Tvöfalt gler. Tvöfaldur heimur. Gler sem aðkilur en sameinar um leið, því það er jú hægt að sjá á milli. Og líka nafnið á nóvellu eftir Halldóru Thoroddsen.

Nýlegt fráfall skáldkonunnar litar lesturinn, enda bókin um ellina og dauðann. En líka kynslóðirnar og tíðarandann, bæði löngu liðinn og nýliðinn tíðaranda. Tíðarandann sem hin 78 ára gamla aðalpersóna var ung í og tíðaranda hrunsins, sem hún á sínar hinstu stundir í. Já, og þetta er líka bók um ástina. Sem er alltaf jafn ljúf og sár.

Í upphafi bókar birtist okkur kona sem er óviljandi óvirk. Hún hefur enn nóg fram að færa, en þjóðfélagið reiknar ekki lengur með framlagi hennar. Þegar líður á lesturinn þá áttar maður sig á að það er kannski ekki alveg nýtt vandamál, hún upplifði tíma þegar rödd kvenna var lítils metin – og núna þegar þær raddir fá þó aðeins meira rými er hún orðin of gömul til að á hana sé hlustað.

Það má jafnvel segja að ein lykilskilaboð bókarinnar sé að það þurfi nauðsynlega að rjúfa múra á milli kynslóða, til þess að minnka einangrun þeirra sem eru á sitt hvorum jaðrinum. Hún rifjar upp hvernig hún tengdist barnabörnum sínum í gegnum sögur, hún var þeirra sönggyðja, en jafnvel þegar þau missa áhugann á sögunum hennar er taugin enn til staðar og birtist í eigin sögum.

„Unglingarnir í fjölskyldunni leita stundum til hennar með sumt sem ekki er hægt að ræða við foreldrana. Miðbiksfólkið hefur fest og geirneglt veganesti sitt. Allt sem kemur upp á er skoðað í þeirri ljóstýru. Þó lagði það upp í björtu hægu skynjunarskeiði. Gekk í gegnum næm unglingsár, með alla móttakara galopna til að soga í sig nýja og breytta menningu sem þurfti að tjá.“

Bókin er um leið mjög gagnrýnin á miðaldra fólk allra alda – og þá meina ég miðaldra í mjög víðum skilningi, þennan 20-67 ára hóp sem heldur vinnumarkaðnum og hagkerfinu að mestu gangandi.

„Þau sjá ekki eigin skugga, eigin handverk, til þess þarf nýja unglinga. Föst í tímanum sínum. Ellin er ekki jafn hagsmunatjóðruð. Unglingar og gamalmenni gætu talað saman en nútíminn býður ekki upp á mikinn samgang á milli kynslóða.“

Seinna sér hún ungmenni á kaffihúsi – en stillir sig um umvandanir. „Hún stillir sig um að vara þau við nokkrum vel þekktum pyttum, það hefur ekkert upp á sig. Þau verða að hrasa ofan í þá, rispa eigið skinn.“

Ellin með öll öll sín gráu hár – og ónýtu hné og splunkunýja ást

Hún er ekkja. Guðjón maðurinn hennar virðist hafa verið ágætur. Fyndinn og „laug minna en gengur og gerist.“ Við sjáum svipmyndir af öðrum karlmönnum úr lífi hennar, Guðjón virðist hafa verið afgerandi skástur. Sjálf er hún ern um flest, en þó ekki allt. Hæfileiki Halldóru til að segja margt í örfáum orðum krystallast eiginlega best í endalokum bílstjóraferils hennar.

„Sjálf er hún hætt að keyra. Hún hætti því eftir að henni var bjargað út úr vegslaufunni. Þar hafði hún lent í einhverri lúppu sem hún botnaði ekkert í.“

Þetta er drepfyndin sena – en líka skelfilega tragísk; upplifun gamalmennis um að nú sé ellin að ná tökum á því, orðin hjálparlaus í hversdagslegum aðstæðum sem voru eitt sinn auðveldar.

En þótt hún kvarti yfir að hún hafi verið dæmd úr leik þá er hún þó miklu virkari en hún gefur í skyn í byrjun. Fer stöku sinnum á barinn, oft á kaffihús, ræktar bæði frændskap og vinabönd af alúð. Og er enn opin fyrir heiminum. Ástinni jafnvel.

„Einn hringdi eftir að Guðjón dó. Þeir lesa víst minningargreinar, ekklarnir,“ rifjar hún upp og svo birtist manni skemmtileg hliðarveröld þar sem minningargreinarnar eru hálfgert Tinder gamla fólksins. En fljótlega bankar ástin upp á. Svona stíga ellilífeyrisþegar bókarinnar í vænginn, spurðir að aldri:

„Sjötíu og fimm ára. Ég skal gefa þér stöðuna: heyrn nokkuð góð, nema í fjölmenni. Augun þjóna mér svona ásættanlega. Vond hné, geng við staf eins og þú sérð.“

Þetta er hann Sverrir og á milli þeirra reynist sterkari taug en hana grunaði. Hún er samt treg við að leyfa sér rómans, finnst hennar tími liðinn, er jafnvel örlítil heilaþvegin af samfélagi sem finnst ástin eiga að vera fyrir unga fólkið. En það er kannski helst þegar unga fólkið gerist skeptískt á þennan vinskap þegar hann er nýhafin sem kemur upp nægilegum eðlislægum mótþróa í henni til að taka stökkið. Þetta er ekki kona sem lætur segja sér fyrir verkum.

Í kjölfarið hefst afskaplega falleg ástarsaga, með sínum sveiflum eins og gengur. Hún veit að þetta verður samt aldrei í takt við ástarsöguformúlu heimsbókmenntanna, því „sjálft ímyndunaraflið verður feimið við tilhugsunina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna.“

En hverjum aldri fylgja sín umræðuefni, „Þau flissa stundum að hrörnun sinni“ segir á einum stað, hrörnunni sem færir þau saman. En dauðinn er vissulega nær en í flestum ástarsamböndum – og það flækir málin þegar að gamlar eiginkonur og börn blandast í málin.

Skáld í laumi

Það eru stuttar skáletraðar línur á víð og dreif um bókina. Ein þeirra er svohljóðandi:

„Bíðum við, er verið að skrifa niður hugsanir hennar og gjörðir?“

Þetta er torræð setning – eru þær Halldóra að kveðast á, njósna um hvora aðra – er Halldóra nágrannakona hennar? Eða einhver ímyndaður höfundur, hinn alvitri sögumaður? Það er vel þess virði að fletta bókinni hratt eftir á og lesa þessar skáletruðu línur einar og sér, þær eru eins og ljóð sem er ort í mun sterkara samhengi við titilinn en sagan sjálf; flestar myndirnar sem þar leynast gætu ýmist verið svipmyndir séðar úr glugga eða hugleiðingar við glugga – og það læðist að manni sá grunur að þessu ljóði hafi verið laumað í bókina, en sé hið raunverulega upphaf sögunnar – nóvellan sé afkvæmi þessa tvístraða ljóðs.

Aðalpersónan lærði heimspeki og stærðfræði og vann við kennslu og sitt hvað fleira, það er aldrei minnst á að hún sé skáld – en hún hugsar þó og talar oft á þeim nótum. Við dauða góðs vinar, vinar sem alltaf var hægt að tala við, líður henni „líkt og rithöfundur sem missir alla lesendur sína á einu bretti.“

Seinna lýsir hún einmanaleikanum sem fylgi henni á yngri árum svona: „Einmanaleikinn veitti henni dýrmæta sérstöðu. Sjón.“ Sjón sem veitir henni þá greiningarhæfileika sem birtast í bókinni, þessa sýn á lífið, sem sannarlega er skáldleg.

Sem rímar jú skemmtielga við Halldóru, sem hóf sinn rithöfundarferil seint, en hver veit, kannski einmitt þegar hún var tilbúin? Bernskubrek höfunda þurfa ekki alltaf að vera útgefin verk, þau geta allt eins verið lifað líf, sem og afrek og afglöp á öðrum vígstöðvum.

Hún er líka ung í anda og fljót að endurmeta ungt fólk. Hún sækir kaffihús og finnst krakkarnir pínu væmnir og veikgeðja í fyrstu, en sér svo að sér: „Bak við mýktina leynist hugsjónaeldur, alvara og talsverð harka,“ segir hún þegar hún er búin að komast að því að þetta eru aktívistar, baráttufólk fyrir betri heimi. Í raun sömu týpur og hún, þessi kona minnir mig dálítið á kventýpuna í Kona fer í stríð, einlæg baráttukona sem var gerð dálítið púkó þegar ég var að alast upp á níunda áratugnum, en maður sér núna betur að voru auðvitað algjörir naglar.

Halldóra minnir um sumt á Pétur Gunnarsson, í því að vera ansi upptekin af því að greina kynslóðir, sérstaklega sína eigin, eftirá. Pétur gerði þetta nýlega í Veraldarsaga mín og Halldóra átti eftir að leita enn meir á þessar slóðir í Katrínar sögu (sem ég skrifaði um hér).

Eftirfarandi kafli kjarnar ágætlega þessa kynslóðapælingu:

„Það hlýjar henni að rekast á ókalkaðan jafnaldra í jarðarförum. Ósýnileg bönd binda saman fólk sem hefur verið samtíma á jörðinni. Hversu ólíkt sem það er. Hún hefði kannski gengið áhugalaus framhjá þeim fyrir nokkrum árum. Núna finnur hún til samkenndar með alls konar leiðindaskjóðum, þau eru bundin sama tímadraug. Sameiginlegri blindu, sem átti þátt í sameiginlegri sýn þeirra.“

Og hún klikkir svo út með því að segja að nú sé þetta einmitt orðið efni í skáldskap: „Nú er tíminn þeirra liðin en starfar áfram í sköpun sinni.“

En um leið er hún beintengd við yngri kynslóðir, við nýja uppreisn, við hrunið sem gerist seint í bókinni. „Nú vill hún vera með. Hún haltrar vígreif niður á Austurvöll, með pottlok og sleif.“

Þessi lýsing átti ágætlega við Halldóru sjálfa líka, sem stóð líka sína pligt á Austurvelli og sömuleiðis í öðrum mótmælum löngu seinna, eins og Haukur Már Helgason rifjaði upp í kveðjuorðum á Facebook: „Það er mikil gjöf þegar forkólfur á borð við Halldóru lætur vita, með einfaldri en staðfastri nærveru, að hin káta samstaða nær milli kynslóða.“

Það þarf varla að láta fylgja Höskuldarviðvörun um það að þessari bók líkur á endalokunum sjálfum, hún er þannig í laginu, við finnum fyrir návist mannsins með ljáinn frá upphafi þótt okkur takist að gleyma honum um stund þegar ástin léttir lundina.

Henni virðast sköpuð þau örlög að deyja síðust, vinahópurinn minnkar ört en hún tórir enn, er orðin týnd og gleymin og allt verður erfiðara, þegar það verður erfitt að fara fram úr þá er það vegna þess að „Þetta er elli kerling sem riðlast ofan á henni í morgunsárið.“

Loks erum við komin aftur á bak við gluggann. Hún horfir á barn að leik, allt rennur saman – og þessi undurfögru lokaorð sóma sér sömuleiðis vel sem lokaorð um Halldóru sjálfa:

„Reynslan dynur ekki lengi á henni, hún er reynslan. Rennur saman við heiminn fyrir utan. Verður klaufaleg hreyfing barnsins, sandurinn og skóflan. Verður að öllu öðru í senn. Hún er. Hún er öll.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson