Tíðindamaður Menningarsmygls brá sér í í Lystigarðinn í gærkvöld og heyrði þar skyndilega ljóð í fjarska, gekk á ljóðið og var svo heppinn að finna þar Laugardagsljóðið. Austfjarðaskáldið Stefán Bogi Sveinsson las þar upp úr ljóðabókinni ópus, við tónlist þeirra Jónasar Sigurðssonar og Ómars Guðjónssonar, en hljóðdiskur fylgir einnig bókinni.

Bókin inniheldur 17 númeruð ljóð, sum líka með titlum, við heyrum hér ljóðið „xvi [fjarðarborg/leiðin heim].“

Meðal hinna ljóðanna sextán má finna skemmtilegan leik með stöðu ljóðsins í markaðssamfélagi í fyrsta og síðasta ljóðinu, kerknislegar minningar úr Garðabæjarferð, blús fyrir skáldabróður, ljóð fyrir dætur ljóðmælenda sem koma skemmtilega á óvart og hjartaskerandi kvæði um það að liggja fyrir dauðanum. Bókin sveiflast ört á milli gáska og trega, en nær einhverju hárfínu jafnvægi, sem minnir mann á að þetta er sitthvor hliðin á sama peningnum, lífsþorstanum sem fær bestu skáldin til að yrkja.

Ef þið eruð svo heppin að vera á Akureyri í dag þá getiði kíkt á alls konar sniðugt á Akureyrarvöku, sem upplesturinn var hluti af. Hér má finna dagskrána, en ef þið komist ekki núna þá kíkiði auðvitað bara í Lystigarðinn við fyrsta tækifæri með ljóðabók eða ljóð í eyrunum.

Texti og myndband: Ásgeir H Ingólfsson