Gömul kona að syrgja tæplega aldargamalt sjóslys, gamall maður að harma vopnabræður úr rúmlega hálfrar aldar gömlu stríði. Það var vinsæl frásagnaraðferð í kringum aldamótin að ramma sögulegar Hollywood-myndir inn með senu úr nútímanum, annað hvort í byrjun eða undir lokin, eða oftast bæði – og oftast var það bölvaður óþarfi, Titanic og Saving Private Ryan hefðu batnað mikið við að sleppa nútímanum bara alveg, enda var engin raunverulegur tilgangur með senunum nema til að létta til með þeim áhorfendum sem höfðu mestu fortíðarfælnina, engin alvöru tilraun var gerð til að finna samhengi á milli.

Langafi og jökullinn sem hvarf endurvekur þessa frásagnaraðferð – en þótt við eyðum bróðurpartinum af bókinni í fortíðinni þá er nútíminn alltaf nærri og helsta erindi bókarinnar er einmitt það að bera þessa tvo tíma saman, leika sér með líkindi og andstæður. Tíu sekúndna brot úr bílferð verða margra daga háskaferðir í fortíðinni og háskaferðir sem taka heilu vikurnar verða rólyndislegar dagsferðir með túrista í nútímanum.

„Stundum var svo mikið vatn í ánum að hann varð að bíða heilu dagana eftir að sljákkaði í þeim. Þá sat bóndinn gjarnan við árbakkann og hlustaði á klið vatnsins. Hann hlýtur að hafa skynjað tíma talsvert öðruvísi en nútímafólk.“

Við sjáum bóndann una sér í kyrrðinni, en á næstu síðu sömu opnu keyrir smárúta yfir og hástafir með:

„ÞAÐ TEKUR MIG EINA SEKÚNDU AÐ AKA YFIR BRÚ!“

Ég bókarinnar er höfundur sjálfur, Þórarinn Leifsson, og þetta er heimildasaga svo langt sem það nær, skáldskapur innblásinn af líklega fátæklegum heimildum. Fyrsta og síðasta opna verksins er myndaalbúm, blanda af gömlum myndum og nýjum – sem gefur tóninn fyrir verkið og eru alveg klippilistaverk út af fyrir sig, hundrað ára gömlum fjölskyldualbúmum skeytt saman við þau sem eru í mesta lagi nokkurra áratuga gömul.

Þórarinn hóf ferilinn sem teiknari og færði sig hægt og rólega meira og meira yfir í textann, eftir myndríkar barnabækur voru töluvert færri myndir í fullorðinsbókunum sem komu í kjölfarið – en núna er hann kominn hringinn, í bók þar sem myndirnar eru í aðalhlutverki, miklu frekar en textinn, en aftan á kápu er bókinni lýst sem blöndu af „barnabók, kennsluefni og grafískri nóvellu“ – og til að byrja með hefði ég eiginlega viljað að hann hefði farið alla leið í myndasöguna. Jú, sums staðar eru talblöðrur og æpandi myndasögutexti, en megnið af textanum er þó frekar hefðbundinn prent-texti, sem hefði alveg mátt gera myndasögulegri – og í upphafi veit textinn ekki alveg hvað hann á að vera og fyrir hvern, óþarflega barnalegur á stöku stað jafnvel – en svo kemst hann á flug eftir því sem á líður og virkar raunar langbest þegar textinn véfengir myndirnar, enda eðlilegt að menn vilji birta bæði forfeður og sögupersónur sem myndarlegri, fallegri og dramatískari persónur en þær raunverulega voru. Svona er til dæmis aðalpersónunni lýst:

„Ég teikna hann hér með kaskeiti til að gera hann aðeins reffilegri. Ég er ekki að segja að hann hafi verið einhver durtur en langamma var hávaxnari og kannski aðeins gáfaðri.“

Í upphafi bókar sameinast Jörðin haus listamannsins og mögulega kjarnar þetta ætlunina – leiðsögumaðurinn að reyna að tengjast náttúrunni upp á nýtt, fyrir tíma massatúrismans. Enda þriðja bók Þórarins í röð sem fjallar um leiðsögumann í túristabrjálæðinu – hinar voru vissulega ansi ólíkar en bæði er gaman að einhver sé að yrkja um þennan nýja höfuðatvinnuveg þjóðarinnar og svo er sömuleiðis gaman að sjá rithöfunda yrkja um eitthvað af öllum hliðardjobbunum sem þeir sinna til að hafa í sig og á þegar ritlaunin duga ekki eða fást ekki – ég vona bara að mér auðnist einn daginn að klára æsispennandi bækur um ævintýri í menningarblaðamennsku og ryksögubæklingaþýðingum fyrir ykkur!

Þessi leiðsögumannaheimur er kómískur, samanber konuna sem kvartar: „Engin norðurljós í maí? Í alvöru?“ og albestu senur bókarinnar eru þegar nútíminn og fortíðin spegla hvor aðra á sömu opnunni, eins og þegar á einni opnu speglast menn að drukkna af því þeir voru að reyna að fæða hungraða munna – og hundrað árum seinna er hungrið horfið, en þá drukknar fólk bara við að taka sjálfur. Þá sjáum við Þórarinn bruna með rútu fram hjá afanum, þar sem hann smalar sínu sauðfé – en tekur þó fram „Ólíkt sauðfé afa er túristum þó ekki slátrað í lok ferðalagsins.“ En myndirnar segja annað.

Ég myndi ekki segja að það sé beint sérstakur mórall í sögunni, heldur miklu frekar möguleg tilgáta; að manneskjan sæki í sama farið þótt tímarnir breytist, að tímarnir breytist mögulega of hratt fyrir svona einfaldar skepnur eins og okkur sjálf og því sækjum við í háska fortíðar, jafnvel þegar það er búið að byrgja þann brunn, og eins mistekst okkur ávallt að læra lexíurnar af nýjustu tækni og nýta hana sem best væri, til þess erum við of miklir afdalabóndar í hjartanu ennþá.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson