Fyrst þegar við kynnumst Loga geimgengli er hann bara sveitastrákur frá Tattooine – og það breytist ekkert þegar hann lærir að virkja máttinn innra með sér og fá þar með ofurkrafta Stjörnustríðsheimsins. Þangað til auðvitað í næstu mynd, þegar Svarthöfði gengst við því að vera faðir Loga, sem kemst þar með að því að hann er af aðalsættum – og þar með bróðir prinsessunar fögru sem hann hafði verið að gefa auga. Þetta er þekkt minni í fantasíubókmenntunum, Súpermann er sömuleiðis sveitastrákur frá Kansas – þangað til hann kemst að því að foreldrar hans eru geimverur sem sendu hann með síðustu geimferjunni frá Krypton. Rangfeðrun er einfaldlega eina rökrétta skýringin á því að almúgabörn geti verið óvenju hæfileikarík.
Í nýjasta Stjörnustríðsþríleiknum hittum við svo fyrir götustelpuna Rey, sem rétt eins og Logi er í sterkum tengslum við máttinn. Og við byrjum strax að hugsa: hverra manna er hún Rey eiginlega? Hún hlýtur bara að hafa einhver dularfull blóðtengsl við voldugar væringjaættir – það er eina rökrétta skýringin á hæfileikum stelpunnar, ekki satt? En í næstu mynd, The Last Jedi, fellur sprengjan. Hún er bara af aumum verkamannaættum. Öreigabarn spilafíkla sem skildu hana eftir á ruslakistu alheimsins.
Líklega er þetta ástæða haturs sumra aðdáenda á myndinni – aðdáenda sem eru aldir upp við konungsbornar Stjörnustríðshetjur. Anakin Skywalker virtist jafnvel vera eingetin og Logi, Lilja og Kylo eru öll afkomendur hans. Hvað er þá þessi almúgastelpa að vilja upp á dekk? Getur hún ekki verið launsystir Kylo eða dóttir Loga? Við viljum okkar væringjabörn sem væringja framtíðarinnar, það er einfaldlega sagnaminni sem er ótrúlega fast í okkur. Og það er vissulega afskaplega algengt að börn feti í fótspor foreldrana að einhverju leyti, stundum af því þau vilja það, stundum af því þau sjá ekki aðra leiða færa í lífinu. En það er auðvitað líka afskaplega algengt að þau gera það ekki.
Sjálfur hef ég alveg fallið í þessa gildru líka. Þegar ég var lítill og fannst ég furðu mikið á skjön við foreldra mína eða systkini hugsaði ég oft með mér að það hlyti að koma að því að ég kæmist að því að mér hefði verið skotið til Akureyrar frá einhverri fjarlægri plánetu, eins og honum Súpermann, þótt ég væri kannski ekki alveg með sömu ofurkraftana. Í staðinn fyrir að átta mig bara á því að ég væri sannarlega sonur foreldra minna og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að við værum lík með sumt og ólík með annað.
Hverra manna ertu?
Og hverra manna er ég svo eiginlega?
Ég er kennarabarn að norðan. Ef ég hefði bara orðið virðulegur menntaskólakennari á Akureyri þá væri fullkomlega réttmætt að uppnefna mig kennarabarn, hversu góður kennari sem ég hefði orðið – af því ég hafði einhvern sem gat sýnt mér leiðina, einhvern sem hagaði sér örugglega ósjálfrátt eins og kennari heima hjá sér, þar sem lítill gutti lærði af þeim þá stillingu og fordómaleysi sem þarf í kennslu. Og þessi tvö ár (með áratugs millibili) sem ég kenndi í skólum út á landi þá skynjaði ég raunar óvenju mikla ró hjá foreldrunum yfir örlögum mínum – ég var að gera eitthvað sem þau skyldu, tímabundið að feta slóða sem var þeim kunnuglegur.
En eftir stúdent fór ég til Reykjavíkur þar sem enginn var að pæla í eyfirskum kennarabörnum, enda eru einu skólarnir sem skipta fólk máli þar Hagaskóli og Austurbæjarskóli, MR, MH, Kvennó og Verzló – í hinum skólunum eru bara verkamannabörn og landsbyggðarpakk. Og hægt og rólega áttaði ég mig á því að það var nánast aukaatriði að standa sig þokkalega í bókmenntafræðinni sem ég hafði skráð mig í – öllu skipti að búa sér til mitt eigið tengslanet. Það var orð sem var að fæðast inní tungumálið á þeim árum – og ég skyldi fyrst og fremst að það var orð um eitthvað sem ég átti ekki. Hafði kannski átt í gegnum fjölskyldu fyrir norðan en átti ekkert slíkt í höfuðborginni. Þannig að ég þurfti að koma út úr skelinni og networka eins og ég mögulega gat, eitthvað sem kemur feimnum strák að norðan alls ekki eðlilega. Enda er ég kannski feiminn í dag, en ég var tíu sinnum feimnari þegar ég var 20 ára, hundrað sinnum feimnari þegar ég var sextán og þúsund sinnum feimnari þegar ég var tólf ára.
Og þótt ég hefði á endanum komist inní blaðamennsku – sem tók auðvitað miklu lengri tíma heldur en hjá ýmsum Reykjavíkurkrökkum, sem komust þangað nýskriðin yfir tvítugt – þá entist það ekki lengi. Mogginn fór í tröllahendur og ég mjög bókstaflega skrifaði mig út af blaðinu. En tækifærin í kjölfarið voru ekki beisin, sum vissulega mjög spennandi – en reyndust því miður sjaldnast þess eðlis að það væri hægt að lifa af þeim. Þannig að ég endaði einfaldlega aftur í Bóksölunni þangað til ég fékk nóg af þessu skeri og fór út í annað meistaranám og skrifaði þá þetta kveðjubréf.
En klíkan er víða. Ég fór í ritlistarnám og ætlaði helst í kjölfarið að fá mér einhverja vinnu við enskumælandi miðla eða allavega einhverja textavinnu á ensku. Námið gekk ágætlega en þegar ég fór að leita að vinnu eftir útskrift rakst ég snemma á veggi. Og ég var ekki bara að senda tölvupósta á BBC eða Guardian, heldur þess vegna að svara auglýsingum um hversdagslegustu textadjobb sem myndu ekki einu sinni gera mig frægan í Hull, jafnvel þótt ég myndi flytja þangað og ganga um með ritvélina mína á bakinu. Ég náði hins vegar að harka einhver frílansdjobb að heiman á þessum tíma, til að halda sjó á meðan ég var í atvinnuleitinni, og svo fór ég að átta mig á einu: ef ég vildi komast inná einhverja útlenska miðla þyrfti ég að byggja mér upp mitt nýtt tengslanet, alveg upp á nýtt – aftur.
Og þannig varð úr að ég skrifa í útlöndum fyrir íslenska miðla, samhliða því að þýða allan fjandann, sjónvarpsþætti, ryksögubæklinga og fleira, lesa yfir texta og sitthvað fleira sem fylgir lífi okkar sem hörkum í orðum.
Samhliða reynir maður svo að semja sín ljóð og vinna að óútkomnum skáldsögum – en einhvern veginn varð kennarabarnið í mér til þess að ég þvældist ótal krókaleiðir, fannst ég fyrst þurfa að klára nám og svo meira nám, af því ég er úr fjölskyldu sem fetar menntaveginn fannst mér ég þurfa að mennta mig til að komast í djobb á borð við blaðamennsku og skáldsagnaskrif, þar sem öllum er sama um prófgráður. Þess vegna fannst mér ég þurfa að sanna mig í blaðamennsku fyrst, einhverri vinnu sem utan frá virkaði öruggari, en var það svo auðvitað alls ekki, enda kominn miklu nær hengifluginu en skáldskapurinn.
Ég verð líka oft hræddur. Við blankheit. Enda er ég oftast blankur. Þegar ég verð hræddur við blankheit þá kemur fyrir að ég lamast. Það kemur líka fyrir að ég spýti í lófana og finni mér djúsí menningu til að skrifa um fyrir blöðin eða feitan ryksugubækling til að þýða, af því þar eru peningarnir fyrir okkur fátæklingana.
En þegar ég er svo blankur að öll mín hugsun fer í að eiga örugglega fyrir leigu og reikningum næstu mánaðarmót, þá set ég alla skáldskapardrauma á hold. Þangað til ég á alvöru afgangspening næst. Ég þekki það nefnilega ekki að eiga fjölskyldu þar sem það mátti. Þar sem mátti taka háskalegar áhættur í fjármálum, bara til þess að fórna sér fyrir skáldskap, fyrir skýjaborgir sem geta hrunið hvenær sem er.
Ekki misskilja. Það er enginn í minni fjölskyldu sem lítur niður á mig fyrir blankheit. Þau vita alveg að þetta getur verið erfitt. En ég hef alltaf á tilfinningunni að það sé skylda mín að berjast alla vega fyrir því að eiga fyrir leigunni um næstu mánaðarmót. Halda innheimtumönnunum frá borgarhliðinu, svo að segja.
Ég er líka málkunnugur flestum íslenskum forleggjurum. Þetta eru ekki neinir trúnaðarvinir, en þeir vita alveg hvað ég er að gera og eru með mig á Facebook. Þeir eru samt ekki að hringja í mig og spyrja hvenær skáldsagan komi. Það eru forréttindi að fá slíkt símtal, forréttindi sem getur stafað af ætterni – en getur líka stafað af frægð annars staðar frá, hvort sem það er Twitter-frægð, verkalýðsbaráttufrægð eða poppstjörnufrægð.
Allir listamenn á Íslandi eiga sínar sorgarsögur, hvort sem þeir eru kúltúrbörn eða kennarabörn eða verkalýðsbörn. Auður á sína, Eiríkur á sína, Berglind á sína og ég á mína. Misdramatískar, eins og gengur. En eitt skiptir kannski mestu máli, hvernig enda þær? Hvenær kemur happily ever after (lesist: ritlaun)? Koma þau yfir höfuð? Og þar er ætternið og bakgrunnurinn bara andskoti stór breyta – þótt breyturnar séu auðvitað fleiri, lífið leikur okkur alls konar og við erum með alls konar bakgrunn annan en fjölskylduna.
Og það sem skiptir máli í þessum sögum öllum er í raun þær sögur sem aldrei verða sagðar. Allir skáldadraumarnir sem fuðruðu upp og urðu að engu, eða litlu, án þess að neitt hafi skort á hæfileikana. Fólkið sem enginn opnaði dyrnar fyrir. Fólkið sem var aldrei færð trú á að þau gætu orðið skáld, þrátt fyrir bullandi hæfileika. Þau sem höfðu ekki baklandið eða tækifærin.
Og það heyrir upp á okkur öll í þessum bókabransa, hvar sem við erum stödd í virðingarkeðjunni, að reyna að leyfa þessum röddum að heyrast. Leyfa þeim að vera með. Þannig dýpkum við og víkkum bókmenntirnar, búum til nýja rithöfunda sem og nýja lesendur, lesendur sem geta þá loksins lesið sögur um sig sjálfa í skáldskap, sem og höfundarviðtölum framtíðarinnar.
Breytt ástand á Brimhólum

Og það er gaman að sjá að ástandið getur breyst – og hefur breyst. Fyrir fimmtán árum skrifaði ég um skort á íslenskum innflytjendabókmenntum en þar hefur heldur betur orðið sprenging. Fyrst og fremst ljóðamegin, en það mun vonandi fara að seytla inn í skáldsögurnar fljótlega.
Og ég ætla að ljúka þessum pistli með að minnast aðeins á tvær af síðustu bókunum sem ég rýndi í fyrir jólin; Breytt ástand eftir Berglindi Ósk og Brimhóla eftir Guðna Elísson. Báðar prýðilegar bækur – en við lesturinn dreymdi mig hreinlega um að þau myndu skrifa bók saman. Berglind með sitt ótrúlega næmi fyrir íslenskum hversdagsleika allra þeirra stétta sem oft eru ósýnilegar í skáldskap, Guðni með alla sína þekkingu á bókmenntasögunni og oft skemmtilega háfleyga stíl.
Brimhólar fjalla nefnilega um íslenskan strák og pólska stelpu, son kvótagreifa og dóttur fiskverkakonu. Kvótasonurinn er ákveðinn blendingur af kúltúrbarni og auðkýfingsbarni, dæmi um Buddenbrooksheilkennið, þar sem börn auðmanna fá góða menntun sem verður til þess að þau verða fullkomlega áhugalaus um uppsprettu fjölskylduauðsins – og munu því líklega sólunda honum á nokkrum kynslóðum. Eða, eins og væri réttara að líta á það – nota í alvörunni peninginn, í að eignast líf með einhverju alvöru inntaki og leyfa öðrum athafnaskáldum að sjá um kvótann.
En þetta er háskalaust líf. Hann veit alveg að hann veit að hann verður aldrei gerður arflaus, pabbinn mun á endanum tryggja lífsviðurværi hans þótt hann geri ekkert til þess að halda fjölskylduveldinu við. Hann getur lesið yfir sig af pólskri eða enskri ljóðlist í erlendum háskólum án þess að hafa neinar áhyggjur af praktískri framtíð í framhaldinu, hann getur orðið bókmenntaprófessor eða blaðamaður eða skáld án þess að þurfa að hafa minnstu áhyggjur af því hvort hann geti borgað leiguna. Hann á sinn harm og á eftir að upplifa sín vonbrigði – en hann mun aldrei líða skort.
Á móti er stillt upp pólsku innflytjendastelpunni. Dóttur fiskvinnslukonunnar. Hún hefur miklu dýpri skilning á ljóðlist en kvótaprinsinn og á vafalaust sína drauma. En hennar draumar eru skýjaborgir, það er hennar harmur – hún speglar sig í fjölskyldu kvótagreifans og í spegilmyndinni sér hún að hennar eigin draumar munu aldrei rætast í þessari veröld, jafnvel þótt hæfileikar hennar og vitsmunir segi manni aðra sögu. Þessi stelpa á aldrei eftir að fá símtal frá útgáfufyrirtæki, hún á aldrei eftir að skrifa skáldsögu þegar hún ætti að vera að borga reikningana. Sú bók kemur aldrei út, nema við tökum umræðu um eigin forréttindi alvarlega, jafnvel þótt það séu ekki auðmannsforréttindi Samherjabarna. Bókmenntaheimurinn þarf vissulega að berjast fyrir tilveru sinni en hann þarf líka að breyta sjálfum sér innan frá, tryggja sem best að sem flestir fái sanngjarnan aðgang að þessum heimi – og til þess þarf vissulega oft að breyta hinum ytri heimi líka, menntakerfinu, ójöfnuðinum og því öllu saman. Og einmitt þannig geta bókmenntirnar bjargað sér frá glötun. Með því að vera fyrir alla, með því að líta á alla sem mögulega lesendur og/eða sem mögulega höfunda. Með því að hringja í pólsku stelpuna í bókinni hans Guðna og spyrja hvort hún sé ekki með bók í maganum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson kennarabarn
* Það var vissulega reynt að friða reiða hatursmenn Síðasta væringjans með því að gefa Rey frægan afa í síðustu myndinni, en það eru nú vonandi flestir búnir að gleyma þeirri hörmung sem sú mynd var.
** Full disclosure: Það munaði vissulega litlu að ég kæmist ekki nema 23 ára í vinnu á Degi (sem þá var nýhættur að kalla sig Dag-Tímann), þar sem systir mín hafði unnið í tvö ár skömmu áður, en ég var svo heppinn að þeir voru þá að sigla hraðbyri í gjaldþrot, ákváðu fyrst að ráða enga sumarstarfsmenn – sem þýddi að ég þurfti að leita mér að annarri vinnu – og stuttu seinna var blaðið farið á hausinn.