Neðanjarðarstöðin á Friðartorgi (Námesti míru) í Prag er sú dýpsta í gervöllu Evrópusambandinu. En ef þú vilt meiri dýpt þegar þú ert kominn undir bert loft þá er það einfalt mál – það er nefnilega ljóðaglymskratti á torginu, eins og sést á meðfylgjandi myndbandi.

Þar er hægt að velja upplestur 20 mismunandi tékkneskra nútímaskálda, en dagskráin virðist breytileg – í vetur sem leið var þar mikið af amerískum bítskáldum; Bukowski, Ginsberg, Kerouac, Baraka, Ferlinghetti og Burroughs voru þar allir, sem og þjóðskáld tuttugustu aldarinnar í Tékklandi, sem nú eru fallin frá, eins og Nóbelskáldið Jaroslav Seifert, Vladimír Holan og Miroslav Holub.

Þetta byrjaði allt með píanóum, en víða í Tékklandi má finna píanó á almannafæri sem menn geta gripið í, og nú er svo komið að 50 píanó og 60 skákborð má finna víðsvegar um landið.  Þau Ondřej Kobza og Michaela Hečková stóðu fyrir því að koma píanóunum og skákborðunum á göturnar og þau stóðu líka fyrir því að koma ljóðaglymskröttunum –  Poesiomat á tékknesku – í umferð.

Sá sem hér sést í Námesti míru er sá fyrsti – en síðan hafa álíka glymskrattar verið settir upp víða í Tékklandi og Slóvakíu, Rússlandi, Úkraínu og Írlandi – og forsvarsmenn þeirra eru áhugasamir um samstarf við ljóðelsk sveitarfélög hvar sem er í heiminum – það er hægt að hafa samband við þau í gegnum þessa síðu – og rétt að hvetja íslensk bæjaryfirvöld til þess að fylla Ísland af ljóðaglymskröttum.

Að lokum má svo sjá hér eitt almenningspíanóið í notkun á lestarstöðinni í Plzeň.

Texti og myndbönd: Ásgeir H Ingólfsson