Eitt af því sem plagar líklega flesta bókmenntafræðinga er lestrarsamviskubit – við erum aldrei búin að lesa nóg og skömmumst okkar út í hið óendanlega fyrir það sem við höfum ekki enn lesið. Stundum finnst mér líka hið akademíska bókmenntalíf blandast á óþolandi mótsagnakenndan hátt saman við almenna lestraránægju svo þegar upp er staðið er mér alls ekki ljóst hvort bókin sem ég var að lesa hafði fagleg eða tilfinningaleg áhrif á mig; á mig að langa til að skrifa grein um hana eða breytti hún mér persónulega? Þessi klemma er auðvitað fáránleg og að miklu leyti heimatilbúin en ég nefni hana af því að ein uppáhaldsbókin mín er akkúrat svona; hún talar til mín á mörgum sviðum í einu.

Fyrir sex eða sjö árum síðan var ég á ráðstefnu, líklega í Dublin þar sem ég bjó þá, og hlustaði á konu halda fyrirlestur um bækur eftir Jeanette Winterson, annars vegar skáldsöguna Oranges Are Not the Only Fruit og hins vegar endurminningabók sem Winterson hafði þá nýlega sent frá sér, Why Be Happy When You Could Be Normal? Lestrarsamviskubitið heltók mig eins og svo oft áður, ég hafði auðvitað í mörg ár ætlað að lesa appelsínurnar en ekki enn gert það, sem var fullkomlega fáránlegt sinnuleysi af bókmenntamenntaðri lesbíu. Svo hljómaði þessi nýja bók líka ótrúlega heillandi. Það var bara einn möguleiki í stöðunni: að fara í bókabúð og svo heim að lesa.
Við tók ein dásamlegasta lestrarreynsla ævi minnar. Það að lesa þessar tvær bækur saman er einstakt. Oranges Are Not the Only Fruit, sem kom út árið 1985, er byggð að miklu leyti á ævi og reynslu höfundarins – en er sannarlega skáldsaga. Hún fjallar um þroskasögu ungrar stúlku sem vex úr grasi og áttar sig á því að hún elskar og hrífst af öðrum konum en þarf um leið að glíma við vægast samt fjandsamlegar og erfiðar fjölskylduaðstæður. 25 árum síðar tókst Winterson svo á við ævisögulega hlutann af skáldsögunni – sinn eigin uppvöxt og leitina að kynferðislegri sjálfsmynd – og ritunarferlið að baki henni í Why Be Happy When You Could Be Normal? Þetta er mögnuð minningabók skálds, bók sem fjallar um sjálfsmynd í stöðugri mótun. Hún hafði sérstaklega djúp og sterk áhrif á mig, líklega mest af því að hún dregur fram hvernig það að vera lesbía og rithöfundur hefur mótað Winterson, hvernig skrifleg og skapandi tjáning getur breytt sýn okkar á hlutina og jafnvel bjargað okkur frá volæði og glötun. Hún er alls ekki eini hinsegin einstaklingurinn sem hefur talað um mikilvægi þess að finna fordæmdum og jaðarsettum tilfinningum farveg í gegnum skapandi skrif og hún er alveg örugglega ekki sú síðasta sem upplifir slíkt.
Höfundur: Ásta Kristín Benediktsdóttir,
íslensku- og bókmenntafræðingur