Við erum stödd í óræðu múslimalandi. Hér geysar stríð sem við vitum lítið um, náttúrulögmálin virka ekki alveg eins og við erum vön og ögumaðurinn okkar er ungur strákur – og þegar á líður, ungur karlmaður.

Þessi lýsing á við flestar sögurnar í smásagnasafni Mazen Maarouf, Brandarar handa byssumönnum, en þó ekki allar – sú síðasta gerist á Spáni, og við verðum ekki alltaf vör við stríð – þótt það útiloki samt ekkert að það geysi í næstu götu. Þetta er heimur þar sem stríðið er einfaldlega hluti af hversdeginum, stundum bankar það uppá, stundum geysar það í næstu götu, stundum í næsta bæ og þá er óþarfi að hafa of miklar áhyggjur af því eða minnast á það.

Höfundurinn er fæddur í Líbanon, sonur palestínskra foreldra, og býr núna á Íslandi – sem skýrir mögulega af hverju staðsetning sagnana er jafn óræð og raun ber vitni. Þessi óræða upplifun litast líka af því að framan af er þetta upplifun barns, og eftir það upplifun fullorðinna einstaklinga sem taka lítinn beinan þátt í stríðinu.

Feðgar í stríði

Titilsagan er fyrst og mun lengri en hinar. Hún slær líka tóninn að mörgu leyti. Hún fjallar um fjölskyldu, en þó fyrst og fremst um stormasamt samband feðga. Byssumennirnir eru ógnvaldar hverfisins og strákurinn hefur áhyggjur af því að hvorki hann né pabbi hans séu nógu harðir, það er jú félagslega skiptimyntin sem skiptir máli í stríði, sem og á skólalóðinni. Þetta er ofbeldisfullur heimur en eitt helsta einkenni sagnanna er hversu órökrétt ofbeldið er og á hversu órökréttan hátt börn, sem alast upp við slíkt ofbeldi, hugsa um það.

Strax á fyrstu síðu er stríðið afgreitt sem hversdagslegt: „Annað veifið heyrðum við skothvelli en við vöndumst þeim, alveg eins og maður venst því að heyra bíla flauta úti á götu.“

En ofbeldið skilyrðir samt alla þeirra tilveru. Og aðalpersónan er næm fyrir myndhverfingum, þegar faðir hans gefur honum paprikuplöntu til að annast um þá fær hann fyrst áhuga á henni þegar hann fer að hugsa um hana sem fjölskylduna sína, þar sem hver fjölskyldumeðlimur á sér sína eigin papriku. Sem getur endað með skelfingu ef ein þeirra visnar eða deyr.

Þegar faðir aðalpersónunnar er svo barinn af byssumönnunum þá eru viðbrögðin ekki reiði og enginn hugsar um að kæra. Nei, eftir þær barsmíðar snýst allt um að finna leiðir, oft passlega órökréttar, til þess að láta föðurinn líta út fyrir að vera harðari en hann er. En líka finna leiðir til þess að láta sögumanninn sjálfan virka harðari, enda virðist hann lifa í smækkuðu ofbeldissamfélagi á skólalóðinni.

Loks þróast samband föðursins og byssumannana á þann hátt að byssumennirnir krefja hann um brandara í hvert skipti sem þeir hitta hann. Sem verður til þess að þeir feðgar sitja flest kvöld að semja brandara, semja vikuskammt af bröndurum, til þess að koma í veg fyrir að faðirinn verði barinn. Brandara sem pabbinn virðist sáttur við en aðalpersónan lýsir svo:

„Ég verð að viðurkenna að brandararnir voru ekki góðir. Að minnsta kosti komu þeir mér ekki til að hlæja. Enda þótt ég aðstoðaði við að búa þá til fattaði ég fæsta þeirra.“

Og það verður freistandi að ímynda sér að brandararnir séu hinar sögunarnar þrettán. Sögur sem eru ekki beint fyndnar en þó oft kómískar upp að vissu marki, og fjalla einmitt oft um tvo feðga. Kannski verða brandarar svona í stríði? Öfugsnúnir og blóðugir, eitthvað sem við sem þekkjum bara friðinn myndum einfaldlega kalla smásögur?

Ein af sögunum sem fylgja, sem kallast einfaldlega „Brandarinn,“ kallast á við þetta:

„Ég svipast um. Það er ekkert sem ég get notað í brandarann minn nema foreldrar mínir. Þau eru ekki foreldrar mínir í alvöru. Þau eru fósturforeldrar mínir, og sonur þeirra er farinn að betla á götunum. Hann er kannski ekki sonur þeirra í alvöru – hann gæti líka verið ættleiddur.“

14 brandarar, 1001 nótt

Þegar á líður fjarlægast sögurnar svo raunveruleikann hægt og bítandi. Barnalegur misskilningur og ranghugmyndir fullorðinna raungerast oftar og oftar í sögunum, sem snúast jafnt um ómögulega drauma og ómögulegan raunveruleika. Við kynnumst nautabana sem aðeins getur barist við kýr í sláturhúsi, handalausan föður sem áður hafði af atvinnu að spila á hundrað ára gamlan handnkúinn grammafón, gamlan mann sem er eins og úr ofurhetjusögum og breytir bílum í kexkökur, mann sem getur ekki brosað og verður í kjölfarið ófélagslyndur kroppinbakur, maður sem lifir, bókstaflega, í draumum annarra og par sem verður heltekið af blóðköggli sem kannski er andvana fóstur, en þó líklega ekki. Fólkið í þessum sögum skilgreinir sig iðullega út frá sínum stærstu veikleikum eða sínum stærsta missi, höndunum sem það hefur ekki, barninu sem það á ekki, nautunum sem það getur ekki barist við, brosunum sem ekki er hægt að brosa.

Það er einhver óræður harmur sem litar alla brandarana. Stundum tekur harmurinn völdin, stundum tekur ímyndunaraflið völdin. Þegar á líður verða sögurnar stundum örlítið endurtekningasamar og hið yfirnáttúrulega missir stundum jarðsambandið. En höfundurinn er fljótur að ná tengja það aftur – og það er einhver einkennileg taug frá því ólíkindalegasta og að ástandi aðalpersónanna, eins og hvernig sagan um gamla manninn sem breytir bílum í kexkökur virðist í raun aðeins sögð til að friða aldraða móður og dreifa huga hennar, fá hana til að gleyma einhverju miklu verra.

Þetta er nefnilega heimur þar sem skáldaðar sögur eru okkar eina lífsbjörg og veruleikinn er teygður og togaður til að lifa af. Máski er þetta stutta útgáfan af Þúsund-og-einni nótt fyrir okkar tíma, þar sem brandarar eru lífsbjörgin, eina leiðin til að lifa af þetta stríð.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Greinin birtist upphaflega í Reykjavíkurblaðinu, en pappírsútgáfu þess má nálgast hér.