Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Bókmenntir

Smygl-Völvan spáir í bókmenntaverðlaun

Smygl-Völvan ógurlega er oftast morgunsvæf en drífur sig þó alltaf snemma á fætur síðasta morguninn í nóvember, til að fá lánuð börn nágrannana og labba með þeim í skólann, laumast svo inn í einhvern bókelskan bekk og hlerar hvað börnin hafa að segja um jólabókafljóðið; hverjir eru nú að fara að fá tilnefningu fyrir bestu barnabókina á Íslensku bókmenntaverðlaununum?

„Hún Rán Flygenring er náttúrulega ennþá heit eftir Norðurlandaverðlaunin – þau Hjörleifur fá pottþétt tilnefningu fyrir Álfa,“ segir stelpa aftast og Bríet vinkona hennar, efnileg Rauðsokka, er sannfærð um að Ég þori! Ég get! Ég vil! verði þarna líka, enda segja þær augljóst mál að Linda sé algjör töffari.

„Svo er Áslaug Jóns að skrifa um handleggi þessi jólin, ekki skrímsli. Það kemur henni á listann,“ segir guttinn fyrir framan þær – en veltir svo fyrir sér hvort Arndís Þórarins eigi ennþá pláss í bikarskápnum og ályktar svo að hún geti nú ekki alltaf unnið. Hún sé samt mjög töff í rauðu, samanber nýlegt bókablað Heimildarinnar, skýtur tískugúru bekkjarins inn. „Já, en svo eru Bergrún og Hildur Knúts líka alltaf að vinna eitthvað.“ Þetta er snúið, að finna réttu blönduna af fastagestum og hinu óvænta – en þeir sættast á að Hildur muni líklega komast á listann.

„En hvað með Gunna Helga?“ spyr þá fyrirliði fótboltaliðsins. „Bannað að drepa, já, góður titill,“ samsinna félagar hans. „Rétt, en það eru stríð út um allt. Það virðist ekkert vera bannað að drepa lengur, því miður,“ segir þá vinstri vængmaðurinn og Gunni er afskrifaður þrátt fyrir góða sendingu upp kantinn.

„Svo ætlaði ég að fá Hrafnskló eftir Stefán Mána lánaða hjá Manna bróður en hann sagði að ég væri of lítill og það væri of mikið dóp og svoleiðis í henni fyrir mig,“ segir svo gothari bekkjarins og það má heyra á krökkunum að þarna sé meistaraverk vertíðarinnar mögulega fundið, en fullorðnar pempíur eigi aldrei eftir að fatta það. En hvað með Langafabókina eftir Leifsson? Hún fékk nú fínan dóm á Menningarsmygli …“ bætir hann svo við og málið er afgreitt, við erum komin með tilnefningarnar fimm:

Álfar – Hjörleifur Hjartarson / Rán Flygenring

Ég þori! Ég get! Ég vil! – Linda Ólafsdóttir

Allt annar handleggur – Áslaug Jónsdóttir

Hrím – Hildur Knútsdóttir

Langafi og jökullinn  sem hvarf – Þórarinn Leifsson

Hendur í hári glæpadólga

Þegar bjallann slær svo út í frímínútur ákveður völvan að lauma sér í burtu. Hún fékk einhverjar augnagotur frá tískulöggu bekkjarins, enda ansi rytjuleg orðinn, það er kominn tími á klippingu.

„Þarna ertu, loksins, rytjan mín,“ segir Súsanna þegar hún mætir. „Ég er búinn að hafa hendur í hári ótal glæpamanna í dag, en nú er tímabært að hendurnar komist í hárið á einni glæpavölvu.“

Eins og heyrist fór Súsanna í hárgreiðslumeistarann út af því hún elskar glæpasögur, elskar að hafa hendur í hári fólks og læra öll þeirra leyndarmál. Og dómnefndin kemur oft hingað í klippingu, kannski hafa þau talað af sér?

„Jú, auðvitað kom einn úr nefndinni – en hann passaði sig, lét lítið uppi. En var með palestínklút og það er náttúrulega búið að cancela Ragnari og Yrsu þessi jólin …“ segir Súsanna hugsi, en bætir svo við: „En Yrsa er samt með skárri titil en oft áður, kannski dugar það?“

Er Skúli þá bara að fara að verja Blóðdropann? „Nei, nei, það er alveg difficult second album í þessum bransa sko. En Arnaldur, hann er brjálaður yfir að hafa ekki fengið tilnefningu í fyrra. Back with a vengeance, kallinn!“ Og Stefán Máni kemst líka að. „Borg hinna dauðu sko, you don‘t mess with the dead!“

Hún veltir aðeins fyrir sér Jónínu Leós, Jóni Atla, Emil Hjörvar og Ragna eru líka nefnd. „En ég sé samt frekar Sólveigu og Evu Björg fyrir mér þarna, dómnefndarmaðurinn sem kom í klippingu í gær var dálítið á þeirra línu sko.“

En svo verður henni litið út í glugga þar sem veglegur kaktus breiðir úr sér og hrópar upp fyrir sig: „Völva, við erum að gleyma Snæa! Hann er að fara að vinna þetta, manneskja. Eða alla vega keppa við Arnald … æ, þá þarf ég samt að skera niður. Sorrí Yrsa!“

Sæluríkið – Arnaldur Indriðason

Borg hinna dauðu – Stefán Máni

Heim fyrir myrkur – Eva Björg Ægisdóttir

Miðillinn – Sólveig Pálsdóttir

Hin útvalda – Snæbjörn Arngrímsson

Paradísar-heimsbókmenntir og fræðilegar

Völvan lærði bókmenntafræði á sínum tíma og reyndi í mörg ár að ná að lesa allar bækurnar fyrir 1. desember og spá eftir því. En þrátt fyrir að hafa farið á ótal hraðlestrarnámskeið þá tókst henni ekki einu sinni að klára einn heilan flokk fyrir nóvemberlok og ákvað í kjölfarið að breyta um taktík; keypti sér notaða krystalskúlu, splæsti í besta reykelsið í bænum og ákvað svo að nýta sér nútímavísindi og crowdsourca þetta, og einmitt þess vegna þrammaði hún um bæinn daginn fyrir tilnefningar til þess að heyra í öllu helsta bókmenntafólki bæjarins.

Með nýja klippingu beint upp úr nýjustu tískublöðunum frá París hættir Völvan sér í kaffi á Þjóðskjalasafnið þar sem Ebenezer tekur á móti Völvu, hennar besti félagi úr bókmenntafræðinni. Eftir að hafa borgað honum fyrir kaffiþamb síðustu mánaða með fágætum galdraskræðum þá spyr hún lymskulega: „Jæja, Ebbi minn … hver er að fara að vinna þetta?“

„Nú, Þröstur Ólafs, það vita allir,“ segir Ebenezer og þurrkar neftóbaksleifar af skyrtunni. „En verður svosem forvitnilegt að sjá hverjir verða tilnefndir með honum. Já, og gæti verið pláss fyrir eina ævisögu í viðbót. Líklega ævisaga Jónasar læknis eða Baráttusaga Guðrúnar … skjótum á lækninn,“ segir Ebenezer og við fabúlerum um að jafn smellinn og titillinn og kápan er á Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg þá kunni dómnefndinn einmitt að hugsa að það virki of flippað fyrir virðuleg bókmenntaverðlaun. „En hvað veit maður, flippið er víða!“ skellir hann upp úr.

En séra Friðriks-bókin? Eru ekki allir að tala um hana? „Jú, jú, en nennir einhver að lesa 600 síðna bók um mann sem er þegar búið að færa í næstu geymslu? Ég held ekki,“ segir Ebenezer og ég velti fyrir mér hvort Friðriksstyttan sé kannski þarna bak við. Man svo að ég ætlaði að nota „Látið ekki kappið bera fegurðina ofurliði“ sem fyrirsögn – en man svo að það er rækilega búið að slaufa þeim frasa og hann verður ekki notaður upphátt næstu áratugina.

„Svo verður alltaf ein bókmenntafræðibók,“ segir hann og handfjatlar kápurnar á bókum Auðar Aðalsteins og Benedikts Hjartarssonar, Huldukerfi heimsbókmenntanna. Hann er óviss á svipinn og endar hreinlega á að kasta pening upp á það. „Alvöru fræðileg vinnubrögð,“ segir hann og glottir. „Vestfjarðabókin sem Birna og Ingi Björn ritstýrðu gæti að vísu alveg átt séns líka, en það eru svo margir höfundar að verðlaunaféð yrði ekki nema einn bjór á mann!“

En Ebenezer er hrifinn af orðaleikjum og bætir við Esseyju, enda kominn tími á að ljósmyndabækur fái smá ást. „Og svo er Kristín Lofts með nýja bók. Eitthvað nýtt og ferkst þar hugsa ég.“

„Svo eru strákarnir í heita pottinum ánægðir með sundbókina, skemmtileg kápa – en það er bara ekki pláss fyrir fleiri … en heyrðu völva, hér er nú ein fyrir þig!“ Hann tekur fram bókina Völvur á Íslandi og Völva les káputextann. „Frá elstu tímum eru til sagnir um konur, sem vissu lengra nefi sínu. Þekktastar eru tvímælalaust völvurnar.“

Völvan snöggreiðist. „Völvur eru ekki bara konur! Við erum einmitt að berjast fyrir því að fá fleiri stráka í stéttina! Já, og kvár auðvitað! Hnuss! En jæja, þá er þetta bara komið, ikke?“ Ebenezer kinnkar kolli, en finnst hann vera að gleyma einhverju. „Jú, andskotinn maður – Gangandi bassi! Tómas R., elsku völva, það hlýtur að vera eitthvað djúsí. En sko, hann er örugglega í vitlausum flokki. Hann er auðvitað gangandi skáld en hefur eytt þeirri orku í þýðingar og músík, ef hann hefði bara gefið út 2-3 skáldsögur eða ljóðabækur á undan þessari væri hann að fara að fá tilnefningu fagurbókmenntamegin.“

Horfinn heimur – minningaglefsur – Þröstur Ólafsson

Að deyja frá betri heimi: Ævisaga Jónasar Kristjánssonar læknis – Pálmi Jónasson

Hamfarir í bókmenntum og listum – Auður Aðalsteinsdóttir

Esseyja: Island Fiction – Þorgerður Ólafsdóttir

Andlit til sýnis – Kristín Loftsdóttir

Völvan stendur upp og ætlar að fara í jakkann þegar Ebenezer stoppar hana. „Bíddu, við erum rétt að byrja. Þýðingarnar!“

„En eru þær ekki sér? Ekki tilkynntar á sama tíma, eða?“ Ebenezer hnussar. „Við önsum því ekki, enda er það asnalegt. Þýðingarnar ættu að vera á sama tíma og fá sömu athygli og þetta er okkar spá og við gerum þetta eins og okkur sýnist.“

Mæltu manna heilastur hugsa ég með mér, já, eða Völvan sko, og sest aftur niður og hugsa með mér að það sé nú bara framúrstefnulegt að skipta svona ört á milli fyrstu og þriðju persónu.

Um leið skellir Ebenezer Milton sjálfum á borðið. Þá er það útrætt og við þurfum bara að finna hinar fjórar. „Ásdís er auðvitað nýbúin að vinna Jónasinn, hún og Kúrkov og býflugurnar ættu að vera þarna,“ segir Ebenzer og svo bendi ég honum á að það séu þrír Nóbelshöfundar. „Já, Fosse er enn að fagna og gleymir þessum verðlaunum – en Paradísin hans Gurnah virkar líkleg. Svo er spurning hvort nýji Ernaux-þýðandinn sé betri eða verri en sá fyrri,“ segir Ebbi og hringir í Alliance Française til að fá úr því skorið. Það heyrast læti í símanum, það virðist sem það stefni í slagsmál á skrifstofunni um svona heit þýðingarmálefni þannig að við ákveðum að taka ekki afstöðu í þessu deilumáli og látum einn Nóbelshöfund duga.

„En svo er auðvitað löngu tímabært að Ísak fái bókmenntaverðlaun – jafnvel þótt það sé of seint!“

Mikið rétt – og þá vantar bara eina. Það liggja nokkrir þríburar og fjórburar fyrir framan okkur, þýðingarseríur með keimlíkum forsíðum. Angústúra er þegar komin með eina tilnefningu, fer þá ekki önnur til Sólarinnar? Ebenezer jánkar og segist hafa heyrt vel látið af Fullorðnu fólki og Rúmmálsreikningi – en Völva stoppar hann. „Smáatriðin! Hún var æði, hafandi ekki lesið hinar tvær ennþá set ég þetta sem okkar fimmta gisk!“

Við kinkum kolli og ætlum að segja þetta gott þegar við sjáum að við eigum einn búnka eftir. Effí Briest! Nýjar þýðingar frá Pedro Gunnlaugi og Gyrði! Kallifatides með nýja! Árni Óskars að þýða Graham Greene! Og Bernska eftir Tove – en Þórdís þýðir og hún er þegar komin á listann! Við svitnum yfir úrvalinu og öllum þessum hástöfum en ákveðum að breyta engu – þangað til við sjáum Calvino. Borgirnar ósýnilegu. Og Brynja Cortes þýðir. Það ættu miklu fleiri þýðendur að heita Cortes. Valkvíðinn ber okkur ofurliði og við sættumst á að spá bara sex bókum – það væri jú flipp í anda Calvino.

Þýðingar:

Arfur og umhverfi – Vigdis Hjorth, þýðandi Ísak Harðarson

Gráar býflugur – Andrej Kúrkov, þýðandi Áslaug Agnarsdóttir

Paradís – Abdulrazak Gurnah, þýðandi Helga Soffía Einarsdóttir

Paradísarmissir – John Milton, þýðandi Jón Erlendsson

Smáatriðin – Ia Genberg, þýðandi Þórdís Gísladóttir

Borgirnar ósýnilegu – Italo Calvino, þýðandi Brynja Cortes Andrésdóttir

Þórdísir, Stínur og Svjetlönur

Völvan stendur upp og kveður Ebenezer, er orðin stirð og lúin eftir langan dag – og þá er bara að fara í nudd hinum megin við götuna. Enda liggja fagurbókmenntirnar í beinunum, í uppgefnum puttum sem hafa pikkað of mikið, fótum sem hafa þrammað um í leit að innblæstri, baki sem er að bresta eftir að hafa borið allt of marga bókakassa.

Hún Svjetlana bíður mín og er búin að fíra upp í reykelsinu, hún er í hálfu starfi sem nuddari og í hálfu starfi sem sérleg aðstoðarkona Völvu – og einmitt í dag sinnir hún báðum störfum í einu á nuddstofunni. Völvan er líka eitthvað stíf í Vestfjarðarkjálkanum, skýrt merki þess að ein tilnefning fari til fjallabaksskálds fyrir vestan. Svo æpir Völvan ítrekað „Armeló“ þegar Svjetlana er of harkaleg í nuddinu. En það vantar þrjár í viðbót og hinar vefjast meira fyrir okkur.

Þórdís Gísla? Er Þórdís hin nýja Kristín? Kannski, en Þórdís Gísla er líka þýðingamegin, það þarf nú að gæta smá jafnræðis í dreifingu tilnefninga! Og Kristínarnar eru nú ennþá í fullu fjöri, gæti Ómarsdóttir komist að þetta árið með hana Oddnýju sína? Svo er Sigurjón Magnússon, sem fer oft lágt en laumar sér stundum í tilnefningahópinn.

Við látum okkur dreyma um að Guðbergur vinni fyrir Dauða Franco, svo að vofa Guðbergs nái að flytja sína hinstu (eða fyrstu?) ræðu yfir góðborgurunum, en ætli Ísak skáki honum ekki fyrir posthumous tilnefningu, enda bikarskápur Guðbergs nú þegar fullur hvort eð er.

Við erum sammála um að Auður Ava, Ólafur Gunnars, Einar Kára og Bjarni Bjarna banki fast og harkalega á dyrnar en komist ekki inn, en Steinunn er inni, við finnum það þegar hún nuddar á mér mjóhrygginn. Hlín Agnars er að blómstra sem höfundur eftir að hún fór að blogga og þykjast vera gömul, kornung manneskjan, hún er alveg að fara að fá tilnefningu, bara ekki alveg strax. Sama með hann Jakub Stachowiak, hans tími mun líka koma.

Svo er Duft, sem er með undirtitilinn „Söfnuður fallega fólksins“ og við fréttum að einn dómnefndarmeðlimur hefði fengið bólu á nefið á versta tíma og verið rekinn úr söfnuðinum og þar af leiðandi slaufað bókinni. Sorrí Beggó! Svo erum við Svjetlana báðar hrifnar af Deus en grunar að nefndin sé of hrædd við gervigreindina til að tilnefna hana.

En hvað með Læknir verður til? Oft ein vorbók og kannski er nýtt bókmenntabræðraveldi að rísa? En svo munum við eftir kúltúrbarnaumæðunni og ályktum að nefndin hætti sér varla í kúltúrbræðraumræðu strax árið eftir. Svo er Henrik líka læknir, þeir þurfa ekkert þetta verðlaunafé. Ólafur Jóhann varla heldur, hann á sjálfsagt enn hlutabréf í Sony sem eru verðmætari en lager Forlagsins. Eins og heyrist er Svjetlana á sömu línu og Ebbi, vill helst tekjutengja bókmenntaverðlaunin.

Fantasíuhöfundar gætu hins vegar þurft á peningnum að halda, en sorrí Alexander Dan og Ingi Markúsar – það mun taka lengri tíma fyrir fantasíur að fá respekt á krimmalandinu Íslandi, nema kannski ef Neil Gaiman hafi lært íslensku og laumað sér í nefndina.

„En heyrðu, Völva góð, Vigdís er með nýja skáldsögu! Ég sem hélt hún væri hætt og komin í ævisögurnar! Ef þetta er síðasta Ævintýri Vigdísar þá hlýtur hún að komast að?“ Ég játa, en hika. „Hvað með Yrsu Þöll? Rambó er týndur? Yrsa er alveg með svona hennar tími er kominn væb. Svo þarf líka að finna þennan Rambó, gengur ekki að hafa bara einhvern Rambó týndan þarna úti.“

Svjetlana jánkar – eða ég ímynda það mér allavega, ég ligg náttúrulega bara á bakinu á meðan hún nuddar á mér iljarnar. Okkur líst vel á listann, en sjáum svo að þar vantar alfarið ljóðabækur. „Já, en nefndin hefur ekki fílað ljóðin undanfarið,“ segir Svjetlana mér. „Mig minnir meira að segja að Kristján Bjé hafi sagt að þessar nýju nefndir beri ekki skynbragð á ljóð.“

Ég jánka, en sem ljóðelsk Völva segi ég nú samt: „En hvað með Elías Knörr og Guðmund Brynjólfs? Já, eða Hörpu Rún? Og ég hló svo innilega yfir Anatómíu Sölva og fannst bókaárið byrja svo vel með bókinni hennar Magneu. Og Vöggudýrabær, ljóðabók sem yrkir beint inn í umræðuna og fortíð sem er verið að gera upp!“ Svjetlana er sammála þessu öllu, en við erum samt hvorugar alveg að sjá neina af þessum bókum komast í gegnum múr þessara skáldsögudoðranta sem við vorum þegar búnar að spá.

„En bíddu, Völva, manstu þegar við fórum á bókmenntahátíð og það var fullt hús á Gyrði? Fullt út úr dyrum og við föttuðum að auðvitað er Gyrðir algjör rokkstjarna og er að fara að fá þessa tilnefningu.“ Þarna kom það – og skyndilega er listinn tilbúinn.

Armeló – Þórdís Helgadóttir

Náttúrulögmálin – Eiríkur Örn Norðdahl

Ból – Steinunn Sigurðardóttir

Rambó er týndur – Yrsa Þöll Gylfadóttir

Dulstirni / Meðan glerið sefur – Gyrðir Elíasson

Svjetlana klárar nuddið og Völvan klæðir sig í spjarirnar, báðar eru giska glaðar að hafa klárað að púsla saman sigurstranglegri spá (vonandi, 7-9-13, salti hent aftur fyrir öxl og öll hin hjátrúin sem Völva veit að er hávísindalega sönnuð). En erum við ekki að gleyma einhverju? Jú, Sigurður Pálsson vann fyrir Minnisbók, Guðbergur líka fyrir skáldævisögu – eru ekki einhverjar bækur á milli flokka sem gætu gert usla? Við erum sammála og ákveðum að búa til nýjan flokk, utan flokka, og setja þrjár bækur þangað, þrjár bækur sem okkur grunar að séu helvíti fínar en muni annars falla á milli þilja af því þær eru ekki nógu auðflokkanlegar.

Utan flokka:

Stríðsbjarmar – Valur Gunnarsson

Vordagar í Prag – Þorsteinn Jónsson

Gangandi bassi – Tómas R. Einarsson

Við Svjetlana erum sáttar við þetta, þetta eru orðnir sigurstranglegir listar – eins og öll hin árin sem við hugsuðum það sama og vorum svo bara með einn réttann í hverjum flokki. Við hringjum svo í Ebba og Súsönnu og mælum okkur mót á hverfisbarnum. Það er hægt að leggja undir á bókmenntaverðlaunin hjá skuggalegum bókabéus í horninu – og svo biðjum við vertinn að kveikja á sjónvarpinu, enda höfum við öruggar heimildir fyrir því að þetta verði allt tilkynnt hjá Gísla Marteini í beinni og í kjölfarið muni Berglind Festival spyrja tilnefnda höfunda spjörunum úr um þetta nýmóðins fyrirbæri, bókaskræður sem hægt er að lesa, jafnvel þótt tölvan þín sé orðin batteríslaus og prentarinn bleklaus og gervigreindin sé búin að bræða úr sér af ofmetnaði vélar sem hyggur á heimsyfirráð.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Ljósmynd af Völvu: Agnar Daníelsson