Ég hef séð auglýsingar um bækur Steinars Braga og Lilju Sigurðardóttur þegar ég líð niður rúllustigann í neðanjarðarlestinni í Prag, ég hef rekist á ljóð eftir Gerði Kristnýju á glervegg í miðbænum – og miklu, miklu fleiri íslenskir höfundar eru gefnir út á tékknesku en þessi þrjú. Íslenskar bíómyndir ganga fáránlega vel í tékkneskum bíóum og myndir á borð við Hrúta og Fúsa komu meira að segja í bíóið í smábænum Tábor þar sem ég bjó eitt sinn.

En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Bæði þurfa bækurnar og myndirnar og músíkin og leikritin að vera frambærileg, en það skiptir ekki síður máli að verkin eigi sér sína talsmenn, sína sendiherra. Þýðendur sem og aðra á menningarakrinum sem hafa áhuga á íslenskri menningu og berjast jafnvel fyrir henni, berjast fyrir að bækurnar séu þýddar og myndirnar sýndar og tónlistin spiluð og leikritin þýdd og sett upp (leikgerð Skugga-Baldurs sló til dæmis í gegn í Prag fyrir fáeinum árum).

Mig grunar að langflestir þessir þýðendur og aðrir tékkneskir áhugamenn um íslenska menningu hefðu fallið í hópinn „efnaminni ferðamenn“ þegar þeir komu hingað fyrst og myndu þar af leiðandi ekki sleppa í þann hóp efnameiri ferðamanna sem fyrrum forsetafrúin Dorrit vill fá hingað.

En að sama skapi er ég líka viss um að þau hafa skapað miklu meiri verðmæti fyrir landið, fyrir bæði löndin raunar, heldur en Saga Class túristar sem komu hingað bara til að bera saman kampavínið á Hótel Sögu við kampavínið í Dubai. Og hér á ég bæði við menningarleg og fjárhagsleg verðmæti. Svipaða sögu má vafalaust segja um sænska og þýska og franska og ameríska sendiherra íslenskrar menningar, þetta er sjaldnast þotuliðið.

Megnið af ferðamönnunum sem heimsóttu Ísland í gróðærinu fyrir hrun voru annað hvort þotulið eða fólk sem stoppaði varla í Reykjavík eða öðrum þéttbýliskjörnum, heldur fór beint út á land að njóta náttúrunnar – bæði út af því þau sóttu í náttúru en ekki síður af því þau vildu forðast dýrtíðina í bænum.

En þetta var eitt af því sem var gott við hrunið; skyndilega spruttu upp hostel í miðbæ Reykjavíkur og maður hitti fyrir útlendinga að sama tagi og maður hitti fyrir á eigin flakki, fólk af sama sauðahúsi og maður sjálfur, forvitin og lífsglöð ungmenni sem voru uppfull af forvitni, en voru ekki að koma hingað í rándýrum og innihaldsrýrum pakkaferðum. Íslenski ferðamannabransinn var farinn að verða áhugaverður – þótt auðvitað hafi hann stækkað aðeins of mikið og of hratt, eins og alltaf gerist á þessu landi og hefur vitaskuld gerst víðar.

Ríkir túristar þýða líka hærra verð fyrir heimamenn, sem skyndilega hafa ekki efni á að búa á vissum stöðum, borða á vissum veitingastöðum og hafa jafnvel ekki efni á vissri þjónustu, komast ekki í Bláa lónið og svo framvegis. Þannig er meintur gróði af ríkum ferðamönnum afskaplega fljótur að hverfa, þegar allt er reiknað.

Þegar okrið opinberar sig

En svo ég hverfi aftur til Prag, annarar borgar sem hefur fundið rækilega fyrir túrismanum, þá var ég að frétta að þar hefðu vissir veitingastaðir í miðbænum lækkað rækilega verðið. Ekki allir, vel að merkja, ekki þeir sem voru einfaldlega með venjuleg tékknesk verð, verð sem fólk er fullkomlega sátt við að borga. Nei, bara hinir, þessir sem rukka margföld verð fyrir passlega vitlausa ríka og nýlenta túrista, og þurfa auðvitað að lækka verðin þegar túristarnir eru farnir.

En þótt túristaflaumurinn minni marga stundum á gullæði þá er rétt að muna að ólíkt gullinu þá eru ferðamenn ekki kaldur, dauður málmur, heldur einfaldlega forvitið og ævintýragjarnt fólk rétt eins og við sjálf, fólk sem er ýmist gaman eða leiðinlegt að eiga í samskiptum við, eins og gengur, og við sjálf höfum auðvitað öll verið túristar hér og þar, stundum efnamiklir túristar, stundum efnalitlir. Og þegar við komum heim berum við vafalaust þeim stöðum vel söguna þar sem ekki er verið að svindla á okkur eða okra á okkur, þar sem var komið fram við okkur eins og fólk en ekki eins og auðfenginn gjaldeyri.

Ferðamenn eru hluti af sama samfélagi og við, allavega tímabundið, og hagsmunirnir eru margir þeir sömu – góðir veitingastaðir, kaffihús og barir á sanngjörnu verði, líflegt bæjarlíf sem er opið aðkomumönnum og utanaðkomandi áhrifum en hlúir jafnframt af lifandi menningu heimamanna, sem og menningararfi þeirra.

Ferðamennska og fólksflutningar eru auðvitað ekkert nýtt af nálinni, þótt eðli og algengi hafi gerbreyst í gegnum aldirnar og muni hugsanlega gerbreytast eftir kófið. Þess vegna er ágætt að hafa í huga að það er samstarfsverkefni að búa til almennilegt samfélag – og þegar best tekst til þá er það samstarfsverkefni heimamanna og aðfluttra, hvort sem það eru ferðamenn eða innflytjendur af einhverju tagi. Þannig fara á endanum hagsmunir allra saman – og um leið og áherslan verður of mikil á einstaka þjóðfélagshópa, eins og til dæmis ríkt fólk, þá finna allir hinir hóparnir fyrir því, bæði efnaminni ferðamenn en líka efnaminni heimamenn. Og heimurinn verður örlítið verri fyrir vikið.

Einmitt þess vegna þarf alltaf að berjast fyrir að smygla menningu á milli fólks, alla daga og öll ár og undir öllum kringumstæðum, af því annars verður heimurinn miklu leiðinlegri og mun breytast í eitt ömurlegt excel-skjal.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson