Vikan er að byrja. Svona að svo miklu leyti sem hugtök eins og „vikur“ og „vikudagar“ skipta máli lengur. Það er mánudagur og þú nennir ekki fram úr – og skyndilega þarft þú þess ekki! En samt, jú, þú þarft þess eiginlega. Þetta er skyndilega allt pínu loðið, vinna og ekki vinna … til hamingju – þú ert kominn í heim okkar frílansaranna.
En jafnvel ef þú hefur ekkert að gera þarft þú nú samt þinn ráðlagða dansskammt. En það er lausn við því – hér er lag sem er tilvalið að dansa við án þess að fara fram úr rúminu, það dugar alveg að hreyfa skankana í hægum takti, hnykkja öxlum, tromma á magann. Þannig að: ekki fara fram úr, dansaðu bara!
Þetta er lag eftir Silfureplin, litlu óþekktu bræður Brian May og Freddie Mercury ef marka má myndina. Silver Apples voru með fyrstu böndum til að nota elektrónísk bít í sinni tónlist en hættu eftir lögbann frá PanAm – saga sem er álíka ótrúleg og saga Sixto Rodriguez sem sögð var í hinni ótrúlegu heimildamynd Searching for Sugarman.
Þeir Simeon Coxe og trommarinn Danny Taylor voru hluti af öðru bandi, Overland Stage Electric Band, en þegar Simeon fór að leika sér með sveiflugjafa (e. oscillator) gengu hinir meðlimirnir út, allir nema Danny. Þeir héldu áfram að þróa sándið og Coxe bjó eiginlega óvart til sinn eigin hljóðgervil (e. synthesizer) og bandið var eitt það fyrsta ef ekki fyrsta sem notaði slík tól á þann hátt við sem við erum vön í dag.
Umbinn þeirra lánaði þeim háaloft og þar læstu þeir sig inni, fiktuðu með alls konar tæki og tól, flest hálfónýt, og einhvern veginn kom Coxe út með sinn eigin hljóðgervil, sem seinna fékk einfaldlega nafnið The Simeon, og blönduðu hljóðunum úr Simeon-inum við draumkenndan trommuleik Taylors og söng Coxe.
Í Guardian-greininni sem hér er aðalheimild rifjar Coxe upp að hann hafi „heyrt orðið hljóðgervill en vissi ekkert hvað það var. Við vorum skítblankir og notuðum það sem hendi var næst, sem var oft á tíðum gamalt skran úr seinni heimstyrjöldinni.“
Þegar bandið var tilbúið með sína aðra plötu var orðið á götunni að þeir væru á barmi heimsfrægðar. Til að gulltryggja það tókst umbanum þeirra að gera auglýsingasamning við PanAm flugfélagið, sem þá var það stærsta í heimi – þeir félagar fengu að nýta sér flugvél PanAm fyrir myndatöku fyrir plötuumslagið og PanAm fengu lógóið sitt á plötuna. Nema hvað, þetta reyndist fyrst og fremst dæmisaga um hættuna við að deila sæng með erkikapítalistum á borð við stærsta flugfélagi heims. Pan Am-menn urðu sumsé eitthvað pirraðir þegar þeir sáu lokaútkomuna; óræðar dóp-vísanir framan á plötunni og mynd af þeim félögum sitjandi ofan á braki eftir flugslys á bakhliðinni.

Og þrátt fyrir að búið væri að skrifa undir alla samninga fékk Pan Am lögbann á þá, ekki bara plötuna heldur bandið sjálft, það mátti ekki nota orðin Silver Apples lengur. Bakhliðin á plötunni hafði ræst, þetta voru núna örlög Silfureplanna – þeir höfðu einfaldlega brotlent harkalega.
Coxe hugsaði með sér, bugaður, að ef hann gæti ekki verið silfurepli þá vildi hann ekki semja músík lengur. Og kortéri eftir að hafa verið á barmi heimsfrægðar var hann farinn að keyra ísbíl.
Það var svo ekki fyrr en rúmum 20 árum seinna sem þeir voru enduruppgötvaðir – og þegar þeir komust að því að þeir hefðu öðlast mikla költ-frægð fóru þeir að spila aftur, gáfu loks út þriðju plötuna sína sem hafði verið samin áratugum fyrr og allt virtist á réttri leið – þegar rúta sveitarinnar fór út af veginum og Coxe hálsbrotnaði. Því var spáð að hann gæti ekki labbað aftur en hann náði sér á endanum – en þá lést Taylor. Coxe hélt samt áfram, notaði sömpl af trommuleik Taylors. Þannig er bandið nú í dag í raun draugalegt dúó, maður sem hefði átt að vera lamaður og trommuleikur dauðs manns.
En áhrif þeirra fóru líka að koma betur og betur í ljós, þeir höfðu haft mikil áhrif á raf-hljómsveitir eins og Stereolab og Portishead og í ljós kom að John Lennon og Jimi Hendrix voru báðir miklir aðdáendur, en Jimi hafði raunar stuttlega deilt stúdíói með þeim félögum undir lok sjöunda áratugarins og unnið með þeim félögum þá. Enda er þetta einfaldlega æðislegt og frumlegt synþaband sem er ástæða til að hlusta betur á eftir morgundansinn. Eða dansa jafnvel bara líka við þetta.
Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 3
Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson