Þegar ég var lítill var Gáttaþefur alltaf sá jólasveinn sem hafði mest að gera. Hann þurfti nefnilega líka að gefa pabba í skóinn, enda fær maður líka í skóinn þegar maður er fullorðinn ef maður á afmæli rétt fyrir jól.
Núna er svo hans fyrsta afmæli eftir dauðann – og fyrst ég get ekki gefið honum neitt lengur, þá er ég að hugsa um að gefa ykkur eina rafræna ljóðabók, þetta er frá pabba, mér og Gáttaþefi – bókin sem ég tileinkaði honum, Framtíðin.
Og hér er hún öll – lesist að vild.
Fortíð, nútíð og framtíð mætast í ljóðum um Jóhönnu af Örk og svifbretti, Henry Ford og Harrison Ford, Sarajevo og Krímskagann. Þetta er uppgjör við kerfi sem heldur okkur föstum þrátt fyrir góðar fyrirætlanir. Bók um markað sem gleypir andspyrnulist og býr til úr henni peninga, hlutabréf og skemmtigarða.
Ég reyni kannski að henda í fagmannlegri rafbók þegar ég hef betri tíma – og svo eru einhver prenteintök enn eftir.
Þá hef ég aðeins verið að endurvinna ljóðið hans í bókinni, þetta er uppfærsla, einhvers konar rímix, það fær að fylgja með í skóinn.
Eldhúsinnrétting
Mig dreymdi sjálfan mig dauðvona. Ég var 72 ára í draumnum, jafngamall og hann þegar hann byrjaði að hverfa okkur. Þegar minningarnar hættu að myndast. Vaknaði svo og keypti flugmiða.
Ég get séð inní framtíðina.
Þegar Ísland hrundi þá týndi ég pabba mínum. Hann hvarf þegar bankarnir hrundu á Austurvelli, enn spurðist ekkert til hans þegar við brenndum jólatréð og steyptum ríkisstjórninni. Hann sást síðast á leið út úr húsi að kaupa eldhúsinnréttingu. En fimm árum seinna fórum við aftur að mótmæla. Þá fór ég út í heim að leita að pabba.
Í framtíðinni mun ég ekkert skilja. Ég mun ekki skilja þig, ég verð farinn að gleyma – hugurinn fer á undan hylkinu sem mun liggja í grafhvelfingu áratugum saman. Ég mun áfram hreyfa varirnar og biðja um mat og hafa skoðanir á síðustu fimm mínútunum í sjónvarpsdagskránni. En sjálfur verð ég löngu farinn. Kannski var ég aldrei hérna. Kannski var ég alltaf þetta grænmeti sem fyllti hugann af fótboltaúrslitum og fánýtum fróðleik í staðinn fyrir að hugsa og elska og breyta.
Ég var lengi á leiðinni. Fyrst vissi ég ekki hvar ég ætti að leita – svo þurfti ég að þora út í þennan heim.
Ég leita að þér í mannhafinu.
Pabbi býr ennþá í sama húsi og hann bjó í fyrir hrun. Samt er hann týndur. Þótt hann sofi ennþá í sama rúmi og mamma þá finn ég hann ekki, þótt ég hitti hann um hver einustu jól þá finn ég hann ekki.
Stundum finnst mér ég sjá þig, svo breytistu í aðra. Stundum séstu ekki nógu vel, ég er aldrei viss. Þetta eru óteljandi myndbönd, hrist og grófklippt, þetta er byltingardogma – og þær sem þú breytist í, hvað ef ég hefði drukkið bjór og rauðvín með þeim? Þú sem ég leita að, þú, þetta hlaðna orð, manneskjan sem maður þekkir, manneskjan sem útilokar allar manneskjurnar sem maður þekkir ekki.
Í framtíðinni verður þú búin að fá nóg af mér. Þú heimsækir mig bara af skyldurækni. Þú bölvar mér í þínum innstu hugarfylgsnum á meðan þú lofsyngur mig af eintómri skömm.
Manneskja er nefnilega ekki bara líkami. Manneskja eru hugsanir, orð, minningar og gjörðir. Minningar …
Hann liggur þarna, augun lokuð, ég veit ekki hvort hann þekki mig ennþá. Veit ekki hvort hann þekki heiminn ennþá. Ég strýk á honum hendina, þessa hendi sem hefur verið hérna allt mitt líf – en núna er hún hrum, örvisa. Eftir að ég varð fullorðinn vorum við alltaf nokkurn veginn jafn stórir, núna er hann hálfur ég, en samt, ávallt, allur heimurinn. Skeggið er ennþá eins – ég strýk hárlitlum kolli, og horfi í þessi lokuðu veðruðu augu sem eru skyndilega mörkuð eilífðinni. Eins og andlitið sé byrjað að steingervast. Kletturinn minn að verða raunverulegur klettur. Hann reynir stöku sinnum að tala, röddin er hás, lág. Samt kallaði hann mig yfir Atlantshafið. Svo, rétt áður en ég fer, þá brosir hann þessu kankvísa brosi sem aðeins hann á og bjargar hjartanu frá því að sökkva alla leið niðrá botn.
Í framtíðinni verða hugsanir okkar tölvuteiknaðar. Þær verða geymdar í gagnabanka á hálendinu. Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að tölvurnar taki yfir – við verðum einfaldlega orðin að tölvum. Og við munum svo berjast blóðugri baráttu um síðustu gígabætin í mannlausri veröld. Á meðan þú hitar matarleifar í örbylgjuofni fyrir síðustu mannleifarnar.
Pabbi er sá sem gaf mér vasapening þegar ég var lítill og lánaði mér þegar ég var orðinn fullorðinn og skítblankur. Pabbi er sá sem ég gat alltaf treyst. Pabbi er sá sem ég hélt um puttann á og fannst þessi putti vera besti hlutur í heiminum. Pabbi er sá sem ég klóraði skeggið á. Pabbi er sá sem kenndi mér stærðfræði fyrir próf. Pabbi er sá sem plataði mig í langan göngutúr til að ræða framtíðina. Pabbi er sá sem var alltaf þögull en samt sá sem var alltaf gott að tala við.
Þetta er fimmtíu þúsund manna haf, mengað af táragasi og bönnuðu interneti. Og þið eruð öll fasistar. Öll með tölu, segir ráðherrann sem segir ykkur fámenn, segir ykkur vera lækjarsprænu frekar en haf.
En pabbi er ennþá inni í líkamanum sínum. Við finnum hann bara ekki.
En kannski kemur internetið bráðum aftur. Kannski finn ég þig aftur, einhvers staðar í mannhafinu.
Núna sit ég í nóttinni og hugsa um þetta orð sem ég gat engum sagt þegar ég sagði að ég væri að koma heim. Þetta orð sem er svo skrítið og öfugsnúið og ég finn að ég veit ekkert hvað það þýðir eða hvernig á að segja það. Dauðvona. Hvers konar von er það? Ég veit bara að ég á eftir að heimsækja hann aftur á morgun. En ég veit ekki hvað morgnarnir verða margir.
Hann liggur í rúminu vegna þess að hann kemst ekki út. Hann þorir ekki að tala því hann kemst ekki út.
Mamma getur þetta allt líka. En ég veit hvar hún er, ég hef ekki týnt henni ennþá.
Ísland er hrunið og það eina sem pabbi getur hugsað um er að kaupa nýja eldhúsinnréttingu.
Mig langar að brenna þessa eldhúsinnréttingu á Austurvelli. Mig langar að öskra: Vanhæf eldhúsinnrétting! Vanhæft heilbrigðiskerfi! Vanhæf börn! Mig langar að hætta að vera aumingi með hor í nefinu, mig langar frekar að sprengja Alþingishúsið í loft upp til að finna pabba minn.
Þetta var allt saman satt. En þetta var samt bara ljóð. Ljóð um leitina af pabba, samið áður en ég fann hann. Seinna ætla ég að segja ykkur sannleikann. Sannleikann um pabba minn og síðasta drekann sem við börðumst við saman.
Núna sit ég í nóttinni og hugsa um þetta orð sem ég gat engum sagt þegar ég sagði að ég væri að koma heim. Þetta orð sem er svo skrítið og öfugsnúið og ég finn að ég veit ekkert hvað það þýðir eða hvernig á að segja það. Dauðvona. Hvers konar von er það? Ég veit bara að ég á eftir að heimsækja hann aftur á morgun. En ég veit ekki hvað morgnarnir verða margir.
En ég veit það núna. Þeir urðu tíu. Pabbi kvaddi um leið og september heilsaði. Daginn áður heimsótti ég hann og hélt ég hefði ekki náð neinu sambandi, hann mókti,ég reyndi að segja eitthvað brot af öllu því sem ég átti ósagt – en svo, rétt áður en ég fór þá rétti hann fram höndina og, þrátt fyrir kraftleysið, þá hélt hann fast um höndina á mér og núna veit ég að hann var að kveðja.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.