„Það eru engir minnisvarðar við Babi Jar,“ orti Yevgeny Yevtushenko í kvæði sínu um Babi Jar, tuttugu árum eftir að 33.771 gyðingum var slátrað þar á tveimur dögum í lok september 1941. Eitthvað sem honum og öðrum þótti til marks um skeytingarleysi sovéska yfirvalda um atburðina.

Babi Jar er gil nokkuð rétt hjá Kænugarði, mætti hreinlega þýða það sem Kerlingargil (Babi þýðir gömul kona á slavneskum málum og Jar er gil á tyrknesku). En einhvern veginn er betra að halda sig við úkraínskuna, svona nokkuð finnst manni ómögulega geta gerst í Kerlingargili.

En mönnum fannst það auðvitað ekki geta gerst í Babi Yar heldur – og menn létu dálítið eins og ekkert hefði gerst, og gagnrýni á skeytingarleysi sögunnar er undirliggjandi í Babi Jar: Samhengi – heimildamynd Sergei Loznitsa um atburðina.

Loznitsa vinnur jöfnum höndum við heimildamyndir og leiknar – og upphaflega ætlaði hann að gera leikna mynd um atburðina, en kófið varð til þess að hann ákvað að gera heimildamynd.

Mín fyrri reynsla af Losnitza er einhvern veginn svona: ég fíla leiknu myndirnar, þoli ekki heimildamyndirnar – nema mér finnst hann oft góður í því sem kalla mætti arkívuheimildamyndir, þar sem hann kafar ofan í myndasöfn fortíðar og reynir að púsla saman atburðum fortíðar með myndbrotum héðan og þaðan.

Blokada, um umsátrið um Stalíngrad, var meistaralegt dæmi um slíkan arkívukveðskap (ég skrifaði um hana hér) – en vandi Babi Jar: Samhengi felst í raun í undirtitilinum. Hér má finna efni sem teygir sig yfir um áratug – efni frá því fyrir og eftir hörmungarnar. En það er ekkert til frá atburðunum sjálfum, og það skýrir undirtitilinn. Við sjáum hversdagslífið á undan og eftir – og einnig öllu minni hversdagsleika á köflum, hversdagsleika heimsstyrjaldar kannski. Þar sem myndin getur ekki sýnt okkur atburðina reynir hún sumsé að sýna okkur samhengið.

Við sjáum hvernig Þjóðverjarnir fengu í raun nokkuð jákvæðar viðtökur frá heimamönnum, öðrum en gyðingum, sumir sáu þá jafnvel sem frelsara – sem er vel skiljanlegt þegar haft er í huga að Holodomor, hungursneiðin sem Stalín leiddi yfir Úkraínu, er þarna tiltölulega nýafstaðin, tæpum áratug fyrr. Hvernig gátu nasistarnir verið verri?

Við sjáum kunnuglega senu, þar sem gyðingum er sagt að það sé verið að fara að flytja þá – án þess að þá gruni, fyrr en of seint, að flutningurinn sé á annað tilverustig. Við sjáum svo eyðilegt landslag skömmu síðar, þar sem við vitum hvað gerðist þótt við getum ekki séð það.

Ég segi kunnuglega senu – en hún var ekki endilega kunnugleg þarna. Þetta var umfangsmesta slátrun á gyðingum þegar þarna var komið í styrjöldinni og rabbíinn Yisrael Meir Lau hefur velt því upp hvort þetta hafi í raun verið upphitun fyrir helförina, þarna hafi Hitler og hans samverkamenn séð að þeir gátu komist upp með svona lagað án teljandi vandræða. Mögulega út af því gyðingahatrið gegnsýrði svo stóran hluta Evrópu að fáir voru til að koma þeim til varnar.

Svakalegasti hluti myndarinnar eru svo í raun réttarhöldin eftir stríðið. Ekki þó framburður nasistana, hann er auðgleymanleg staðfesting á orðum Hönnuh Arendt um hversdagsleika illskunnar. Nei, miklu frekar framburður leikkonunnar Dinu Pronískevu, sem lifði hildarleikinn af. Eftirlifendurnir eru taldir vera færri en þrjátíu og Dina lýsir því hvernig hún stökk áður en hún var skotin og lá svo grafkyrr á meðan nasistarnir héldu áfram að skjóta særð fórnarlömb. Líkin hrúguðust svo ofan á hana, og í ofanálag köstuðu nasistarnir mold yfir líkin. En einhvern veginn tókst henni svo í skjóli nætur að klifra upp, í gegnum líkstaflann og moldina og laumast burtu fram hjá nasistum sem voru ennþá að drepa fólk í nóttinni.

Þetta er nánast eins og líkkistusenan í Kill Bill 2 sem manni þótti mögnuð en varla beint trúverðug, en raunveruleikinn hefur lag á því að gefa trúverðugleikanum langt nef.

Seinna sjáum við senu í lit. Næsti áratugur er genginn í garð, árið er 1952. Heildarfjöldi fórnarlambanna varð á endanum, yfir lengri tíma, á bilinu 100-150 þúsund, og þegar á leið blönduðust sígaunar, stríðsfangar og ýmsir fleiri saman við gyðingana.

En það samræmdist ekki stefnu Sovétstjórnar að halda minningu þessa atburðar á lofti – og þess vegna var gilið á endanum fyllt af alls kyns iðnaðarrusli, þessi grafreitur varð að ruslahaug. Ruslahaug sögunnar og raunverulegum ruslahaug.

Sem endaði auðvitað á aurskriðu sem kom úr gilinu yfir Kurenivka-hverfi í Kænugarði og kostaði um 1500 manns lífið árið 1961, þar sem rusl sem og líkamsleifar fortíðar flæddu yfir dalinn. Í þessu hverfi hafði rithöfundurinn Anatoly Kuznetsov alist upp, hann fæddist þar 32 árum fyrr. Hann var tólf ára þegar atburðirnir áttu sér stað og safnaði öllu sem hann fann um þá, var heltekinn og þegar hann sýndi móður sinni safnið, þá enn á unglingsaldri, hvatti hún hann til að gefa þetta út á bók. Sem hann og gerði á endanum, rúmum tuttugu árum síðar. Fyrst rækilega ritskoðaða í Sovétríkjunum, þar sem hann var orðinn virtur rithöfundur, en svo í heild sinni fáeinum árum síðar, þegar hann var orðinn flóttamaður í Bretlandi. Þar sem hann gaf út bókina með mismunandi letri fyrir það sem áður var ritskoðað, og enn öðru letri fyrir nýlegri viðbætur. Hann var eins og fleiri gagnrýninn á hirðuleysi yfirvalda gagnvart atburðunum, en minnismerki fóru ekki að birtast á svæðinu fyrr en eftir fall Sovétríkjanna.

En það er kannski til marks um veikleika myndarinnar að það er forvitnilegra að gúgla hana en að horfa á hana. Það er gaman að gleyma sér um stund í veröld sem var, en myndin er fyrst og fremst of löng – og það skýrist held ég einmitt af því að stóra púslið vantar – og þess vegna finnst Loznitsa hann þurfa að bæta svo mörgum púslum í kring til að sýna heildarmyndina. En form svona myndar virkar fjandi vel í klukkutíma mynd á borð við Blokada, tveir tímar þýðir að þú týnist í mósaíkmyndinni í kringum voðaverkin.

En Loznitsa er enn með leikna mynd um atburðina á döfunni. Líklega er það myndin til að bíða eftir, þótt því fylgi vissulega ýmsar gryfjur líka.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson