íÁramótaskaupið 2018 var það fyrsta sem hægt var að horfa á í beinni útsendingu með enskum texta. Sem er frábært framtak – en ég gat ekki af því gert að hugsa: eiga útlendingar samt eftir að skilja eitthvað? Þótt þeir skilji orðin, eiga þeir samt eftir að skilja sérviskulega skandala þessarar klikkuðu þjóðar?

Eitt atriði skaupsins sýnir hins vegar ágætlega að Íslendingar skilja þetta oft ekkert sjálfir, þar sem skrifstofublók hleypur reglulega í tölvuna til að tékka á Krakkafréttum til þess að geta verið með í kaffistofuspjallinu.

Við sem horfum svo á skaupið daginn eftir í útlöndum (af því í siðmenntuðum löndum eyðir engin heilvita manneskja síðasta degi ársins í sjónvarpsgláp) kinkum svo kolli yfir upphafslaginu.

aðeins hérna búa vil

í öðrum löndum ekkert skil

aldrei fílað sól og yl

Maður kinkar kolli fyrir framan skjáinn og hugsar heim: „hvað eruð þið eiginlega að hugsa?“ Fær samt um leið öfugsnúna heimþrá, man eftir þessum Íslandsblús, man eftir að hafa hugsað þetta sjálfur gangandi á þessum sömu Reykvísku götum. Maður kinkar kolli, hlær ekki endilega mikið – þetta er frábært lag, en í sjálfu sér ekkert svakalega fyndið. Þetta áramótaskaup er oft of blúsað til að vera fyndið, stundum beitt án þess endilega að vera fyndið. Góð samfélagsádeilda, minni kómedía.

Sem er ekki endilega slæmt, áramót snúast um uppgjör ekkert síður en skemmtun og það hlutverk skaupsins að vera beitt og greinandi er ekkert síður mikilvægt heldur en að vera fyndið. Skaupið er raunar mjög þétt framan af, vondu sketsarnir koma ekki fyrr en dálítið er liðið á, og rétt eins og á árinu sjálfu voru dónakallar og #metoo rauði þráðurinn. Það er ágætis lausn að sleppa þar oftast að fókusa um of á ákveðin atvik (þótt ýjað sé að sumu), þetta rennur í staðinn saman í einhverja dónakallasúpu. Þar bregst hins vegar skaupsliðum nokkuð oft listin og ófá dónakallaatriðin hvorki sérlega fyndin né beitt. Borgarlínan og andstaða við hana hefði líka átt að geta orðið ríkuleg gullnáma gríns, en endaði í einum andvana fæddum brandara, og sama mátti segja um braggann fræga.

Aldrei þessu vant eru söngatriðin hins vegar flest frábær. Vínbúðarlagið lýsir ágætlega upplifun okkar gagnvart illskiljanlegum reglum (þótt textinn hafi raunar ekki verið sérlega nákvæmur) og flutninngur nokkurra frægustu homma landsins á „Eru hommar kannski menn“ er einfaldlega stórkostlegur. Tilefnið, blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna, er í raun aukaatriði í atriðinu, þetta er miklu frekar tilefni fyrir homma landsins til þess að líta til baka yfir farinn veg, þetta er eins og þjóðlag um óréttlæti fortíðar, sem ekki er alveg horfið enn.

Það er svo gott dæmi um gagnvirkni skaupsins að einmitt þetta atriði hefur orðið helsta bitbein hægri manna, kallað áróður og til marks um vinstri villu, og afhjúpar þar með hvernig sumir íslenskir hægrimenn eru á köflum fastir í hægrimennsku Biblíubeltisins, með samkynhneigða meðal þeirra náttúrulegu óvina. Það má samt alveg taka undir þá gagnrýni þeirra að þetta skaup á það til að vera óþarflega predikandi, eins og lokasetningin ber með sér: „flugeldar menga.“ Sem er rétt – en er setningin fyndin eða beitt? Ekki beint.

Gagnvirknin birtist líka í flugeldasölumanninum sem selur dónalega BDSM flugeldapakka. Brandarinn er vísun í Vísis-fréttina „Auglýsti BDSM partý í nafni björgunarsveitar og kvíðir Áramótaskaupinu,“ frétt frá því í ágúst síðastliðnum og maður hefur nánast björgunarsveitarmanninn grunaðan um það að hafa hreinlega sviðsett þetta allt saman til þess að komast í skaupið.

Lokalagið er hins vegar undantekningin um þá reglu að tónlistaratriðin virki, lagið er einfaldlega ekkert sérstaklega gott – en hins vegar er vísir að nokkuð áhugaverðu battli, þar sem tveir andstæðir pólar takast á, eitthvað sem er þó aldrei tekið nógu langt. Lagið daðrar líka við að vera predikandi – en á móti kemur að það er merkilega niðurdrepandi, hér er lítið pepp á ferð, „Kannski bætum við okkur þá“ er laglína með áherslu á frekar vonlítið „kannski“ – hér er ekkert kaþarsis í lokin.

Stundum er skaupið svo hreinn sósíalrealismi, eins og þegar pólskir verkamenn ræða bágar aðstæður sínar, sofandi í bílum og gámum og á skítalaunum. Það mætti hreinlega ímynda sér að leikurum hafi einfaldlega verið sagt að kjafta bara, það væri verið að skjóta heimildamynd. Atriðið frá þingi ungra sjálfstæðismanna er svo sömuleiðis hársbreidd frá sósíalrealismanum. Eitt beittasta atriðið er svo Kona fer í stríð, um pólitíska vegferð okkar meinta vinstrisinnaða forsætisráðherra. Aftur, ekkert svakalega fyndið, en þeim mun beittara.

Besta atriðið er svo einfaldlega Klausturssenan, þar sem handritið var að mestu skrifað fyrir fram. Mögulega höfum velt okkur meira upp úr Klaustursmálinu en góðu hófi gegnir – en á móti kemur að þetta er einfaldlega staðfesting á því að íslensk stjórnmál eru stundum alveg jafnmikil absúrd kómedía og mann grunaði. Þarna birtast ótal kjánalegir karlmenn, naktir í hjákátleika sínum og drepfyndnir og sorglegir í senn.

Ef menn fá svo nóg af sósíalraunsæinu má alltaf kíkja á Krakkaskaupið. Þar er ekki heldur beinlínis verið að vinna með kómedíuhefðina, heldur birtist veröld fullorðinna Íslendinga börnunum eiginlega frekar sem hryllingsmynd. Ekki einhver splatter, heldur eins og ein af þessum ískyggilegu senum þar sem undirliggjandi hryllingurinn yfir mögulegum zombíum og vampírum er alltaf undirliggjandi og engum treystandi.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Rýnin birtist upphaflega í Reykjavíkurblaðinu 5. janúar 2018.