Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Leiðari

Grafræningjar nútímans

Í Egyptalandi til forna þótti fátt auðvirðilegra en grafarræningjar. Faróar og önnur fyrirmenni voru grafnir umkringdir gulli og dýrum steinum og því litu ræningjar góssið hýru auga. En refsingarnar voru grimmilegar, bæði veraldlegar og ekki síður sú bölvun sem elta myndi ræningjana út fyrir gröf og dauða, jafnvel ef ránið heppnaðist.

Nú er upplýstum nútímamönnum kannski eðlislægt að hafa ákveðna samúð með þessum ræningjum; er ekki betra að slíkar gersemar séu í höndunum á lifandi fólki frekar en löngu dauðum múmíum? En þetta snérist ekki bara um gersemarnar, þetta snérist líka um hina látnu. Lík voru gerð af múmíum til þess að vernda sálina, ef líkaminn hvarf þá hvarf andinn. Hver manneskja átti sér þrjá anda, ka – tvífarann sem verður eftir í líkamanum, ba, sálina – sem frjáls flýgur út úr líkamanum og snýr aftur, og akh, andann sem ferðast til handanheima, þar sem lifandi og dauðir eru dæmdir.

Og auðvitað þótti mörgum upplýstum nútímamönnum þetta vera ævintýralegar kerlingabækur – þangað til við vöknuðum upp við vondan draum og grafarræningjarnir voru mættir í okkar eigin stafrænu grafhýsi, þar sem þeir rændu sálum sem ættu annars að reika frjálsar um heiminn. Með því að særa upp drauga með hjálp gervigreindar, drauga sem líta nákvæmlega eins út og fyrirmyndin en eru algjörlega sneyddir öllum frjálsum vilja, gera bara nákvæmlega það sem grafarræningjarnir fyrirskipa – sitja og standa og pissa ef hinir nýju herrar skipa þeim að gera það. Gömlu forn-Egyptarnir skildu þetta fyrir löngu. Dag einn munum við kannski ná sama menningarstigi á ný.

Myndavélin sem stelur sálinni

En fikrum okkur aðeins nær nútímanum. Fyrir 198 árum fann franskur maður upp fyrstu myndavélina og rúmum áratug seinna var byrjað að framleiða handhægar myndavélar fyrir almenning. Fljótlega birtust þessi furðutæki í villta vestrinu þar sem frumbyggjum Ameríku leist ekki á blikuna. Fullyrtu alvarlegir í bragði að ljósmyndavélin steli úr manni sálinni.

Hvíti maðurinn hló vitaskuld af þessari barnalegu hjátrú barbaranna. En auðvitað höfðu frumbyggjarnir rétt fyrir sér, það tók bara lengri tíma að stela sálinni en menn reiknuðu með. En hundrað og áttatíu árum seinna fóru virðulegir prófessorar í Oxford að skrifa lærðar greinar um hvernig öryggismyndavélar sem og myndavélar vina okkar og okkar sjálfra mynduðu orðið þétt net myndavéla, þar sem myndavélar heimsins stela sálinni í okkur öllum. Djúpt í iðrum internetsins getur einhver séð hvað við gerum, hvar við erum og hvaða daga við höfum gleymt að greiða okkur almennilega.

En ég er samt ekki sammála þessum fræðingum, mér þykir vissulega óþægilegt að internetið viti svona mikið um mig, ég hef áhyggjur af öllu þessu ótrúlega eftirliti, en jafnvel ef allt þetta eftirlit heftir frelsi mitt þá nær það samt ekki í sálina. Hún er fyrir innan skelina og næst ekki á mynd – og jafnvel ef þeir sjá hana þá geta þeir ekki stolið henni. Það er að segja, þangað til gervigreindin kom til sögunnar. Hún getur sannarlega stolið í mér sálinni og búið til úr henni hvert það skrímsli sem henni hugnast. Henni mun ekki takast það strax, nú er gervigreindin bara lítið barn – hún er í fyrsta bekk þar sem hún lærir að teikna og skrifa. En ímyndum okkur bara hvað krakki sem teiknar og skrifar svona vel, strax sex ára gamall, hvað mun þessi krakki verða fær um þegar hann kemst í menntaskóla eða í háskóla? Þá verður þetta litla tölvubarn orðið ofurmenni – með getu til að tortíma heiminum, en líka til að bjarga honum – og það fer allt eftir því hvort við ráðum við uppeldið á þessari göldróttu veru hvað verður ofan á. En þegar gervigreindin verður orðin fullorðin mun hún geta búið til útgáfur af okkur sem taka fyrirmyndunum fram, fjölskyldur okkar munu jafnvel loka hurðinni á nefið á okkur af því þeim finnst falsið miklu meira sannfærandi – og jafnvel skemmtilegri og fallegri og þægilegri. En þessi gervigreind getur stolið sálinni frá okkur með því að yrkja níðljóð um alla sem við elskum, með því að segja eingöngu það sem okkur sjálfum er þvert um geð, þannig að öll okkar trú, von og ást verður kæfð, sál okkar verður kramin af öllum lygasálunum sem fældu hana í útlegð, þar sem hún veslast upp og deyr.

Hinsta hlutverk síðustu leikkonunnar

En spólum nú fram til ársins 2013. Þá sá ég alveg hreint magnaða bíómynd, gullfallega og óhugnanlega í senn, en um leið með meiri heimspekilega dýpt en flestar myndir síðan. Þetta var The Congress. Hún fjallar um Robin Wright, leikkonuna knáu, sem er tölvuteiknuð í heimi sem þarf ekki alvöru leikara lengur. Þessi stórleikkona stendur skyndilega frammi fyrir tveimur afarkostum; atvinnuleysi – eða einu lokahlutverki. Hlutverki sem mun borga henni næg laun til lífstíðar, en mun sannarlega gera hana atvinnulausa. Hún gerir tilneidd samning við djöful í mannsmynd og fær sitt hinsta hlutverk. Hún þarf ekki að leika það í nema klukkustund, á meðan hún er skönnuð inn í tölvukerfi sem varðveitir allar hennar tilfinningar og tjáningu – og eftir það er hún orðin ódauðleg og getur leikið í bíómyndum til eilífðarnóns. En um leið er hún orðin fullkomlega gagnslaus – hún getur hér eftir setið heima með hendur í skauti á meðan leikstjórar heimsins hala henni henni niður eftir hentisemi, og hún hefur ekkert um það að segja hvort það er hugljúft ævintýri, gamanmynd eða hrottafengin klámmynd. Löngu seinna er hún orðin gömul kona og gengur inní þessa veröld, áttar sig á að þetta er lífið sem vélin rændi af henni, öllum þessum sjálfum sem gervigreindin tók af henni og lék fyrir hana.

Fyrir áratug síðan var myndin auðvitað flokkuð sem vísindaskáldskapur. Vissulega hafði hausum alvarlegra leikara verið skeytt á höfuð klámmyndaleikara í Nymphomaniac og höfði aðalleikkonunnar í Málmhausi var skeytt á atvinnugítarleikara í erfiðustu tónlistaratriðunum. En fantasían byrjar þó fyrst að verða raunveruleiki í Stjörnustríðsmynd þar sem Peter Cushing stígur upp úr sinni 22 ára gröf og hin sextuga Carrie Fisher verður skyndilega nítján ára á ný. Carrie dó á meðan ég skrifaði um myndina – dó um leið og henni var tryggt eilíft pixelarað líf, orðin ódauðleg og óþörf, fyrsta leikkonan sem tölvutæknin léði eilífa æsku. Stuttu seinna var ákveðið að vekja sjálfan James Dean upp frá dauðum og láta hann leika í nýrri bíómynd, bíómynd sem gamli góði James hefði aldrei samþykkt að leika í. Hann hefði auðvitað snúið sér við í gröfinni ef hann hefði getað, en hún var löngu orðin tóm – grafarræningjarnir voru mættir. Bölvunin virkaði þó í þetta skiptið og áformin fóru út um þúfur, en við vitum öll að þeir munu reyna aftur.

Á Tali með Gervi Gunn

En samt, þetta var draumaverksmiðjan sem öllu lýgur. Við þurfum varla að hafa miklar áhyggjur á litla Íslandi, smáríkinu þar sem allir þekkja alla og álfar og huldufólk eru líklegri til að stela sálum okkar en Hollywood.

Setningin hér að undan er auðvitað skáldskapur, saumaður saman úr helstu klisjum túristabæklinganna. Allri svona tækni skolar vitaskuld líka á land við Íslandsstrendur, með öllum þeim árum og djöflum sem henni fylgja. Og svo komu áramót og þessi litli saklausi heimur hætti að verða saklaus þegar sál var stolið á helgri nóttu. Fyrst kom tölvuteiknaður Bogi Ágústsson, sem var vissulega einkennilegt, en svo bættist í hópinn.

Loks mætti svo rödd æsku okkar, sjálfur Hemmi Gunn, þótt hann hefði verið látinn í meira en áratug. Dauður maður var vakinn til lífsins til að klára brandara. Brandara sem var ekki einu sinni fyndinn. Réttlætingin var að afkomendur hans hefðu lagt blessun sína yfir uppátækið, sem var þó ekki einu sinni rétt nema að hluta til. En það skiptir samt ekki máli, þetta er rangt fyrir því. Það er líka réttur allra vina og félaga og áhorfenda Hermanns Gunnarssonar að sálinni á honum sé ekki stolið, og síðast en ekki síst: það er réttur Hermanns Gunnarssonar og okkar allra að líki okkar sé ekki rænt eftir að við erum komin í grafhýsið, okkar eigin gröf.

Róbót yrkir sonnetur

Auðvitað var þetta ekki Hemmi sjálfur. Það var tekið skýrt fram og fölsunin var ekki sérlega góð, þetta var grunn fölsun, ekki djúp fölsun. En þetta var litla RÚV, smápeð á heimsmælikvarða, Hollywood mun falsa þetta miklu betur með meiri pening. Tækninni mun fleygja fram þannig að bráðum gæti Gervi-Hemmi vel orðið alvöru Hemmi í augum flestra. En það sem skiptir jafnvel meira máli er að þetta er ekki leikari að leika Hemma, þetta eru heldur ekki klippur af hinum raunverulega Hemma úr safni sjónvarpsins. Slíkt væri ósköp eðlileg sagnfræði eða listsköpun. En nei, þarna er líkama Hermanns Gunnarssonar, eins og hann birtist í sjónvarpi allra landsmanna og víðar, notaður og tekið af honum ljósrit, ótal ljósrit, þúsundir ljósrita, milljónir ljósrita, og úr því er nýr Hemmi búinn til. Hermann Frankenstein okkar tíma.

Við lifum einfaldlega í heimi þar sem raddhermar eru orðnir svo fullkomnir að við getum ekki bara lífgað Hemma Gunn við, heldur líka Bowie, Cohen, Prince og Elvis. Þeir fara sjálfsagt bráðum að syngja splunkuný lög í útvarpið sem þeir hefðu aldrei viljað syngja í lifandi lífi. Við erum um það bil að læra að ljósrita manneskjur almennilega, hin eilífa endurtekning nær fullkomnun sinni og stjörnur bernskunnar þurfa aldrei að deyja. En þegar engin stjarna deyr verða engar nýjar stjörnur til. Kynslóðir framtíðarinnar geta horft á áramótaskaup fortíðarinnar til eilífðarnóns, því hver nennir að gera áramótaskaup með lifandi fólki fyrir lifandi fólk, þegar það er hægt að láta róbóta gera þetta ókeypis og láta eilífðarvélina malla endalaust áfram?

Enda er orðið róbót upphaflega dregið af slavnesku orði yfir þræl. Þræla sem áttu að sinna brauðstritinu fyrir okkur mennina, þrælar sem áttu að taka að sér að moka skurði á meðan við dönsuðum og ortum sonnettur og nutum lífsins. En einhvern veginn hnepptu okkar eigin sköpunarverk okkur í þrældóm og láta okkur nú moka fullkomlega óþarfa skurði, svo róbótarnir geti nú ort sínar sonnettur í friði fyrir ófullkomnum mannverum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson