(Var taggaður á Twitter-þráð um ráðleggingar um hvað maður eigi að gera í Prag. En ég get ekki Twitter út af þessari 280 stafa reglu, það er ekki einu sinni hægt að byrja að tala um Prag í 280 slögum. Þannig að þetta endaði hér. Í 7700 slögum. Meðmæli um Prag – og ég á örugglega eftir að uppfæra þetta einhvern tímann þannig að þetta endi í 77.000 slögum.)
Sko … byrjum bara á byrjuninni:
Karlsbrúin að kvöldi – miklu rólegri en líka fallegri þá. Koma samt við á fjórum stöðum við brúarsporðinn um daginn; Visual Effects safninu (tileinkað Karel Zeman sem gerði tékkneskar risaeðlumyndir og Jules Verne ævintýri í sixtís, lítið og sjarmerandi safn), Shakespeare & synove (mest sjarmerandi enska bókabúðinn, fyrst og fremst þá kjallarinn – fínt að kíkja á Globe líka), Lennon-veggnum og svo Lokal, til að fá alvöru Pilsner Urquell (sem er lúmskt erfitt eftir að þeir breyttu uppskriftinni). Kaupa Under a Cruel Star, Three Novels eftir Čapek og eitthvað eftir Hrabal í bókabúðinni. Finna Karel Krýl og Mörtu Kubišová á einhverri tónlistarveitu, The Cremator og Lestir undir smásjá á bíóveitu eða Sleepers sjónvarpsseríuna með David Nykl vini mínum. Athuga hvort það sé einhvers staðar Švankmajer-sýning. Og hver veit, kannski verða þeir byrjaðir að sýna tékkneska klassík aftur á íranska bíóbarnum Screensaver.

Kastalinn er aukaatriði, gullgerðargatan sem liggur frá kastalanum er aðalatriði. Fara svo meðfram árbakkanum og finna Legi-brúnna (Most legi) og flatmaga í sólinni með kastalann og Karlsbrúna fyrir augunum. Fara á andspyrnubarinn við mylluna, Mlynská kavárna. Fara á Duende og vínbarinn rétt hjá sem ég man aldrei hvað heitir. Kíkja við í íslenska bakaríinu við Ujezd eða Myslíkovu. Sleppa bar-bátunum við Karlsbrúna alveg (vond músík og vondur okurbjór) en labba frekar aðeins lengra – eftir að árbakkasvæðið hættir en byrjar svo aftur, aðeins eftir áðurnefnda Most Legi, þá ertu kominn á Naplavka, þar sem lókallinn er og bæði bjórinn og tónlistin er góð – sérstaklega á (A)void, sem er síðasti báturinn fyrir lestarbrúnna. Tékkneskur bjór er auðvitað almennt góður, en ekki láta bara standardana sem eru alls staðar duga, finndu Vinohradska (sæmilega algengur raunar), Matuška, Klostermann, Albrecht eða einhvern af þessum skrilljón æðislegu ör-bjórum sem ég man ekki nafnið á. Eða samnefnda belgíska húsbjórinn og geitaost á Guulden Drak, það er eini útlenski bjórinn sem er löglegt að drekka í borginni.

Fyrst þú ert kominn alla leið á endann á Naplövku, þá ertu í raun komin úr miðbænum til Vyšehrad, og þá er þess virði að klifra upp hæðina og heimsækja kirkjugarðinn. Mjög lítill en fallegur garður – þarna eru nánast allir dauðir Tékkar sem þú mögulega þekkir grafnir – fyrir utan Kafka, hann var ekki nógu frægur þegar hann dó.
Ég þekki Vyšehrad ekki nóg til að segja mikið meira um svæðið – nema jú, það eru tvær frábærar gönguleiðir: að labba yfir sjálfsmorðsbrúnna við Nusle (búið að girða fyrir öll möguleg sjálfsmorð þar fyrir löngu þó) af því það er mjög forvitnilegt sjónarhorn þaðan – ekki yfir vatn, heldur yfir garða, efri hlutann á sporvögnum og alls konar fleira – borgarmynd að ofan sem er sjaldgæft að sjá. Frá mér er svo yndislegt að labba eina rólegustu götu Prag, hina snarbröttu Apolinářská, niður í Vyšehrad. Við hana er líka falið útileikhús þar sem við erum með ljóðalestra á sumrin, rétt við gullfallegan fæðingarspítalann sem ófrísk vinkona mín var mjög uppveðruð yfir þegar hún kom í heimsókn hingað.

Og þá kem ég auðvitað að heimahögunum í Vinohrady, þar sem þú þarft að kíkja á garðinn minn – Grebovka (eða Havlíčkovy Sady fullu nafni), með vínekrunum og Gróttunni og japanska útsýnisturninum og endalausum hallandi brekkum til að flatmaga á í sólinni, áður en maður fer á Krýmska í leit að bjór eða Blatouch í leit að grænmetisfæði eða Hlucna samóta í leit að kjötmeti, á Šlágr fyrir morgunmat hjá franskasta manni í heimi eða til vina minna í Soul Kitchen fyrir eitthvað grískt. Eins er hægt að tékka á besta útsýninu á Zvonorka, skýra alla sænskum nöfnum á Bullerbyn eða finna ljóðskáld á Souterrain.

Svo kíkir maður á ljóðaglymskrattann á Friðartorgi (Namesti míru) og prófar kannski lengsta rúllustiga Evrópu niður í metróið, fer aftur niðrí bæ til að skoða miðbæjarbíóin – Lucerna-bygginguna alla með öfuga hestinum, veggspjöldin hjá Svetozor (bæði í veggspjaldasjoppunni og líka breytilegu sýninguna á veggjunum) og svo fer maður auðvitað í bíó, allavega ef það er eitthvað „english friendly“ í sýningum. Lucerna kaffihúsið er svo í kompaníi með Louvre, Slavia og Adria sem must-see fyrir aðdáendur habsborgskra kaffihúsa – það er geggjað útsýni frá svölunum hjá Adria og æðislegt að fara í heldrimannaballskák á Louvre.
Þegar haustar er svo hægt að fara í óperuna hjá Arnheiði og eins er alltaf hægt að fara á risa-risa stóra þjóðminjasafnið sem ég lofa að dröslast til að fara á einn daginn! Og ef þú villist í átt að klukkunni frægu á gömlubæjartorgi og þyrstir skyndilega og áttar þig á að þú ert umkringd okurbúllum; þá finnurðu bara skátabarinn, Skautsky institut, þar sem er hægt að fá bjór og kaffi og samlokur á strangheiðarlegu skátaverði og þjónarnir eru með skátaklút – og mjög sjarmerandi útisvæði til að drekka bjórinn á, þar sem þú sérð þvottinn hjá fólkinu á efri hæðinni. Og saga skátahreyfingarinnar, Sokol-hreyfingarinnar og travelers er auðvitað allt önnur og andspyrnumiðaðri en í vestur-Evrópu.
Svo er auðvitað Žižkov, gamla pöbbahverfið, og þar er líka risastóri kirkjugarðurinn, svona ef þú ert ennþá að leita að Kafka. Þar er Pálac Akropolis og sjónvarpsturninn og pöbbagatan mikla, Bořivojova, sem má samt muna sinn fífill fegurri – djammið hefur færst neðar, til dæmis í Žižkovšiška, þar sem er hægt að fara í borðtennis með sunnudagssúpunni, sem fylgir sunnudagssúpu-jam-sessioninu, þar sem alls kyns tónlistarfólk leikur lausum hala. Svo er besta pastað í bænum á Mon Ami þarna nálægt (og garðurinn þeirra er yndislegur), besta sesar-salatið á Planeta Žižkov, bestu hamborgararnir á Tavern og ef þú vilt matinn þinn löðrandi af osti er BarFüd lausnin.
Frá Žižkov eru svo göngin löngu yfir í Karlín, tvö raunar – göngugöng – og ég er hrifnari af þeim styttri, kannski af því við hentum í ljóðagjörning þar einu sinni. Og á Vitkov-hæðinni er voldug stytta af stríðshetju á hesti eins og allar almennilegar borgir þurfa að hafa, af Jan Žižka auðvitað. Svo er safnið á hæðinni helvíti fínt líka, með breytilegum sýningum.
Aðalmálið í Karlín er svo auðvitað einn besti útistaður Prag-sumarsins. Kasarná Karlín, gamalt herskálasvæði sem núna er strönd í borg, með strandblaki, sólstólum, ísbúð, einhyrningum og útibíói.

Svo er hægt að fara til Letná og Stromovka hinum megin við ánna, þetta eru risastórir almenningsgarðar og ég mæli helst með að labba upp stigann að Letnu-garði til að fá bestu upplifunina. Letná með frábæru útsýni yfir borgina og sk8erbois & girls að renna sér þar sem Stalín-styttan stóð einu sinni og er núna bara risastór loftvog, skate park og bar sem heitir Stalín – og það eru auðvitað bjórgarðar við eða í flestum þessum almenningsgörðum. Svo er hverfið hjá Letna-garðinum með þeim skemmtilegri í borginni. Já, og ef þú ert langt frá gististað og nennir ekki sporvögnum, ekki hóa í taxa af götunni. Aldrei, þeir ræna þig alltaf. Annað hvort færðu þér AAA Taxi appið eða hringir beint í þá. Svona fyrst það er endanlega búið að canela Uber.
Ef þig langar svo að halda áfram að djamma er Cross Club staður sem er hægt að mæla með fyrir steam-pönk arkítektúrinn, jafnvel þótt þú nennir ekki klúbbum, en aðal stuðið er samt auðvitað að fara á Boudoir u sta rán og lenda á kjaftatörn með barþjónunum svo þeir leyfi þér að vera alltof lengi fram eftir. Ef þig langar svo í meiri iðnaðarfegurð er hægt að taka sporvagninn upp í MeetFactory, æsa páfagaukinn upp og horfa á lestirnar bruna framhjá. Ef þú ert heppin er opið hús og það þýðir að öll stúdíón eru opin, þar á meðal þetta þar sem ég flyt ljóð í á milli þess sem aðrir meðlimir Urban Space Epics fremja tónlist, dans og vídjólist.
Ef þig langar í dagsferð eitthvað þá eru allir að fara í Kutná Hora eða Český Krumlov en hipp og kúl liðið fer auðvitað til Tábor (já, ég er bullandi hlutdrægur) til að fá sér sundsprett í Jordan-ánni og taka hellagönguna undir gamla torgið.
Annars er svosem óþarfi að flækja þetta, aðalmálið er bara að þvælast um og villast nógu mikið og drekka bjór með mér og/eða Þórdísi ef þú rambar á okkur!
Texti: Ásgeir H Ingólfsson