Við erum stödd í Austur-Úkraínu, í Donbass-héraði, og þar eru enn stríðsátök, þótt fréttaritarar heimsins séu flestir farnir annað.
Við fáum sama og engar upplýsingar um gang stríðsins, upptök þess eða framvindu í Donbass, nýjustu leiknu mynd Sergey Loznitsa. Þess í stað fáum við 13 laustengdar sögur af svæði á stríðstímum, og oft er eina tengingin staðsetningin. Fyrir utan örfáar sprengingar er lítið um eiginleg stríðsátök, þessi mynd er frekar um það sem gerist í skuggunum bak við sprengjurnar.
Sögurnar eru vissulega missterkar en þær sterkustu sýna okkur vel hvernig eineltiskúltúr blómstrar sem aldrei fyrr í stríði. Svakalegasta dæmið er maður sem er bundinn við ljósastaur með svikabrigsl skrifuð á pappaspjald sem hengt er um hálsinn á honum – og að honum koma gangandi vegfarendur og taka ýmist írónískar sjálfur með honum eða ganga í skrokk á honum. Ekki bara ungmennagengi, heldur líka reiðar ömmur. Önnur sena sýnir okkur mann ganga á milli hermanna sem beita bareflum á bakið á honum.
Önnur saklausari sena sýnir samt ekki ósvipaða dýnamík, þegar herforingi neyðir mann til þess að gefa hernum bílinn með lúmskum hótunum og brigslum um skort á þjóðerniskennd.
Eins fáum við mynd af því hvernig mannkynssagan er notuð sem vatn á myllu nútímastríða þegar þýskur fréttamaður fær á baukinn fyrir 70 ára gamalt stríð og einn hermaðurinn kallar: „Ef þú varst ekki fasisti var afi þinn það!“
Þetta er barbarasirkus í fimbulkulda stríðsveturs þar sem leikarar leika í falsfréttum og maður hefur sterklega á tilfinningunni að þetta stríð muni standa lengi, einfaldlega af því það séu svo margir sem græða á áframhaldandi stríði, eineltistuddar sem hafa fundið sér sitt kjörlendi.
Stíllinn er í ætt við heimildamyndir – sem er kaldhæðið, vegna þess að Losnitza virðist valda þeim stíl mun betur í skáldskap heldur en í eiginlegum heimildamyndum, eins og komið er inná hérna í umræðu um nýjustu heimildarmynd leikstjórans.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson