Klondike á ýmislegt sameiginlegt með Eldfjalli, uppáhalds úkraínsku myndinni minni. Báðar gerast í villta austrinu, báðar beita meðulum töfraraunsæis á þetta óútreiknanlega svæði og báðar bera torræð nöfn sem eiga sér fáa ef nokkra snertifleti við myndirnar – en því miður er bara önnur myndin góð.

KVIFF 15

Klondike

Leikstjóri: Maryna Er Gorbach

Aðalhlutverk: Oxana Cherkashyna, Sergiy Shadrin, Oleg Scherbina & Oleg Shevchuk

ÚKRAÍNA 2022

Myndin byrjar á sprengingu – sem rústar einum veggnum á heimili hjónanna Irku og Tolik. Vegginn vantar svo alla myndina, þetta var eftir slysasprenginu – og á sama tíma er allt í uppnámi af því malasísk flugvél var óvart skotin niður yfir austur-Úkraínu. Já, og líka út af átökunum sem höfðu hafist fyrr um árið.

Það fer að hitna í kolunum og þau eru hvött til að fara, eitthvað sem Irka tekur ekki í mál, þótt hún sé ólétt og óvíst að hún muni fá eðlilega hjálp við fæðinguna á þessu svæði. Bræður og frændur munu berjast og ákveðin kergja og pressa gagnvart því að taka afstöðu stigmagnast, tja, eða koðnar kannski frekar niður, eins og myndin.

Hjónin eru bæði frekar þreytandi persónur og aukapersónurnar ekki mikið áhugaverðari og í lokin er myndin „tileinkuð konum“ sem virkar frekar ódýr tileinkun – er það út af því önnur aðalpersónan er ólétt og óþolandi? Vissulega eru karlarnir flón líka, en hún jafnvel enn frekar.

Þannig að horfið frekar á myndir á borð við Eldfjall eða Donbass ef þið viljið góða úkraínska mynd eða forvitnilega sýn á átökin. Þesssi bætir litlu við.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson