Bíótími er öðruvísi en annar tími. Það er furðu sjaldgæft að bíómyndir virkilega spegli nútímann, eða yfirhöfuð reyni það, jafnvel þótt ekkert bendi til að myndin eigi að gerast á nokkrum öðrum tíma en einmitt núna. Maður horfir yfir bíósalinn fyrir mynd, þar sem flestir drepa tímann með andlitið ofan í snjallsímum, og svo förum við öll í annan heim, nútíma þar sem gamaldags Nokia-farsímar sjást varla, hvað þá nýmóðins snjallsímar.

Ég sá tvö góð dæmi um þetta sama daginn, frá tveimur öldruðum meisturum Evrópubíósins, þeim Wim Wenders og Aki Kaurismäki. Þeirra gullöld voru síðustu áratugir síðustu aldar en þeir áttu báðir góða endurkomu á Cannes, þar sem þeir frumsýndu lofuðustu myndir sínar í áraraðir, Perfect Days og Fallin laufblöð (Kuolleet lehdet), sem eiga það sameiginlegt að vera nútímamyndir, fastar í fortíðinni – mjög viljandi.

Aðalpersónur beggja mynda eru verkamenn. Byrjum í Japan, þar sem klósettræstitæknirinn Hirayama býr. Ekki láta starfstitilinn villa ykkur sýn, ekki búast við skít og drullu og Trainspotting klósettköfun. Hirayama er snyrtipinni og öll klósett í hans umsjá eru tandurhrein. Þetta er heldur ekki hryllingssaga um verkamannalífið, þetta er þvert á móti óður um gildi þess að gera þitt vel hversu ómerkilegt sem umheiminum kann að finnast það. Þannig skynjar maður í hverri hreyfingu þá alúð sem hann leggur í starfið.

Og það fylgir honum heim, þegar hann þrífur sjálfan sig í almenningsböðum borgarinnar og í öllu sem hann gerir. Hann virðist ekki eiga neina stóra drauma, hann er alltaf bara að elta þennan litla draum um hinn fullkomna dag – og finnur hann furðu oft, á meðan væntingarnar eru hóflegar.

Myndin heitir enda Perfect Days í fleirtölu og auðvitað hljómar Lou Reed undir, sem og aðrir slagarar sem við þekkjum öll en erum líka öll til í að heyra einu sinni enn. Þetta er maður með einfaldan smekk sem lifir einföldu lífi.

Kōji Yakusho leikur aðalhlutverkið og ber myndina algjörlega á herðum sér. Það koma ýmsar aukapersónur við sögu eins og kærulaus ungur samstarfsmaður, dóttir systur hans og hugguleg miðaldra kona á barnum sem virðist líta Hirayama hýru auga. Í seinni hlutanum fáum við meira að segja örfáar vísbendingar um fortíð hans, en þó bara vísbendingar enda væri það andstætt tilgangi myndarinnar að kafa of djúpt í fortíð hans; að finna hinn fullkomna dag, að sinna sínu eins vel og hægt er, að lifa einföldu og heiðarlegu lífi. Ef það væru verðlaun fyrir mestu zen-mynd ársins myndi þessi mynd vinna þau öll.

En þótt myndin snúist um að lifa í núinu, þá er það „nú“ varla í nútímanum nema að nafninu til. Hirayama á sér fyrst og fremst tvær ástríður fyrir utan vinnuna; að taka impressjónískar hversdagsmyndir á pínulitla en gamaldags 35 millimetra kameru, myndir af laufunum að glitra. Komerabi er japanskt orð yfir leik ljóssins við trén orð um lykilstef myndarinnar, þeir munu mögulega bara kalla hana Komerabi í Japan.fre_20230822_155223208

Þetta er leikur ljóssins við veröldina sem fæstir sjá. Hann tilheyrir þessari veröld, veröld fólksins sem heldur hinni sýnilegu veröld hreinni, og hann vill skrásetja það sem við flest erum of önnum kafin til að taka eftir. Í bílnum á leiðinni í vinnuna hlustar hann svo á kassettur. Stórt kassettusafn hans virðist töfrum gætt, vinkona samstarfsmannsins húðlata kíkir til dæmis einu sinni í heimsókn í skrjóðinn, bara til að fá að hlusta á eitt Patti Smith-lagið aftur. Hún finnur einhverja heilun í því, í þessari fortíðarveröld hins miðaldra manns. Hann er líka lestrarhestur – og þar speglast áhrifavaldar Wenders sjálfs best; þetta eru amerísku eftirstríðsárahöfundarnir sem hann ólst upp með, William Faulkner og Patricia Highsmith og aðrir á svipuðum slóðum.

Wenders hefur alltaf verið heillaður af Ameríku og Japan og gerði á hátindi ferilsins Tokyo-Ga, heimildarmynd um Ozu, og yrkir á einkennilegan hátt um hvorutveggja hér, gerir eins japanska mynd og honum er unnt um Japana með sama smekk á ameríska tónlist og bókmenntir og þrítugur Wim Wenders hafði.

Því þótt myndin gerist í nútímanum þá er Hirayama alltaf að elta fortíðina, sextíu ára gamlar bækur, þrjátíu ára gamla músík og 20 ára gamla ljósmyndatækni, og skaðvaldar nútímans á borð við farsíma og aðra álíka tækni eru að mestu fjarri, það er eins og aðrar persónur myndarinnar viti að ekki beri að trufla aðalpersónuna með slíkum ósóma.

Aki Kaurismäki er á sömu slóðum, ef ekki ennþá fornari. Fallin laufblöð fjalla um tvær einmana sálir, Önsu (Alma Pöysti) og Holappa (Jussi Vatanen), sem hittast í Helsinki. Þið þekkið þennan Kaurismäki-heim, heim sem aldrei var en var kannski næst því að vera til á Norðurlöndunum í sexunni, rétt fyrir blómabörnin, eða áttunni, kannski einhverjum bræðingi bernskuheims leikstjórans og þess eitís sem hann gerði sínar fyrstu myndir á. Nostalgíuheimur hins unga manns.

Það er þó stríð í Úkraínu, útvarpið segir okkur reglulega frá því, og út frá því vitum við að við erum stödd í nútímanum. Ef ekki væri fyrir það mætti auðveldlega staðsetja myndina nítján hundruð áttatíu og eitthvað, Hoppala týnir meira að segja nýfundinni ástinni um tíma eftir fyrsta stefnumótið, af því að hann týnir símanúmerinu. Sem hann skrifar á pappírssnifsi eins og einhver steinaldarmaður.

Það er merkilegt að sjá tvö svona skýr og meðvituð dæmi um uppreisn gegn gróteskum nútímanum sama daginn, frá leikstjórum sem báðir áttu sitt blómaskeið þegar maður var krakki; þegar þeir voru ungir menn og heimurinn var bjartur og fagur. Og þótt þessi afneitun á nútímanum sé óvenju skýr í þessum myndum er hún þó merkilega algeng. Er allt þetta fólk með nefið ofan í tækjunum sínum kannski bara svona vont bíó? Lélegur heimur jafnvel? Þessi pistill verður örugglega andlaust drasl ef þú passar þig ekki að hlusta á hann í gamaldags útvarpi, hann missir allt vit á lendum internetsins og á hlaðvörpum farsímanna. Þetta er bíó lúddítans, tekið alla leið.

En þótt það megi segja ýmislegt um nútímann þá eru bíómyndir iðulega vel á eftir með að fanga hann almennilega; þær eru bundnar í frásagnarhefðir sem endurnýja sig oft hægar en tækninýjungarnar sem stýra lífi okkar, það tekur nýjar uppfinningar oft ófá ár áður en við sjáum ljóðrænuna í þeim, nema auðvitað ef við höfum skrifað um uppfinningarnar áður í vísindaskáldskap. En ný græja, eitthvað sem er nýkomið úr verksmiðjunni, fátt er óverðugra umfjöllunar í skáldskap, að því er virðist.

Þetta sést kannski best í mynd eins og The Wedding Singer, sem náði öllum eitís kjánaskapnum löngu seinna, þegar einhver sá fegurðina og húmorinn í gróteskunni. Ótrúlega margar eitísmyndir láta eins og þessi klikkaða tíska hafi aldrei átt sér stað, þótt auðvitað laumi tískan sér inn sums staðar bakdyramegin.fre_20230822_15553061

Þannig verður bíófortíðin á alla vega þremur plönum; myndir frá ákveðnu tímaskeiði, myndir um þetta sama tímaskeið, og raunveruleikinn sjálfur. Og allt flækist þetta svo saman í einhverja súpu, hversu margar nýlegar myndir um nítjándu öldina ætli séu til dæmis undir áhrifum frá tískunni 1930, þegar uppáhalds nítjándu aldar mynd leikstjórans kom út?

Íronían í þessu öllu saman er samt sú að við lifum á öld nostalgíunnar, sem hefur aldrei verið jafn rækilega í tísku. Guardians of the Galaxy fá líka nostalgíu yfir kassettum og annar hver hipster heimsins er búinn að kaupa sér filmumyndavél, helst sem sjaldgæfasta og sérviskulegasta. Ef þú hefðir spurt krakkana í Stranger Things um nostalgíu hefðu þau þurft að ná í orðabók, jafnaldrar þeirra í nútímanum færu létt með að skrifa alla vega BA-ritgerð um fyrirbærið.

En aftur að laufunum föllnu. Þetta er hugljúf mynd hjá Kaurismäki og launfyndin að vanda. Manni þykir vænt um Önsu og Holappa – hvernig er annað hægt með þessi nöfn – og höfum gaman af karókímeistaranum Huotari, drykkjufélaga Holappa. Óréttlát örlög þessara verkamanna má svo oftast rekja til fyrirtækjaeiganda sem eru fyrst og fremst aular, minna mest á misheppnaða smáglæpamenn með allt niður um sig, og því fer oftast allt í hundana.

Það er að segja, það er ástæðan hjá Önsu, sem sinnir sínu starfi ávallt af alúð. Ástæðan hjá Haloppa er einfaldlega drykkjan. Sem virkar framan af rómantísk og launfyndin, eins og oftast í myndum Kaurismäkis, en hægt og rólega fer að glitta í skuggahliðarnar. Og mann fer jafnvel að renna í grun að þetta sé ævisögulegasta mynd leikstjórans til þessa, við höfum jú öll heyrt okkar sögur af epískum fylleríum þessa frægasta leikstjóra Finnlands.

Trainspotting 3: Feðginasöngur

En förum þá bara alla leið aftur á tuttugustu öldina, á eina af þessum fáum bíómyndum sem raunverulega fönguðu samtímann í öllum sínum ómöguleika. Þið munið þetta:

„Veldu líf. Veldu starf. Veldu feril. Veldu fjölskyldu. Veldu risastórt helvítis sjónvarp, uppþvottavél, bíla, geislaspilara og rafræna dósaopnara.“ Af hverju missti ég af þessum dósaopnurum?

En Rent Boy kaus að velja ekki lífið. Hann kafaði í klósettið, hann setti allt ólöglegt sem hann fann upp í nösina eða kjaftinn eða beint í æð með næstu sprautu og þegar myndin kom út var Ewan McGregor svo sannarlega ekki á þeim buxunum að velja sér fjölskyldu. Eða hvað?

Því bókstaflega í sama mánuði og Trainspotting kom í heiminn kom Clara McGregor í heiminn. Og eftir nostalgíutripp í Trainspotting 2 erum við komin í Trainspotting 3, þótt vissulega sé hún ekki formlega hluti af seríunni og heiti því listræna nafni You Sing Loud, I Sing Louder.

Þetta er feðginamynd. Þau Clara og Ewan eru í mynd nánast allan tímann – og haldiði að Rent Boy sé ekki orðin þurr – en dóttirin getur varla um neitt annað hugsað en næsta skammt. Fjölskyldubölvunin hefur náð henni, titill myndarinnar getur átt við þau bæði. Þau reyna að toppa hvort annað í neyslunni, dóttirin bókstaflega í núinu, pabbinn með sögum úr fortíðinni sem hann tekur þó alltaf rækilega fram að hann sé ekki stoltur af. Og fer svo sem ekki í smáatriði, sem er óþarfi, stelpan fékk nasaþefinn og er að fylla sjálf upp í eyðurnar núna.

Þetta er vegamynd sem gerist daginn eftir. Daginn eftir óverdósið. Þau eru á vegum úti, stelpan reynir ítrekað að flýja, daginn eftir að það var pumpað upp úr henni á spítalanum. Pabbinn þekkir þetta, en samt ekki, þetta er heimur sem hann hefur fjarlægst, dóttir hans er sömuleiðis of fjarlæg.

Það birtast reglulega glefsur úr gömlum heimavídeóum, frá hamingjusamari fortíð, myndin speglar á sinn hátt Aftersun sem fjallaði líka um tragískt en þó ástríkt samband feðgina en sú gerðist í fortíðinni og sýndi okkur leiftur úr nútíðinni.

En þótt þau þoli hvort annað ekki þá ná þau ekki heldur að fela væntumþykjuna. Þar hjálpar vitaskuld að vera alvöru feðgin þótt það sé ekki alveg sjálfgefið, dóttir Idris Elba fékk jú eins og frægt var ekki hlutverk dóttur Idris Elba í nýju Balta-myndinni Beast, þótti ekki nógu sannfærandi í einmitt því hlutverki að vera dóttir Idris Elba.

En Clara McGregor er engu síðri leikari en pabbi gamli og það gneistar á milli þeirra, væntumþykju, pirringi, reiði, og þótt hún leiki allt öðru vísi fíkil en Rent Boy þá er hún engu minna sannfærandi þótt vissulega fái hún ekki jafn stórkostlega ræðu. Þetta er lágstemmdari og natúralískari mynd en Trainspotting. Fyrir utan aðalleikarann og umfjöllunarefnið eru þær vissulega gjörólíkar.fre_20230822_155725849

Þetta er líka prýðileg vegamynd, hér fáum við þessa Ameríku endalausra þjóðvega og smábæja með alvöru sveitavargi, fólk sem þig langar ekki endilega í partí til en ert sannarlega tilbúinn til að fá að sjá þau djamma í bíó á milli þess sem þau kjósa sinn Donald.

Og eigum við ekki bara að segja að Ewan sé launsonur Akis Kaurismäkis, bara svona svo við getum búið til fallegt fíkla-fjölskylduboð úr myndunum tveimur?

Hvolpaástin snýr afur

En aftur að núinu í nútímanum. Öllum reglum fylgja undantekningar og Past Lives verður seint sökuð um að tengja sig ekki við tímann. Þetta er rómans og ekki bara hvaða rómans sem er, fáar amerískar indímyndir hafa verið hlaðnar jafn miklu lofi það sem af er ári, þetta var stóri hittarinn á Sundance og verður örugglega með í Óskarsumræðunni í haust. Verðskuldað, vel að merkja.

Myndin hefst í Suður-Kóreu þar sem þau Nora og Hae-Sung eru æskuvinir. Smá skot er kannski að kvikna en þau eru enn aðeins of ung. En svo ákveða foreldrar Noru að flytja til Ameríku og þar sem við erum ennþá á síðustu öld þá skiptust þau ekki á netföngum né tengdust á samskiptamiðlum og týndu því hvort öðru í mannhafinu sem náði sjaldnast yfir hið raunverulega haf áður en sæstrengir voru lagðir á milli.

Nema hvað, dag einn hafa þau fullorðnast og eru komin á internetið og gripin nostalgíu eftir fortíðinni og eftir krókaleiðum tekst það, þau finna hvort annað. Hann ennþá í Kóreu, hún orðin afskaplega amerísk, talar varla kóresku nema við mömmu sína, og nú, skyndilega, við hann.

Þau tala og tala og tala og það er alúð lögð í tækni tímans, maður man hæga tenginguna á Skype sem enginn heilvita maður notar lengur, taktinn í internetinu sem var svipaður en samt á einhvern einkennilegan hátt öðru vísi, aðeins hægari.

Það kviknaði eitthvað þarna fyrir áratug yfir sæstrengnum en hvorugt þeirra stökk þó til og keypti sér miða yfir hafið fyrr en tíu árum seinna. Um þetta er myndin. Þetta er mynd um langtímasamband sem nær aldrei að verða alvöru samband, til þess er fjarlægðin of mikil, plönin of ólík, þau of ólík. Samt er taugin á milli sterkari en öflugasti sæstrengur, þau Greta Lee og Teo Yoo eru með þúsund vatta kemistríu sem Nora og Hae-Sung, en orkan er samt oftast á bak við, ósýnileg.

Titillinn vísar í in-yeon, kóresku útgáfuna af sálufélögum í gegnum framhaldslíf, þar sem tengsl sálnanna geta verið missterk eftir lífum, þar sem framhaldslífin eru undirlögð tilviljunum alheimsins; í hvaða landi þú býrð, hvaða hverfi, hvaða skóla eða kaffihús þú stundar; þessum öflum sem skella bæði ólíku og líku fólki saman og segja þeim svo að þau hafi sjálfstæðan vilja.

Það er sannarlega eitthvað göldrótt við þessa mynd og fyrir alla sem hafa átt einhvers konar rómans sem fjarlægðin eyðilagði, þá eru fleiri en ein og fleiri en tvær senur ískyggilega kunnuglegar.

Það er vísun í Eternal Sunshine of the Spotless Mind snemma í myndinni og það er merkilega viðeigandi, af því þetta er mynd um fólk sem getur ekki gleymt. Ekki einu sinni á milli lífa.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum þann 22. ágúst.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson