Eins og nafnið bendir til, þá fjallar Kærastinn er rjóður um kærasta. En hvaða kærasta? Þeir virðast vera nokkrir miðað við að fyrstu sex ljóð bókarinnar heita einfaldlega „Kærasti nr. 1“ og alveg upp í „Kærasti nr. 6.“ Seinna í bókinni er langur bálkur sem heitir „7 stefnumót með sjö útgáfum af honum“ og maður fær meira og meira á tilfinninguna að þetta sé bæði bók um marga mismunandi kærasta en í senn um þennan eina, frumkærastann – kannski bókstaflega bara einhvern einn kærasta, en líklega frekar um þá týpu sem ljóðmælandi sækir í, með ýmsum varíasjónum.

Tímabil blandast líka, manni finnst þetta vera passlega fullorðins en svo eru tyggjó komin í spilið og kærastar sem eru kallaðir Bart Simpson, æskuskotin farin að blandast við fullorðinskærastana, Red Bull og róló og menn sem eiga börn. Og stundum er erfitt að sjá á milli, eins og í lífinu sjálfu.

Af þessum sex kærustum sem birtast okkur í byrjun varð ég fyrst forvitinn um þann þriðja, sem „kastar sér í veggi undirganga til að sanna ást sína.“ Það er eitthvað brjálæði í honum, eitthvað óuppgert, einhver útrás sem hann veit ekki hvað á að gera við og kastar sér á dauða hluti. Sem er þó góðs viti, að hann taki það út á þeim en ekki öðrum lifandi verum.

Sá fjórði virðist koma úr rasískri fjölskyldu og æsir upp í henni meðvirknina:

hann gefur mér rauðan kjól af fyrrverandi

og áframsendir á hana emailsamskipti okkar

við ákveðum að byrja að búa saman

Sambandið við þann fimmta er hins vegar fallega einlægt, er sá rétti loksins fundinn?

tel sogblettina

fimm sogblettir

mér hefur aldrei liðið svona áður

segi ég og bæti við sjötta.

Loks eru afleiðingar ástarinnar komnir í spilið með þeim sjötta:

hvorugt þeirra bjóst við að finna aftur ástina

sem er barnsgrátur

óþolandi skerandi

org

í nóttinni.

Það er að vísu óvíst hvort barnsgráturinn tilheyrir þeirra barni eða barni foreldra þeirra, sem rugla saman reitum, ágætt dæmi um hvernig ástin þvælist á milli persóna í bókinni.

Næsti bálkur, „Kæri bréfritari 1,“ birtir okkur svo ljóðmælanda sem virðist eiga ansi erfitt með nánd – eða hittir of mikið af fólki sem gengur yfir mörk og reynir um of á nándina, það er vitaskuld erfitt að meta þegar maður hefur bara annan helminginn.

og ég veit að bráðum

ferðu að segja mér hluti

sem enginn

vill vita um annað fólk

Töluvert seinna í bókinni gengur svo þessi nándarfælni aftur.

vegna þess að enginn á að segja svona sorglegt við aðra manneskju

Í þessum kafla sér maður líka að ljóðmælandi er farin að reikna kærastana út, veit að það eru stig sem þau munu fara í gegnum. Ljóðmælandi er líka dálítill besservisser gagnvart bréfritara – og reiknar með að öllum dreymi eins:

og ég veit

að það dreymir engan þannig

Hún segir svo að þetta sé ekki honum að kenna, segir frá sálfræðingi sem segir hana verja sig með húmor og velja sér fólk sem stingur hana í bakið.

það var óheppni að þú valdir mig

Fullyrðir hún og bætir við að hann eigi engan sálgreinanda (mögulega vísun í mun á efnahag?) sem segi honum að allir leiti ásta „á kunnuglegum slóðum.“ Á tímabili virðist hún þó ætla að treysta honum yfir ýmsu fleiru:

á stefnumóti nr. 7 sagðist ég hafa brotnað svo oft

að ég væri eiginlega bara salli

En hann grípur fram í fyrir henni, við fáum ekki að heyra alla söguna. Það minnir dálítið á bókina alla. Við komumst aldrei að neinum kjarna, né náum við virkilega að breikka þessar kærastahugmynd með þessum misjafnlega ósamstæðu brotum. Til þess er bókin of stefnulaus, of föst í normkor hefðinni, sem er þó allt annað en Kristín hefur ort hingað til, hér vantar gredduna og reiðina og mælskuna. Maður glottir kannski stundum, en hún er ekki nógu fyndin til að vera fyndna ljóðabókin sem hún vill stundum verða.

Þetta er pínulítið eins og neðanmálsgrein við andlausan samtíma, neðanmálsgrein við sjálfshjálparbækur sem er á köflum álíka andlaus sjálf.

En svo birtist skyndilega andagiftin, í ljóðabálknum „Kæri fyrrverandi“ fer bókin að öðlast galdrana sem maður var að bíða eftir. Þá breytist þetta í samviskubitið sem þessar sjálfshjálparbækur skapa, hún er farin að fá móral yfir að bjóða nokkrum heim „í draslið mitt“ og er erfitt að greina hvort um er að ræða bókstaflega drasl á heimili eða hennar eigin sjálfsmynd, líklega sitt lítið af hvoru.

Hún sýnir líka hvernig þau eru skuggar hvors annars, fortíðin sem þau ná ekki að hrista af sér. Einhvers staðar í miðjum þessum tólf síðna bálki er uppgjör við það að hafa kastað brynjunni – og ákveðinn ótti, ótti yfir því að nú sé einhver fyrrverandi maður úti í bæ sem veit hvar er gat á brynjunni þinni. Svo feidar ljóðið, með smell í góm, eins og draugaverkur í gömlu sambandi.

En svo fjarar galdurinn út aftur. Þessar tólf síður rétt eftir miðju bókar eru hápunkturinn í verki sem byggir á fjandi góðri hugmynd en vantar úrvinnslu og enn fremur er of upptekin af ódýrri kaldhæðni, ekki beittri, meira svona normkor helvíti sem ég persónulega get ekki mikið meira af í íslenskum ljóðabókum, það þarf að rústa þessari IKEA innréttingu fyrir næsta ljóð, af því hún á ekki skilið fleiri ljóð.

Og ég hef séð áður að Kristín getur miklu, miklu betur, hér vantar kraftinn og einlægnina sem oftast einkenna hana. Að mestu, hann er þarna stundum. Maður vill bara meira. Vandinn er kannski helst sá að þetta er bók um nándarfælni og nándarfælnin yfirbugar svo bókina sjálfa, sem nær sjaldan þeirri nánd sem þarf.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson