Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Laugardagsljóðið

Ljóðskáldin sem tekin voru af lífi ganga aftur

Klukkan fimm á laugardaginn 26. október verður þeirra ljóðskálda sem tekin voru af lífi minnst með ljóðadagskrá í Tjarnarbíó, Night of the Executed Poets, með áherslu á skáld frá Hvítarús og Úkraínu, en haustið 1937 átti sér stað mikil undirokunar-bylgja í Sovétríkjunum sem þurrkaði út ótal kynslóðir af módernistum og voru yfir 100 þekktir einstaklingar, rithöfundar, menningarvitar og leiðtogar, teknir af lífi þann 29. október það ár.

Þetta atvik í sögu Hvítarús er nú þekkt sem „svarta nóttin.‟ Í Úkraínu er talað um „aftöku endurreisnarinnar‟ þegar átt er við þá menningarelítu sem tekin var af lífi. Það sem sameinar þessa einstaklinga var ástríða þeirra fyrir því að tjá sig frjálslega á móðurmáli sínu.

Einn af þeim var Mikhas Tsjarot (1896-1937), en kollegi hans fann þetta ljóð tveimur árum síðar.

„Árið 1939 var ég settur í einangrunarklefa. Ég grandskoðaði veggina og leitaði að áletrunum. Og í einu horninu fann ég ljóð, sem skrapað hafði verið á vegginn með beittu áhaldi. Þetta var mitt síðasta stefnumót við minn kæra vin og ástkæra skáld Mikhas Tsjarot. Árum saman hef ég hef varðveitt þessi orð innra með mér.“

– Mikola Khvedarovitsj, þýðandi og skáld

Af því tilefni birtir smyglið nú þýðingu Rebekku Þráinsdóttir á ljóði Tsjarots.

Eiðurinn

Ég bjóst ekki við
og grunaði ekki –
því ég hafði lifað með opnum huga –
að grimmilegar hörmungar,
myndu leiða mig til fundar við yfirheyrslur,
fangelsi.

Þjónar undirförulla svikara
komu mér inn fyrir rimlana.
Ég sver, vinir mínir,
akrarnir mínir,
skógarnir mínir –

ég segi ykkur — ég er saklaus!

Rebekka Þráinsdóttir þýddi lauslega úr hvítrúsku og ensku.

Á viðburðinum verður hægt að hlýða á ljóð og texta á jiddísku, hvítrúsku, rússnesku, úkraínsku og búrjat, sem verða þýdd á bæði ensku og íslensku, til að við heyrum raddir þeirra sem með offorsi var þaggað niður í. Einnig verður peningasöfnun fyrir pólitíska fanga í Hvítarús. Allir sem vilja taka þátt í upplestri er boðið að hafa samband við skipleggjanda viðburðarins, Victoriu Vdovina, með tölvupósti á viv7@hi.is