Um nýjasta sjónvarpsþátt Sacha Baron Cohen, Who is America?

Hver er Ameríka? Þetta er sérkennileg spurning sem Sacha Baron Cohen leggur fram í samnefndum þáttum. Er Ameríka Bernie Sanders eða Dick Cheney, er hún raunveruleikaþáttastjörnur sem þykjast fara til Afríku að hjálpa bágstöddum börnum, er hún moskuhatandi smábæjarfólk eða rappandi blökkumenn, er hún allt þetta eða ekkert af þessu?

Áður en við reynum að svara þeirri spurningu betur er rétt að spyrja: hver er Sacha Baron Cohen? Cohen varð frægur þegar hann birtist sem spjallþáttastjórnandinn hömlulausi Ali G í bresku sjónvarpi um aldamótin – persóna hvers hömluleysi snérist í raun minnst um hann sjálfan, heldur að afhjúpa viðmælendurna – sumir héldu kúlinu, aðrir urðu meðvirkir með vitleysunni og enn aðrir urðu sér til skammar. Áhrif Ali náðu alla leið til Íslands þar sem Erpur Eyvindarson endurtók formúluna í gervi Johnny National og ég efa ekki að afkvæmin séu fleiri, víðsvegar um heiminn.

Rapparar.jpgSeinna fór aukapersóna úr þáttunum, Borat, fram úr Ali G í vinsældum og líklega náði frægð Cohens hámarki með myndinni um Borat fyrir tólf árum síðan – en eftir það fór að halla undan fæti, formúlan fór að verða þreytt og útþynnt og svona grín datt hreinlega úr tísku.

Sjálfshatandi hvítir menn og kúkalistamenn

En svona eftir á að hyggja þá var heimurinn ekki nærri jafn klikkaður þá og nú. Pólitíkusar á borð við Theresu May, Boris Johnson og Donald Trump voru ennþá jaðarfígúrur í stjórnmálum heimsins. Ali G og Borat voru á sínum tíma ýktar grínfígúrur – í dag væru þeir sjálfsagt virðulegir stjórnmálamenn. Ástandið í Ameríku hreinlega öskraði á gott kombakk frá Sacha Baron Cohen – og Who is America er svarið.

KúkalistamaðurÞegar þetta er skrifað er búið að sýna 4 þætti af 7 og Cohen hefur brugðið sér í líki sex mismunandi ýkta karaktera, 4 af þeim mætti líklega staðsetja hægra megin í hinu pólitíska litrófi og 2 vinstra megin. Karakterarnir eru misgóðir – finnska youtube-stjarnan OMGWhizzBoyOMG! hefur til dæmis aðeins birst einu sinni og hann þarf ekkert að birtast aftur.

Kúkalistamaðurinn Rick Sherman, sem er nýlega laus úr fangelsi, hefur líka bara birst einu sinni en það eina skipti sýndi að stundum er svarið við spurningu þáttana einfaldlega að Ameríka sé vissulega skrítin en um leið vinaleg og skilningsrík, því þótt atriðið sé drepfyndið kemur enginn illa út úr því, listaverkasalinn Christy virkar þvert á móti afskaplega hjálpleg og skilningsrík.

Byggsugleði.jpgPersóna Erran Morad, Ísraela sem sérhæfir sig í baráttu gegn hryðjuverkum, er svo traustasti liðsmaður þáttanna – það virðist vera hægt að láta fólk gera hvað sem er ef því er sagt að það sé í nafni þess að bregðast við yfirvofandi ógn, hvort sem það er að hvetja til byssueignar þriggja ára barna eða nota sjálfuprik til þess að njósna undir búrkur arabískra kvenna, sem viðmælandinn er sannfærður um að sé mjög líklega hryðjuverkamaður. Morad er líka nógu sannfærandi til þess að fá þrjá stuðningsmenn Trump og hatursmenn mexíkanskra innflytjenda til þess að klæða sig upp í píkubrók og kvenkjól til þess að góma vafasama mexíkana, sem þær ætla allt illt.

En fátt jafnast þó á við samtal Morad við Dick Cheney, fyrrum varnarmálaráðherra, sem verður vafalítið alræmt í sjónvarpssögunni.  Þar svarar Cheney spurningum um uppáhaldsstríðið af þeim sem hann hóf, tekur fram að þeir tali ekki um pyntingar heldur þróaðri yfirheyrslur – og áritar tækin sem Morad notar við vatnapyntingar (waterboarding).

Píkubrók.jpgÞá er það Dr. Nira Cain-N’Degeocello, sem að eigin sögn er sjálfs-hatandi hvítur maður, sem tveimur vikum eftir „að kosningunum var stolið frá forsetanum okkar Hillary Clinton tókst mér að rífa mig upp úr rúminu og hjóla nú um Bandaríkin í þeim tilgangi að heila okkar brotnu þjóð.“ Þessi öfgakenndi vinstrimaður er mistækari sem persóna en Morad, en atriðin með honum geta verið stórkostleg þegar vel tekst til. Eins og þegar hann heldur langa tölu yfir íbúum deyjandi krummaskuðs og segir þeim að hann viti um fjárfesta sem vilja fjárfesta fyrir tæplega 400 milljónir dollara. Allir klappa – en tónninn breytist þegar í ljós kemur að fjárfestingin er moska, sú stærsta sinnar tegundar utan Mið-Austurlanda.

Að heila Ameríku

En máski er Cohen ekki að leika nema að litlu leyti þegar hann er í hlutverki Dr. Nira. Jú, vissulega eru þeir gerólíkir karakterar – en er markmiðið mögulega það sama, að heila Ameríku?

Til þess notar Cohen einfaldlega þá aðferð sem listamenn sem og blaðamenn – og hann dansar þarna á mörkunum – hafa trúað á í gegnum árin, að spyrja spurninga. Spurningin hver er Ameríka er kyndug – hver en ekki hvað, eins og heimsálfa geti verið einstaklingur. En svarið er auðvitað að hún er margar manneskjur – og Cohen reynir að gefa okkur fjölbreytileg svör Máski ekki nógu fjölbreytileg, spurningin er í raun „Hver er gróteska Ameríka?“ – með fáeinum undantekningum þó, það falla ekki allir í gryfjurnar sem Cohen grefur þeim og sumir komast vel frá sjónarspilinu og það á við um pólitíkusa bæði frá vinstri og hægri, hvað svo sem má segja um þá annars.

RealityStar.jpgÞættirnir eru góðir en mistækir – en formið þýðir að þeir verða alltaf mistækir og það er að vissu leyti ákveðin heiðarleiki í því að halda því þannig og birta ekki bara atriðin þar sem viðmælendurnir falla í gildrurnar. Hins vegar hefði verið forvitnilegt að sjá meiri breidd – bæði sjá fleiri vinstrimenn og miðjumenn, flestir pólitískir viðmælendur eru jú repúblikanar af hægri væng flokksins, en einnig hefði verið gaman að fá stórborgarhipstera, þjóðlagasöngvara og háskólaprófessora líka sem viðmælendur og svo mætti lengi telja, til þess að breikka myndina og komast nær svarinu við spurningu þáttarins.

Það yrði vissulega töluvert annar þáttur – mögulega ekki jafn fyndinn, það er erfitt að segja, en hugsanlega áhugaverðari. En út frá þáttunum eins og þeir eru – hvað er svarið? Jú, líklega þetta: Ameríka er einhver sem hægt að plata til að gera hvað sem er.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Greinin birtist einnig í Reykjavík Vikublað.