Umræðan um listamannalaun verður fyrirsjáanlegri með hverju árinu. Handritið er svona:
1) Ásbjörn Óttarsson, stuttbuxnadrengir úr SUS og misvitrir DV-kommentarar fárast yfir því að ríkið sé að eyða pening í lattelepjandi listamenn.
2) Listamenn og menningarvitar svara.
Þeir eru undantekningarlítið stílfimari og rökfastari en Ásbjörn, SUS-arar og kommentarahjörðin, þannig að við svo búið líkur umræðunum – og ríkið heldur áfram að henda brauðmolum í listamenn.
En athugum að þetta eru algjörir smáaurar fyrir ríkið – og þótt margir pistlarnir til varnar listamannalaunum hafi verið alveg hreint prýðilegir og rúmlega það voru þetta því miður iðullega varnarræður. En það er löngu komin tími á sóknarræðu – og raunar er tíminn aldrei betri heldur en í miðri kreppu og atvinnuleysi.
Ríkið borgar innan við 500 milljónir í listamannalaun þetta árið. Það fara hins vegar rúmlega 18 þúsund milljónir í atvinnuleysisbætur. 36 sinnum meira. Þetta ætti hins vegar að vera öfugt.
Málið er nefnilega að þeir sem eru á listamannalaunum fá greitt frá ríkinu fyrir að skapa sjálfum sér atvinnu – og með því verk sem bæði munu skila hagnaði og skapa fjölda afleiddra starfa. Til þess að vera á atvinnuleysisbótum þarftu hins vegar að geta skilgreint þig „í virkri atvinnuleit.“ Sumsé, við erum að borga fólki rúmlega 18 þúsund milljónir fyrir að leita að vinnu sem er ekki til. Það er sáralitla vinnu að hafa, samt erum við að krefjast þess að mörgþúsund manns eyði dýrmætum tíma sínum í að leita að störfum, störfum sem fæstir munu finna. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu niðurbrjótandi, ómarkvisst og óhagkvæmt þetta kerfi er. Það má örugglega finna þá atvinnuleysingja sem hafa náð að nýta tímann á bótum í eitthvað uppbyggilegt, en það er þá oftast þrátt fyrir kerfið, ekki vegna þess.
En prófum að setja dæmið frekar upp svona: Leyfum fólki að skapa sín störf sjálft og tryggja því á meðan eðlilega framfærslu. Upphæðin yrði hærri en atvinnuleysisbæturnar, en það yrði varla vandamál því ávinningurinn á móti yrði margfallt hærri. Hugmyndafræðin á bak við listamannalaun yrði rækilega víkkuð út– bæði mætti stækka þann hluta sjóðsins sem færi til listamanna og bæta við launasjóðum gagnrýnenda, skólabókahöfunda, fræðimanna o.s.frv. En það mikilvægasta væri að stofna launasjóði um allan fjandann annan, alls ekki bara um list og menningu. Það mætti stofna launasjóð smiða, launasjóð forritara, launasjóð líffræðinga, launasjóð saumafólks og svo framvegis. Allt það sem hagkvæmt er að vinna sem einyrki, frekar en hjá stofnun eða fyrirtæki, gæti eignast sinn sjóð, misstóra eftir atvikum.
Einyrkjaformið hentar atvinnugreinum misvel, en oft er aðeins hið efnahagslega óöryggi sem kemur í veg fyrir að fólk gerist einyrkjar, jafnvel þótt það sé ósjaldan hagkvæmast að flestu öðru leyti. Vinnan myndi svo að lokum koma ríkinu, einstaklingunum og fyrirtækjunum öllum til góða. Athugum líka að einyrkjarnir geta vel unnið saman, þannig að úr því myndu myndast fyrirtæki sem þróuðust á öllu lífrænni hátt en við erum vön, en ekki með umsóknarferlum þar sem ákvörðunarvaldið er alltaf hjá yfirmönnum. Hæfileikafólk myndi sameinast um sameiginleg verkefni sem allir hefðu hugsjón fyrir, frekar en að safnast tilviljunakennt saman á vinnustað sem ferilsskrárnar þeirra pössuðu inná.
Það eru vissulega ákveðnar aðgerðir í gangi til að hjálpa atvinnulausum – en þær virðast flestar ganga út á það að nota fyrirtæki sem milliliði. Fyrirtæki fá starfsmenn sem hafa verið á bótum í ákveðinn lágmarkstíma og Vinnumálastofnun borgar hluta af launum starfsmannsins. Þetta er ágæt hugmynd, svo langt sem hún nær, og getur vel fúnkerað við hlið launasjóðanna – en vinnan og sköpunin fer fram á forsendum fyrirtækjanna, kostnaður vegna yfirbyggingar eykst og líkurnar á nýsköpun innan veggja rótgróinna fyrirtækja eru ekki alltaf miklar. Stærsti gallinn er þó að aðeins hinir atvinnulausu geta sótt um (og oft aðeins hluti þeirra). Hugsanlega er bara einn af þeim tíu hæfustu atvinnulaus, kannski enginn. Aftur á móti er hellingur af fólki í vinnu sem það er óánægt í eða vinnu sem nýtir hæfileika þess að mjög takmörkuðu leyti – og það þarf að hjálpa þessu fólki líka, það er ekki nóg að útrýma atvinnuleysi heldur þarf líka að koma vinnumarkaðnum á eðlilegt flot þannig að sem flestir finni vinnu sem hæfir metnaði þeirra, reynslu og hæfileikum.
Þessi hugmynd byggir raunar á sáraeinföldu prinsippi: Það er miklu betra að fólk fái tækifæri til að skapa sér sína eigin vinnu heldur en að því sé gert að leita að vinnu sem er ekki til. Betra fyrir það sjálft, betra fyrir ríkið og betra fyrir samfélagið.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson