DSCF4711„Blessaður – bíddu, varst þú ekki farinn heim?“

Þannig heilsaði ég Ólafi Darra þegar ég sá hann óvænt í lokahófi kvikmyndahátíðarinnar í Karlovy Vary en áttaði mig strax á svarinu  – það var bara ein möguleg ástæða fyrir  því að  hann hefði komið alla leið til Tékklands aftur 2 dögum eftir að hafa yfirgefið svæðið – hann var að fara að vinna verðlaun.

Ekki löngu seinna drundi frumöskur hamingjusömu risaeðlunnar um salinn, epískur endir á magnaðri ræðu – hann og Oliver Stone áttu tvímælalaust bestu ræður kvöldsins.

Verðlaunin voru verðskulduð enda ansi magnaður leikur – en hvað fannst gestum hér í Bæheimi annars um djöflamessuna XL?

Rétt eins og heima voru skoðanir ansi skiptar en flestir sem ég töluðu við minntust á að þeir hefðu viljað meiri pólitík. Það er nóg af alkóhólisma en menn fá aðeins nasaþefinn af pólitísku spillingunni sem er undirliggjandi. Já,  merkilegt nokk er fólk í heiminum sem vill fá meiri íslenska pólitík – og ég verð að viðurkenna að ég er dálítið sammála þeim – betri innsýn í hvernig hedónískt næturlífið spilar saman við þingsali dagsbirtunar hefði getað dýpkað myndina töluvert – en kannski verður einmitt  það umfjöllunarefni XXL, framhaldsins sem lofað er í kreditlistanum?

En það höfðu fleiri Íslendingar en Ólafur Darri ástæðu til að fagna. Ungverska myndin Minnisbókin vann Krystalshnöttinn sjálfan, aðalverðlaun  hátíðarinnar, og það er Jóhann Jóhannsson sem semur tónlistina við þá mynd.

Þá sá Hildur Guðnadóttir um tónlistina við dönsku sjóránsmyndina Kapringen sem og þýsku stuttmyndina Dómkirkjur og loks átti Íslandsvinurinn Daniel Dencik tvær myndir í fullri lengd á hátíðinni, heimildarmyndina Leiðangur til heimsenda og leiknu myndina Moonrider. Frumraun hans í kvikmyndabransanum var hins vegar sú að klippa Nóa albínóa fyrir tíu árum síðan.

FloatingSkyscrapersEn víkjum nú sögunni frá Íslandsdaðri og skoðum aðeins hinsegin hliðar hátíðarinnar. Hlustendur hafa vafalaust heyrt ófáar fréttir um ofbeldi gagnvart samkynhneigðum í ýmsum löndum Austur-Evrópu sem og Gleðigöngur þar sem gleðin hefur verið barin niður. Ansi margar þessara frétta hafa verið frá Póllandi og því óneitanlega töluverð tíðindi að fyrsta pólska hinsegin myndin hafi unnið hinn keppnisflokk hátíðarinnar, East of the West, sem er sérstaklega helgaður gömlu Austur-Evrópu. Myndin heitir Fljótandi skýjakljúfar og fjallar um sundkappann Kuba sem er að gera sér grein fyrir kynhneigð sinni og það er drungi yfir myndinni, það vita allir hvað það þýðir að koma út úr skápnum í þessu andrúmslofti og því verður ástin miklu frekar full sársauka en gleði. Leikstjórinn Tomasz Wasilewksi sagði eftir sýninguna að Pólverjar þyrftu einmitt svona myndir og rakti ógnvekjandi tölfræði um hve margir samkynhneigðir pólverjar hefðu orðið fyrir ofbeldi fyrir kynhneigð sína. Og þótt gamla austrið líkist um margt vestrinu meir og meir þá er þetta dæmi um það að í sumu er austrið ennþá nokkrum áratugum á eftir. Það á þó misvel við um þessi lönd, það voru líka hinsegin  myndir frá Tékklandi og Slóveníu þar sem ástandið mun vera töluvert skaplegra, enda öllu bjartara yfir þeim myndum.

Það er raunar mjög bjart yfir Hveitibrauðsdögum Jan Hrebejks framan af, sem hefði betur heitið Wedding Crasher í eintölu eftir á að hyggja – en þegar boðflennan flettir ofan af gömlum syndum  brúðgumans fara að renna tvær grímur á áhorfandann. Þetta er ansi mögnuð mynd um gamalt einelti sem menn reyna að gleyma en ekki síður um allt það sem fyrirmyndarfjölskyldurnar sópa undir  teppið. Þegar við bætist að brúðguminn minnir óþægilega mikið á ákveðinn íslenskan útrásarvíking verður þessi efnaða fyrirmyndarfjölskylda enn óþægilegri áhorfs.

DualBesta mynd  hátíðarinnar var hins vegar slóvenska myndin Dual. Það væri kannski einfaldast að lýsa henni sem lesbíu-útgáfunni af Before Sunrise, dönsk stelpa hittir slóvenska stelpu nótt eina í Ljubljana og þær eyða nóttinni í að ganga um borgina og verða ástfangnar. Munurinn er hins vegar sá að þegar sólin rís þá er myndin rétt hálfnuð. Dagsbirtan sýnir okkur alls kyns fjölskylduflækjur og gamla drauga, en líka eitt skemmtilegasta atvinnuviðtal kvikmyndasögunnar.

Hátíðinni lauk svo á vestrænni hinsegin mynd, Behind the Candlebra eftir Steven Soderbergh, þar sem Michael Douglas leikur stórstjörnuna Liberace. Það ætti að vera hverjum manni augljóst til hvaða kyns sá maður hneigist, svo mikil drottning var hann, en þó barðist umboðsmaður hans við að þagga niður allar sögur af kynhneigð hans fram sjálft yfir andlátið, enda vissi hann að það að koma út úr skápnum yrði banabiti ferilsins, sem er ágætis áminning um að það er ekkert mjög langt síðan ástandið var engu skárra á vesturlöndum. Að því sögðu þá er myndin á köflum drepfyndin, sérstaklega þegar Liberace og kærastinn, sem Matt Damon leikur, bregða sér í lýtaaðgerð.

Á hátíðinni var svo sérstakur flokkur helgaður kúrdískri kvikmyndagerð. Kúrdíski kvikmyndagerðarmaðurinn Bahman Ghobadi er einmitt í miklu uppáhaldi hjá mér og hér fengum við að sjá fyrstu útlagamyndina hans, Nashyrningatíðina, sem fjallar einmitt um íranska ljóðskáldið Saleh sem hefur nýlokið tuttugu ára fangelsisvist en dvelur í Tyrklandi en getur ekki snúið heim til Írans til að leita að eiginkonunni, sem hann hefur ekki hugmynd um hvað varð um. Myndin er lauslega byggð á sannsögulegum atburðum en örugglega ekki síður á reynslu Ghobadis sjálfs, sem hefur verið í útlegð eftir að hafa ögrað yfirvöldum of mikið með síðustu mynd sinni, Enginn veit um Persakettina. Nashyrningatíðin er þó miklu gagnrýnni á írönsk stjórnvöld og olli því að enginn íranskur  leikari treysti sér til þess að taka þátt í henni, þar af leiðandi tala hér erlendir leikarar farsi, þar á meðal Monica Belucci í hlutverki eiginkonunnar. Myndin er tragísk og ægifögur en skortir kannski léttleika og bjartsýni bestu mynda Ghobadi. Sú albesta er líklega Skjaldbökur geta flogið – og börnin í þeirri mynd minna þónokkuð á lífsglöð börnin í The First Movie, þar sem breski leikstjórinn Mike Cousin býður þeim á sínar fyrstu bíósýningar og leyfir þeim í kjölfarið að spreyta sig sjálf á bak við myndavélina.

Kúrdar eru líkast til fjölmennasta þjóð veraldar sem er án ríkis, um 30 milljón kúrdar búa í Tyrklandi, Íran, Írak og Sýrlandi og hafa verið ofsóttir alla tíð. Því er það kúrdíska kvikmyndavor sem við lifum núna í raun kraftaverk, sérstaklega þar sem fæstir kúrdar geta sótt kvikmyndahús, hvað þá treyst á öflugan kvikmyndaiðnað heima fyrir.

En mikilvægi þessara kvikmynda er kannski ekki ósvipað mikilvægi austur-evrópskra hinsegin mynda, að búa til samfélagsvitund fyrir  þjóðfélagshópa og þjóðir sem eiga erfitt með að fá sjálfsagða viðurkenningu á tilveru sinni. Listin hefur ávallt verið mikilvægt vopn í sjálfstæðisbaráttu þjóða eins og nítjándu aldar saga Evrópu vitnar um, en líka fyrir sjálfstæði þjóðfélagshópa og jafnvel einstaklinga, eða eins og Sigurður Pálsson orðaði það i nýlegri bók:„Sá sem ekki hefur breyst í texta hefur ekki lifað.“

Þetta snýst líka um þá frumþörf að segja sögur, sem sést kannski best í nýjustu mynd Söruh Polley, Stories We Tell. Þar yfirheyrir hún eigin fjölskyldu um  fortíðina sem verður á endanum til þess að óvænt leyndarmál koma upp á yfirborðið – en undir liggur þó hvað hún er heilluð af því hvernig okkur tekst alltaf að gera líf okkar sjálfra og annarra að sögu eftirá.

En mig langar að ljúka þessari yfirferð um Karlovy Vary með lengstu myndinni sem ég sá. Brennandi runni er fjögurra tíma sjónvarpsþáttaröð sem pólska leikstýran Agnieszka Holland gerði fyrir HBO og var sýnd í heild sinni á hátíðinni, með stuttu hléi á milli 2 og 3 þáttar. Agnieszka Holland, sem er formaður dómnefndar hér á hátíðinni, lærði sjálf kvikmyndagerð í Prag þegar Vorið í Prag gekk í garð og þegar sovéskir skriðdrekar völtuðu yfir það – og hún var virk í hópi þeirra stúdenta sem börðust harðast gegn því valdboði. Frægasti píslarvottur þessara atburða er þó tvímælalaust Jan Palach, sem kveikti í sjálfum sér í janúar 1969 í mótmælaskyni við ófrelsi kommúnistastjórnarinnar. Tuttugu ára afmæli þeirrar íkveikju varð svo lykilatburður í því að tékkar komu loks alræðisstjórninni frá.

DSCF4680Myndin sýnir vissulega íkveikjuna en fókusinn er þó fyrst og fremst á eftirlifendurna, sem berjast um arfleifð Palach. Aðalpersónan er lögfræðingurinn sem reynir að berjast gegn afbökunum kommúnistastjórnarinnar á gjörðum Palach en stærsta hetja myndarinnar var þó móðir Palach, sem virðist í fyrstu uppburðarlítil sveitakona en reynist óbugandi í baráttunni við að verja minningu sonar síns ágangi alræðisstjórnar sem reynir  allt til þess að snúa út úr fyrirætlunum hans og grefur á endanum líkið upp til að brenna það þegar grafreiturinn var orðin of vinsæll viðkomustaður uppreisnarmanna.

En þetta er mögnuð mynd  hjá Holland, sem er afskaplega gamaldags evrópskur leikstjóri, en á besta mögulega hátt – og eini gallinn er kannski að þetta mætti vera ennþá lengra, það eru sögur þarna upp á marga klukkutíma í viðbót – en þá myndi ég samt þurfa aðeins betri sæti en í Mestske divadlo kvikmyndahúsinu.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Útvarpspistill fluttur í Kviku laugardaginn 13. júlí, upptöku má finna hér.