Á Skjald­borg ferð­ast mað­ur til Pat­reks­fjarð­ar og það­an til Moskvu og Mjan­mar, á sjó­inn, til Tálkna­fjarð­ar og í greni Hagaljóns­ins sjálfs. En kannski mest inn­ávið. Á þess­ari há­tíð ís­lenskra heim­ilda­mynda eru menn í sjálf­skoð­un þessa dag­ana, en finna sig auð­vit­að á Skjald­borg, und­ir vök­ulu eft­ir­liti hafs­ins og krumma. Og svo voru verð­laun­in – Heima­leik­ur­inn fékk Ein­ar­inn, áhorf­enda­verð­laun há­tíð­ar­inn­ar, Skuld, sem fékk hvatn­ing­ar­verð­laun dóm­nefnd­ar, og Soviet Barbara, sem fékk Ljós­kast­ar­ann, að­al­verð­laun dóm­nefnd­ar.

Þetta byrjar ekki vel. Við sitjum í ferjunni Baldri, sem er venjulega eins og hálfgerður formáli hátíðarinnar, þegar maður byrjar að hitta alla gömlu Skjaldborgarana – og fólk er að tala um að fara í eitthvað praktískt nám, að það sé búið að gefast upp á heimildamyndagerð eftir enn eitt gjaldþrotið og sé jafnvel að íhuga að fá sér alvöru 9 til 5 vinnu og hætta þessu harki.

Er kulnunin að ná okkur öllum, er harkið að buga okkur? Íþróttamenn hætta á besta aldri af því líkaminn hefur fengið á sig of mörg högg. Heimildamyndargerðarmenn hætta þegar heimabankinn er búinn að fá á sig of mörg högg.

En það er enn von. Mögulega verða hálfgerð kynslóðaskipti á þessari hátíð, og þótt gamla liðið hafi virkað dálítið bugað í bátnum þá kemur gamla blikið hægt og rólega aftur í augun þegar Patreksfjörður nálgast. Þau eru alltaf að fara að byrja aftur, bíófíknin sleppir klónum ekki svo glatt. Svo rennum við inn í þorpið hans Jóns úr Vör, inn í annað tímabelti. Og allt breytist. 

Á fyrstu hátíðunum var djókað um sérstakan Skjaldborgartíma, sem gerði fátt annað en að rugla fólk í ríminu, en það var samt sannleikskorn í þessu. Skjaldborgartími er ekki beint annar tími, heldur miklu frekar önnur vídd – vídd þar sem fólk þarf skyndilega ekki að sofa lengur, á fleiri trúnó við fleira fólk en restina af árinu samanlagt og tekst hægt og rólega að gleyma öllu hversdagsstressinu. Fólk lítur varla á símana sína og ef það gerist, ef mikilvægur vinnupóstur pípir í símanum, þá yppta menn öxlum – það sem gerist utan Patreksfjarðar skiptir engu máli fyrr en maður yfirgefur þorpið.

Hátíðin var svo sett eftir góðan kvöldmat á Stúkuhúsinu (sem stendur sem betur fer ekki undir nafni) og í kjölfarið á ljóðrænum sögum frá Mjanmar tók opnunarhófið á Flakinu óvænta stefnu þegar Gunnar Tómas frá kvikmyndasafninu kvaddi sér hljóðs og sagðist ætla að sýna gömul brot úr fórum safnsins. Ég hafði ekkert mikla trú á að hann myndi ná að halda ró á mannskapnum, sem var farinn að mýkjast upp og flestir komnir í kjaftagírinn – en Gunnar Tómas sýndi að mögulega er besta tegundin af uppistandi að sýna gamlar svart-hvítar klippur frá Íslandi um miðja síðustu öld og segja brandara á milli, eitthvað sem maður hefði varla trúað að óreyndu.

En svo seig á ógæfuhliðina. Veðrið var ansi þungbúið og hið ótrúlega gerðist, fólk fór að tínast út og fór snemma heim. Svo vöknuðum við öll vel útsofin í fyrstu morgunsýningarnar og það leit sumsé út fyrir að Skjaldborg væri að breytast í óhóflega þægilega hátíð – en svo hurfu skýin hægt og rólega og maður finnur á sér að svartsýn veðurspáin myndi ekki rætast, enda rættist svo sannarlega úr þessu.

Framan af hátíð var áherslan á stuttmyndir og verk í vinnslu. Framan af var uppáhaldsmyndin mín sú fyrsta sem var sýnd, Hlemmur mathöll, skemmtilegt portrett af því hvernig gamli og nýi Hlemmur kallast á. Í Mathöllinni fáum við skemmtilegar samræður nokkurra fastagesta, en fyrir utan eru gömlu fastagestirnir, fíklarnir, alls ekki sáttir við að eitt af því fáa sem þeir þó höfðu sé tekið af þeim.

Verk í vinnslu – eða Vív eins og Sigurður Pálsson heitinn var vanur að kalla það – var næst á dagskrá, en sá dagskrárliður ruglar tímaskynið enn meira, enda ófáar myndir sem maður hefur séð hér öll þessi ár, bæði á grunnstigum og svo löngu seinna tilbúnar. En þýðir líka að maður hlakkar alltaf til þegar dagskráin er kynnt, verður eitthvað af mest spennandi Vív-um fyrri ára tilbúið fyrir þessa hátíð? Það óvenjulega við Vív þessarar hátíðar var að stuttmyndirnar runnu dálítið saman við Vív-ið. Það er vissulega ekkert nýtt að maður sjái stuttmynd sem virkar eins og skissa fyrir lengri mynd, en á þessari hátíð sögðu einfaldlega ansi margir leikstjórarnir í umræðum eftir á að það væri einmitt tilfellið, þau væru rétt að byrja að rannsaka viðfangsefnið og lengri útgáfa væri á teikniborðinu, eða allavega óræð hugmynd.

Svo kom hádegishlé þar sem allir endasentust hinum megin í bæinn og borðuðu sjoppufæði á hraða hýenunnar svo þeir næðu nú aftur tímanlega fyrir næsta bíóskammt, og því rétt að biðla til framtakssamra unglinga á Patró að byrja aftur að selja pylsur fyrir framan bíóið í fjáröflunarskyni. Það er miklu betra kerfi og ég lofa að kaupa nokkrar, með öllu nema hráum, takk.

Persónulegar kvennasögur, skjaldbaka og bóndi

En nú verður þetta persónulegt. Næstu fimm stuttmyndir voru nefnilega allar afskaplega persónulegar, snertu annaðhvort á eigin tráma eða tráma þeirra sem stóðu leikstjórunum næst – og eftir sýningu komu leikstjórarnir fimm upp – allt ungar konur. Einlægnin virkar best þegar hún fer alla leið, er hrá og grimm, og það heppnaðist best í Super Soldier Örnu Tryggvadóttur, þar sem tvítug stúlka lítur aftur og skoðar líf sitt sem langveikt barn. Svona myndir eru kannski oftar gerðar af aðstandendum eða eldri kvikmyndagerðarmönnum, en það að Arna segi söguna sjálf og leikstýri og finni eigin rödd er helvíti áhrifaríkt, þótt það hefði auðvitað aldrei virkað nema af því Arna er fjandi flinkur leikstjóri.

Mynd: Patrik Ontokovic

Þá er líka rétt að nefna tvíburamyndina Skessusystur, um tvíbura sem vilja helst vera sem lengst hvor frá annarri en ákveða að hlaupa hvor sína 70 kílómetrana að Skessugarði, enda segir þjóðsagan að önnur skessan hafi búið við sjó og hin við jökulinn. Leiðirnar eru ólíkar og systurnar líka, alls engir óvinir en vilja fara allt aðrar leiðir í lífinu. Eftir mynd heyrðum við að takmarkið væri að senda myndina (eða lengri framtíðarútgáfu af henni) á sérstakar hátíðir fyrir íþróttaheimildamyndir. Aðallega af því slíkar hátíðir ku vera ansi karllægar og því væri gott móteitur að hafa hlaupamynd um tvær konur sem snúast minnst um hlaupin sjálf og meira um þjóðtrú, sjálfsleit og systrabönd. Og raunar ástæða til að staldra hér við og spyrja sig hvort það sé ekki tímabært að við bóhemarnir förum að taka okkur pláss í orðræðunni um íþróttir og hreyfingu. Ég held nefnilega að fæstum á Skjaldborg finnist neitt ógurlega gaman að hlaupa eða lyfta þegar þetta snýst allt um kílómetra og kíló og prósentur eða aðrar mælieiningar raunvísindanna, en hugur og líkami eru jú eitt og kannski tímabært að leita leiða til að flétta skáldskaparlistina betur inn í spriklið, finna flaneur-pælinguna í næstu sundlaug eða næsta hlaupi, gefa strengjunum og vöðvunum skrítin og skemmtileg nöfn.

En afsakið útúrdúrinn, en Skjaldborg er hátíð útúrdúranna, hún gerist fyrst og fremst á milli mynda og alveg sérstaklega eftir mynd – í öllu þessu sem verður vitaskuld ekki sagt frá í pistlinum, because what happens in Skjaldborg stays in Skjaldborg.

En nú er komið að því, besta skoti hátíðarinnar. Skjaldbakan er samstarfsverkefni fyrir nemendur í 5.–7. bekk á Patró, Seyðisfirði og Reykjavík og þrjár myndir þessara nemenda voru sýndar næst. Graffítí líf átti óvæntasta meta-móment hátíðarinnar þegar strákarnir sem leikstýrðu beindu kamerunni óvænt að tökufólki Stöðvar 2, en besta skotið af öllum skotum hátíðarinnar var í sögunni um Bob the Axolot. Þar skráfestir Jónatan Dreki líf salamöndrunnar sinnar, hans Bob, en um miðja mynd beinir hann óvænt myndavélinni að sjálfum sér og tekur skemmtilegan mónológ þar sem andlitið er að hálfu bak við stofuborð. Það er eitthvað alveg göldrótt við sjónarhornið, hvernig hann rammar þetta inn, nær þessu sjónarhorni barnsins – aðeins fyrir neðan heiminn, bókstaflega, enda öllu minni en við þessi fullorðnu. Oftast – ekki þó Flóki, aðalpersóna Hvar endar þetta?, sem sýnd var daginn eftir. Hann er nefnilega bara fjórtán ára, en 196 sentimetrar á hæð, og mamma hans Valka skrásetur í myndinni hvernig sé að vera svona unglingsrisi.

En aftur að laugardeginum – því strax eftir Skjaldbökuna var Bóndi Þorsteins Jónssonar sýnd. Það var skemmtilegur kontrast að fylgja verkum yngstu leikstjóra hátíðarinnar eftir með verkum þess elsta, en sýningin var hluti af dagskrá Kvikmyndasafnsins á hátíðinni og manni fannst maður eiginlega vera að horfa á frummynd íslenskrar kvikmyndagerðar. Myndin er frá 1975 og lýsir lifnaðarháttum sem þá þegar voru orðnir ævafornir og við það að deyja út, og maður skynjar hreinlega þá skuld sem ófáir íslenskir kvikmyndagerðarmenn allar götur síðan standa í við mynd Þorsteins. En um leið mætti skuldin kannski vera aðeins meiri við þá samtíðarmenn Þorsteins sem ortu um verksmiðjur og borgarlíf, en það er önnur saga. En talandi um Skuld, það var einmitt nafnið á aðalmynd kvöldsins og fyrstu verðandi verðlaunamyndinni.

Fyrir hverju er barist?

„Ef þú tókst ekki eftir því þá var þetta mjög pólitísk mynd,“ sagði Kristján Torfi, ein aðalpersóna myndarinnar, þegar hann brást við spurningu úr sal um það hvort hægt hefði verið að gera pólitískari mynd um smábátaveiðar, þar sem Kristján ákveður ásamt kærustunni sinni, henni Rut Sigurðardóttur, leikstjóra myndarinnar, að hefja smábátaveiðar. 

Þau forðuðust vissulega að nota orðið „kvóti“, en pólitíkin er þarna, hún er undirliggjandi – sem sjálfsagt var hvatinn að spurningunni – en lykilþáttur í pólitík myndarinnar er kannski að sýna hvað smábátaveiðar geta verið skemmtilegar og gefandi. Við landkrabbarnir erum nefnilega mörg alveg sammála sjónarmiðum smábátaveiðimanna, en við höfum kannski ekki haft neitt sérstaka samkennd með málstaðnum, við skiljum illa af hverju þetta fólk fær sér ekki frekar bara þægilega og skemmtilega innivinnu, og sú ranghugmynd sprettur sjálfsagt út frá því hvað togaraveiðar og frystihúsavinna getur virkað óspennandi á mann. Það er vissulega hægt að moka inn pening, en erfiðara að moka inn hamingju – en skilaboð myndarinnar eru einmitt þau að smábátaveiðarnar snúist einmitt miklu frekar um gleðina. Að vera einn með sjálfum sér eða góðum félögum, einn með náttúrunni, að upplifa öll þessi veður, að finna tenginguna við forfeðurna, að hlusta á öll hlaðvörp heimsins á meðan maður veiðir fisk eða dreymir alla dagdrauma heimsins – já, eða jafnvel hlusta á músík Kristjáns Torfa, sem á hér nokkur frábær gítarlög sem mér skilst að komi á allar helstu streymisveitur með haustinu, lög sem maður ímyndar sér að hafi mörg orðið til þarna úti á ballarhafi.

Með öðrum orðum, við sjáum hverju þau eru að berjast fyrir.

En afsakið, Skjaldborgartíminn gerir einnig að verkum að það er nánast ómögulegt að skrifa þennan pistil í réttri tímaröð – en ég á auðvitað eftir að segja ykkur allt um hina rómuðu plokkfisksveislu í boði kvenfélagsins Sifjar! Og afsakið aftur, ég verð víst að bíða næstu hátíðar til að gefa ykkur alvöru skýrslu um þá veislu, enda rétt náði ég að fylla á einn disk í flýti rétt fyrir næstu mynd. Því á leiðinni í Plokkfiskinn var ég plataður í greni Hagaljónsins. Þetta er blessunarlega vinalegt ljón (og tæknilega séð heimamaður með töff viðurnefni), gerir ekki flugu mein, en finnst bara gaman að veiða saklausa ferðalanga í verksmiðjugeymsluna sína, sýna þeim glæsileg mótorhjólin og segja þeim söguna af því hvernig ljónið lifði af lífshættulegt mótorhjólaslys nýlega og var komið á fætur eftir beinbrot á undraverðum tíma – og svo gaf ljónið okkur vitaskuld Hagavaðal, þann goðsagnakennda og görótta drykk sem Þorsteinn Bachmann skenkir mönnum í Á annan veg með orðunum: „Þetta er Hagavaðallinn, einhver albesti landafjandi sem þið eigið nokkurn tímann eftir að smakka! Þríeimað helvíti héðan úr sveitinni!“

Vaðallinn sá á að sjálfsögðu uppruna sinn hérna, hjá ljóninu. Svo ákvað loks hinn heimamaðurinn sem var með í för að skora á Hagaljónið í sjómann, og þeir veittu mér góðfúslegt leyfi til að mynda, þannig að nú vitið þið að sigurmynd næstu Skjaldborgar verður auðvitað stuttmyndin Sjómann, enda undirliggjandi dramað meira en í flestum þriggja tíma heimsstyrjaldarmyndum. 

Fleira get ég hins vegar ekki sagt ykkur frá laugardagskvöldinu, because what happens in Skjaldborg stays in Skjaldborg, muniði, en ég skal þó hvísla því að ykkur að auðvitað fórum við pílagrímsferð í Pollinn á Tálknafirði, þetta krúnudjásn íslenskra heitra potta – og ég minnist aðallega á þetta af því ég er að leita að fjárfestum fyrir þá bisnesshugmynd mína að taka prófílmyndir af fólki þarna fyrir Tinder, því í Pollinum verða jafnvel mestu greppitrýni gullfalleg, enda finnur Pollurinn fegurðina sem býr í okkur öllum. Og svo ég hvísli aðeins lægra að ykkur, hernaðarleyndarmál, en þar sem ég nennti ekki aftur í skó eftir þetta tók ég tásumynd af mér á Patreksfirði með gott útsýni yfir fjörðinn. Og ef nafni minn í Seðlabankanum hefur áhyggjur af tásumyndum frá Tene, bíðið bara þangað til þær fara að streyma frá Vestfjörðum.

Testósterón og estrógen

Svo rann upp sjálfur hvítasunnudagur, mikilvægasti helgidagur ársins, enda dagurinn sem formlegri dagksrá Skjaldborgar lýkur. Og við byrjuðum á að fara á Tarfinn, sem fjallar um samnefndan mótorhjólakappa í Outlaws. Þetta er forvitnilegur karakter, við fáum innsýn í erfiða æsku en líka ofbeldisfullt líf – en auðvitað vitum við að hann er ekki að segja okkur allt. En það er örlítið erfitt að ræða þessa mynd, hún var alls ekki tilbúin, eins og leikstjórarnir sögðu okkur eftir mynd, það voru ákveðin tækniatriði sem átti eftir að fínstilla, en það sem þarf þó að vinna mest með að fínstilla er siðferðiskompás myndarinnar, finna dýptina, af því sem komið er þá er hún einhvers staðar á mörkum þess að vera málsvörn glæpamanns og afhjúpun glæpamanns. Það eru forvitnileg mæri og þarf að fínstilla betur, hvaða sögu af þessum Tarfi vilja þær segja okkur og hvaða sögu þurfum við helst að heyra?

Eftir Tarfinn kom svo ein af perlum hátíðarinnar, Claire de lune, 5 mínútna stuttmynd af stelpum á trúnó á djamminu. Þessar tvær myndir tala mjög skemmtilega saman, eftir yfirþyrmandi testósterónið í Tarfinum þá var gott að fá góðan skammt af estrógeni í næstu mynd. Hún er líka svo hugvitssamlega römmuð inn – ung stúlka í djammgallanum labbar inn í næstu kirkju og spilar undurfagra tóna á flygilinn, sem hljóma svo áfram undir djammsenum af henni og vinkonum hennar, þar sem díalógurinn birtist okkur að mestu í orðskviðum á speglum skemmtistaða, skráða með varalit. Og í þetta skiptið hitti textasmiður hátíðarbæklingsins naglann á höfuðið: „Portrett af orkunni sem myndast inni á kvennaklósettinu á skemmtistöðum. Endalaus hrós, traust og ást. Engin samkeppni.“ 

Næsta glíma var svo við þrívíddartæknina í myndbroti af væntanlegri Erró-mynd og eftir nokkrar myndir til, að ógleymdum frábærum einleik/fyrirlestri Friðgeirs Einarssonar um hlutina í geymslunni, var komið að fiskiveislunni. En eins og venjulega tafðist ég á leiðinni í matinn, í þetta skiptið þurfti ég að bjarga tveim stúlkum um bensínbrúsa eftir að þær urðu bensínlausar nálægt Látrabjargi. Ég vissi vitaskuld ekki neitt um vestfirska bensínbrúsa, en vissi að rétti heimamaðurinn væri með öll svörin – og þegar ég var búinn að finna einn af helstu reddurum þorpsins og bera upp spurninguna þá náði hún hreinlega ekki að svara þegar bónfús heimamaður stökk fram og bauðst vitaskuld til þess að gefa bara dömunum sinn bensínbrúsa og skutlast með þær. Enda er Skjaldborg samfélag þar sem hlutunum er einfaldlega reddað.

Dáið er allt án drauma

En hverfum aftur til ársins 1996. Það er nýbúið að leggja splunkunýjan grasvöll á Hellissandi og ætlunin er að vígja völlinn í bikarkeppninni í fótbolta seinna um sumarið. Nema hvað, Reynismenn fá útileik gegn Golfklúbbi Grindavíkur – og tapa 10-0. Þetta skelfilega tap leggst svo á sálina á mönnum að Reynismenn skrá sig ekki aftur til leiks fyrr en aldarfjórðungi síðar, þegar sonur þjálfarans og mannsins sem hafði umsjón með að leggja völlinn ákveður að þetta gangi ekki lengur, nú sé kominn tími á að vígja helvítis völlinn.

En það er meira en að segja það að púsla saman alvöru fótboltaliði í pínulitlu plássi eftir öll þessi ár. Hópurinn er blanda af mönnum sem eru löngu komnir á virðulegan bumbuboltaaldur og kornungum piltum úr 2. og 3. flokki. Hægt og rólega fer þó að komast mynd á hópinn, Portúgali sem er nýfluttur í plássið reynist ansi liðtækur og svo gæti jafnvel verið möguleiki á að fá fyrrum landsliðsmann úr næsta bæ með í ævintýrið?

Mynd: Patrik Ontokovic

Þessi undirbúningur verður svo til þess að einn lítill leikur, sem kæmist öllu jafna varla á íþróttasíður blaðanna, verður tilvistarspurning fyrir heilt sveitarfélag. Hver erum við – og getum við eitthvað í fótbolta? Þetta er líka saga um feðga sem saman reyna að uppfylla drauma hvor annars, en um leið um alla sem nokkru sinni hafa æft fótbolta – já, eða handbolta eða á þverflautu eða hvað sem er – og hvernig það skilur eftir einhverja óræða drauma í beinunum, þótt stundum þróist draumurinn með hækkandi aldri og meira raunsæi úr atvinnumannadraumum í það eitt að komast í gegnum heilan leik – og helst að tapa ekki aftur 10-0.

Þannig sýnir mynd hvernig fótboltalið staðarins getur á dularfullan hátt verið leiðin að hjarta lítilla plássa, draumum þess og þrám – svo ekki sé minnst á samtakamáttinn og samstöðuna þegar best lætur. Eitthvað sem Skjaldborgarhátíðin sjálf er auðvitað dæmi um fyrir Patreksfjörð.

Svo er lokaatriðið eftirminnilegra en í flestum Hollywood-íþróttamyndum, og ýmis lykilatriði í myndinni kristallast þar best – og engu síðra lokaatriði er svo eftir mynd, þegar rappararnir knáu Davíð og Hjörtur, sem sungu stuðningsmannalag Reynis í myndinni, bjóða upp á óvænta ör-tónleika. Heimaleikurinn vann svo vitaskuld Einarinn, áhorfendaverðlaun hátíðarinnar, enda langbesta mynd hátíðarinnar.

Þegar stríðið truflar listina

Svo kom að lokamynd hátíðarinnar; Soviet Barbara. Þetta er mynd um bjarmalandsför Ragnars Kjartanssonar til Moskvu, þar sem hann endurgerir sápuóperuna Santa Barbara með rússneskum leikurum í Moskvu, óafvitandi að hann er staddur þarna kortér í stríð.

Eftir mynd töluðu kvikmyndagerðarmennirnir um að þetta hefði orðið allt önnur mynd en planið var, að þeir hefðu tekið helling af efni sem var svo aldrei notað – af þeirri augljósu ástæðu að stríðið skall á og sýningunni var snarlega hætt og samhengi verkefnisins í heild sinni skyndilega allt annað. 

En ég er hreinlega ekki sammála þeim, þetta er í öllum aðalatriðum sama mynd og þeir ætluðu að gera, ég var enn að bíða eftir stríðinu þegar lítið var eftir af mynd – og það kemur vissulega stuttur kafli í lokin um stríðið og eftirköst þess. En það virkar einfaldlega sem hálfgert viðhengi.

Ekki misskilja, það er ótrúlega margt gott í myndinni. Framan af fáum við mjög skemmtilega sýn á Ragnar sem listamann og sérstaklega um verkið sjálft. Ég skal alveg viðurkenna að mér fannst þetta glötuð hugmynd, en Raggi nær aðeins að sannfæra mig um að einmitt með því að vinna á þessum mörkum hins siðlega, sýna verk styrkt af ólígörkum Pútíns, að einmitt þar gerast stundum athyglisverðustu hlutirnir. Eins verður maður merkilega áhugasamur um að kynna sér betur ævafornt rússneskt málverk sem hefur haft mikil áhrif á Ragnar sem listamann, þótt við fyrstu sýn minni það lítið á hans eigin verk. Það er kannski aðeins of mikið af óþörfum talandi hausum inn á milli, þar sem listfræðingar og frægðarmenni skjalla Ragnar, hans eigin verk kynna hann og hæfileika hans ágætlega, skjall úr öðrum áttum er óþarfi.

Svo er auðvitað komið að hetjum myndarinnar. Masha úr Pussy Riot birtist óvænt og setur allt í uppnám. Þarna er Ragnar að hitta hana í fyrsta skipti og þarna áttar maður sig á því af hverju þeim verður vel til vina – Raggi er nefnilega sá eini á gervöllu safninu sem fer ekki á taugum við komuna. Masha er afslöppuð og sjarmerandi – og launfyndin á kostulegan hátt. „I‘m a police star,“ segir hún til dæmis um það að allar lögreglustöðvar Rússlands séu með mynd af henni uppi á vegg. En það eru allir eins og hengdir upp á þráð í kringum hana og sýningarstjórinn, sem áður hafði birst okkur sem elskuleg kona, hunsar hana algjörlega. Án þess þó að maður viti hvort það sé til marks um pólitík hennar, eða bara þá staðreynd að mynd af henni að vera vinaleg við þessa hryðjuverkakonu getur kostað hana vinnuna.

Stærsta hetja myndarinnar er þó dökkhærð og krullhærð blaðakona sem sést bara í hnakkann á í tvær mínútur. Eftir að ósköp grunnhygginn kollegi hennar klárar sínar aulalegu spurningar tekur hún við – og grillar Ragnar algjörlega með ákveðnum og gagnrýnum spurningum. Listamaðurinn kemur sæmilega út úr þessu, er vissulega óviðbúinn og fipast dálítið, enda búinn að fá mestmegnis bitlausar kurteisisspurningar til þessa. En hann nær jafnvæginu aftur og sú staðreynd að hún spyr hann um Pussy Riot stuttu áður en Mischa birtist hjálpaði honum sjálfsagt við að halda kúlinu þar. En blaðakonan er eldklár og beinskeytt, og í raun algjör véfrétt, við skynjum alveg að hún ein nær að lesa rétt í vinda tímans, hún sér hvað er í vændum.

Og svo kemur stríð. Þar innan um eru góð skot, eins og magnað skot RÚV af Ingólfi Bjarna í upphafi stríðs, að brotna saman undir oki hins heimssögulega. Eins er forvitnilegt að sjá allt þetta fólk með grímur í gegnum myndina, um það bil fram að stríði, og sjá þannig hvernig helstu viðburðir nýliðinnar heimssögu skella þarna saman. En þetta er bara ekki nóg, þetta er hálfkák, líklega hefði einhver þurft að ákveða bara: við þurfum að fresta myndinni og koma stríðinu inn, gera þann hluta almennilega. Bæði með að vinna þann hluta betur, en jafnvel líka með að skoða hvort hægt væri að flétta þann þráð inn í upptaktinn af stríðinu. Það hefði nefnilega getað verið uppskrift að miklu magnaðri mynd, eitthvað sem vafalaust hefði mátt finna viðbótarfjármagn í einhvern veginn. Svo kemur kreditlistinn og þar er tekið fram að þriðjungur þeirra sem störfuðu á safninu hafi verið Úkraínumenn.

En hvar voru þeir allan þennan tíma? Þetta afhjúpar veikleika myndarinnar, og ansi margra annarra verka og umfjallana um stríðið raunar; þótt Úkraína sé með stærstu löndum Evrópu þá vita Vesturlandabúar oft ótrúlega lítið um landið oft og tíðum, sérstaklega ef miðað er við þekkingu þeirra á Rússlandi. Hvert bókhneigt mannsbarn getur þulið upp nöfn Dostojevskíj, Tolstoj og Púshkín – en hversu margir þekkja Taras Sjevtsjenko og félaga? Þessi skekkja veldur því að jafnvel þeir sem eru Úkraínumegin í stríðinu eiga samt erfitt með að skilja stríðið nema með Moskvu sem miðdepil. Menningarnámið hafði heppnast fyrir löngu.

En þetta er orðið alltof langt og aðalfjörið er eftir. Ungir piltar sem unnu bingóið grunsamlega oft, æsispennandi limbókeppni, dansfífl sem eru stirðbusar í bænum breytast í John Travolta á Patreksfirði, endalaust trúnó þar sem er grátið og huggað og hlegið og rifist og fallist í faðma, og morgunmatur þar sem sumir mæta nývaknaðir en flestir þó bara mátulega nýkomnir úr síðasta eftirpartíinu. Og stundum á rétt hótel, en auðvitað ekki alltaf.

Í staðinn fyrir að bruna í bæinn eftir mynd þá tókum við nokkur aukanótt á Patró, drukkum alltof mikið te og alltof mikið kaffi og horfðum á krumma taka stórkostlegt uppistand í húsi þar sem virðulegur köttur ræður ríkjum og maður sér ljósastaurinn hans Jóns úr Vör út um gluggann, ljósastaurinn þar sem eitt sinn stóð hús skáldsins.

Skjaldborg er haldin á hvítasunnu af því þá er mánudagur frídagur, tilvalinn til að bruna í bæinn, og Skjaldborg er líka hátíðin þar sem mánudeginum er ítrekað frestað, þegar vinnupóstarnir taka að berast tökum við ekki eftir þeim og ypptum öxlum, þetta er bara hin víddin, þessi í Reykjavík. Við erum enn high on Skjaldborg og það endist langt fram í vikuna, svo hellist raunveruleikinn yfir mann og maður þarf að klára þessa grein sem maður hafði lofað, ýta á send og sofa svo alla helgina og dreyma næstu Skjaldborg.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin birtist upphaflega í Heimildinni 2. júlí.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson