„Þetta eru Katia og Maurice Krafft. Árið er 1991, dagsetningin er 2 júní. Á morgun rennur þeirra hinsti dagur upp.“

Svona byrjar Ástarsaga úr eldfjöllunum, Fire of Love, heimildamynd um eldfjallafræðingshjónin Katiu og Maurice, sem voru fræg á sínum tíma fyrir að eltast við eldfjöll heimsins.

Hvernig þau kynntust er óljóst, myndin fullyrðir ekkert en veltir upp kenningum – en þau voru bæði frá Alsace, þýskt ættarnafnið arfleifð þess að vera frá svæði á flekaskilum Frakklands og Þýskalands, svæði sem færist reglulega á milli landanna með nýjum stríðslokum.

KVIFF 9

Fire of Love

Leikstjóri: Sara Dosa

BNA 2022

En það er augljóst hvað sameinar þau; eldfjöllin sem eru talin upp sem aukaleikarar myndarinnar –fyrstu eldfjallaástir þeirra, Etna og Stromboli, sem og St. Helena og Krakatá – og Krafla vitaskuld, að ógleymdu Unzen-fjalli í Japan, síðasta fjallinu þeirra.

Það er margt hér sem minnir á Eldana eftir Sigríði Hagalín; hér eru varkárir eldfjallafræðingar og sannkallaðir eldfjallakúrekar – en öll sameinast þau í ástríðunni fyrir þessum glóandi risum. Þau hjónin ákveða strax eftir giftingu að eignast ekki börn; eldfjöllin eru eina fjölskyldan sem þau þrá, eða eins og Maurice orðar það: „Ef ég gæti borðað grjót þá færi ég aldrei af fjallinu.“

Leikstjóri myndarinnar er hún Sara Dosa, sem síðast leikstýrði mynd um íslenskan sjáanda og náttúruvernd, The Seer and the Unseen. Ágætis mynd vissulega, en þessi er stórt stökk fram á við á ferlinum. Þau hjónin eru vel að merkja í raun hálfgerðir með-leikstjórar handan grafar, þau og samstarfsmenn þeirra tóku upp nánast allt efnið í myndinni. Maurice talaði að vísu um að hann væri enginn kvikmyndagerðarmaður, kvikmyndagerðin væri bara hliðarverkun af því að geta ekki borðað grjót. „Ég neyðist bara til að gera myndir til að halda áfram að flakka um eldfjöll heimsins.“

Þau hjónin kunnu því þó vel að vera kölluð farandeldfjallalistamenn. Hún tók ljósmyndir, hann tók hreyfimyndir – bæði sjást þau í römmunum í hálfgerðum geimbúningum sem líta út eins og þeir komi úr ódýrri geimmynd frá 1960. Þetta myndefni er ekki bara magnað af því fyrirsæturnar eru stórfenglegar, heldur líka af því þau kunna að byggja upp ramma og spennu, þau kunna að bregða á leik fyrir framan myndavélina og þau hafa lært eigin hlutverk upp á tíu.

En þau þurftu kannski að velja hvort sjálfsmyndin yrði sjálfsmynd fræðimannsins eða listamannsins, ýmsir vísindamenn og fréttamenn fortíðarinnar voru ekki almennilega uppgötvaðir sem kvikmyndagerðarmenn fyrr en löngu seinna, eins og til dæmis þegar Ómar Ragnarsson fékk heiðursverðlaun Skjaldborgar (og seinna Eddunnar) og maður fór að átta sig betur á hvað náttúrulífsþættir æskunnar voru sumir mögnuð kvikmyndagerð.

Þau Krafft-hjónin eru úr sömu frönsku hefð og Jacques Cousteu, sá mikli landkönnuður hafdjúpanna sem gerði fyrstu heimildarmyndirnar neðansjávar. Hefð sem Wes Anderson og ýmsir indí-leikstjórar nútímans hafa leitað mikið í, þar á meðal Miranda July, sem er sögumaður myndarinnar. Þannig er eins og myndin loki jafnvel einhverjum hring – ameríska indíbíóið að borga skuldirnar sínar.

Franskar fræðslumyndir æskunnar á borð við Sú kemur tíð sækja líka á mann við áhorfið, ekki síður en sögur eldri kynslóða af frumstæðri fjallamennsku. Undir þessu hljóma svo tónar Nicolas Godin, annars helmings franska nýbylgjudúettsins Air, og rödd Miröndu July, sögumanns okkar í þessari fjallaferð. Það er vissulega heilmikill Herzog í myndinni líka, enda voru Krafft-hjónin í litlu hlutverki í einni heimildamynd hans (Into the Inferno), en hér er samt annar tónn; kvenlegri, franskari – en um leið einnig frumspekilegur og á köflum kíminn, rétt eins og hjá Werner. Og það er raunar mynd eftir Herzog á leiðinni um þau hjón, The Fire Within, þannig að þetta ár verður heimildamyndaútgáfan af árinu þegar Dante‘s Peak og Volcano börðust um athygli bíógesta.

Svikular hjákonur

Mest minnir myndin þó á verk eins og Sans Soleil, með dreymandi orðum konu sem aldrei sést, um horfinn heim eilífðarferðalanga tuttugustu aldarinnar, öll ferðalögin sem hvergi eru instagrömmuð og ekki var hægt að bóka nokkurn skapaðan hlut á netinu.

Þau hjónin eru heillandi félagsskapur. Katia lítil og nett, petite svo við slettum frönskunni, með flöskubotnagleraugu, dálítið í bakgrunninum, leyfir extróvertnum Maurice að eiga sviðið, svona oftast nær. Hún vill klappa eldfjöllunum, hann vill leika sér við þau. Hann sýður egg á heitu hrauni og fer á árabát út í vatn fullt af sýru – en þrátt fyrir allt er hann miklu frekar bangsalegur vísindamaður frekar en ofurhugi á að líta, svona eru hinir raunverulegu ofurhugar oft órafjarri ímyndinni sem við höfum af þeim.

Við fáum í raun ekki mikið af rómans þeirra á tjaldinu, sögumaður leyfir sér aðeins að velta ást þeirra fyrir sér – en í raun skiptir mestu hvernig ástríða þeirra fyrir eldfjöllunum rímar fallega saman. Svo fallega að önnur ástaratlot verða aukaatriði. Og jafnvel ef maður keyrir kaldhæðnina í botn og ímyndar sér að þetta sé bara hentistefnuhjónaband utan um sameiginlegt áhugamál þá skiptir það ekki máli, jafnvel ef þetta snýst allt um ástríðuna á hjákonum þeirra beggja, eldfjöllunum, þá er það næg ást fyrir margar bíómyndir.

En þetta eru grimmar og svikular hjákonur. Það verða ákveðin hvörf um miðja mynd þegar þau byrja tala meira um muninn á rauðum og gráum eldfjöllum. Þau rauðu eru falleg og meinlaus ef fólk passar sig, túristagos jafnvel. En þau gráu eru banvæn – og þegar þau komast í náin kynni við eitt grátt eldfjall þá breytist tónninn, markmiðin verða önnur. Það er ekki lengur forvitnin ein og eldfjallaástin sem knýr þau áfram; þau hafa horfst í augu við eyðingarmáttinn og núna vilja þau gera allt til að bjarga þeim sem hægt er að bjarga frá þessum gráu risum. Með því að vara fólk fyrr við, finna leyndardómana á bak við hið banvæna. Þau sjálf hræðast ekki að eldfjöllin taki þau, þau vita innst inni að það muni gerast á endanum, þau hræðast bara hversu marga eldfjöllin muni taka í viðbót. Við Unzen-fjall í Japan fórst 41 manns til viðbótar við þau, slökkviliðsmenn, blaðamenn og vísindamenn – sem öll hafa ásamt kollegum sínum orðið til þess að núorðið bjargast miklu fleiri þegar þau gráu rumska.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd af Söru Dosa: kviff.com