Það er klassísk gryfja bíómynda um sannsögulega atburði að vera nánast eins og myndskreyting á atburðunum fyrir þá sem þegar þekkja vel til. Þá sem vilja kannski helst bara sjá söguna sem þeir þegar þekkja lifna við á hvíta tjaldinu. En þá er hætt við að ástæður atburðanna og persónusköpun sögufrægra persóna fari fyrir lítið – og það er akkúrat vandamál Bræðra (Bratři), sem er framlag Tékka til Óskarsverðlaunanna þetta árið.
Myndin fjallar um Mašín-bræðurna og samverkamenn þeirra, sem voru andspyrnuhetjur í Tékkóslóvakíu snemma á kommúnistatímanum, nánar tiltekið árin 1951-3. Mašín-fjölskyldan var mögulega samanlagt einhver mesta andspyrnufjölskylda Tékkóslóvakíu – Josef, pabbi þeirra bræðra, barðist með tékknesku andspyrnunni í báðum heimstyrjöldum og var loks tekinn af lífi í þýsku fangelsi árið 1942, eftir að hafa verið hluti af frægum andspyrnuhóp, sem var kallaður Kóngarnir þrír (Tři králové). Bræðurnir Josef og Ctirad voru bara 15 og 13 ára þegar stríðinu lauk en fengu samt sérstaka orðu fyrir hugrekki í baráttunni gegn nasistum eftir stríðið – ódælir gagnvart valdinu strax þá.
En þegar kommúnistastjórnin tók völdin var studd í kengúruréttarhöld – og eitt það frægasta var þegar Milada Horáková (sem mátti þola að enn verri bíómynd væri gerð um sig nýlega) var dæmd til dauða, en hún og Zdena, móðir bræðrana, kynntust í Terezín fangabúðunum í stríðinu. Hún var bara einn af mörgum fjölskylduvinum sem hlaut þessi örlög og það æsti upp í bræðrunum andspyrnugenin – og fór svo að þeir ákváðu að fara í vopnaða baráttu gegn kommúnistayfirvöldum.
Eftir að hafa hlustað á Radio Free Europe og aðrar álíka stöðvar virtust þeir vera nokk vissir um að þriðja heimstyrjöldin væri á næsta leyti, það væri bara tímaspursmál hvenær barist yrði um Tékkóslóvakíu og önnur kommúnistaríki austursins, og þeir vildu hefja andspyrnuna áður en það myndi gerast.
Líklega var upphaflega planið að gera þetta helst án alls mannfalls – en þeir enda á því að drepa tvo lögreglumenn í aðgerðunum – og í kjölfarið varð enn meira mannfall á flóttanum seinna meir, þegar þeir reyna að flýja til Vestur-Berlínar.
Vandinn við myndina er hins vegar að öll þessi baksaga er afskaplega ruglandi í byrjun og persónusköpun bræðranna óttalega takmörkuð. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera ekki að lesa mér til um málið fyrirfram, ég væri jú að fara að sjá myndina á næstu dögum – en það voru hreinlega mistök, ég hugsa að ég hefði fengið töluvert meira út úr henni ef ég hefði lesið Wikipediu-greinina ítarlega fyrirfram, ekki eftirá.
Það sem myndin gerir vel er kannski helst þrennt. Í fyrsta lagi sýnir hún sýnir okkur hvernig það er einn ágætlega fær rannsóknarlögreglumaður á eftir bræðrunum – en hann fær einfaldlega alltof litla hjálp frá svifaseinu kerfinu. Bræðurnir og félagar þeirra eru engir snillingar, eiginlega hálfgerðir klaufar í þessu brölti öllu saman, sérstaklega til að byrja með, þannig að það þarf enn meiri klaufaskap til að ná þeim ekki.
Þá sýnir hún á einfaldan en áhrifamikinn hátt hve mikla hættu þeir eru að skapa hinum saklausu sem eftir sitja, móðurinni og systurinni, sem eru þegar búnar að missa ansi margt, en er núna refsað fyrir þeirra gjörðir. Mamman Zdena er einmitt vísir af athyglisverðustu persónunni, en hún fær á endanum alltof lítið pláss, en er þó best formaði karakterinn.
Loks er seinni hluti myndarinnar einfaldlega hasarmynd um flótta yfir landamæri – og að mörgu leyti fín sem slík – en það skiptir ekki máli hvort slík mynd er sannsöguleg eða ekki, þú þarft að byggja upp persónurnar fyrir flóttann, svo áhorfandi lifi sig betur inn í flóttann sjálfan.
Þetta með samkenndina er svo í raun lykillinn af myndinni; miðað við það litla sem myndin gefur manni er erfitt að sjá þá sem neitt annað en óbreytta morðingja, enda fórnarlömbin iðullega lögreglumenn eða landamæraverðir sem höfðu sjálfsagt fæstir neitt sérstakt til saka unnið. En þarna kemur vitaskuld forsagan til skjalana, tekst myndinni sannfærandi að fá mann til að skilja að þeir líta á þetta sem stríð – eða ekki?
Og það sem gerir málið sérstakt í tékkneskri sögu er einmitt þetta; eftir að kommúnisminn féll árið 1989 hlutu flestir andspyrnumenn öðlast sinn sess sem þjóðhetjur í baráttunni gegn óréttlátri alræðisstjórn – en þetta var sárasjaldan blóðug barátta, nema þá frá hendi yfirvaldsins, sem dæmdi ófáa andspyrnumenn til dauða og pyntaði enn fleiri. Þetta var ekki stríð, eða allavega ekki skilgreint sem slíkt – og því er málið eiginlega merkilegast vegna þess hve mjög menn skiptast í tvö horn, telja þá ýmist hetjur eða morðingja.
Það er ekki hægt að segja að myndin taki afstöðu til þess – eða minnist yfir höfuð á það – en með því að undirbyggja flóttann og persónusköpunina ekki betur þá er maður miklu frekar á þeirri línu að líta einfaldlega á þá sem morðingja. Nú er ég ekki að biðja um mynd sem baðar þá dýrðarljóma – en miklu frekar mynd sem opinberar manni betur þessa flækju, sem sannarlega er áhugaverð.
Ein besta tékkneska mynd síðustu ára, Ég, Olga Hepnerova (Já, Olga Hepnerova) fjallaði um fjöldamorðingja og var óhrædd við að sýna okkur hennar hlið, hvað fékk hana til að fremja morðin og maður fékk alveg samkennd með henni – þótt maður efaðist ekki í augnablik um að gjörðirnar væru rangar. Það vantar kannski meira slíkt hér, þar sem gjörðirnar eru mögulega öllu umdeildari ef djúpt er kafað.
Og það er hálfgerð synd hve sögulegir atburðir 20. aldar eru að fá slæma matreiðslu í þjóðarbíói Tékka þessi misseri. Milada var eins og áður sagði afleit og verst var líklega Masaryk (um soninn Jan, ekki forsetann T.G.). Þeir Václav Havel og Jan Palach sluppu hins vegar betur – Havel var fínasta mynd og Jan Pálach fékk mynd samnefnda sér sem var ágæt og mini-seríuna Burning Bush sem var sjaldgæft meistaraverk í nýlegum tékkneskum sögulegum myndum. Auk áðurnefndar myndar um Olgu Hepneróvu, þar sem aðalpersónan er skúrkur.
Og stóri skandallinn er auðvitað að hún sé send í Óskarinn, þegar Tékkar hefðu getað sent fantafína mynd á borð við We Have Never Been Modern, eða Úsvít, – sem smyglað var um hér.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson