Við erum stödd í nálægri framtíð, mjög nálægri miðað við stöku vísanir í heimsfaraldurinn sem nú geisar. Í heimi bókarinnar erum við nýbyrjuð að rétta úr kútnum eftir kófið, ætli 2023 væri ekki raunhæf ágiskun?

Eldarnir er nýjasta hamfarasaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, sem hóf rithöfundaferilinn með Eylandi, þar sem Ísland einangraðist frá umheiminum, fjórum árum áður en það gerðist í raunveruleikanum. Undirtitill bókarinnar er Ástin og aðrar hamfarir og eldar og ástir eru sannarlega aðalumfjöllunarefnið, mjög bókstaflega, en þetta er líka bók um kófið.

Tímaramminn er meira að segja dálítið kunnuglegur – ófremdarástand að vori setur þjóðina í uppnám, svo er lífið að mestu komið í gamla farið þegar hamfarirnar hefjast á ný, með endurnýjuðum krafti. Eða eins og segir í bókinni: „Hamfarir verða leiðigjarnar þegar á líður, maður er fljótur að venjast heimsendi.“ Setning sem maður tengir sterkt við núna en hefði kannski síður gert það fyrir ári síðan.

Sigríður hefur unnið lengi sem fréttamaður og rétt eins og Eyland er þetta um sumt blaðamannabók. Þar voru blaðamenn meðal aðalpersóna, en hér skemmtir höfundur sér hins vegar konunglega með því að gera grín að sjálfri sér og kollegum sínum – einn fastagestur blaðamannafundanna er til dæmis kallaður „þrautreyndur hamfarariddari“ og hljómar lýsingin óneitanlega kunnuglega.

Aðalpersónan, jarðvísindakonan Anna Arnardóttir, er sögumaður bókarinnar og sömuleiðis sögumaður eldgossins fyrir þjóðina. Þórólfur sögunnar.

Nei, þetta snýst ekki bara um fjárveitingar og almannatengsl. Það er líka mikilvægt að halda trúnaðarsambandi við þjóðina, að fólk sjái hvað við erum að gera, treysti upplýsingum frá okkur þegar á reynir. Þú ert andlit okkar út á við, þú verður að tala við fjölmiðlana.

Hún er góð í að ræða við fjölmiðla, en hún vill samt helst bara fá að vera vísindamaður í friði – sem gengur ágætlega þegar eldfjöllin liggja í dvala. Þegar útlit er fyrir frekari jarðhræringar virðist svo þolinmæði margra brostin.

Sigríður María hristir stuttklippt, ljóshært höfuðið: Þetta er allt svo flókið og fræðilegt. Ég gæfi hvað sem er fyrir annað gos eins og í Eyjafjallajökli.

Þarna mælir fulltrúi ferðamannaiðnaðarins, sem er hluti af vísindaráði sem er sett sérstaklega á laggirnar til að takast á við þetta – vísindaráð þar sem vísindamenn þurfa sífellt að sanna sig fyrir fólki sem gætir annarra hagsmuna og hefur ekki minnsta vit á jarðfræði. Ástæðuna segir formaður nefndarinnar vera þá að: „Ef faraldurinn kenndi okkur eitthvað þá var það að taka engar ákvarðanir um öryggi almennings án þess að efnahagsmálin væru tekin með í reikninginn.“

Þessi tenging við kófið er þó bæði kostur og galli í bókinni. Fjarstæðukennt hættuástand er skyndilega ekki svo fjarstæðukennt en speglunin er líka ófullkomin, eins og óbein athugasemd um ástand sem er um margt mjög eðlisólíkt. Samspil efnahagsmála og heimsfaraldurs er aðeins annað en samspilið við eldgos.

Þú munt heyra þrumur

Maður skilur Önnu mjög vel þegar hún er dómhörð gagnvart flónsku blaðamanna og lobbíista. En þegar líður á bók kemur í ljós að hún er svona dómhörð gagnvart flestum. Bæði eigin móður sem og eigin syni, meðal annars.

Undantekningin er Örn, faðirinn sem ól hana og erfði hana sömuleiðis að ævistarfi sínu, sem nú er ævistarf hennar. Bernsku Önnu er lýst svona:

Pabbi sagði mér engin ævintýri fyrir háttinn, nóg er víst vitleysan samt, sagði hann og las fyrir mig jarðfræði, stjörnufræði og segulfræði.

Þessi „vitleysa“ birtist svo í móðurinni – sem birtist okkur fyrst í þýddu ljóði eftir rússnesku skáldkonuna Önnu Akhmatovu. „Þú munt heyra þrumur og minnast mín“ eru upphafsorð ljóðsins og þau munu sannarlega rætast. Þýðandinn er skráður Guðrún Olga Jafetsdóttir – en þið finnið hana ekki á leitir.is, því Guðrún Olga er skáldsagnapersóna sjálf, bókelska móðirin sem yfirgaf Önnu í barnæsku og hefur að mestu látið hana afskipta. Þannig verður sú sem Anna mun minnast ekki nafna hennar Akhmatova, heldur þýðandinn móðir hennar.

Sterkasta samband bókarinnar er þó ávallt samband þeirra feðgina. Hún leitar sér huggunar við minningar um pabbann; hennar innra líf er allt nátengt minningum um hann, andlát hans færði hana nær eiginmanninum og hún vinnur orðið með mörgum hans gömlu kollegum, sem virðast líta á hann sem hálfgerðan hálfguð. Hann er bæði agaður fræðimaður og eldfjallakúreki sem „kom sér á forsíður erlendra fjölmiðla í Holuhraunsgosinu með því að stökkva upp á eina helluna sem flaut ofan á glóandi hraunbrúninni, taka sér stöðu þar og glotta framan í myndavélarnar eins og brimbrettakappi neðan úr helvíti.“

Bókin er full af tilvitnunum í jarðeðlisfræðirit og virkar sem ansi lærðar hamfarabókmenntir – en um leið virkilega ljóðrænar líka.

Hnarreist drottning íslenskra eldfjalla, meyprinsessa, drekinn sem vokir yfir frjósömum sveitum Suðurlands, inngangurinn að víti. Hekla er allt þetta, og líka bara hrúga af hrauni sem hefur hlaðist upp í 1500 metra hæð í gosum undanfarinna 7000 ára.

Anna er nefnilega dóttir bæði vísindamanns og skálds – og faðirinn og margir jarðvísindamennirnir eru raunar meiri skáld en þeir þykjast vera, þótt yrkisefnin séu bundin vísindunum. Sjálfsmyndin er hins vegar algjörlega sjálfsmynd hins ferkantaða raunvísindamanns, í bland við sjálfsmynd vel stæðu úthverfahúsmóðurinnar sem fær innanhússarkitekt til að endurhanna húsnæðið. Sú ágæta kona reynist þó óþarflega frökk að mati Önnu, þegar hún skoðar íbúðina skeptísk, rekur svo nefið inn í óreiðukennt vinnuherbergið og segir henni:

Þú þarft að ákveða hvor konan þú ert. Þessi þarna uppi í vinnuherberginu eða sú pena, ráðsetta hér í stofunni.

Það er svo ákvörðunin sem Anna þarf að glíma við í miðjum hamförum, þegar hún verður ástfangin af ævintýragjörnum ljósmyndara og fer að hafa efasemdir bæði um áreiðanleika vísindanna og áreiðanleika hjónabandsins og úthverfatilvistar sinnar.

Ljósmyndaranum Tómasi Adler er lýst svo, lýsing sem gæti átt við ófáa ljósmyndara:

Hann myndast furðulega illa, myndirnar sem ég hef séð á netinu líkjast honum ekki neitt, sýna hann alvörugefinn og svolítið stórnefjaðan, enginn hlátur í augunum, fegurðin og óróleg orkan skila sér ekki gegnum linsuna. Honum er ætlað að standa hinum megin.

Hann er líka glöggur á hana, sér betur í gegnum hana en flestir. En það tekst samt ekki alveg að framkalla hann sem persónu. Sú ást sem skilar sér langbest í bókinni er ást foreldra og barns, í ýmsum myndum. Samband hennar og föðurins er akkeri bókarinnar, en sambandið við móðurina akkerið sem vantar. Samband hennar við eigin börn hefði kannski mátt undirbyggja betur – en það má kannski líka segja að hún átti sig á því seint í bókinni að hún hafi á sinn hátt verið fjarverandi eins og móðir sín. Ekki á sama hátt, ekki nærri jafn alvarlega – en samt ekki fylgst með eins og hún hefði þurft að gera.

Hún áttar sig þó á að dóttir hennar er í sömu stöðu og hún: „Engan kjánaskap, stubbur. Þú þarft ekki að vera hrædd um mig, segi ég og bægi samviskubitinu frá mér, man hvað ég var alltaf hrædd um pabba.“

Móðirin er hins vegar úrskurðuð geðveik, ófær um að annast börn. En þegar hún fær orðið þá áttar maður sig á að kannski var hún bara óheppin að vera fædd kynslóð á undan Önnu, þegar möguleikar ungra mæðra til að verða eitthvað meira en bara mæður voru takmarkaðri.

Vegna þess að heimurinn reynir að bæla þig niður svo hann geti notað þig. Hann vill nota þig til að þrífa og elda og fæða börn og skeina og þvo þvotta, og vinna óbærilega leiðinleg störf í þágu annarra. Þú þarft að brjótast undan kröfum umhverfisins, Anna litla, þú þarft að læra að þjóna þínum eigin hagsmunum, ekki hagsmunum annarra. Þú þarft að vera óþæg, annars verður þú kramin eins og padda.

Hún segir henni að hún geti ekki verið hún sjálf ef hún eignast barn, þá muni hún hætta að verða manneskja. Eitthvað sem Önnu tekst hins vegar – en kannski einmitt út af baráttu formæðra hennar, jafnvel þeirrar sem yfirgaf hana.

Stíllinn, eldarnir og ástin

Helsti styrkur Eylands var óvissan, hið óræða, það kom aldrei fram af hverju Ísland einangraðist. Helsti styrkur Eldanna er þvert á móti þessar nákvæmu eldfjallalýsingar, ljóðrænar og nördalegar í senn. Sagan er drifin áfram að einlægum áhuga á eldsumbrotum, bæði þeirra sem geisa í sögunni sem og sögulegra gosa.

Ástarsagan, eða sögurnar, ná ekki alveg sömu hæðum. En stærsti veikleiki bókarinnar eru þó samræðurnar. Stíllinn er oft ægifagur, leikandi og lifandi þegar Anna lætur hugann reika, en er öllu jarðbundnari þegar persónur skiptast á orðum. En samt alltof fullkominn til að verða almennilega trúverðugur sem talmál. Hér tala allir í heilum setningum, það vantar smá jarðneskan ófullkomleika í þær, smá humm og ha og hérna, hik og ókláruð orð, setningar sem enda úti í móa. Eitthvað sem fyrirgefst alveg þegar verið er að tala um jarðhræringar – en gengur síður upp þegar mannlegri hamfarir eru í spilinu.

Þegar á líður breytist bókin svo í hreinræktaða stórslysabók – en einmitt þar finnur hún þó sitt fallegasta augnablik, mitt í kyrðinni sem jafnvel má finna í miðjum eldsumbrotum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.


Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 11. desember 2020.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson