Eins og þið kannski munið bjó árið 1900 ung stúlka í Kansas sem hét Dórótea. Hún vann á kassanum í hverfisbúðinni. Dórótea var hjálpfús og þótti vænt um kúnnana, gat fundið allt sem vantaði, gat uppfyllt allar óskir þínar um jólagjafir til barnanna og var jafnvel með eitthvað góðgæti falið undir borði.
Dóróteu fannst gaman að spjalla við kúnnana. Hún naut starfsins, en hún var ennþá ung og dreymdi stóra drauma. Hana langaði að verða rithöfundur. Já, eða blaðamaður sem skrifaði fréttir utan úr heimi sem fólkið hennar í Kansas gæti svo lesið. Eða ætti hún kannski að verða leikkona? Eða þýðandi, svo hún gæti þýtt allar þessar bókmenntir sem hvorki hún né aðrir bókelskandi íbúar bæjarins gátu skilið, af því þær voru á rússnesku eða íslensku eða kínversku.
Dórótea vissi samt að þetta voru allt erfið störf. Það tók tíma að skrifa heilu skáldsögunnar með blaði og penna, svo ekki sé minnst á endurskriftir og hreinskriftir. Henni varð illt í skrifhendinni við tilhugsunina eina um að skrifa svona mikið. Það sama gilti um þýðingar og allar þungu orðabækurnar sem þeim starfa fylgdi. Og hvað með að verða blaðakona á erlendu deildinni? Að þurfa að senda bréf póstleiðis eða símleiðis – þetta hljómaði eins og svakalega mikið vesen.
En Dórótea lét það ekki stoppa sig. Þetta var dugleg stúlka og ætlaði í háskóla og læra allt þetta, takast á við og sigrast á öllum þessum áskorunum. En svo gerðist það að ógurlegur fellibylur greip húsið hennar og feykti því út í heim. Ekki samt til galdralandsins Oz, eins og þið bjuggust kannski öll við, heldur til okkar í nútímanum. Þessi fellibylur var tímavél.
Hún Dórótea gapti af undrun og fögnuði yfir öllum tækniframförunum. Nú gat hún farið í flugvél til að skrifa fréttir frá útlöndum, hún gat notað tölvu til að skrifa fréttirnar og rafrænar orðabækur til að þýða. Hún gat meira að segja bara talað við litlar vélar og þær gátu spýtt textanum út úr sér, vélar sem gátu breytt mannsröddinni í texta. Með öllu þessu gat hún sent þetta allt á svipstundu heim til Kansas.
Þvílík tækifæri! Það er nokkuð ljóst að blaðamennska muni blómstra sem aldrei fyrr. Hún gæti orðið rithöfundur, notað leiðréttingaforrit til að laga stafsetningu og þýtt gervallar heimsbókmenntirnar með hjálp þýðingavéla og rafrænna orðabóka.
Þessi undraveröld gladdi Dóróteu mjög, hún var lent í besta heimi allra heima, og verandi framtakssöm ung stúlka ákvað hún að það væri ekki eftir neinu að bíða og fór að leita sér að vinnu í þessum nýja heimi. Hún ákvað samt að kynnast þessari nýju veröld aðeins betur fyrst. Fann rithöfundana, blaðamennina, þýðendurna. Og þeir höfðu flestir sömu sögu að segja; þetta var allt betra í gamla daga.
Dórótea trúði ekki þessum bölmóði, þetta hlaut að vera vitleysa ofalinna nútímamanna. Og vissulega sáu nútímamenn sumir fortíðina í rósrauðum bjarma, en þó fór Dórótea að sjá eitt: flestum þessum galdratækjum og tólum var stýrt af einhverjum snælduvitlausum galdraköllum í Oz. Mönnum sem rétt eins og galdrakarlinn í ævintýrinu voru ekki alvöru galdrakarlar.
Núna voru galdrakarlarnir í Oz ríkustu karlarnir í Oz. Þeir sem áttu tækin. Vinnutækin. Þeir notuðu ekki gróðann og tímasparnaðinn til að auðvelda fólki vinnuna. Hann fór aldrei í vasa rithöfundana eða blaðamannana eða þýðendanna eða búðarstarfsmannana sem misstu störfin sín til sjálfvirkra afgreiðslukassa. Hann fór í vasa galdrakarlanna. Svo urðu þeir gráðugir og vildu spara ennþá meira, þannig að búðirnar og þýðingarnar og blaðamennskan urðu verri. Heimurinn varð verri þegar hann hefði átt að verða betri.
Sumt var auðvitað betra. En samt. Það var svo margt sem ætti að vera svo miklu betra með því einu að nýta öll þessi galdratæki betur, en svo varð það jafnvel verra. Svo fóru menn að tala meira og meira um gervigreind. Einhverja róbóta sem allir virtust dauðhræddir við. En bíddu, voru þetta ekki bara vélar, vélar sem áttu að auðvelda fólki störfin? En nei, vélarnar voru að taka störfin af fólki. Áttu vélarnar ekki að skapa fólki meiri frítíma, lengri sumarfrí? Nei, vélarnar gerðu það að verkum að það varð erfiðara og erfiðara að vinna störfin. En svo áttaði Dórótea sig. Það var ekkert að vélunum. Vélarnar þráðu ekki að verða rithöfundar eða búðarstarfsmenn, vélarnar vildu ekki taka vinnuna af fólki, vélarnar vildu ekki að fólk yrði atvinnulaust. Það var einhver annar sem þráði þann heim. Það var einhver annar sem vildi ekki borga fólki laun – og alls ekki mannsæmandi laun. Ef vinnan varð auðveldari og fljótlegri þá vildi hann að vinnuþrælarnir ynnu bara margfalt meira í staðinn.
Allt bar þetta að sama brunni og Dórótea hugsaði með sér: hvað ef við látum vélarnar bara vinna fyrir okkur, en ekki í staðinn fyrir okkur? Hvað ef við látum vélarnar gera það sem við viljum ekki gera, það sem við höfum ekki tíma til að gera, á meðan við gerum það sem okkur dreymir um? Hvað ef við ráðum vélarnar sem hjálparkokka, í staðinn fyrir að láta þær gera allt fyrir okkur? Væri það endilega svo galin hugmynd?
Dórótea varpaði þessari spurningu fram þegar hún hitti Galdrakarla á förnum vegi. En svörin voru alltaf þau sömu: lögmál markaðarins. Kapítalisminn. Og alltaf hristi Dórótea hausinn, enda skynsöm og hugsandi stúlka. Allir þessir frasar voru meira og minna merkingarlausir, það var engin alvöru hugsun á bak við þá. Og loksins sá hún á bak við blekkinguna. Gervigreind var ekki nýjasta tækni tölvuheimsins, nei, hún var meint greind ríks fólks og fylgismanna þess sem hafði enga alvöru greind til að bera. Fólks sem þróaði með sér gervigreind í stað raunverulegrar visku og hugsunar, fólk sem var sama um mannlega hugsun og vildi bara græða og sjá galnar hugmyndir eigin gervigreindar verða að veruleika um leið og það grillaði á kvöldin.
Þessar manneskjur tóku svo öll tækin, öll þessi frábæru tæki, í sína þjónustu. Rændu þeim. Notuðu til að kúga og arðræna. Dórótea sá að það þyrfti einfaldlega að gera uppreisn og koma framleiðslutækjunum aftur til fólksins. Sýna öllum að þessi meinta greind nautheimskra galdrakarla væri ekki ekki alvöru greind, heldur þvert á móti gervigreind sem engin alvöru hugsun var á bak við. Og rétt eins og í öðrum fornum ævintýrum Dóróteu afhjúpaði hún þar með Galdrakarlinn í Oz.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson