Kristján Hrafn Guðmundsson gaf nýlega út sitt fyrsta smásagnasafn, Þrír skilnaðir og jarðarför, sem hafði fengið nýræktarstyrk bókmenntasjóðs í fyrra. Kristján Hrafn er bókmenntafræðingur og starfaði sem menningarblaðamaður á DV á fyrsta áratug aldarinnar og þýddi Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir Haruki Murakami. Undanfarin ár hefur hann starfað sem grunnskólakennari, þar sem hann hefur aðallega kennt íslensku en einnig smá heimspekilega samræðu og kvikmyndalæsi í Garðaskóla í Garðabæ, en þetta misserið er hann í námsleyfi og stundar mastersnám í bókmenntafræði við HÍ.

Segðu mér frá kápunni, þessa örvæntingarfullu bið eftir svari í spjallglugga – eða er þetta kannski eitthvað allt annað?
Þetta er að minnsta kosti tvíræð mynd, jafnvel þríræð. Þau sem lesa bókina til enda fá í það minnsta eina falda merkingu í verðlaun. Þrípunktarnir finnst mér ríma vel við bókina í heild því höktandi samskipti er eitt af stefjum bókarinnar. Til dæmis að ætla að segja eitthvað, eða hugsa eitthvað og vilja tjá sig, en segja það svo ekki. Heiðurinn af myndinni á Hildur Helga Jóhannsdóttir sem útskrifaðist úr grafískri hönnun frá LHÍ sl. vor. Kæmi mér ekki á óvart ef bókaforlögin myndu slást um að njóta hugvits hennar á næstu árum.

Hvernig tilfinning er að gefa út fyrstu bókina? Var eitthvað óvænt við ferlið?
Tilfinningin er blanda af vellíðan og áhyggjum. Kannski svipað og þegar barnið manns byrjar í skóla eða fer að heiman. Það óvænta er helst hvað það reyndust margar klukkustundir eftir í vinnu, pælingar og snurfus þegar maður taldi sig vera búinn eftir átjánda yfirlestur – og „ekkert annað“ eftir en prófarkalestur, umbrot og prentun.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Auðvitað kemur konungur kvikmyndalistarinnar, Stanley Kubrick, fyrst upp í hugann sem leikstjóri. En þar sem aðdáun mín á manninum byggist bæði á nokkurs konar óræðum ótta og blindri virðingu held ég að farsælast væri að fá einhvern annan í verkið, fyrir utan að Kubrick er kominn í sumarlandið. Ég væri því til í að sjá hinn frábæra Yorgos Lanthimos í leikstjórastólnum. Hvað leikarann varðar væri það annað hvort Ryan Gosling eða Willem Dafoe, eftir því hvort þetta eigi að vera söngleikur eða sækadelísk hrollvekja.

Hver er staða smásögunnar á Íslandi?

Ég held að hún sé á talsverðri uppleið. Ef við horfum bara til síðustu 3-4 ára eru ansi stórir höfundar hér á landi farnir að vinna af metnaði með formið, í hugann koma t.d. Guðrún Eva og Steinar Bragi. Svo höfum við höfunda sem enn eru frekar nýir sem en hafa sent frá sér mjög sterk smásagnasöfn, til að mynda Friðgeir Einars og Fríða Ísberg. Ritlistarnámið við HÍ er síðan augljóslega að hafa almenn áhrif á gróskuna í smásögunni, en bókaforlögin eru hins vegar miklu áhugasamari um að taka séns á skáldsögu eftir óþekktan höfund heldur en smásagnasafni, því sagan sýnir að síðarnefnda formið er erfitt í sölu.

Ég veit ekki betur en að Gyrðir sé enn mjög trúr smásögunni, en í því samhengi er kannski rétt að nefna að ég hef ekki lesið smásögur hans í nokkur ár vegna þess að ég var nánast andsetinn af manninum, sem gerði tilraunum til að finna mína rödd ekki gott. Og almennt séð held ég að fólk hafi ekki gott af því að vera andsetið. Þú manst nú eftir Regan í The Exorcist. En mönnum eins og Gyrði, Þórarni Eldjárn og Rúnari Helga Vignissyni verður maður að gefa kredit fyrir þá alúð sem þeir hafa sýnt smásögunni í gegnum tíðina, Rúnari ekki síst fyrir að vera í forsvari fyrir þýðingar á smásögum frá öllum heimshornum. Öll stöndum við þó sennilega á herðum Svövu Jakobs og Ástu Sigurðar. Svo væri hægt að setja á langa tölu um áhrifin að utan; sögur Borgesar og Tsjekhovs, svo dæmi séu tekin, höfðu vafalaust mikil áhrif hér áður fyrr, og að fá í seinni tíð mögnuð söfn eins og Bavíana eftir Naju Marie Aidt þýdd á íslensku er þakkarvert og gott fyrir íslenska bókmenntaheiminn.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

Bakpokaferðalag um Suðaustur-Asíu árið 2006 sem við hjónin fórum í (þá vorum við reyndar bara tíu mánaða gamalt kærustupar). Ég hef alla vega ekki síðan á því ferðalagi orðið vitni að drive-by skotárás, eins og í Phnom Phen, höfuðborg Kambódíu. Né hef ég borðað mús, snák og leðurblöku með með fólki frá nokkrum löndum líkt og kvöld eitt í litlum víetnömskum bæ. Svo hef ég aldrei komist jafn nálægt því að upplifa mig staddan inni í bíómynd eins og þegar við sigldum niður Mekong-ána, hlustandi á The Doors. Þar af hlustaði ég líklega ellefu sinnum á „The End“. Við eina hlustun í viðbót hefði ég sennilega, með aðstoð skammtaeðlisfræði, birst í dvd-endurútgáfunni á Apocalypse Now.

Uppáhalds smásagnahöfundar, íslenskir sem erlendir?

Erfitt að velja, meðal annars af því að undanfarin misseri eða ár hef ég viljandi forðast verk þeirra höfunda sem mér finnst mjög góðir af ótta við að verða fyrir of miklum áhrifum. Í viðbót við Gyrði (sjá svar ofar) get ég í því samhengi nefnt Jorge Luis Borges og Raymond Carver. En ég leyfi mér líklega bráðum að endurnýja kynnin við þá snillinga. Þess vegna er kannski meira við hæfi að ég svari með titlum smásagnasafna í stað höfundanafna. Þá gæti ég t.d. nefnt Veizlu undir grjótvegg, A Good Man is Hard To Find, Cathedral, Blekspegilinn, Eftir skjálftann, The Elephant Vanishes, Takk fyrir að láta mig vita, Bavíana og svo hina frábæru skáldsögu í dulargervi smásagnasafns, Níu þjófalykla.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Banksy-verki með tætara földum í rammanum sem eyðileggur verkið um leið og … tja, eigum við ekki að segja að „neytandi“ verksins eigi bara að klára þessa setningu sjálfur? Fylla inn í eyður listaverksins eins og öll góð listaverk bjóða upp á? Af einhverjum ástæðum kom allavega hið fræga verk Girl With Balloon, rammað inn með földum tætara, fyrst upp í hugann. Sá gjörningur skemmti mér í marga daga á eftir, og gleður mig enn þegar ég rifja hann upp í huganum. Í þessu fólst svo mikill broddur og húmor. Og svo löng og feit langatöng í andlit milljarðamæringsins, sem hélt í nokkrar sekúndur að honum hefði tekist að kaupa sér hlutabréf í frægð og hugsjón Banksys, að ég held að það sé erfitt að toppa þetta í bráð.

Hvaðan kemur titilinn? Og er búið að semja við Hugh Grant um að leika aðalhlutverkið í myndinni?

Titillinn kom eftir að ég áttaði mig á að samskipti para og hjóna væru ýmist ofan- eða neðansjávar víða í textanum. En svo er það lesenda að ákveða eða túlka hversu marga skilnaði og jarðarfarir bókin geymir, og þá jafnvel hvernig skilnaði og jarðarfarir. Varðandi Hugh þá hafa samningar ekki enn náðst, aðallega vegna þess hve upptekinn hann er. T.d. er hann að fara í tökur á framhaldsmyndinni af Fjórum brúðkaupum og jarðarförum sem ég held að heiti Fimm lyklapartí og bálför.

Handritið hét Afkvæni þegar það fékk nýræktarstyrk – hvernig var að skipta um titil?
Það var af hinu góða held ég. Þegar maður er nýr höfundur getur flækst fyrir að vera með nýtt orð sem titil fyrstu bókar. Nógu mikið átak er það að reyna að komast inn á radarinn hjá almenningi og fjölmiðlum.

Er einhver lykilmunur á smásögum og skáldsögum í þínum huga, annar en lengdin?

Ekki lykilmunur, held ég. Sagði ekki Borges að sögur lengri en – hvað, tvær til þrjár síður – væru óþarfa málalengingar, eða eitthvað þvíumlíkt? Er ekki hægt að skilja þau orð þannig að allar skáldsögur séu smásögur með útúrdúrum? Það eru þó til fjölmargar smásögur sem byggjast á andrúmslofti, þar sem lesandinn fær einungis lýsingu á einhverri stemningu eða einhverju óræðu ástandi, á nokkrum síðum. Og lesandinn getur auðvitað hrifist mjög af slíkum sögum, ég hef til dæmis oft lesið ansi sterkar smásögur af þessu tagi, þótt hægt væri að segja að ekkert „gerist“ í þeim. En ég held að frekar fáir lesendur myndu hrífast af fjögur hundruð síðna skáldsögu þar sem þessi lýsing ætti við. Í það löngu skáldverki þarf höfundurinn auðvitað að vinna með einhvers konar hvörf eða eitthvað verkefni sem að minnsta kosti ein persóna glímir við. Þegar þú lest smásögu, alveg eins og þegar þú lest ljóð, enda eru mjög stuttar sögur nær ljóðinu að skyldleika en skáldsögu, þarftu að vera reiðubúinn að setja hugsanlegar kröfur þínar um mikla atburði eða lesendakrækjur til hliðar áður en lestur hefst. Að því sögðu langar mig að bæta við að skáldsagan sem form býður aftur á móti upp á ofboðslega möguleika til að heilla lesanda, enda þarftu ekki að lesa lengi á alls kyns bókmenntasíðum eða spjalla lengi við bókelska manneskju til að fá staðfestingu á þessu. Ég meina, hversu oft hefur maður séð og eða heyrt dæmi um að skáldsaga hafi hreinlega breytt lífssýn einstaklings eða heltekið hann/hana það gjörsamlega að viðkomandi hugsar reglulega um bókina? Viðkomandi les hana jafnvel á hverju ári. Lestur skáldsögunnar verður jafn reglulegur atburður hjá manneskjunni og jólin og sumarið. Svona heljartaki á lesanda held ég að sé afar erfitt að ná með einni smásögu eða ljóði.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Eins mikilvægt og það er fyrir okkur að til verði vandaðar íslenskar þýðingar á góðum erlendum verkum fyrir fullorðna held ég að það sé jafnvel mikilvægara þegar kemur að bókum fyrir börn og unglinga. Sem kennari í unglingaskóla og þriggja barna faðir hef ég upplifað að stundum finnur unga fólkið okkar hreinlega ekki lesefni sem vekur áhuga þeirra, þótt áhuginn á lestri almennt sé til staðar. Það er varhugaverð staða sem má aldrei nokkurn tímann vera talin viðunandi. Mikilvægast er auðvitað að gera þeim íslensku höfundum sem sinna þessum aldurshópi kleift að halda áfram sínu frábæra starfi. Í viðbót við það þurfum við þó líka góðar þýðingar. Þannig að mitt svar er að verkin sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku er rjóminn af bestu barna- og unglingabókum heimsins á hverjum tíma.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Fyrstu þrjá dagana væru þrjár bestu myndir Chaplin, Welles, Hitchcock, Kurosawa og Rohmer (sem fulltrúi nýbylgju-Frakkanna) á rípít allan sólarhringinn. Svo myndum við færa okkur nær samtímanum og næstu þrjá daga væru það því þrjár bestu eftir Kubrick, Lynch, Wong Kar-wai, Lanthimos og Dag Kára á rípít. Amélie væri svo eina myndin í sýningu allan sjöunda daginn.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?

Haukur Ingvarsson. Bókin Vistarverur inniheldur fegurð, visku, hnyttni og stílgaldur sem einungis framúrskarandi ljóðskáld eru fær um að miðla.

(Spurning frá síðasta smyglara, Sigríði Larsen) Hvað finnst þér í alvöru um Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga?

Ég horfði bara á u.þ.b. helminginn af því að einn eða tveir fjölskyldumeðlimir voru byrjaðir að dotta í þessu síðkvöldsáhorfi. Og ég hef ekki lagt mig eftir því að sjá síðari hlutann, aðallega vegna þess að stóru krakkarnir mínir kláruðu myndina án mín daginn eftir. Veit ekki hvort það segi meira um mig eða myndina.

Nú hefurðu ýmist starfað við skáldskap, kennslu og blaðamennsku – hvernig gengur að samræma þetta?
Við getum kannski orðað það þannig að hið tiltölulega langa sumarfrí kennarastarfsins gera skáldskapnum og þýðingargutli gott. Ég hætti í blaðamennskunni fyrir tíu árum, en það að þurfa að setja saman texta undir tímapressu á nánast hverjum degi í sex ár var kannski ágætis skóli.

Hvaða kennari hafði áhrif?

Margir voru góðir í bókmenntafræðinni, t.d. Guðni Elísson og Helga Kress. Ég var hálfhræddur við að skrá mig í kúrs hjá Helgu, hafði heyrt sögur um meinta grimmd hennar. En ég sé sannarlega ekki eftir að hafa setið við fótskör hennar í stúderingum á bókmenntum Norðurlanda, því ég lærði mikið af Helgu þegar kemur að bókmenntagreiningu. Í framhaldsskólanum er svo óhætt að segja að Sigríður Anna Guðbrandsdóttir, frönskukennari við MH, sé sennilega ein sú færasta í sínu fagi. Metnaður hennar fyrir því að vera fersk og í takt við tímann hvað varðar kennslu og efnistök er virðingarverður, svo ekki sé talað um hve góðum tengslum Sigríður nær við sína nemendur. Og þetta segi ég ekki eingöngu af því að Sigga er móðursystir mín. Loks hef ég orðið fyrir góðum áhrifum frá fjölmörgum samkennurum mínum við Garðaskóla og Glerárskóla síðustu tíu ár.

Hvar er draumurinn?
Í hjartanu á þér.

Voru sögurnar allar skrifaðar inn í þessa ákveðnu bók, eða urðu þemu og tengingar til í ferlinu?

Þetta varð að nokkru leyti til í ferlinu, en tengingar á milli sagna í smásagnasöfnum hafa lengi höfðað til mín sem lesanda. Sennilega hafa því myndast einhverjir kanalar á milli þessara sagna mjög fljótt, jafnvel sem má að hluta til skrifa á undirmeðvitundina. Svo þegar á leið skerpti ég á þessu hér og þar.

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?

Það hlýtur að vera mamma og pabbi. Þau eru bakgrunnur tilvistar minnar. Væri líka til í að hafa stóra bróður minn með þar sem hann lagði mér ýmislegt gott til áður en hann féll frá alltof snemma.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Guðlaugur Jón Árnason tónlistarmaður, sem notar listamannsnafnið Bony Man. Fólk mun ugglaust heyra þetta nafn oftar á næstu mánuðum og árum.

Hver er merkilegasti maður sem þú hefur dottið í það með?
Í sama litla, víetnamska bænum og við konan mín átum kynjaverur (sjá ofar) hittum við heimamann sem var nokkuð við aldur og allnokkuð við skál. Hann sveif á okkur þegar við komum gangandi eftir aðalgötu bæjarins og byrjaði einfaldlega á setningunni „You speak English?“ Í ljós kom að hann barðist í Víetnam-stríðinu og lærði ensku af bandarískum hermönnum, en hafði ekki notað enskuna síðan þá. Honum fannst svo gaman að spjalla við okkur á tungumálinu sem hann hafði lært áratugum áður en legið hafði í dvala innra með honum að hann faðmaði okkur fast eftir samveruna með tárin í augunum. Við duttum ekki beint í það með honum, fengum okkur einn bjór ef ég man rétt, en hann var allavega dottinn í það með góðri upphitun fyrr um daginn. Ég var svo heltekinn af Víetnamstríðinu á þessum árum að fyrir mig var þetta kannski eins og fyrir Sigmund Davíð ef Jónas frá Hriflu myndi banka upp á hjá honum og sækjast eftir félagsskap hans.

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?

Keypti mér Newcastle- og Juventus-treyju, hljómborð og geisladisk með Eurovision-laginu sem Sigga Beinteins og Sigrún Eva Ármannsdóttir fluttu fyrir hönd þjóðarinnar.

Uppáhalds dýr í bókmenntasögunni?

Paddan sem Gregor Samsa breytist í. Ég hef aldrei fundið jafn mikið til með uppdiktuðu dýri. En þar sem umdeilanlegt er hvort þetta sé ekki enn manneskjan Gregor þrátt fyrir útlitsumskipti nefni ég til vara ofurfroskinn í smásögu Murakamis, „Ofurfroskur bjargar Tókýó“.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
 

Rumours með Fleetwood Mac. Ég hlustaði mikið á hana við skrif Þriggja skilnaða og jarðarfarar. Bæði virkaði hún vel sem vinnutónlist, skartar nokkrum déskoti góðum lögum en síðast en ekki síst kallast sagan um gerð plötunnar svo ótrúlega sterkt á við eitt af þemum bókarinnar. Allir hljómsveitarmeðlimir voru ýmist að skilja, nýfráskildir eða höfðu nýverið verið staðnir að framhjáhaldi. Og vel að merkja voru tvö sett af hjónum (eða kærustupörum) í hljómsveitinni þegar allt þetta gekk á.


Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Held að mér hafi aldrei auðnast að gera það. Það næsta sem ég komst því var Fleabag, en þá sex þætti sem sú mínísería samanstóð af horfði ég á á þremur kvöldum ef ég man rétt.

Uppáhaldsorðið þitt?

Ástvinir. Þau tvö fyrirbæri, sem þú verður að hafa í lífi þínu til að gera það bærilegt, sett saman í eitt orð. Og verður þá að yfirhugtaki yfir alla þá sem skipta þig mestu máli í röðum fjölskyldu, ættingja og vina.

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Ég ætla að velja spurninguna sem blaðakonan Klara bjó til í snatri en lenti í smá vandræðum með í bókinni minni:

Ef þú yrðir að velja annaðhvort til að setja lifandi ofan í sjóðandi pott, hvort veldirðu: tíu humra eða einn gullfisk sem barn hefur átt sem gæludýr í nokkur ár?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Mynd af höfundi: Heiðrún Grétarsdóttir