Hann er stærri og sterkari en þeir allir, þeir hafa aldrei séð aðra eins skepnu. Þeir eru hræddir en um leið heillaðir, þeir munda vopnin, þetta gæti orðið þeirra stærsti fengur, þeir gætu orðið þekktir sem maðurinn sem drap … drap hvern? Nú er ég ekki alveg viss lengur hvort ég ætlaði að skrifa Hulk eða ísbjörninn, græni risinn og hvítu risarnir tveir komu hingað á sama tíma og renna nú saman í eitt, kannski þriðja ísbjörninn sem sumir segjast hafa séð ummerki um á hálendi landsins.

En Hulk og bangsarnir eru líka sama skepnan, því á meðan gestsaugun kunna að vera glögg þá lærum við líklega meira af því að fylgjast með hvernig við tökum á móti gestum. Og á meðan Hulk gefur bandaríska hernum tækifæri til þess að þróa enn eina stríðsvélina í viðbót, í þetta skiptið hálfmennska, þá brá björninn hvíti kunnuglegu ljósi á tvískiptingu sem enn er til staðar hérlendis, heimi borgarinnar og heimi sveitarinnar.

Hér er ástæða til að minna á annan gest sem við fengum hingað til lands fyrir ári síðan, gest sem rétt eins og hvítabirnirnir veitti engin viðtöl, nóbelsskáldið J.M. Coetzee. Í bók hans The Lives of Animals gerir hann meðal annars að umfjöllunarefni tvær tegundir dýravina; annars vegar veiðimennina, þá sem fylgjast með dýrum heilu dagana og næturnar, þekkja alla þeirra hætti og skilja þau betur en sambræður sína, allt til þess að hafa betur í eltingarleiknum. Hins vegar eru dýravinirnir sem aldrei hitta nein dýr, að minnsta kosti ekki þau dýr sem þeir vilja vernda. Borgarbörnin. Borgarbörnin syrgðu bjössa og bölvuðu umhverfisráðherra og byssuglöðum sveitalubbum á meðan landsbyggðarfólk skildi ekki hysteríuna í liðinu fyrir sunnan, hélt það kannski að það gæti stungið ísbjörninn af? Ég sjálfur er utan af landi en bý í borginni, þar af leiðandi veit ég ekki alveg hvað mér á að finnast.

En ég spyr mig samt: erum við ekki öll að gera ísbjörn úr mýflugu? Annars staðar í bók Coetzee stendur: „Jagúarljóð eru ágæt til síns brúks, hugsaði hann, en þú átt ekki eftir að sjá fólk standa í kringum rollur, hlusta á þær jarma og skrifa ljóð um það. Er ekki einmitt þetta sem er svo vafasamt í dýraverndunarbransanum: að hann þarf að húkka sér far með hæglátum górillum, sexí hlébörðum og knúsvænum pandabjörnum af því að þau dýr sem þeir virkilega vilja vernda, kjúklingar og svín, svo ekki sé minnst á hvítar rottur eða rækjur, eru ekki fréttnæmar?“ Ísbirnir eru fréttnæmir, þeir komast meira að segja í fréttirnar þegar þeir eru bara saklausar rollur eða tröllasögur ferðalanga með fjörugt ímyndunarafl. Ísbirnir eru stjörnur, tignarlegir og ógnvekjandi. Á meðan eru allir hættir að nenna að rífast um hvali og rollur komast aldrei í fréttir nema þeim takist að leika ísbjörn nógu sannfærandi.

Þó er von fyrir hin dýrin. Ef drápið var nógu andstyggilegt, tilgangsleysið nógu yfirþyrmandi og dýrið nógu krúttlegt. Á sama tíma og norðanmenn eltust við ísbirni var lítill hvolpur grafinn lifandi í hrauni á Suðurnesjum. Ófáir hneyksluðust – og hefðu örugglega verið fleiri ef sumir hefðu ekki brennt sig á rakkanum Lúkasi – og einu sinni hefði ég verið í þeim hópi. Einu sinni var ég í kvikmyndakúrsi í erlendum háskóla og þar horfðum við á Badlands, ljóðræna mynd Terence Malicks um raðmorðingjapar. Eftir myndina spurði prófessorinn okkur hvort dráp þeirra á föður annarrar aðalpersónunnar væri ekki fullkomlega eðlilegt. „But he shot the dog, so he must have been evil.“ – og þar af leiðandi réttdræpur? Hann glotti við tönn þegar hann sagði þetta, var aðallega að reyna að koma af stað debati – en það var of seint, tíminn var búinn. En ég var eiginlega alveg sammála honum, hann drap hund dóttur sinnar án nokkurrar almennilegrar ástæðu. Hvað er það annað en illska og ómennska? Löngu seinna las ég frásögn Breiðavíkurdrengsins Páls Elíssonar þar sem hann lýsir því hvernig þeir skírðu saklausa fugla eftir kvölurum sínum og drápu þá svo með sinni heimatilbúnu fugla-fallöxi – og skyndilega varð áður óskiljanleg illska auðskiljanleg mennska. Og um leið sönnun þess að oft vitum við miklu minna um sambræðurna en hvíta risa frá heimsenda.

 

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 5. júlí 2008.