DSCF5354Það er bandarískur lögguþáttur í lágt stilltu sjónvarpinu og í rakarastólnum sefur rakarinn. Hann er með sítt hvítt hár og myndarlegt yfirvaraskegg, klæddur í bláköflótta skyrtu, gráar buxur og svarta lakkskó. Bláleit birta umlykur allt og suðið í viftunni heldur hitanum úti – og einhvern veginn vitrast mér: akkúrat svona lítur alvöru friður út. Alvöru ró. Þarna hefur tekist að loka skarkala heimsins úti, þótt dyrnar séu galopnar. Kannski er galdurinn einmitt sá, þessar galopnu dyr.

En ég kom hingað til þesss að fá klippingu og rakstur og hálfpartinn hvísla einhverja kveðju, hækka svo röddina feimnislega … ég er aðeins farinn að hækka róminn þegar hann vaknar loksins og er snöggur á fætur – án þess að fara sér að neinu óðslega. Hann spyr mig hvort ég sé frá Englandi eða Þýskalandi, ég neita og reyni að segja Ísland á nokkrum tungumálum – það skilst á endanum. Handtökin eru örugg, hárlubbinn styttur rækilega og raksturinn eftir kúnstarinnar reglum – enda er þumalputtareglan sú að evrópskir rakarar verða betri eftir því sem sunnar dregur í álfunni.

Þegar hann líkur sér af þá kinka ég kolli til samþykkis (sem er samt alltaf lygi, ég get aldrei vanist nýklipptu hári fyrr en í fyrsta lagi viku eftir klippingu) og hann sviptir af mér hlífðarteppinu. Síðan stingur hann hendinni í vasann og virðist vera að bauka eitthvað, ég reikna fastlega með því að hann sé að fara að rukka mig – en þess í stað segir hann „rettu?“ með alþjóðlegu látbragði, otar að mér opnum sígarettupakka og kveikjara. Það koma stundir í lífinu þar sem maður getur ekki sagt nei, þannig að ég segi já – borga þessar tíu evrur sem ég skulda honum og kveð með virktum – og skil svo óreykta sígarettuna eftir í næstu ruslatunnu, enda hefði hún varla farið neitt sérlega vel með óskilgreinda lungnakvillanum sem kýpversku læknarnir voru nýbúnir að uppgötva.

Annars fór ég til Kýpur til að spila billjard. Aðallega nineball. Jiri vann oftast, ég vann stöku sinnum og var ósigraður gegn heimamönnum – vann bæði Kostas og frænda hans. Sem var merkilegt því frændi Kostasar var miklu betri en ég. Að öðru leyti unnu allir alla einhvern tímann, þótt Jiri ynni sem áður segir oftast. Á milli þess sem við Jiri börðumst við að fá að spila stundum íslenska tónlist í lélegri nettengingu, við misjafnar undirtektir. En það er fátt skemmtilegra en að spila billjard í skjóli hlýlegrar kýpverskrar haustnætur, úti við sundlaug sem var of köld til þess að synda í. Það var samt skemmtilegast á meðan maður gat sötrað bjór með, áður en sýklalyfin eyðilögðu bjórdrykkjuna fyrir mér.

Ég fór sem sagt líka til Kýpur til þess að fá lækningu á al-íslenska kvefinu mínu. Kvefinu sem hafði stíflað mig nógu mikið síðustu kennsluvikuna fyrir utanferð til þess að ég gat varla hugsað heila hugsun fyrir utan þetta allra mikilvægasta, að pakka og klára og undirbúa kennsluna – heilinn hafði ekki orku í meira og slökkti á sjálfum sér og líkamanum um leið og því var lokið. Í flugunum út umbreyttist stíflan í hausnum á mér svo í hausverk – og um leið og ég var búinn að kaupa verkjalyf sem losuðu mig við hann fór ég að finna fyrir verk í kviðarholinu – sem ég kenndi fyrst óþægilegum sófa í millilendingunni í London um – en reiknaði svo út að væru lungun þegar verkurinn hvarf ekki.

Þannig að eftir eitt brúðkaup, einn bíltúr yfir þvera eyjuna og risamálsverð í Polis var það ekki umflúið lengur á þriðjudeginum að fara til læknis. Læknisþjónustan á Kýpur er vel að merkja til fyrirmyndar – og miklu effektívari heldur en hér heima – og allt fyrir tíu evrur (nei, það kostar ekki allt tíu evrur á Kýpur – en ansi margt). Ég var strax drifinn í alls kyns mælingatæki – og ég efast um að Luca gleymi því þegar hann kvaddi mig þvældum í alls kyns snúrur.

Luca þurfti að fara heim til Ítalíu – eða var það Oxford? – en við vorum samt ennþá 13 eftir í villunni sem við leigðum í þessari brúðkaupsferð. Og þrátt fyrir að hafa verið greindur með „eitthvað í ætt við lungnabólgu“ þá var heilsan ágæt með hjálp sýklalyfja og hóstasýróps – fyrir utan tvo stutta aukablundi fyrstu dagana og skort á bjórdrykkju var þetta hugsa ég nokkurn veginn sama afslöppunin og var hvort eð er í spilunum. Með þessu skemmtilega tékknesk-kýpversk-allra-þjóða-kvikinda kompaníi sem ég hafði lent í.

DSCF5337En þetta er auðvitað allt lygi – ég kom fyrst og fremst til Kýpur til þess að sjá bestu vinkonu mína gifta sig kýpverskum stjörnufræðingi. Sem hún gerði í gullfallegri athöfn í Agia Anna, smábæ rétt hjá Nikósíu. Þetta var ekki kirkjubrúðkaup, þess í stað mætti kona frá sýslumanni og pússaði þau Ilonu og Kostas saman undir berum himni – en með öllum þeim hátíðleika og bravör sem maður er vanur úr kirkjubrúðkaupum. Og maður gat eiginlega ekki annað en verið dálítið mikið stoltur og glaður að þekkja svona frábæra manneskju nógu vel til þess að láta hana plata sig yfir heila heimsálfu til þess að fagna með sér. Já, og til þess að dansa. Ég kom auðvitað líka til Kýpur til að dansa. Og ráfa um miðbæ Nikósíu í hitasvækju að leita að verkjapillum, of þreyttur til þess að fara í tyrkneska hlutann í þessari tvískiptu borg. Svo kom ég líka til að drekka Keo-bjór og sjá asna ríða rétt hjá Böðum Afródítu, líkt og Benedikt Erlingsson væri að leikstýra þeim. Svo kom ég til þess að láta Kostas gamla (barþjóninn og eigandann) skenkja mér kampavín til að skála fyrir Kostasi og Ilonu. Það voru engar ræður í þessu kýpversk-tékkneska brúðkaupi – leyfum þessu rakararanti því bara að koma í staðinn. Þannig að elsku Ilona og Kostas, aftur: til hamingju með daginn ykkar! Na zdraví!

Ásgeir H Ingólfsson