Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

KVIFF, Kvikmyndir, Þriðjudagsbíó

Hvalfjarðargöngin og villta vestrið

Þetta byrjaði allt á vestrunum. Eða austrunum. Opnunarmynd Karlovy Vary var með einum af heiðursgestum hátíðarinnar, en Viggo Mortensen stóð undir nafni sem endurreisnarmaður og leikstýrði ekki bara opnunarmyndinni, heldur skrifaði hann handritið, lék í myndinni og samdi tónlistina fyrir The Dead Don’t Hurt. Þeir látnu finna ekki til.

Það er hressandi nýbreytni í vestrum síðasta áratuginn að menn eru hættir að láta eins og í villta vestrinu hafi bara verið töluð enska – þarna voru landnemar alls staðar að frá Evrópu og jafnvel Asíu líka – fyrir utan auðvitað frumbyggjana og þrælana frá Afríku. Hér fylgir Mortensen því í kjölfar Mads Mikkelsen í The Salvation og leikur danskan kúreka. Sem í hans tilfelli fellur fyrir franskri konu.

Það eru mörg kunnugleg vestrastef hér, en það er kannski fyrst og fremst tvennt sem gerir myndina áhrifamikla. Ofbeldið er áhrifamikið, hræðilegt og andstyggilegt – í raun ekki svo mikið, en þess eðlis að óttinn um meira ofbeldi hangir yfir mörgum annars tíðindalitlum senum. Sérstaklega þar sem mesta ómenni myndarinnar er sonur áhrifamanna og virðist komast upp með hvað sem er.

Svo er þetta er á sinn hátt femínískur vestri. Viggo lætur Vicky Krieps aðalhlutverkið eftir þegar hann fer að berjast í borgarastyrjöldinni – þetta er mynd um konu sem þarf að lifa ein af í ofbeldisfullum karlaheimi, þar sem venjan er að menn taki bara það sem þeim sýnist. Það góða við að láta Krieps eftir aðalhlutverkið er svo að hún heldur bara áfram að sanna að hún er líklega besta leikkona sinnar kynslóðar – rétt eins og hún gerði í Draugaþráðunum með Day-Lewis og Bergman Island.

Næst var svo hálfgerður vestri líka – eða öllu heldur austri. Steppenwolf gerist á steppum Kasakstan og var lýst í dagskrábæklingi sem bræðingi af samnefndri bók Herman Hesse og hinum klassísku vestrum The Searchers og Red River. Ég bætti Mad Max við í huganum – en eiginlega hitti Stephen Dalton hjá The Film Verdict naglann á höfuðið þegar hann líkti myndinni við Tarkovskí og Tarantino. Vandinn er bara að þetta er prýðilegur Tarkovskí en afleitur Tarantino. Tarkovskílegar senur með þögn, framandleika og ljóðrænu á steppunum eru að virka þrælvel – en skefjalaust og oft teiknimyndalegt ofbeldið er einfaldlega ekki að virka, verður þreytandi, endurtekningasamt og innihaldslaust.

En íslenska sendinefndin er að fara að mæta. Við höfum áður minnst á Lilju í aðalkeppninni og Sjón í dómnefndinni – en hér voru líka tvær íslenskar stuttmyndir sýndar. Nikulás Tumi Hlynsson lærir í FAMU kvikmyndaskólanum í Prag og sýndi stuttmyndina Blue Boy, um þöglan pilt í bláum vinnugalla sem lendir í óvæntum hrakningum í partíi eftir vinnu, og þá var Anna-Maria Jóakimsdóttir Hutri með myndina Hver hugsar um Alvar, eða Vem ropar för Alvar, um starfsmann á elliheimili sem upplifir að vinnan hálfpartinn elti hana heim þegar kviknar í íbúð nágrannans Alvars – aldraðs manns sem getur ekki séð um sig sjálfur, en neitar allri hjálp og virðist ekki eiga neina aðstandendur sem láta sig hann varða. Hutri er af íslenskum ættum en hefur numið og starfað mest á Norðurlöndunum, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku – og fellur því inní hliðarþema hátíðarinnar um mismunandi tegundir af íslenskum útlögum. Meira um það síðar.

Sumarnæturbrot

Karlovy Vary var næsta stopp á eftir Cannes fyrir Ljósbrot Rúnars Rúnarssonar, sem hafði opnað Un Certain regard flokkinn á frönsku rívíerunni. Snemma í myndinni varð mér hugsað til þess að síðast þegar ég fór í gegnum Hvalfjarðargöngin hafði bílstjórinn á orði að þetta væru einhver óöruggustu göng Evrópu – og hvað haldiði, myndin hverfist um sprengingu í Hvalfjarðargöngunum. Þetta er samt engin stórslysamynd, hún snýst fyrst og fremst um þá sem eftir lifa.

Veröld listnemans Unu og vina hennar fer á hliðina við þessar fréttir og Hörpunni er breytt í neyðarmiðstöð þar sem aðstandendur bíða frétta af nákomnum og þiggja áfallahjálp. Svona slys hefur vissulega ekki gerst í Hvalfjarðargöngunum, en prófið bara að máta viðburðina við álíka harmleiki í nýlegri Íslandssögu. Þegar fréttirnar reynast vondar kemur svo Írinn upp í ungmennunum og þau fara beinustu leið á barinn.

Myndin gerist öll á einum sólarhring og er ekki nema 80 mínútna löng – það er raunar dálítið eins og Rúnari hafi tekist að finna löngu útgáfuna af stuttmyndunum sem hann sló í gegn með, myndum á borð við Smáfugla og Önnu. Hann reyndi áður hálfpartinn að endurgera Smáfugla með því að nota efnivið myndarinnar sem lokakaflann í Þröstum – og niðurstaðan varð hans sísta mynd til þessa. Hér reynir hann frekar að fanga þessar sömu tilfinningar – og gefur þeim meira andrými, en ekki endilega neitt mikið meira plott, ef ég ætlaði að endursegja söguþráðinn allan væri ég hálfnaður þegar ég væri búinn að lýsa fyrstu tíu mínútunum.

En veröld Unu fer ekki bara á hvolf af því kærastinn hennar ferst í slysinu – heldur líka af því hann var á leiðinni vestur á land til að segja sinni gömlu kærustu upp. Hún var ennþá bara laumukærasta, eitthvað sem mun núna aldrei breytast. Vinir hans að vestan koma, sameiginlegur vinur þeirra Unu er límið á milli þeirra, annar strákur að vestan sem flutti í bæinn, og saman syrgja þau á barnum og í heimapartíi og undir niðri liggur spennan. Spennan á milli stúlknana tveggja sem elskuðu hann, þótt aðeins önnur viti það, spennan á milli miðbæjarkrakka í listaskólanum og dreifbýliskrakka í bæjarheimsókn, spenna vegna sorgarinnar sem þeim finnst þau hafa mismikinn rétt á. Hver missti mest, hver má syrgja mest? Hver má öskurgráta, hver má láta faðma sig óhóflega mikið?

Fyrir 20 eða 40 árum hefði svona mynd  alltaf endað með slagsmálum eða einhverri annars konar bældri útrás – en þetta er ný kynslóð. Mýkri kynslóð. Kynslóð sem lærði snemma að faðma og tala um tilfinningar. Á milli þess sem hún dansar við Hatara, lag sem á sinn öfugsnúna hátt nær að fanga anda þessarar nætur.

Myndin hefst í lok sumarnætur og líkur þar líka, Rúnari tekst að finna ljóðrænuna í sumarnóttinni – hann rammar ungmennin inn í þessari björtu eilífðarnótt og leyfir okkur að skynja tilfinninguna í andlitunum. Andlitum sem eru að uppgötva dauðann í fyrsta sinn fyrir alvöru. Andlitum á borð við Elínu Hall, sem er kyngimögnuð sem Una, sem afskaplega kvenleg og næm strákastelpa.

Listamaðurinn Kolbeinn Hugi gerði stundum listgjörning við Hallgrímskirkju, gjörning sem Rúnar fær lánaðan og lætur Unu gera með Klöru, hinni kærustunni, um miðja mynd. Gjörning sem á sinn hátt virðist einnig hafa ratað í bók Steinars Braga, Truflunina (finnið hana og skoðið kápuna betur). Þessi gjörningur tengir þær á einhvern göldróttan hátt og þegar á líður verða óræð tengsl þeirra þessa nótt kjarni myndarinnar.

Það var raunar einkennilegt að horfa á þessa mynd umkringdur erlendum vinum, að velta fyrir sér hvað þau hafi haldið um furðufatakrakkana sem voru að dimmitera í sorginni miðri, eitthvað sem aðalpersónurnar voru sjálfar að gera fáeinum árum áður, eða hvort þau hafi náð margræðninni við að láta þau dansa við Hatrið mun sigra.

En auðvitað skildu þau það sem máli skipti – um að vera ungur að átta sig á lífinu, um þá manndómsvígslu sem fyrsti dauði nákomins jafnaldra er. Myndin er tileinkuð tveimur jafnöldrum Rúnars sem dóu á mismunandi æviskeiðum – og undir lykilssenum er svo spilað Odi et Amo eftir Jóhann Jóhannsson, annan meðlim þessarar kynslóðar sem fór alltof snemma.

Aðþrengdir þjóðarleiðtogar

En höldum okkur við Ísland – en bregðum okkur samt til Kanada. Þar gerir Vestur-Íslendingurinn Guy Maddin draumkenndar og fjarstæðukenndar kómedíur – og núna í fylgilagi við meðleikstjórana Galen Johnson og Evan Johnson. Sú nýjasta er Rumours – sem fjallar hvorki meira né minna en um leiðtogafund G7 ríkjanna. Cate Blanchett leikur kanslara Þýskalands og Charles Dance Bandarikjaforseta – og minna þekktir leikarar í hlutverkum leiðtoga Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japans og Kanada eru engu síður kostulegir.

Þau hittast á útisvæði rétt hjá stórri villu í miklu skóglendi og ráða ráðum sínum, þau þurfa að semja nýja ályktun út af nýjustu krísunni – sem vel að merkja er aldrei nefnd á nafn. Þau eru kjánalega stolt af fyrri ályktunum sínum, langir textar sem ekkert þýða verða nánast eins og framúrstefnuljóð eða slagarar í meðförum þeirra. Og þau lifa sig líka innilega inn í hlutverkin. Þá er ég ekki að meina leikarana, heldur persónurnar sem lifa sig inn í það að vera táknmynd þjóðar sinnar, gilda hennar og sögu. Maddin og félögum tekst þannig að gera þau hjákátleg og aðdáunarverð um leið.

En auðvitað hverfur þjónustufólkið – og umheimurinn um leið. Nema einhverjar torkennilegar verur – sem eru aldrei beint útskýrðar, en mann grunar að séu einfaldlega afturgöngur fyrrum þjóðarleiðtoga, fornir konungar og drottningar – það er nefnilega margt líkt með líkum. Þetta er kostuleg og drepfyndin mynd, gamanmynd frekar en eiginleg satíra – og besta atriðið er þegar Alicia Vikander mætir sem framkvæmdastjóri Evrópusambandsins og talar bara sænsku, sem birtist þeim sem eitthvað dularfullt hrognamál aftur úr grárri forneskju.

Hnéskeljar munu skaddast

Það er hins vegar bullandi pólitísk satíra í myndinni Kneecap, um samnefnt rappband frá Belfast – og nafnið er dregið af þeim sið uppreisnarmanna að skjóta menn í hnéskeljarnar. Þetta er raunverulegt rappband og þeir leika hér skáldaðar útgáfur af sjálfum sér, ásamt Michael Fassbender og fleiri reyndum leikurum. Það sem skar sveitina úr er að hún rappar á írsku og er ekkert að skafa utan af hlutunum þegar fjallað var um pólitík eða eiturlyf.

Það væri eiginlega einfaldast að lýsa myndinni sem hápólitískri írskri útgáfu af Trainspotting, ekki alveg jafn kúl en alveg jafn fyndin.

Þeir Liam Óg Ó Hannaidh, eða Mo Chara, svo við notum rapparanafnið hans, og Naoise Ó Cairealláin, eða Móglaí Bap, eru yngri meðlimir sveitarinnar – og þegar annar þeirra kemst í kast við lögin er gagnfræðaskólakennarinn JJ Ó Dochartaigh kallaður til, til þess að túlka – þar sem þeir neita að tala ensku í yfirheyrslum. En gagnfræðaskólakennarinn fær nasaþef af ljóðlist piltanna, hann býr svo vel að vera með upptökustúdíó í bílskúrnum og verður þannig óvart þriðji meðlimur sveitarinnar – DJ Próvaí, sem kemur bara fram með lopahúfu í írsku fánalitunum svo hann geti haldið áfram að starfa sem virðulegur gagnfræðaskólakennari.

Annar piltanna er svo sonur byltingarhetjunnar sem Fassbender leikur – sem hefur sannfært laganna verði um að hann sé látinn – og þegar strákunum tekst að komast upp á kant við bæði laganna verði og andspyrnuleiðtoga er nokkuð ljóst að einhverjar hnéskeljar munu skaddast alvarlega.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum 11. júlí 2024.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson