haukur frændi, Haukur Morthens, ljóð sem er sömuleiðis glögg greining á ferðalagi íslenskrar alþýðu úr sveit í borg.

Svo mætir Rúnni Júl, þar sem „sakleysið laug þau full“ og áfram birtast okkur svo svipmyndir af risum fortíðar, þessari músík sem við skynjum í beinunum sem upplifðum 20. öldina á Íslandi, Ellý, Rúnar G, Guðrún Á. Símonar og Villi Vill.

Fjallið á bakinu

Lokakaflinn, Prósar, er hins vegar sama merki brenndur og fyrsti kaflinn – að vera ansi lengi í gang. Hér eru sumar, máni og lestir persónugerðar – svo dæmi séu tekin – án þess að það gangi almennilega upp, án þess að þessir hlutir öðlist persónuleika. Þangað til að það gengur skyndilega upp, í einu launfyndnasta ljóði bókarinnar.

Og eftir þetta nær prósinn flugi, Bubbi yrkir vel um pláguna í „Skáldið og plágan,“ þar sem skáldið stefnir saman þungum stemmum á borð við þessa:

Sprittgrár dagurinn vakti mig í morgun og tók frá mér hálft andlitið. Nei annars, hvernig á ég að geta munað hvort það hafi verið í gær

Og minningu um betri tíma, nýliðna tíma, þegar ógnin vofði samt yfir.

Og ég sagði honum sögu af sólríkum degi þegar fólkið stóð á engjunum í fullkomnum þurrki að rifja og raka og börnin sáu bregða fyrir í augum móður sinnar öskrandi fólki, sáu vítislogana elta það

Bókinni líkur svo á hressilegu níðkvæði um kynningarfulltrúa heimsins, „Torfbær í jakkafötum,“ þar sem PR manni dagsins er lýst svo:

hlutverk hans í dag er að ferðast um netheima gjammandi snuðrandi urrandi að öllum þeim sem voga sér að hafa aðra sýn en þá sem honum og valdhöfum er þóknanleg

Þið látið svo bara vita ef þið þekkið kauða.

En að öllu ofantöldu, þá má finna hér góðan skammt af fínasta kveðskap, þótt bókin sé ansi köflótt og ójöfn – en djöfull vona ég að Bubbi haldi áfram að yrkja erfiljóð um horfna músíkanta, af nógu er að taka og þar nýtur hann sín í botn.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd: Helgi Halldórsson – https://www.flickr.com/photos/8058853@N06/6079144511/, CC BY-SA 2.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=31656897