Árið 1958 byrjaði þrettán ára pólsk stúlka, hún Maria Makowska, að halda bíódagbók. Ég hef ekki hugmynd um hversu oft hún sótti bíóhúsin áður en hún fjárfesti í dagbókinni, ég veit bara að fyrsta myndin sem hún skráði í dagbókina var sovésk gamanmynd, Stúlka með gítar. Ég veit hins vegar að á næstu 15 árum skráði hún samtals 1798 myndir í dagbókina, rúmlega hundrað myndir á ári.

En árið 1973 var hún byrjuð að vinna á bókasafni og hitti Bogdan nokkurn Kalinowski í bókasafnsfræðikúrsi og það tók ekki langan tíma áður en þau voru orðin óaðskiljanleg. Og Bogdan reyndist ekki síður áhugasamur um bíómyndir, ég veit ekki hversu duglegur hann var að fara áður en hann kynntist Mariu, en hann byrjaði allavega að halda dagbók líka, fyrsta myndin sem þau sáu saman var King, Queen, Knave eftir pólska meistarann Jerzy Skolimowski, skólabróður Polanskis, sem var (mjög lauslega) byggð á samnefndri bók Nabakov.
Og á næstu 40 árum bættust 14 þúsund myndir við, nærri því mynd á dag. Og þá erum við bara að tala um myndir sem þau sáu í kvikmyndahúsum – það kæmi ekki á óvart að þau hafi alveg stundum líka notað nýmóðins sjónvarps- eða myndbandatækni, jafnvel mynddiska eða streymisveitum undir það síðasta.
Þau urðu á endanum fræg meðal annarra pólskra bíófíla, enda bíófílar bíófílanna, og var boðið á flestar kvikmyndahátíðir í Póllandi. Þau voru ekki hátekjufólk, eyddu starfsævinni við vinnu í skólabókasöfnum í Poznań, og þegar þau voru að missa íbúðina tóku pólskir bíófílar sig til, í samvinnu við borgaryfirvöld, og innréttuðu litla íbúð fyrir þau fyrir ofan, Kino Muza, þeirra heimabíó, þar sem þau lifðu til dauðadags, en Bogdan lést fyrir sex árum, Maria þremur árum síðar.
Þannig að þegar vinur skrapp í vinnuferð til Poznań var það prýðileg afsökun fyrir pílagrímsferð á slóðir Kalinowski-hjónanna. Og þar sem ég var á heimleið eftir Skjaldborgarferð var enn betri afsökun að flugið til Wroclaw var töluvert ódýrara en beina flugið til Prag.

Þannig að þetta byrjar eiginlega þegar ég lenti á Wroclaw-flugvelli, geng fram hjá trjám sem eru eins og úr vísindaskáldsögu eftir Stanisław Lem og á flugvallarhótelið, sem var af einhverjum ástæðum merkt gíraffa. Þetta gat enginn starfsmaður hótelsins útskýrt fyrir mér.

Svo fékk ég lykil af herberginu – og sýndist standa þar handskrifað 13, en fann svo bara herbergi 12, 14 og 15 – og það sama átti við um gististað minn í Poznań, í Póllandi er einfaldlega tryggt að menn gisti ekki í herbergi númer 13.

Svo tékkaði ég mig út um morguninn og plantaði mér í hægindastól og sat þar fram á kvöld til að klára Skjaldborgargreinina löngu, auk fleira smáræðis fyrir Heimildina – þangað til að í ljós kom að blaðið hefði minnkað og greininni yrði frestað fram í næsta blað. Ég náði svo að klára restina og dreif mig til Poznań, sem er næsta borg við Wroclaw, ekki nema tvo tíma með lestinni. Wroclaw er sýnist mér hin merkilegasta borg, en ég næ bara aldrei að stoppa neitt þar – ég er alltaf á hraðferð eitthvað annað. En einn daginn tek ég gott pöbbarölt þar, ég lofa!

Þar sem ég geng eftir gamla bænum þá tek ég eftir því að það eru mjög sjarmerandi bíóhús út um allt – og þar að auki alls konar bíóvísanir á börum borgarinnar. Ég hitti E.T. á einum barnum og gekk fram hjá hostelinu hennar Rosemary og myndskreytingarnar tóku af allan vafa um hvaða Rosemary rak hostelið.

Kino Muza olli svo ekki vonbrigðum, gullfallegt en örlítið falið bíó þar sem hægt var að kaupa drykki á borð við Benedict Cucumber og Antonio Banderas sangríu og kaffið heitir Bambi og Batman, en best voru þó öll gullfallegu veggsjöldin, enda hafa fáir masterað þá listgrein betur en Pólverjar. Þannig að þarna sat maður, sötraði Antonio Banderas og mundi eftir því þegar Bogdan var spurður um sorglegasta dag lífs síns og svaraði: „Þegar ég fór einn í bíó, af því Maria var veik.“


Bíóið er svo ekki nema 115 ára gamalt, vígt árið 1908 og hefur sýnt bíómyndir allar götur síðan. Þegar það hóf starfsemi var borginn ennþá hluti af Prússlandi og um 40 prósent íbúana þýskumælandi, bíóið var fyrst kennt við Apolló og seinna meir Colosseum, Evrópu og Dögun – og eftir hernám nasista var það nefnt Zentral Lichtspiele. Fyrst eftir stríð varð það Kino Wolność, en svo festist nafnið Muza og hefur haldist í um 70 ár.


Bíóið næst mér virðist svo heita bæði Kino Malta og Charlie Monroe, eða kannski er það síðarnefnda bara nafnið á bíóbarnum, vísun í Chaplin og Monroe vitaskuld, og þegar ég gekk fram hjá honum á leiðinni í mat heyrði ég einhverja þá fallegustu raftónlist sem ég hef nokkru sinni heyrt, svona djössuð og draumkennd elektró, máski aðeins eins og Air ef það væri töluvert meiri broddur í þeim, kannski meira eitthvað í áttina að Silfureplunum á góðum degi. Nema hvað, ég sting hausnum inn og skilst á barþjóninum, sem talar takmarkaða ensku, að þetta sé bara hans eigin músík, segir hann og stendur yfir græjunum. Ég lofa vitaskuld að draga vini mína á barinn eftir mat, sem var á tælenskum stað sem lét lítið yfir sér en reyndist útibú tælenska Michelin-kokksins Jay Fai, en ekki hvað, og blessunarlega var maturinn alveg í takt við það, en sem betur fer ekki verðið.


Annars finnur maður líklega besta matinn í þessum hluta Evrópu í Póllandi þessi misserin, enda landbúnaðarland í blóma og þeim virðist hafa tekist að ná bestu hráefnunum inná lókal veitingastaðina – þótt það sé ágætt að hafa í huga að forðast alla staði sem bjóða ekki upp á prentaða matseðla og láta sér QR kóða nægja, slíkir staðir eru almennt okurbúllur með slappan mat – svona fyrir utan að hata bæði gamalt fólk og tækniheft fólk.


Það var svo því miður búið að loka barnum þegar við vorum búin með matinn hans Jay Fai, þannig að ég þarf bara að fara þangað seinna til að hlusta. Og það er ýmislegt fleira sem má nefna um Poznań, aðalnúmerið í bænum er einhver hjólakempa sem er bæði ein mest áberandi stytta bæjarins og er sömuleiðis framan á lókal bjórnum, næstur kemur svo Bangsímon, ég meina hann Kubuś Puchatek, sem virðist sérlega vinsæll á þessum slóðum.


Svo kemur maður heim og les í fréttamiðlum að Háskólabíó sé að loka, og Bíó Paradís sé því orðin eina brjóstvörn bíófíla í borg sem einu sinni hýsti Háskólabíó og Stjörnubíó og Austurbæjarbíó/Bíóborgina og Regnbogann í miðbænum – og þetta var bara um aldamótin, þau voru enn fleiri ef maður leitar lengra aftur, skilst mér á mér eldri og fróðari mönnum.
Þessu fylgir hinn hefðbundni skammtur af nostalgíu og uppgjöf, heimur versnandi fer, nýjar kynslóðir sem fara ekki í í bíó, fólk of latt til að stíga upp úr sófanum, þetta sé bara hinn óstöðvandi straumur tímans sem ekkert fái við ráðið.


Poznań-búar sanna einfaldlega að þetta er kjaftæði. Þetta er eins og hver annar kúltúr, ef það er hlúð að honum, ef hann er alltumlykjandi, þannig að öllum íbúum borgarinnar finnist þau eiga aðeins í þessum bíóum, þá getur lifandi bíókúltúr meira en þrifist í borgum árið 2023, þrátt fyrir nýliðinn heimsfaraldur og Netflix og það allt saman.


Þetta er tilfellið víðar í Evrópu, bíóum fjölgar þar sem er hlúð vel að þeim – og við höfum alveg séð hvað hefur gerst með Bíó Paradís, þetta er bara spurning um að hafa trú á bíóinu, þykja vænt um bíóið og muna að kúltúrinn í kringum bíóið á að vera skemmtilegur og hlýlegur og alvarlegur og lifandi, eins og Bíó Paradís hefur sýnt fram á. Þið munið kannski þegar Regnboginn hætti og menn töldu fullreynt að fá Íslendinga til að horfa á listrænt bíó? En svo var bara látið reyna á þetta, settur smá metnaður í prójektið – og hvað haldið þið? Þetta virkar. Auðvitað virkar þetta. Það er bara andlega steindautt fólk sem fílar ekki að fara í gott bíó – en hins vegar er jafn skiljanlegt að fólk nenni ekki í plast- og steypuklumpa síðkapítalismans sem snúast bara um innantóma sölumennsku.

Auðvitað er landslagið gerbreytt, með streymi og því öllu saman – en það þýðir fyrst og fremst eitt: bíóin eiga ekki séns ef þau halda að þetta snúist bara um stóra skjái og einhver blætiskennd mynd- og hljóðgæði. Þau eiga bara séns ef þau fatta að þetta snýst um að húsnæðið sé passlega notalegt, að það bjóði upp á að hitta fólk fyrir og eftir sýningu, sé samkomuhús jafnt sem bíóhús. Ef bíóhús er bara afgreiðslukassi til að horfa á nýjustu mynd og hypja þig aftur heim, þá er auðvitað alveg eins gott að horfa á myndina heima.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd af Kalinowski hjónunum: Facebook-síða Nowe horyzonty kvikmyndahátíðarinnar
Myndir af greinarhöfundi: Gunnlaugur Starri Gylfason
Aðrar myndir: Ásgeir H Ingólfsson