Íslenskur texti um þýska borg með dönskum myndum
Mærin eru víða. Fyrir Damiel lágu þau í loftinu, í verunni sjálfri. Hann gat engan snert í raun þótt hann heyrði hugsanir þeirra, hann gat ekki drukkið eða borðað því maturinn og drykkurinn hefði aðeins farið í gegnum hann. Damiel var engill í Berlín sem gerðist mennskur rétt áður en múrinn féll, hann var búinn að fá nóg af sínum múr og tveimur árum síðar tóku allir íbúar Berlínar í sama streng. Fyrir sléttum tuttugu árum.
Damiel var aðalpersóna Der Himmel Über Berlin, draumkenndrar bíómyndar frá 1987 þar sem englar Wim Wenders sveima yfir klofinni borg, heyra hugsanir fólks og reyna, oftast af veikum mætti, að lina þjáningar þeirra. Og rétt eins og Wenders hefur ósjaldan bent á hefði þessi mynd ekki getað gerst annars staðar en í Berlín, hvergi annars staðar var jafn stutt að næstu manneskju – en samt svo langt. Fjölskyldum var sundrað, vinabönd rofin.
Og þegar við fögnum tvítugsafmæli þess að Berlínarmúrinn féll erum við að fagna einhverjum merkilegasta og fallegasta sigri mannréttindabaráttu í sögu heimsbyggðarinnar. Ekki af því að það hafi ríkt ævarandi hamingja í austurhluta Þýskalands allar götur síðan og heldur ekki út af hlutverki hans sem aðalvíglína kommúnisma austursins og kapítalisma vestursins.
Nei, af því að hann er líkast til sterkasta og magnaðasta táknmynd alvarlegustu mannréttindabrota okkar tíma, landamæranna. Þeirra múra sem leyfa manneskjum ekki að hittast, þeirra múra sem segja okkur að það skipti engu máli hver við séum heldur öllu máli hvaðan við komum. Þeirra múra sem tryggja stoðir flestra þeirra mannréttindabrota okkar tíma, því þetta eru múrarnir sem hindra okkur í að flýja.
Við upplifum okkar eigin vanmátt núna, með ónýta krónu sem gerir flestar utanlandsferðir skyndilega rándýrar, of dýrar til þess að við getum látið eftir lönguninna að fara, það er of dýrt fyrir marga að komast burt frá Icesave og öllu hinu staglinu. Og samt er peningaleysið okkar eina hindrun, fyrir stærstan hluta heimsins hefur þetta sama peningaleysi verið viðvarandi vandamál en til viðbótar hefur bæst endalaust skrifræði, vegabréfsáritanir og fleiri pappírsgerðir Berlínarmúrar en við getum gert okkur í hugarlund.
Þau ár sem Berlínarmúrinn klauf borgina, fjölskyldur og vinahópa var nánast öll heimsbyggðin, að undanskildum fáeinum bjúrókrötum, sammála: okkur fannst þetta einfaldlega fáránlegt, fullkomlega galið satt best að segja. En af hverju er þetta ekki alveg jafn fáránlegt þótt aðeins lengra sé á milli fjölskyldumeðlima, jafnvel heimsálfur. Eiga þeir ekki eftir sem áður sama rétt á að hittast ef þeir svo kjósa?
Til hvers eru landamæri? Eru þau öryggistæki? Stöku sinnum hafa landamæri vissulega gert sitt til þess að verja hagsmuni hins almenna borgara, en miklu oftar hafa þau verið notuð sem tæki til þess að traðka á þeim rétti. Þau eru fyrst og fremst tæki til þess að viðhalda valdastrúktúrum sem og flestu því misrétti sem viðgengst í heiminum. Því landamærin eru tæki sem flestir kúgarar nota á einn hátt eða annan. Síðustu árhundruðin hefur til dæmis sjaldnast þótt boðlegt á Vesturlöndum að ríki hnepptu eigin þegna í þrældóm, en ef þeir voru sóttir yfir nógu mörg landamæri virtist það allt í einu orðið boðlegt, hvort sem það voru svartir plantekruþrælar fortíðarinnar eða úkraínskir kynlífsþrælar. Að ógleymdum auðvitað írsku þrælunum sem við erum flest komin af í bland við blessaða Norðmennina.
Múr verður gallerí
Þrátt fyrir þetta get ég ekki neitað því að mér þykir fátt meira heillandi í veröldinni en þessi múr. Ég ferðaðist með brasilískum ferðafélaga í minni fyrstu Berlínarför fyrir rúmum áratug og hann var ekki það vel að sér í Evrópusögunni (kannski miklu merkilegri múrar í S-Ameríku sem enginn sagði mér frá?) að hann skoðaði alla staðina í bæklingnum sínum jafn lengi. Ég var hins vegar orðinn passlega þreyttur á þessu öllu saman þegar við komum að múrnum – en þá varð ég allur uppveðraður og vildi alls ekki fara. Núna var múrinn orðin að galleríi, East Side Gallery, þar sem myndlistamenn nota þessar leifar múrsins sem striga fyrir alls kyns myndverk – og yfir flest þeirra er málað á endanum, tíu árum seinna sá ég þar allt aðrar myndir.
Og galleríið fannst mér heillandi, en mest fannst mér þó sagan heillandi. Þetta var staðurinn sem heimsmynd bernskunnar hrundi, heimsmynd sem mátti svo sannarlega hrynja, og ef þetta hefði ekki gerst þá veit ég ekki hvort ég hefði nokkurn tímann átt þess kost að eyða nokkrum árum ævi minnar í Austur-Evrópu – og þó eru áhrif múrbrotsins á mitt líf smámunir miðað við áhrif þess á líf milljóna annarra – fyrir mig er þetta spurning um fáein ár, fyrir þá heilt líf.
Múrinn og arfleifð hans hefur vitaskuld heillað fleiri en mig. Einn þeirra er daninn Brian Berg, sem tók myndirnar sem fylgja greininni. Hann býr í Kaupmannahöfn og hefur áður starfað fyrir Berlingske Tidende (sem ég hélt einmitt lengi vel í vankunnáttu minni að hlyti barasta að vera Berlínar-dagblað með einkennilega dönskuskotnum titli). Næsta verkefni hans verður hérlendis með Kristni Schram, en með honum hefur hann áður unnið verkin Bagdad, Arizona (first days of war, 2003) og Routes to Landscapes árið 2008. Brian er er nýkominn frá Berlín og sendi mér fjöldan allan af myndum af múrnum. En það er samt sáralítið af múr á þessari mynd, megnið af honum hefur verið rifinn fyrir löngu, áðurnefnd gallerí helsta undantekningin.
„Hugmyndin á bak við verkefnið var að sýna umhverfi múrsins eins og það er nú, án múrsins. Myndin eru landslagsmyndir án eiginlegs drama en það fylgir þó saga flestum þeirra staða sem ég myndaði, alls kyns harmleikir,“ segir hann og minnist sérstaklega á myndina hér fyrir ofan. „Hér var maður skotinn tíu sinnum í flóttatilraun, fáeinum mánuðum áður en múrinn féll. Landslagið er enn markað múrnum, þessi yfirgefnu svæði. Þetta var ekki bara múr, því á milli múranna í austri og vestri var „dead-zone“, svæði fullt af gaddavír og öðrum hindrunum og útsýnisturnar þaðan sem verðirnir gátu miðað í rólegheitum á þá sem reyndu að flýja.“
Sameiningu Austur-Berlínar og Vestur-Berlínar er þó ekki með öllu lokið enn. „Það er ennþá bil á milli Austur- og Vestur-Berlínar. Tómar gamlar verksmiðjur fyrir austan og nýjar byggðar fyrir vestan. En líka blokkirnar fyrir vestan og fjölskylduhúsin fyrir austan. Landslagið lítur enn allt öðruvísi út, kannski ekki í miðborginni en í borgarjaðrinum.“
En af hverju landslagsmyndir? „Ég veit það ekki … fyrir mér er gaman að horfa á landslagsmyndir, þar rúmast draumar og notaleg einvera, þótt auðvitað fari það allt eftir myndinni sjálfri. Þannig gat múrinn sjálfur sagt áhorfandanum söguna frekar en fórnarlömb hans. Hugmyndin er að leita ekki að einhverju sérstöku og sjá hvað kemur til þín.“
Auk myndanna fann Brian nokkrar forvitnilegar sögur. “Ég hitti konu sem bjó á bóndabýli í sveitinni, en þangað hafði ég villst á hjólinu mínu. Hún sagði mér að frá landamærastöðinni rétt hjá hafi reglulega komið lögreglumenn í heimsókn, svokallaðir VoPo (Volks-Polizei). Þeir komu nokkrum sinnum í viku og þáðu kaffi og kökur. En hún var samt aldrei í vafa um að ef hún myndi hlaupa, reyna að flýja, yrðu það þessir sömu menn sem myndu skjóta hana í bakið. Og hvernig getum við, sem komum að utan, skilið þetta að fullu, hvernig þetta litaði allt daglegt líf fólks.“
En samt heillar múrinn. Og landamæri almennt, öll mæri. Hvaða heimshornaflakkarar telja ekki í laumi öll löndin sem þeir hafa komið til? Mæri eru staðir sem lönd mætast, menning og fólk, skyndilega tekur eitt tungumál við af öðru, stundum gerbreytist allt viðmót og andrúm. Þessar ímynduðu línur hafa margar verið hreyfiafl sjálfrar mannkynssögunnar. En þessi mæri ættu að vera út um allt, þessi orka, þegar fólk hittist, þar sem menningarheimar skarast.
Það eru tuttugu ár síðan þessi ágæta kona sem við Brian ræddi við þurfti að hafa áhyggjur af því að vera skotin í bakið ef hún færi of langt frá heimili sínu. En þeir eru þó óteljandi sem þurfa enn þann dag í dag að hafa áhyggjur af þessu. Palestínumenn í Ni’lin brutu niður hluta af múr í tilefni af afmælinu, þann múr þarf að brjóta niður allan. Múrarnir í Ísrael / Palestínu eru svo sannarlega engu skárri en Berlínarmúrinn var.
Og svo þarf að halda áfram, byrja á múrnum í hausnum á okkur …
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Myndir: Brian Berg
Greinin birtist upphaflega á Kistunni 9. nóvember 2009, þegar 20 ár voru frá múrbroti.