Fyrsta varðveitta teiknimyndin er einföld en ansi glúrin, Kómísk stig fyndinna andlitaHumorous Phases of Funny Faces – frá 1906. Þar sjáum við andlit á krítartöflu breytast, feðraveldið er mætt þarna að púa, bókstaflega, konuna niður með feitum vindli. En þá birtist hönd teiknarans og strokar þau bæði út.

Helsti frumkvöðul teiknimyndanna var þó Winsor McCay. Hans aðalstarf var alla tíð að teikna myndasögur í dagblöð og sökum pressu frá vinnuveitanda sínum þar, þeim alræmda fjölmiðlamógúl William Randolph Hearst, fékk hann ansi takmarkaðan tíma til teiknimyndagerðar.

Hans elsta varðveitta mynd er ansi expressíónísk útgáfa af Nemó litla frá 1911, en Nemó var hans frægasta myndasaga, og þótt það birtist ekki svo skarpt í teiknimyndinni þá var McCay ansi flinkur að teikna í art nouveau og sá sem gerði hvað mest til þess að koma þeim stíl inn í myndasagnaheiminn.

Í kjölfarið kom svo teiknimynd um moskítóflugu að reyna að ná sem mestu blóði úr íturvöxnu sofandi karldýri. How a Mosquito Operates heitir myndin og birtir okkur skemmtilega fagmannlega moskítóflugu sem minnir helst á lækni að taka blóð.

Það er hins vegar Risaeðlan Gertie sem heldur nafni hans á lofti enn í dag. Gertie er dansóð risaeðla sem hefur gaman af að stríða mammútum.

Þessar myndir voru oftast hluti af atriðum í skemmtigörðum, ekki í bíóum, þar sem McCay kynnti myndirnar og var nokkurs konar sirkusstjóri. En þegar þarna var komið sögu vildi hann gera eitthvað alvarlegra og teiknaði Þegar Lúsítaníu var sökkt – sem á þeim tíma var lengsta teiknimynd allra tíma, rúmar tólf mínúr, og sömuleiðis fyrsta heimildateiknimyndin. Þetta er áróðursmynd, enda teiknuð í miðri heimstyrjöld, og tekur sjálfa sig óþarflega alvarlega – en listfengið er samt ótvírætt, og raunar komst enginn með tærnar þar sem McCay hafði hælana í teiknimyndagerð fyrr en um áratug síðar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.