Bahman Ghobad og ritskoðunin, listin og ástin

Til hvers að erum við menningarblaðamennirnir? Til hvers að taka viðtöl, skrifa dóma, segja frá því hvað fólk er að skapa, reyna að setja það í samhengi? Torrætt svarið má finna í titli bíómyndar sem ég sá á Cannes fyrir tæpu ári, Enginn veit um Persakettina eftir Bahman Ghobadi. Það er alls óvíst að þessi magnaða mynd komi nokkurn tímann í íslensk kvikmyndahús, en það breytir engu um það að þetta er saga sem mér ber að segja.

Bahman Ghobadi kynntist ég fyrst á kvikmyndahátíð í Reykjavík þar sem ég sá þrjár myndir þessa kúrdnerska leikstjóra á rúmum sólahring. Tími fyrir drukkna hesta og Hálfmáni eru báðar mögnuð kvikmyndaverk en það var Skjaldbökur geta flogið sem festi nafn Ghobadi endanlega í flýtiminninu yfir bestu kvikmyndaleikstjóra veraldar. Þú munt aldrei sjá hjartahreinni börn en aðalpersónur þeirrar myndar og manngæska þeirra og samheldni bræða jafnvel kaldlyndustu hjörtu.

Á Cannes deildi Ghobadi svo með mér leyndarmáli, leyndarmálinu um persnesku kettina. Persneskir kettir eru hinar mestu friðsemdarskepnur en mega þrátt fyrir það ekki vera á almannafæri. „Það sama gildir um tónlistarmenn í Íran, þeir eru friðsamir og meinlausir, þá dreymir aðeins um að spila tónlist,“ segir Ashkan, einn tónlistarmannana. Um þessa tónlistarmenn fjallar Ghobadi í Enginn veit um Persakettina, heillandi ferðalagi um heim popptónlistar í Teheran, en ekki síður mögnuðu ferðalagi um borgina sjálfa, sem nær hápunkti sínum þegar við heyrum kjarnyrt íranskt rapp á þaki yfirgefins háhýsis á meðan myndavélin fer í ferðalag um göturnar fyrir neðan. Myndin er skotin eins og heimildamynd og þótt hún sé leikin eru allar sögurnar sannar.

En ef myndin sjálf var ekki nóg til þess að minna mann á að listin getur snúist um líf eða dauða þá var fundur minn við Ghobadi nóg til þess að sannfæra mig. Ég hef tekið ófá viðtöl við leikstjóra um það leyti sem þeir eru að frumsýna nýja bíómynd. Venjulega er gleðin og léttirinn yfir að koma barninu loksins í heiminn blönduð áhyggjum af því hvernig myndinni reiðir af í þessum grimma bíóheimi sem gleymir flestum sínum börnum. Sumir eru úrvinda eftir marga vikna klippivinnu með tilheyrandi svefnleysi og stressi. En Bahman Ghobadi var öðruvísi en þeir allir. Hann minnti helst á hermann sem er nýkominn úr löngu og ströngu stríði, þreyttur á líkama og þó sérstaklega sál eftir sigur sem þó megnaði ekki að færa neina gleði, of uppgefinn til að fagna sigri. Og ekki að ástæðulausu.

Ég byrjaði á að spyrja hann um kettina persnesku, neðanjarðartónlistarmennina bókstaflegu. „Þeir geta ekki sýnt verkin sín, þú getur ekki séð þetta fólk í írönskum bíómyndum, í 30 ár hefur ekki mátt gera myndir um tónlist. Ég vissi ekki mikið um þau og þegar ég gerði þessa mynd þá komu þau mér á óvart á hverjum degi, gerðu mig agndofa. Þau sýndu mér aðra veröld, veröld í kjöllurum borgarinnar. Allt tökuliðið varð agndofa, við vissum þetta ekki, því þau eru svo hrædd. Það eru svo  margir listamenn sem eru bara heima, skapa og fela listina, bíða eftir rétta tímanum. Bíða eftir nýrri ríkisstjórn eða nýjum forseta. Margir verða alvarlega þunglyndir, sumir drepa sig jafnvel. Hvernig get ég geymt þessa mynd ef ég væri hræddur við …“ segir hann og við erum farnir að nálgast hans eigin harm.

„Ég vil ekki fara til baka. Ég þarf tíma fyrir sjálfan mig, ég missti líf mitt, ég missti ástina. Ég missti allt, ég missti tilfinningarnar, þeir drápu hluta af mér.“ Það er ýmislegt gert í Íran til þess að hindra hann til þess að gera bíómyndirnar sínar, hann barðist í þrjú ár til þess að fá leyfi fyrir næstu mynd og gerði í staðinn þessa ólöglegu mynd. En harmurinn liggur dýpra. Í janúar 2009, þegar eftirvinnsla myndarinnar stóð sem hæst, handtók íranska lögreglan kærustu Ghobadi, blaðakonuna Roxönu Saberi, og hann gat ekki verið með henni þegar henni var loks sleppt úr haldi, fjórum mánuðum síðar, því þá þurfti hann að vera hér í Cannes. Hann vildi ekki fara, hún sagði að hann yrði að fara, fyrir alla tónlistarmennina í myndinni. „Þessir fjórir mánuðir voru eins og fjögur ár,” segir Ghobadi sem skrifaði opið bréf til yfirvalda og baðst lausnar fyrir unnustuna, sem fór í tveggja vikna hungurverkfall í fangelsinu. „Ég hef engu að tapa lengur. Ég veit ekki lengur hvort ég vill vera kvikmyndagerðarmaður, söngvari, skáld eða venjulegur maður. En ég þarf að búa mér til nýtt líf. Ég hef áhyggjur, tíminn er naumur. Tíminn, með þennan líkama, þessa tilfinningu, hvernig get ég farið þangað aftur? Kannski  skilur þú mig ekki, en ef þú værir eins og ég, byggir í Íran, í átján ár að berjast við ritskoðunina, allir að reyna að stjórna þér, öll þessi bönn og bannsvæði … ég er veikur núna, ég er ekki venjulegur, ég reyni, en þú getur séð myndirnar mínar … þar er reiði, ég er ekki reiður en það kemur í myndunum mínum, skot fyrir skot.“

En myndin, er hún ekki ástarbréf til Teheran? „Ég elska Teheran, ég vil búa þar. Í átján ár hef ég búið í Teheran, en allan tíman var eins og ég væri dáinn. Nú er ég að eldast, ég þarf að finna líf mitt, ég vil ekki verða gamall þegar ég stofna fjölskyldu, en ég trúi ekki að ég fari ekki aftur til Teheran. Ein nótt í Teheran er eins og sextíu nætur í Evrópu, ég vil ekki að hún breytist, þarna er yndislegt fólk og þetta er yndisleg borg,“ segir hann uppfullur af mótsagnakenndum tilfinningum útlagans.

„Þú getur fundið 3000-4000 listamenn neðanjarðar í Teheran, bara í tónlist. Þú getur ekki séð þá … hvernig getum við hjálpað þeim? Hvernig getum við talað við ríkisstjórnina, hvernig getum við gefið þeim þótt ekki sé nema tækifæri, bara að leyfa þeim að spila tónlistina, halda litla tónleika. Listamenn þurfa að sýna, fá að heyrast, það er lífsnauðsynlegt.“ Einn þessara tónlistarmanna er rapparinn og tónskáldið sem pródúseraði rapplagið sem áður var lýst sem hápunkti myndarinnar, Mahdyar Aghajani. „Ég reddaði vegabréfsáritun fyrir hann, hann er líka ótrúlegur. Hann er bara átján ára gamall og kemur með mér til Berlínar þar sem hann ætlar að pródúsera plötuna sem ég ætla að fara að gera. Í Teheran átti hann ekki pening til þess að borða eða fyrir metró, hann labbaði þrjá-fjóra kílómetra til þess að hitta mig á hverjum degi.“

Mahdyar er ekki einn um að hafa farið. „40 prósent tónlistarmannanna í myndinni hafa yfirgefið Íran og aðrir eru margir á leiðinni þaðan. En þau gáfu mér sögurnar, þær eru sannar, við töluðum alltaf saman í 2-3 tíma fyrir tökur. Ég skrifaði söguna, fólkið og aðstæðurnar eru sannar. Lögreglan segir ekkert, dagblöðin segja ekkert, sum dagblöð og sumir blaðamenn vilja segja eitthvað en þora því ekki.“ Og því verða persnesku kettirnir áfram óþekktir. „En erlendir listamenn geta hjálpað þeim, unnið með þeim, gefið þeim rödd – þá getur ríkisstjórnin ekki haldið aftur af þeim.“

Frú Norður-Dakóta 1997 fangelsuð

Flestar fegurðardrottningar tala um að bæta heiminn. Frú Norður-Dakóta árið 1997 var þar engin undantekning. En fáar hafa þær staðið betur við heitið en hún. Roxana Saberi á íranskan föður og japanska móður og er fædd í Bandaríkjunum. Hún fór seinna í háskólanám í Íran þar sem hún starfaði sem blaðamaður og vinnur að bók um Íran og allt fólkið sem hún hitti þar, auk þess sem hún var skrifaði handritið af Enginn veit um Persakettina ásamt Bahman Ghobadi, unnusta hennar. En hún var fangelsuð í janúar árið 2009, sökuð um njósnir, og var ekki sleppt fyrr en í maí sama ár eftir tveggja vikna hungurverkfall. Þá höfðu bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Hillary Clinton beðist lausnar fyrir hana og þá sendi Ghobadi opið bréf þar sem hann biður írönsku stjórnina að sleppa henni.

„Ef ég hef verið þögull hingað til, þá var það hennar vegna. Ef ég tala nú, þá er það hennar vegna. Hún er vinkona mín, unnusta og förunautur.“ Þannig byrjar bréfið og Ghobadi lýsir því seinna í bréfinu hvernig hann kenni sjálfum sér um, hún hafi viljað yfirgefa Íran en hann hafi viljað vera áfram og klára myndina. Hann lýsir þunglyndi listamanns sem er bannaður í eigin heimalandi, þunglyndi sem hún hjálpaði honum að lifa af. Það viti allir sem vilji vita að hún sé enginn njósnari og lýkur bréfinu á þessum orðum: „Íranska stúlkan mín með japönsku augun og bandarísku skilríkin er í fangelsi. Skömmin er mín! Skömmin er okkar!“

 Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Forsíðumynd: By Neva Micheva – Own work, CC BY 2.5, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=1527026

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Birtist upphaflega í Krítík þann 4. júní 2010.

Tengt efni:

Kjarnyrt persnekst rapp – um eitt af lögum myndarinnar

Með ástarkveðjur frá Íran – viðtal við aðalleikara myndarinnar