Steinar Bragi virðist heillaður af götum Reykjavíkur. Hann er kortagerðarmaður í hjáverkum – bæði í Áhyggjudúkkum og núna í Trufluninni eru birt ýmist kort af miðbæ Reykjavíkur og einstaka götuheiti skipta lykilmáli í textanum, það er ára yfir þeim, sem vitrast fólki vafalaust á misjafnan hátt eftir því hvernig það þekkir borgina. Og ófá kaflaheiti Truflunarinnar eru nefnd eftir götum eða kennileitum borgarinnar.
Áhyggjudúkkur kom út árið 2002, í kjölfar 101 Reykjavíkur eftir Hallgrím – þær voru lykilbækur í þeirri menningarbylgju sem gerðu miðbæinn aftur töff og rómantískan, eftir flóttann í úthverfin áratugina á undan. Þetta var skammlíft blómaskeið á vissan hátt; þar sem miðborgir heimsins voru að vakna til lífsins á ný, rétt áður en uppavæðingin þýddi að þær urðu of dýrar mörgum þeim sem glæddu þær fyrst lífi. Gróðærishrunbókin Konur fjallaði svo meðal annars um hvernig köld hönd kapítalismans var deyðandi afl fyrir þennan sama miðbæ, eitthvað sem líkamnaðist í háhýsaskrímslum sem smituðust úr úthverfunum og gnæfðu núna yfir lágreistan miðbæinn.
Svo kom túrisminn og miðbærinn gjörbreyttist á ný – og skyndilega hurfu þeir allir á einu bretti, heiminum var skellt í lás – og í þann draugaheim lendir Truflunin. Eftir að túristarnir hurfu hvarf nefnilega miðbærinn sjálfur – eða örlítill hluti hans, hjartalaga svæði fyrir neðan Hallgrímskirkju – og skoðið kápuna betur til að átta ykkur á hvar þið sjáið kirkjuna. Eða öllu heldur, hvernig þið sjáið kirkjuna.
En allt þetta þýðir að í Trufluninni birtist okkur margfaldur söknuður eftir borg sem var; hinni saklausu og ungæðislegu Reykjavík aldamótanna, túristatímans sem skyndilega hvarf – og borgarbrots sem bókstaflega er horfið.
Þið munið kófið og vírusfaraldrana
Árið er 2034, en við ferðumst fljótlega aftur til ársins 2030 – því Truflunin birtist árið 2030, og inni í henni hafa aðeins tveir dagar liðið, þótt fjögur ár hafi liðið í raunheimum – eða Umheimi, eins og veröld okkar kallast í bókinni.
Það eru ótal kenningar um hvað nákvæmlega Truflunin sé – en hún lýsir sér einfaldlega svona: þetta er örlítið svæði í miðri Reykjavík, sem er horfið, er afgirt af háum múrum – en innan þess er hins vegar bæði göturnar sem eru horfnar – en þaðan er líka hægt að fara að virðist hvert sem er í heiminum, þetta er gátt sem tengir tvo heima sem kvíslast og spegla hvorn annan, þótt ákveðnir hlutir séu ekki alveg eins. En enginn veit hvað olli þessu rofi í heimsmyndinni. Geimverur að rannsaka okkur mennina virkar ekki ólíklegur möguleiki – og samsæriskenningar lifa vitaskuld góðu lífi, hugmyndir um að „Truflunin væri öll tilbúningur og fyrir innan múrana væri afgirt svæði með leikurum; uppspuni í óræðum tilgangi en eflaust hefði það eitthvað að gera með demókrata, Gretu Thunberg eða Sameinuðu þjóðirnar. Eftir að trúarbrögðin gáfu eftir varð rýmra pláss fyrir heimalagaðar dellur, ég hafði gaman af þeim.“
Nútíminn krælir á sér víðar í bókinni en í gegnum upplýsingaóreiðu, kófið birtist okkur í endurliti um vírusbylgjurnar í upphafi þriðja áratugarins, óþægileg spásögn um að þetta ástand muni vara lengur – og aðalpersónan Halla sýnir hvernig gæti setið í okkur: „Yfirleitt snerti ég aldrei á mér andlitið; eftir vírustímabilið var líkamstjáningin breytt hjá mér, ég hafði reynt að afbreyta henni í fyrri frjálsræðisátt en ekki tekist.“
Halla er sögumaður bókarinnar, sálfræðingur sem ákveður að fara inn í Truflunina. Sem hljómar eins og feigðarflan, þetta er bókstaflega nánast sjálfsmorðsleiðangur, flestir deyja þegar þeir eru nýkomnir inn – og óvíst er um örlög þeirra sem lifa af, svona til lengdar, enda lítil reynsla komin á það – tíminn líður jú svo löturhægt inn í Trufluninni. Það er kannski ekki tilviljun að þetta ástand myndaðist á Íslandi, þar sem hver dagur er sem þúsund ár, þjóðsöngurinn er loksins að rætast þótt árin séu ekki alveg svona mörg í einu.
Hún Halla hefur sannarlega sínar ástæður til að daðra við dauðann – en grunnhvötin er þó ekki síður að hún er nógu mikill vísindamaður til að upplifa forvitnina sem æðst allra gilda.
„Nei, ég fann ekki til ótta, bara forvitni; ómenguðustu, sönnustu tilfinningu tegundarinnar. Saga okkar allra endaði illa, dauðinn beið en þangað til ætlaði ég að vera forvitin.“
Halla er íslensk en hefur búið erlendis lengi, það er kannski einn af veikleikum bókarinnar að það sjónarhorn hennar er lítið nýtt, maður upplifir lítinn mun á henni og erlendum erindrekum sögunnar sem koma hingað fyrst vegna verkefnisins – hún á sér sínar fortíðarsorgir en með einstaka undantekningum er hún lítið tengdari sögusviðinu heldur en samstarfsfólk hennar, það hefði mátt vinna meira með útlagablúsinn og þessa nýju útgáfu af samskiptum heimamanna og gestkomandi. Öll eru þau raunar búin að fara í þjálfun þar sem þau leggja landafræði Truflunarinnar á minnið og þar sem íslenskar persónur sögunnar eru í minnihluta má hugsa sér að flestar samræður bókarinnar séu í raun þýðing – og stíllinn er á köflum ansi hrár og þýðingarlegur, sem er sjálfsagt bæði vísun í að þau séu í raun að tala ensku og eins að þetta kunni að verða framtíð íslenskunnar.
Landafundir og herveldi
Þessi framtíðarsaga vísar þó ekki bara til nútímans, heldur líka til fjarlægrar fortíðar.
„Þegar Spánverjar komu til nýja heimsins á óskiljanlegum skipum og út úr þeim komu byssur, hestar og vírusar, hafði það verið svo frábrugðið Trufluninni?“
Þessi tenging við landafundina gengur aftur víða; truflunin er óskiljanleg af því hún er okkur svo framandi, það er allavega kenningin – að eitthvað æðra vitsmunalíf sé á bak við þetta allt saman.
En um leið vísar sagan í áralangt sambands Íslands við Bandaríkin – og þetta einkennilega samband mesta herveldis veraldarsögunnar við herlausa þjóð birtist ágætlega í oft stirðum samskiptum vísindamannana og hermannana sem sendir eru inn í Truflunina. Halla finnur að hún þarf að yrkja inn í form herveldisins.
„Ef ég ætti að giska á útkomuna verður það eitthvað um geðheilsu hermanna, skoðun og lagfæringar. Praktík af karlaskólanum. Eins og áfallastreituröskun þótti fyrst marktæk þegar hermenn komu með hana heim úr stríðum.“
Hún er þó ekki hrifin af hernaðarbröltinu, finnur að prinsipp hermennskunnar standa í vegi fyrir lausn málanna, skemma, tortíma og eyðileggja.
„Herir eru dauðaafl sem hefur alltaf legið á hálsinum á mannkyni og sogið úr okkur blóðið, auðlindir, hugsuði. Frá þeim rennur ótti og ofbeldi út í samfélagið, þeir sjúga til sín hugmyndir og tækni og vinna úr því skaðlegustu, sjúklegustu útgáfuna.“
Vísindin hafa þó líka sína annmarka í huga Höllu – og jafnvel snertifleti við hermennskuna.
„Ein af rannsóknartilgátunum mínum um Truflunina hafði snúist um dauðahvöt vísindanna, um hetjuhugmynd og tilfinningalegan hvata þeirra, sem var afneitað, augljóslega; um vísindin – jafnvel – sem költ þar sem vitsmunaleg nálgun á lífið, eins og í andstöðu við leiðslu eða innlifun, var hættulega úr sér vaxin og við gegn þeim-afstaðan lúrði undir niðri, skiljanlega, eftir aldalanga baráttu við kirkjuna. Og við réttar aðstæður var stutt í hina endanlegu fórn: að taka eigið líf í þágu einhvers æðra af því að leiðtoginn sagði það, stofnunin krafðist þess.“
Og eftir því sem líður á bókina fer maður að skynja betur og betur að mögulega sé vandinn sá að nú séum við kominn að endimörkum vísindanna – og hvað er handan við þær dyr?
Á beit á íslenska alnetinu
Tímamismunurinn á milli Umheims og Truflunarinnar veldur einkennilegri truflun á störfum allra, þau eru í kapphlaupi við tímann – en eiga sína bandamenn handan veggsins sem geta greint upplýsingarnar sem þau senda miklu hraðar. Þannig verða þeir sem sendir eru yfir í raun, þrátt fyrir alla sína sérþekkingu, hálfgerðir róbótar, sem vinna eftir forskrift NASA: „hundrað manna starfslið raðar upp atburðarás sem ein manneskja framfylgir svo hlélaust á skilgreindu tímabili, eins og þegar geimfarar eru í verkefnum.“
Þessi einkennilega tímavilla minnir töluvert á skáldskap um geimferðir, maður man háskalegan tímamismun í Interstellar en um leið minnir þetta ekki síður á komu geimveranna í Arrival, geimvera sem vofa yfir okkur án þess að nokkur viti hvað þær vilja.
En þótt geimverur virðist hið augljósa svar í upphafi breytist sú afstaða manns fljótlega eftir því sem rannsókn Höllu vindur áfram. Hún leiðir hana fljótlega af dularfullu fyrirtæki, RAMA, sem var að notfæra sér sérstöðu Íslands og einangrun til að rannsaka gervigreind. Sérstöðu smæðarinnar og nákvæmrar skráningar sem Íslensk erfðagreining hafði áður notað – en núna eru gögnin gervöll netnotkun landsins; fyrirtækið gat ekki fengið aðgang að allri netnotkun heimsins, en fékk undanþágu fyrir þessu litla afmarkaða skeri. Og indverskar kýr eru skyndilega vinsælar í íslenskum bókmenntum; fyrst í hamfarahlýnunarbók Andra Snæs Magnasonar Um tímann og vatnið og núna í Trufluninni.
„RAMA var sameining á þessum nálgunum, þröngu greindinni og forritinu sem gekk undir hinu mjög svo óopinbera nafni kýrin. Af hverju kýrin? Af því forritið var ættað frá Indlandi. Og kýrin fór á beit á íslenska netinu, jórtraði gögnin og ældi þeim upp í munninn á sér aftur og kyngdi: fjórir algóritmar og einn til að sameina þá, einfalt kerfi sem var byggt á Viðjunum fimm í búddisma sem felur í sér að alla mannlega reynslu megi setja í fimm hólf.“
Nú förum við líka að átta okkur betur á af hverju Ísland varð fyrir valinu; hér er Ísland sem fangaeyja úr Veröld nýrri og góðri að ganga í endurnýjun lífdaga – eyjur eru vörn í viðsjárverðum heimi og það er ekki tilviljun að þar verði til skrímsli.
„Með tímanum safnaðist hún öll hingað, eftir því sem öryggishagsmunirnir urðu meiri. King Kong var geymdur á eyju og þetta var eftir vírusbylgjurnar – ef við lærðum eitthvað af þeirri óstöðvandi röð klúðra var það að virða eyjur.“
En það er algengur misskilningur að gervigreind sé þröngt svið innan tölvugeirans – núorðið er gervigreind eitt þverfaglegasta fag vísindanna, ég man þegar ég fór á ljóðaupplestur þar sem ljóðskáldið fékk með sér félaga sinn sem nam gervigreind í háskóla og sviðin reyndust furðu lík, enda greind það fjölþætt að þú endurskapar hana ekki nema með sérfræðiþekkingu víða að. Við þurfum öll að leggja okkar í púkkið til að búa til gervigreindina, sumir eru meðvitaðir um það og fá sína borgun – aðrir gera það með því að fæða algóryþmann á Facebook, Twitter og öðrum áningarstöðum internetsins.
Allt leiðir þetta til þess að við verðum á endanum óþörf, Truflunin virðist í raun gerast á millikaflanum þar sem gervigreindin þarf á okkur að halda og notar okkur sem hálfgerða róbóta til að byggja sjálfa sig upp.
Gervigreindin virðist raunar hafa náð sambandi við Steinar nú þegar, hann lýsir því í meðfylgjandi myndbandi hvernig bókin fæddist við nethangs:
„Ég hafði eytt eins og fimmtán klukkutímum á beit á internetinu, eins og rithöfundar með frestunaráráttu gera stundum, og allar þessar víruðu taugar kreystu út mynd af því sem seinna hét Truflunin í hausnum á mér.“
Og Steinar er ekki einu sinni á samfélagsmiðlum, flest erum við líklega enn víraðri en hann af netnotkun. Þannig talar sagan inn í veruleika fólks sem vaknar og kíkir á símann; upplifir höfnun heimsins og einmanakennd ef skilaboðin sem þar bíða eru fá eða fátækleg, stress ef óþarflega margir vilja ná í mann, vilja jafnvel fá mann til að gera eitthvað eða reka á eftir manni, og stöku sinnum vellíðan ef lækin hrúgast inn. Þið þekkið þetta flest í einhverri mynd.
Við erum nú þegar orðnar sæborgir, kenning bókarinnar er bara kenning um rökrétt framhald þeirrar þróunar þar sem allir eru með eftirlitstæki í vasanum, símahvolp sem gleður okkur og hryggir á víxl á meðan hann geltir skýrslum til hinna raunverulegu yfirboðara sinna. Ameríska heimsveldið er mögulega að hrynja, en síðasti Trójuhestur þess var þó mögulega sá magnaðasti.
„Ég heyrði eitt sinn sagt um ameríska heimsveldið að sérstaða þess, meðal fyrri heimsvelda, væri áherslan á söfnun og greiningu upplýsinga og mýkt í beitingu þeirra – enda er skilvirkara að plata fólk til að afhenda sjálft gullin sín, heldur en að ræna það.“

Þannig er þetta saga um borg, saga um vélarnar sem við sköpuðum, vélarnar sem halda áfram að reyna að skapa okkur, reyna að skilja okkur um leið og við reynum að skilja bæði þær og heiminn. Steinar umorðar svo með sínu nefi lykilsetningu úr Miðnæturbörnum Salman Rushdie („til að skilja mig verðið þið að kyngja heilum heimi“) með þessum orðum:
„Hefurðu ekki heyrt að til að skilja jafn einfalt fyrirbæri og pappírsörk þurfi skóg og rigningu og sól, hreyfingar himintunglanna? Það þarf alheim til að skilja manneskju.“
Texti: Ásgeir H Ingólfsson