Allar götur síðan Forngrikkir reifuðu hugmyndir um aðskilnað líkama og anda hafa íþróttir og bókmenntir verið að mestu tveir aðskildir heimar. Eða hafa öllu heldur virst vera það, því þótt vitaskuld hafi ófáir rithöfundar bakgrunn í íþróttum og íþróttamenn geti verið bókhneigðir eins og aðrir þá virtust menn lengi tregir til þess að blanda svitanum saman við blekið. Þetta hefur þó breyst töluvert undanfarna áratugi og til marks um það er nýkomin þýðing Kristjáns Hrafns Guðmundsonar á ævisögulegri bók eins virtasta rithöfundar samtímans, Japanans Haruki Murakami, sem heitir einfaldlega Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup (Titillinn er vísun í smásagnasafn Raymonds Carvers, Það sem við tölum um þegar við tölum um ást, en Murakami hefur þýtt Carver yfir á japönsku).

Í upphafi bókarinnar segir Murakami: „Eitt sem ég tók eftir var að það að skrifa heiðarlega um hlaup og að skrifa heiðarlega um sjálfan mig er nánast hið sama.“

KápaMurakami
Kápa íslensku útgáfunnar í þýðingu Kristjáns Hrafns Guðmundssonar.

Þetta gefur lesanda vísbendingu um að hér fáum við að fræðast jafn mikið um líf höfundarins og hlaup hans – en það er þó ekki raunin. Við fáum sannarlega svipmyndir úr lífi Murakami, og kannski ákveðna tilfinningu fyrir hinum hversdagslega takti sem vantar oft í ævisögur, en þessi bók er samt fyrst og fremst um hlaup.

Hér eru alls kyns sögur um undirbúning fyrir hlaup, upplifanir af hlaupum, vonbrigðum yfir hlaupatímum og hvernig Murakami lítur á sjálfan sig sem hlaupara. Annað hversdagslíf er í bakgrunninum – við skynjum að hann er alltaf að vinna að einhverjum skrifum meðfram hlaupunum en þau eru aukaatriði í þessu samhengi.

Hlaupin eru þó augljóslega nátengd skrifunum, enda byrjar hann á hvoru tveggja um svipað leyti – í kringum þrítugt. Hann ræðir töluvert um líkindin með því að hlaupa og maraþonið sem það er að skrifa bók, en hlaupin eru augljóslega líka bara leið til þess að halda sér í formi meðfram þeim kyrrsetum sem skrifin krefjast. Það viðurkennir Murakami strax í byrjun með orðunum: „Herramaður ætti ekki að blaðra um það hvað hann gerir til að halda sér í formi. Að minnsta kosti er það skoðun mín. Eins og allir vita er ég enginn herramaður, þannig að kannski ætti ég ekki að hafa áhyggjur af þessu yfir höfuð, en samt er ég nokkuð hikandi við að skrifa þessa bók.“

Lífið sem flæðir

Hann ræðir líka töluvert um tímann fyrir skrifin og hlaupin, þegar hann rak lítinn djassbar í Tókýó. Þá endurtekur sig sama stef; það eru svipuð prinsipp sem hjálpuðu honum við að reka djassbarinn og hjálpuðu honum að æfa fyrir hlaup. Að þessu mætti máski ætla að hann sé að nota hlaup sem einhvers konar metafóru fyrir lífið, hvort sem er rekstur djassbars eða skáldsagnaskrif. En það sem reynist sameiginlegt með þessu er kannski frekar nálgun Murakami, enda játar hann að hann hafi valið bæði hlaupin og skáldsagnaskrifin vegna þess að þau hentuðu geðslagi hans.

Sá Murakami sem birtist okkur hér er agaður einfari með skýr markmið. Hlaupin eru líka ákveðin hugleiðsla frekar en hugsun, snúast um að tæma hugann frekar en að hugsa. En þau snúast líka um að upplifa hluti á eigin skinni, jafnvel um heiðarleika hins skrifandi manns. Fyrsta maraþonið hans er gott dæmi um þetta. Hann hleypur það einn – öfuga leið við upphaflega maraþonhlauparann, sumsé frá Aþenu til Maraþon. Hann gerir það af praktískum ástæðum, til þess að lenda í lágmarksumferð, en metafóran eltir hann vitaskuld uppi. Hann er að skrifa grein fyrir tímarit um hlaupið og þegar ljósmyndaranum verður ljóst að hann ætli að hlaupa alla leið kemur það honum á óvart:

„Í alvöru? En þegar við erum í þessum verkefnum fara fæstir alla leið. Við tökum bara nokkrar myndir og flestir klára ekki vegalengdina. Ætlarðu í alvöru að hlaupa alla leið?“

Stundum verð ég orðlaus gagnvart heiminum. Ég trúi því ekki að fólk myndi virkilega gera nokkuð þessu líkt.“

Í þessum orðum felst ekki bara heiðarleiki höfundarins, heldur einnig ákveðin þörf fyrir að reyna hlutina á eigin skinni. Það getur verið erfitt fyrir skáldsagnahöfund, sérstaklega einhvern sem er jafn hallur undir fantasíu og Murakami, en þá ber að hafa í huga að þetta þarf ekki alltaf að skilja bókstaflega. Góð fantasía grundvallast á góðri jarðtengingu og maður finnur að hlaupin eru fyrir Murakami þessi jarðtenging; hann hleypur til þess að upplifa sjálfan sig sem líkama – og gefur þar með persónum sínum sömu vídd, þannig að þær verða ekki aðeins fljótandi hugar úr penna sitjandi manns.

Líkamsdagbók rithöfundar

Þannig er bók Murakami í vissum skilningi fyrst og fremst dagbók líkamans – og í þeim skilningi náskyld ævisögulegri bók Paul Auster, Winter Journal, þar sem hann einsetur sér að segja ævisögu líkama síns og þess að eldast: „Máski er best að setja allar þessar sögur til hliðar um stund og reyna að greina hvernig þér hefur liðið inni í þessum líkama frá fyrsta deginum sem þú getur munað fram að deginum í dag.“

WinterJournal
Ungur Paul Auster á kápu bókar um líkama sem er að eldast

Rétt eins og hjá Murakami þá flýtur ýmislegt annað með en saga líkamans með. Mun meira raunar, þetta er miklu nær því að vera eiginleg ævisaga – og þótt Murakami dreymi ósjaldan um bjórinn sem hann ætlar að fá sér þegar hann kemur í mark þá leggur Auster ólíkt meiri áherslu á syndir líkamans: „Já, þú drekkur of mikið og reykir of mikið, þú hefur misst tennur án þess að hafa fyrir því að fá nýjar, mataræðið þitt stenst engan veginn kröfur nútíma næringarfræði.“

Einsemd langhlauparans

En hlaup geta líka verið uppreisn. Í Bretlandi eftirstríðsáranna kom fram kynslóð rithöfunda sem var einfaldlega kölluð „Reiðu ungu mennirnir.“ Þetta voru ungir höfundar sem fjölluðu um stéttaskiptingu og lífið í fallandi heimsveldi. Einn þessara höfunda var Alan Sillitoe, sem sjálfur var af verkalýðs­ ættum, og hann samdi nóvelluna frægu Einsemd langhlauparans.

Loneliness
Tom Courtney í kvikmyndagerð Einsemdar langhlauparans, The Loneliness of the Long Distance Runner.

Aðalpersónan, sem heitir því erki-breska nafni Smith, er vandræðaunglingur sem endar á betrunarheimilinu Borstal, sem er í raun bara unglingafangelsi. En hann finnur sig í langhlaupum – og í gegnum þau fer hann að átta sig á heiminum í kringum sig, stéttaskiptingunni og óréttlætinu.

Hlaupin eru einsemd og flótti, íhugun og útrás – en reynast líka óvænt leið til að gera þögla uppreisn gegn kúgurunum í Borstal.

Hlaupabækur geta líka hlaupið inná lendur mannfræðinnar eins og raunin er í bók Christopher McDougall, Born to Run: A Hidden Tribe, Super Athletes, and the Greatest Race the World Has Never Seen. Sagan byrjar með einfaldri spurningu hlauparans McDougall; Af hverju er mér illt í fótunum? En eftir að hafa leitað svara í rannsóknarstofum skóframleiðanda leitaði hann á náðir Tarahumara indjánana í Mexíkó, ættbálks ofurhlaupara sem aldrei virðast þreytast, sem fær hann til að grafa dýpra í það hvað valdi því eiginlega að mannskepan stundi þessi langhlaup.

Íþróttabókafár

Íþróttir hafa ávallt verið við­ fangsefni í bókmenntum, en lengst af ekkert sérstaklega algengt við­ fangsefni. Bandaríkin voru þar kannski undantekning – þekktir amerískir höfundar á borð við Ernest Hemingway, Jack Kerouac og Norman Mailer störfuðu um skeið sem íþróttafréttamenn og Philip Roth, Don DeLillo og David Foster Wallace hafa allir skrifað skáldsögur sem gerast í heimi íþróttanna.

Brando
Ég hefði getað … Marlon Brando flytur eina af sínum frægustu ræðum í On the Waterfront: „I coulda been a contender.“

Þeir sáu mögulega sumir íþróttamanninn sem holdgervingu ameríska draumsins – og þeir geta þá líka verið birtingarmynd tálsýnarinnar sem hann stendur fyrir. Eða svo við gefum uppgjafarboxaranum Terry Malloy (Marlon Brando) orðið; „I coulda’ been a contender.“ Uppgjör heillar kynslóðar við brostna drauma úr munni leikara sem virtist boða nýja tíma.

Hinum megin Atlantsála voru íþróttabókmenntir hins vegar ekki hátt skrifaðar, saga Sillitoe undantekning frekar en reglan. Það breyttist snögglega þegar Nick Hornby sló í gegn með Fever Pitch, sem seinna var íslenskuð sem Fótboltafár af Kristjáni Guy Burgess. Hún er ævisöguleg eins og bók Murakami – en hún fjallar þó ekki um hreyfingu aðalpersónunnar, heldur um það hvernig höfundurinn lifir í gegnum ellefu nágranna sína í London og afrek þeirra – eða skort á þeim – í búningi fótboltaliðsins Arsenal.

Ef bresku heldra fólki fannst eitthvað ómerkilegra en íþróttamenn þá voru það aðdáendur íþróttaliða, sem í þeirra augum voru allar bullur. Bók Hornby gerbreytti þessu, skyndilega varð sæmilega kúl (eða í það minnsta ásættanlegt) í menningarkreðsum að fylgjast með íþróttum. Bókin hjálpaði til við að millistéttavæða fótboltann – en þar spilaði líka inní uppgjör við bullumenninguna sem tröllreið breskum leikvöngum á níunda áratugnum og endaði með því að enskum liðum var tímabundið sparkað út úr Evrópukeppnum. Um leið uppgötvuðu peningamenn möguleika fótboltans fyrir alvöru – og þannig varð velgengni bókarinnar um leið til þess að hún varð minnisvarði veraldar sem var; fótboltans sem helstu skemmtunar fátækrar al­ þýðu – og ófárra menntamanna í millistétt eins og Hornby, sem höfðu kannski ekki hátt um fótboltaáhugann í partíum.

Hægt og rólega höfðu þessir að­dáendur þó byrjað að skrifa íhugulli og bókmenntalegri texta um fótbolta en venjan var í alls kyns fótboltablöð utan alfaraleiðar og rétt áður en Hornby gaf út Fótboltafár þá voru merki fársins byrjuð að sjást, Pete Davies skrifaði sömuleið­ is ævisögulega bók um það að styðja fótboltalið í All Played Out, um enska landsliðið á HM á Ítalíu 1990.

Mannkynssagan í fótboltanum

En bók Hornby var upphafið að flóðbylgjunni og fljótlega fóru að birtast bækur með öllu stærra svið, þar sem menn skrifuðu sögur helstu knattspyrnuþjóðanna – ekki þó til þess að rekja úrslit og meistaratitla (slíkar bækur höfðu orðið vinsælar löngu fyrr en töldust sjaldnast til mikilla bókmenta) heldur til þess að nota íþróttina sem stækkunargler á þjóðirnar sem spiluðu hana. Það er oftast gert með því að setja fótboltann í sögulegt og mannfræðilegt samhengi við sögu þjóðanna, en ekki síður með sögum af skrautlegum karakterum sem eru til jafns leiðsögumenn lesanda um heim fótboltans sem og þeirra tíma sem þeir lifðu.

Weltmeister Franz Beckenbauer li und Bundestrainer Helmut Schön re jubeln gemeinsam dahinter
Austur-Þjóðverjinn Helmut Schön fagnar heimsmeistaratitli Vestur- -Þjóðverja með fyrirliðanum Franz Beckenbauer.

Gott dæmi um slíkt er Tor, saga Uli Hesse um þýskan fótbolta. Þegar Vestur- og Austur-Þýskaland mætast í fyrsta skipti á HM 1974 var þjálfari vestur-þýska liðsins Helmut Schön. Hann var fæddur í austrinu en flúði vestur og þjálfaði meira að segja um tíma hið löngu gleymda þriðja þýska landslið, Saarland, sem Frakkar stýrðu þar til það sameinaðist Vestur-Þýskalandi árið 1956.

Leikurinn (sem tapast) verður lykilleikur Schöns, miklu frekar en úrslitaleikurinn sjálfur (sem vannst). Og bókin tekur sér tíma til að segja sögu hans, stráksins frá Dresden sem lifði af eldhafið þar og flúði kommúnismann – og í gegnum Schön fáum við sögu Þjóðverja af hans kynslóð, kynslóð sem svo sannarlega lifði tímana tvenna.

Murakami fullyrðir í bók sinni að þjáning sé val – eitthvað sem sé nauðsynlegt að hafa í huga þegar maður hleypur; maður valdi að gera þetta. En saga Schön bendir til þess að mögulega væri nákvæmari skilgreining að segja að íþróttir séu valin þjáning; og stundum reynist sú þjáning leið til þess að takast á við annars konar þjáningu, jafnvel mannkynssöguna sjálfa.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 9. desember 2016.