i
Vitiði, ég vorkenni Einari Kárasyni ekki neitt að fá ekki listamannalaun. Hann á þau kannski alveg skilið, en málið er að hann, rétt eins og margir aðrir sem fengu laun, hafa fengið helling af listamannalaunum (12 ár og 9 mánuði frá aldamótum) og einmitt þess vegna náð að byggja upp farsælan rithöfundaferil. Þau eru vel að launum sínum komin, eins og aðrir sem standa sig vel í vinnunni. En það er hellingur af frábærum rithöfundum sem hafa aldrei fengið listamannalaun – og einmitt þess vegna þekkiði fæst þetta fólk, þetta fólk hefur aldrei náð því að vera þjóðþekktir og dáðir höfundar – af því þau fengu aldrei alvöru séns. Fólk sem kannski skrifaði nokkrar bækur og gafst upp, af alls konar ástæðum, sem kjarnast samt oftast í þessari einu: þetta var hobbí sem þau höfðu ekki efni á lengur.
Nú er hins vegar alveg skiljanlegt að fólk sé svekkt að Einar Kárason fái ekki listamannalaun. Hann hefur náð þeim stalli að vera þekktur og vinsæll höfundur, það er margt fólk sem kann að meta verk hans og vill einmitt þess vegna að skattpeningarnir þeirra fari meðal annars í að hjálpa honum við að skrifa fleiri bækur. Hins vegar fær þetta sama fólk aldrei að kynnast öllum þeim bókum sem ýmsir aðrir höfundar væru líkast til búnir að skrifa núna, ef þeir hefðu aðeins fengið til þess suðning, rithöfundar sem eru ekkert síðri og væru í einhverjum tilfellum líklegir til þess að öðlast álíka vinsældir.
Það tekur nefnilega tíma – og fjármagn – að koma sér á framfæri sem rithöfundur, sem og að festa sig í sessi. Flestir höfundar þurfa að skrifa nokkrar bækur til þess að komast á listamannalaun, og þá fá þeir oftast bara 3-6 mánuði til að byrja með, mögulega í nokkur ár. Á meðan er fólk vitaskuld að sinna sínu lífi, afla tekna, byggja upp feril á öðrum vettvangi og/eða stofna fjölskyldu, lífið tekur alls kyns snúninga sem geta þýtt að á einhverjum tímapunkti verður einfaldlega að afskrifa alla listamannadrauma.
ii
Það yrði auðvitað alveg einhver list framkvæmd á Íslandi þótt listamannalaun og aðrir ríkisstyrkir til listamanna yrðu feldir niður, vissulega. En það er einfaldlega hrein fantasía að ímynda sér að þær listir myndu standa í sérstökum blóma eða væru á heimsmælikvarða, sem má alveg fullyrða að ansi margt íslenskt listafólk er nú um mundir.
Eða eins og Jim Jarmusch orðaði það: „Fljótlegt, ódýrt og gott – veldu tvennt. Ef það er unnið fljótt og ódýrt verður það ekki gott. Ef það er unnið fljótt og vel þá verður það ekki ódýrt. Ef það er unnið ódýrt og vel verður það ekki fljótlegt. Veldu tvö orð til að lifa eftir.“
Ef við hættum með listamannalaun útilokum við fyrsta möguleikann, en þriðji möguleikinn heldur vissulega opnum möguleikanum á mjög vandaðri list – mjög sjaldan.
iii
En að því sögðu þá þurfa listamenn að hætta að vera svona djöfullega kurteisir og hætta að vera í endalaustri vörn. Undanfarin ár hafa ritlaununum verið úthlutað á föstudegi og ástæðan er öllum sem þekkja til fjölmiðla augljós; til að lágmarka fréttaflutning, til þess að koma í veg fyrir holskeflu virkra í athugasemdum að hvetja til þess að þetta fólk fái sér nú almennilega vinnu. Það er jafnvel rætt um að kalla þetta eitthvað annað, t.d. leggja meiri áhuga á að þetta séu verkefnastyrkir, til þess að lækka öldurnar.
Það versta er svo hvernig listamenn þakka fyrir sig í bak og fyrir, bugta sig og beygja, jafnvel fyrir litla þrjá mánuði. Ég sé eiginlega aldrei neinn annan þakka fyrir það eitt að fá illa launað hlutastarf í fáeina mánuði, í starfi sem þau eru í flestum tilfellum löngu búin að sanna sig í.
Þess vegna er löngu kominn tími á að snúa dagskránni við, tilkynna listamannalaun með stolti á mánudögum – og fylla fréttatímana af kröfum um það að hækka þessi listamannalaun rækilega og fjölga sömuleiðis mánuðunum. Það væri ágætis byrjun að tvöfalda heildarupphæðina og nota bæði til þess að hækka launin og fjölga mánaðarlaunum rækilega, það ætti einfaldlega að vera lágmarkskrafa.
Við eigum einfaldlega að hætta að rífa kjaft við virka í athugasemdum, við eigum að rífa kjaft og krefjast þess að fá alvöru listamannalaun, punktur.
Höfum það líka alveg á hreinu að fyrir ríkið eru þessar 650 milljónir smápeningar. Þetta er það sem kostar að malbika 13 kílómetra, Þjóðkirkjan kostar þrefalt meira (og þá eru sóknargjöld undanskilin), sem og varnarmál þessarar herlausu þjóðar, ört fjölgandi aðstoðarmenn ráðherra og þingmanna munu bráðum kosta nærri því jafn mikið og öll listamannalaun, framlög til stjórnmálaflokka eru hærri en listamannlaun, það kostar meira að reka Íslandsstofu (áður Inspired by Iceland) og jafnvel á menningarsviðinu sjálfu eru þetta litlir peningar; Harpan, Þjóðminjasafnið, Sinfóníuhljómsveitin og Þjóðleikhúsið eru allt stofnanir sem eru töluvert dýrari í rekstri en listamannalaun.
Þess vegna er kannski alveg rétt að endurskrifa upphafsorð greinarinnar: auðvitað á Einar Kárason að fá listamannalaun – og allir hinir líka!
iv
Að öllu þessu sögðu, þá þurfum við líka að vanda okkur meira við að úthluta þessum launum og ræða af meira viti um þá úthlutun, til þess að komast niður á eitthvað verklag sem fólk getur verið sátt við. Þegar þú færð höfnunarpóst frá stjórn listamannalauna stingur sérstaklega ein setning í augu:
„Bent er á að samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi ekki að veita rökstuðning þegar um er að ræða úthlutun styrkja á sviði lista, menningar eða vísinda.“
Sumsé, það er ekki hægt að fá rökstuðning fyrir höfnun á umsókn, hvort sem það er algjör höfnun eða bara þrír eða sex mánuðir, sem sumir upplifa vissulega sem höfnun, sérstaklega ef þeir eru vanir að fá meira.
Þetta þýðir að það er þeim mun snúnara að ræða einstaka úthlutanir af viti, þegar allir sem að málinu koma eru bundnir þagnarskyldu. En þetta er auðvitað verst fyrir listamennina sjálfa, sem fá mögulega höfnun ár eftir ár en aldrei nokkrar einustu upplýsingar um hvað megi betur fara.
Þetta þýðir líka að það veit ekki nokkur maður hvað borgar sig að leggja mesta áherslu á í þessum umsóknum, allt slíkt eru aðeins getgátur, byggðar á reynslu einstaka listamanna – sem vita samt aldrei nákvæmlega ástæðuna fyrir því að þeir fengu úthlutun eitt árið en ekki hitt.
Það eina sem má finna í reglugerðum um áherslurnar sem farið er eftir er eftirfarandi texti:
„Umsókn skal fylgja hnitmiðuð greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar og hve langan starfstíma er sótt um. Einnig skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil svo og verðlaun og viðurkenningar.“
Með öðrum orðum, það er bæði verið að meta gæði þinna fyrri starfa og svo hversu lofandi verkefnið sem þú sækir um er. En hvort skiptir meira máli – og hvoru ertu að klikka á – ef þú færð neitun? Það veit enginn – nema þeir sem eru bundnir þagnarskyldu.
Umsækjendurnir sjálfir hafa hins vegar ekki hugmynd um það, hvort veikleiki umsóknarinnar sé verkefnalýsingin eða ferilsskráin. Fólk getur sótt um ár eftir ár og fengið höfnun ár eftir ár, án þess að vita af hverju. Kannski er verkefnið eða lýsingin á því svona misheppnuð – og þá er um að gera að bæta úr því. En kannski er listamannaferillinn einfaldlega ekki nógu langur og merkilegur – og ef það er tilfellið þá er tímaeyðsla að eyða orku í umsóknir áður en menn eru búnir að gefa út fleiri bækur eða önnur skáldverk. Vandinn er hins vegar að það veit þetta enginn umsækjandi fyrir víst og því eru þeir allir í myrkrinu þegar kemur að næstu úthlutun – ættu þeir að sækja um sama verkefni eða eitthvað annað, eða ættu þeir bara að sleppa þessu? Þarna erum við að tala um ófáar vinnustundir rúmlega fimmtánhundruð manns við umsóknarvinnu, sem enginn þeirra veit í raun hvernig er best að haga.
v
Eitt er þó rétt að taka fram: það að sitja í þessum úthlutunarnefndum er erfitt og vanþakklátt starf. Þorgerður E. Sigurðardóttir, fyrrverandi nefndarmaður, staðfesti þetta nýlega á Facebook: „Þetta er geysilega erfið og vandasöm vinna og var a.m.k. þegar ég var í þessu líklegast verst launaða vinna sem ég hef sinnt um ævina, miðað við tímafjöldann (og þá tel ég með sorteringu á óhreina tauinu í Þvottahúsi Ríkisspítalanna).“
Fyrir utan þetta er tíminn knappur – það eru ekki nema þrír mánuðir sem nefndirnar hafa til þess að vinna úr öllum þessum umsóknum, sem þýðir hjá launasjóði rithöfunda ekki bara að fara yfir umsóknirnar sjálfar, það eitt og sér er kannski ekki svo seinlegt, en – ef vel ætti að vera – að lesa sig í gegnum öll fylgigögnin, hvort sem það eru fyrri verk höfunda eða drög af ritverkum eða upphafskaflar ritverka, sem einnig kunna að fylgja með. Þetta geta í einhverjum tilfellum verið hundruðir eða jafnvel þúsundir síðna á hvern umsækjanda.
Sem þýðir auðvitað að maður hefur áhyggjur af því að nefndirnar þurfi stundum að halla sér um of að þessu síðarnefnda: „Einnig skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil svo og verðlaun og viðurkenningar.“
Hvaða verðlaun og viðurkenningar eru það svo? Sum þessi verðlaun eru á vegum forlagana (t.d. Íslensku barnabókaverðlaunin) og önnur kostar að senda í (t.d. Íslensku bókmenntaverðlaunin), pening sem eru ekki stórar upphæðir fyrir stóru forlögin, en ansi drjúgur peningur fyrir þau minni.
Þetta þýðir að ritstjórar á stóru forlögunum ráða ekki bara hvaða bækur þau gefa út, eðlilega, heldur hafa óbeint ansi mikil áhrif á hvað kemur til greina til verðlauna og verðlaunin hafa svo áhrif á ritlaunanefndina.
Sem þýðir einfaldlega að það er hætta á að þessir hliðverðir endi á að enduróma að einhverju leyti hvern annan, þegar æskilegra væri fyrir fjölbreytni bókmenntaheimsins að mismunandi smekkur og áherslur fengju að blómstra.
Sömuleiðis er hreinlega einkennilegt að sjóðnum sé á engan hátt skipt upp nema á milli listgreina, að nýliðar keppi við þrautreynda listamenn. Bæði af því að þegar kemur að nýliðum væri eðlilegt að horfa fyrst og fremst í umsóknina, en þegar kemur að reyndum listamönnum þá hlýtur höfundaverkið að skipta meira máli. En líka af því að sá sem hefur fengið listamannalaun í áraraðir hefur augljóst forskot á nýliða, þeir hafa fengið tíma og næði til þess að vinna í sínum ferli sem nýliðarnir hafa ekki fengið.
Vel getur verið að ákveðnar línur séu lagðar innan hverrar nefndar eða jafnvel frá stjórn listamannalauna, nýlega virtist til dæmis augljóst að það var tekin meðvituð ákvörðun um að barnabækur fengju meira pláss, enda höfðu barnabókahöfundar verið rækilega sveltir árin á undan. En væri þá ekki eðlilegt að hafa þær áherslur opinberar?
vi
Það er samt alveg ástæða til að pæla aðeins í þessum gagnrýnisröddum – af hverju er þetta mikla óþol hjá ákveðnum hluta þjóðarinnar gagnvart listamannalaunum? Það eru örugglega ótal flóknar ástæður fyrir því – og sumu er mögulega ekkert hægt að gera í.
En það eru tvær mögulegar ástæður sem ég held að sé alveg ástæða til þess að staldra við. Annars vegar stéttapólitík og hins vegar byggðapólitík.
Það er birt tölfræði um hið síðarnefnda og birt á vef Rannís, tölfræðin var að vísu ekki tilbúin fyrir nýjustu úthlutunina þegar þetta er skrifað þannig að hér verður nýliðið ár til umræðu.
Árið 2018 fóru sex prósent listamannalauna út á land, fjögur prósent til útlanda og heil 90 prósent á höfuðborgarsvæðið – en þótt þar búi flestir er prósentutalan þó nær 65 prósentum landsmanna á kjörskrá. Þessa skekkju leiðrétta listamannalaunin vel að merkja ekki – þessar prósentur eru alveg í takt við sömu prósentur í hópi umsækjanda.
Því segja tölurnar manni fyrst og fremst þetta: það eru miklu færri atvinnulistamenn á landsbyggðinni en í Reykjavík. Samþjöppun skapandi fólks á sömu blettina er að einhverju leyti eðlileg, en hún er ekkert að öllu leyti holl og hún er að einhverju leyti afleiðing byggðastefnu undanfarinna áratuga. Fyrir þá sem alast upp á landsbyggðinni verður listin miklu fjarlægari heldur en fyrir þá sem alast upp í póstnúmeri 101 – þegar öll þessi verðmæti fara á sama stað er í sjálfu sér alveg skiljanlegt að þau fari í taugarnar á þeim sem búa annars staðar, þetta eru fjármunir sem þau upplifa að hvorki þau né vinir þeirra, ættingjar né nágrannar eigi neina hlutdeild í.
Og mögulega mætti segja eitthvað svipað um mismunandi stéttir. Það er erfitt að segja, um það er engin tölfræði. Launalega eru listamenn vel að merkja flestir í láglaunastétt, en spurningin er kannski frekar úr hvaða stétt þeir koma, eiga börn úr lágstétt sömu möguleika í listaheiminum og millistéttarkrakkar og yfirstéttarkrakkar?
Allt leiðir þetta að því sama, ef aðgangur að list og listsköpun er almennur og þokkalega jafn, þvert á stétt og búsetu, þá held ég að virðingin fyrir listum yrði töluvert meiri. Og það sem meira er um vert, listin yrði örugglega frjórri og fjölbreyttari.
vii
Hvað verður svo um þau okkar sem fá ekki listamannalaun? Það eru líklega svona tólfhundruð mismunandi svör við því – en samt, væri ekki miklu betri nýting á fjármunum að láta þetta lið skapa list heldur en að láta listamenn harka í alls konar vitleysu, vinna á auglýsingastofum eða þýða ryksugubæklinga. Ég held að það sé ekkert rosalega góð nýting á mannauði.
E.S.: Hér er svo eldri og enn róttækari hugmynd að stækkun listamannalauna, sem er enn í fullu gildi:
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson