Í hjólhýsahverfi í amerísku eyðimörkinni hittum við fyrir Faye (Dale Dickey), einbúa með hrukkur sem jafnast á við flest náttúruundur sem fyrirfinnast á amerísku sléttunum. Og framan af fylgjumst við bara með henni ganga sinna fábreyttu daglegu erinda – og stöku sinnum eiga samskipti við lesbíska parið í næsta hjólhýsi, eða póstburðarmanninn sem hún bíður í ofvæni eftir góðum fréttum frá – að ógleymdu skringilegu gengi karlmanna sem smástelpa nokkur hefur orðið fyrir. Fyrir utan póstburðarmanninn hafa konurnar sem sagt orðið – þangað til gamall æskuvinur (Wes Studi) bankar uppá.

Þið þekkið örugglega Dale Dickey þótt þið kannist kannski ekki við nafnið. Sömu sögu má segja um Wes Studi, þótt nafnið sé kannski öllu kunnulegra. Bæði hafa þau eytt löngum ferli í skugga stjarnanna, veðruð andlit bak við vandlega farðaðar stjörnur. Dickey er líklega þekktust fyrir Winter‘s Bone og Studi fyrir Dances With Wolves og Síðasta móhíkanann – þótt hann sé alls engin súperstjarna þá er hann samt einn þekktasti leikarinn úr röðum amerískra indjána.

KVIFF 2

A Love Song

Leikstjórn & handrit: Max Walker-Silverman

Aðalhlutverk: Dale Dickey & Wes Studi

BNA 2022

En hér, loksins, fá þau aðalhlutverkin. Og rúmlega það, aðrir leikarar eru í algjörum aukahlutverkum. Og það eitt og sér er galdur myndarinnar, að leyfa myndavélinni að finna sannleikann í öllum þessum hrukkum og leyfa leikurunum að finna persónurnar grafnar inní berstrípuðu handritinu.

Þau eru sem fyrr segir æskuvinir, hún ekkja, hann ekkill. Þau eru að hefja síðasta æviskeiðið, en þau eru að fara að hefja það ein og það er einsemdin sem dregur þau aftur saman. Þetta er lágstemmda útgáfan af Nomadland – og sú var þó lágstemmd fyrir. Þegar maður ber þær saman áttar maður sig ágætlega á stigveldi leikara og hvernig það birtist í áru þeirra; þau Frances McDormand og David Straithairn, sem gegna sambærilegum hlutverkum í Nomadland og Dickey og Studi hér, eru vissulega bæði karakterleikarar, en þó um leið vön aðalhlutverkum – þau hafa einhverja stjörnuáru yfir sér sem skapaði ákveðið ójafnvægi í Nomadland en Dickey og Studi eru nógu miklir aukaleikarar til að viðhalda alþýðlegri áru, þau eru kannski miklu frekar eins og sumir aukaleikararnir í Nomadland, fólk sem maður hugsar þegar maður sér það að maður vilji heyra sögu þeirra, en veit að það er sjaldgæft að það gerist, enda passa sögur þessa fólks sjaldnast inní vinsælustu sagnaminnin.

Þetta er líka lágstemmdari mynd en Nomadland að því leyti að henni liggur minna á hjarta, þetta er ekki uppgjör við kapítalismann og tíðarandann á sama hátt, þótt sitthvað megi skynja undir niðri. Það er að vísu mjög skemmtilegt skot á það hvernig búið er að leggja póstþjónustu heimsins í rúst. En myndin fjallar fyrst og fremst um ellina og einmanaleikann og leitina að ástinni. Sem lifir enn þótt í allt annarri mynd sé, sérstaklega þar sem bæði virðast þau hafa átt hamingjusamt hjónaband að baki.

Eins eru angar að brostnum vonum og lífum sem ekki rættust að fullu – en það er órætt og óvíst hversu djúpt það ristir. Þetta er vel að merkja frumraun leikstjórans Max Walker-Silverman, sem kemur kannski einhverjum á óvart að er bara 29 ára gamall – en þegar ég hugsa það lengra sést það alveg stundum; þetta er ástarbréf til afa og ömmu – eða allavega þeirrar kynslóðar sem fóstraði hann, þar með taldir svipmiklir aukaleikarar bíómyndanna. Og hún er sek um þá indí-klisju að gera persónurnar aðeins of þöglar, aðeins of eintóna, með aðeins of fábreytt áhugamál – Faye er til dæmis bara með tvær bækur í hjólhýsinu og samt er hún ekki með sjónvarp eða síma til að stytta sér stundir í staðinn; þetta er orðin dálítið þreytt erkitýpa í listrænum myndum, þessi þögla semi-einhverfa týpa (og þá vísa ég vel að merkja í Hollywood-útgáfuna af einhverfu).

En einmitt þar bjarga leikararnir myndinni og gefa henni líf, þau Dickey og Studi eru nógu góð til að fylla upp í þagnirnar og gloppurnar í handritinu með helling af ósögðu og dularfullu og heillandi lífi. Maður sér það í hrukkunum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson