Pólski leikstjórinn Tomasz Wasilewski vann East of the West flokkinn á Karlovy Vary með Fljótandi skýjakljúfum, magnaðri mynd um samkynhneigð í Póllandi – og fylgdi henni eftir með Bandaríkjum ástarinnar, ekki síðri mynd um kvennaheim í Póllandi árið 1990 – í raun konurnar sem ólu hann upp, í skáldaðri útgáfu (hér er viðtal sem ég tók við hann af því tilefni).

KVIFF 17

Flón

Głupcy

Leikstjóri: Tomasz Wasilewski

Aðalhlutverk: Dorota Kolak, Łukasz Simlat, Tomasz Tyndyk & Katarzyna Herman

PÓLLAND 2022

En því miður er nýjasta myndin, Flón, mikil afturför. Hún byrjar raunar forvitnilega – þegar aðalpersónan fer að útidyrunum eftir ástarleik og sér að stillt hafið nær bókstaflega að útidyrunum – og maður verður dálítið spenntur vegna þess að leikstjóri sem hingað til hefur verið með báða fætur í félagslegu raunsæi sé farinn að leika sér aðeins með fantasíuna.

Myndin fjallar mest um Marlenu og Tomasz. Þau eru par, hún um 20 árum eldri – en það hriktir í einfaldri tilveru þeirra þegar sonur Marlenu flytur inn. Sá er sjúklingur, getur ekki talað en getur svo sannarlega öskrað og æmt af sársauka. Það er galið að taka hann inná heimili ef þess þarf ekki, þannig er ástandið á honum – og vitaskuld byrjar sambandið að molna. Það bætir ekki stöðuna þegar dóttir Marlenu birtist þegar á líður mynd. Það er eitthvað ósagt sem marar undir, einhver skelfilegir fortíðardraugar – og það er athyglisvert hvernig arkítektúr heims þeirra rekst á, ströndin, heimilið, spítalinn og fleira er nánast allt eins og sami heimur, sama bygging.

En persónurnar virka fæstar sérlega sannferðugar – nema kannski helst dóttirin í vanstillingu sinni – og að lokum kemur plott tvist sem sjálfur Shyamalan hefði verið stoltur af. Já, eða kannski einmitt ekki stoltur. Stóra uppgötvunin þarf mun betri uppbyggingu til að virka, til þess að réttlæta sig, til að áhorfendur séu tilbúnir til að sjá restina af myndinni með nýjum augum. Þess í stað draga þessar óvæntu vendingar myndina niður – og gera hana hreinlega hálf tilgangslausa og andstyggilega.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson