Ég gæti sagt ykkur af hverju ég dró það svona lengi að skrifa þessa grein. Ég gæti sagt ykkur frá öllum greinunum sem ég er alltaf á leiðinni að skrifa, öllum óskrifuðu bókunum jafnvel eða öllum námskeiðunum sem ég er alltaf á leiðinni á og öllum hlutunum sem ég er alltaf alveg að fara að hrinda í framkvæmd. En í staðinn ætla ég bara að benda ykkur á að skoða heimasíðuna hans Lev. Lev Yilmaz er nefnilega hirðskáld frestunaráráttunnar, óákveðninnar, valkvíðans og framtaksleysisins.

Heimasíða Lev heitir Tales of Mere Existence, sögur af tilverunni í sinni smækkuðustu mynd. Þar má finna teiknisögur og teiknimyndir (og enn fleiri á youtube-síðu sem tengill er á), en það sem einkennir teiknimyndir Yilmaz er að við fylgjum iðulega eftir hreyfingum blýantsins á meðan myndin verður til fyrir augunum á okkur, höfundurinn hugsar og talar á hraða blýantsins og þannig stökkvum við beint inn í sköpunarferlið.

Umfjöllunarefnin eru margs konar en vissulega flest hversdagsleg, steinaldarmaðurinn sem tekur stúlku á löpp á barnum er til dæmis afskaplega kunnuglegur, en einnig má sjá par hvers samband kristallast í rifrildi sem þau eiga á vídeóleigunni og sögu af því hvernig sögumaður saug agúrku í nokkrar mínútur þegar hann var fimmtán ára og komst að því að honum fannst það ekkert spes – sem veitti honum þar með fullvissu um kynhneigð sína. Og hann minnist gamallar kærustu með orðunum „Ég ætla ekki að segja ykkur frá því þegar hún datt í það og grét yfir senunni þegar Chewbacca setur C-3PO aftur saman í The Empire Strikes Back,“ það eina sem mann vantar er símanúmerið hjá þessari tilfinningaríku konu!

En bestu sögurnar eru þó alltaf þær sem eru hversdagslegastar, sögurnar um kjánaskapinn sem við þekkjum öll en tölum þó aldrei um. Vefslóðin er ingredientx.com – þetta x stendur þó ekki fyrir það sem fullkomnar uppskriftina heldur einmitt þetta ósegjanlega sem hindrar okkur öll að einhverju leyti, þetta er um vegatálmana í hausnum á okkur. Ég veit ekki hvort þetta hjálpar okkur við að ryðja þeim úr vegi – en það er að minnsta kosti örugglega hollt að fá tækifæri til að hlæja svona hjartanlega að sinni eigin ófullkomnun.

Og núna eru liðin akkúrat tólf ár síðan ég skrifaði þetta hér fyrir ofan, það var 2. desember 2007, einhver kosmísk tilviljun að ég fari að rifja upp Lev akkúrat núna.

Hann er að sumu leyti enn við sama heygarðshornið en það er komin meiri stéttarvitund í sögurnar, enda voru elstu sögurnar skrifaðar stuttu fyrir efnahagshrunið 2008. Svo koma inná milli myndbönd sem eru persónulegri á sértækari hátt, ekki jafn almenn, þannig að maður fær að fá smá tilfinningu fyrir bakgrunni Lev og uppruna, hann er sonur tyrkneskra innflytjenda, pabbinn sérvitur vísindamaður og honum finnst gott að borða shawarma af því það er sárabót fyrir að hafa aldrei lært tyrknesku. Svo hefur tæknin aðeins breyst – en stemmningin er enn sú sama.

Svo eru einstaka myndbönd inná milli þar sem maður sér Lev sjálfan – síðhærður og grannvaxinn og tyrkjalegur, hárið gránar aðeins með árunum, en það forvitnilegasta við að sjá hann er að átta sig á að hvað það er skrítið að máta hann við teiknuðu útgáfuna af honum sjálfum. Ekki út af því hvað þeir séu ólíkir – þótt þeir séu það – heldur af því þetta óöryggi og komplexar sem hann teiknar um er eitthvað sem við erum mörg að díla við en finnst alltaf að allir aðrir séu með þessa hluti betur á hreinu, þess vegna er skiljanlegt að myndasögupersóna tali svona en einhvern veginn skrítnara þegar maður sér raunverulega manneskju á bak við.

Vídjóin eru ennþá ókeypis á Youtube og heimasíðunni hans en núna getið þið líka styrkt Lev á Patreon til að halda þessu gangandi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.