Breski rithöfundurinn Philip Hoare lærði ekki að synda fyrr en hann varð þrítugur. Það var eldri kona í viktoríönskum sundlaugum sem kenndi honum loks sundtökin – og nú fer hann í sjósund á hverjum degi við ströndina í Southampton og skrifar mest um hafið.

Fyrir nokkrum árum tóku hann og Angela Cockayne sig svo saman með að fá 136 manns til þess að lesa kaflana 136 í Moby Dick. Það er Tilda Swinton sem ríður á vaðið og meðal annarra þekktra lesara eru Stephen Fry, Benedict Cumberbatch, Will Self, A.L. Kennedy, China Miéville, Tony Kushner og sir David Attenborough. Já, og David Cameron, en það þurfti víst að leita nokkuð lengi af kafla sem var nógu meinleysislegur pólitískt fyrir forsætisráðherrann þáverandi.

Þetta má allt hlusta á hérna og hverjum kafla fylgir sérstakt listaverk – það sem sést hér fyrir ofan er ímynduð kápa eftir Richard Baker. Fyrir þá sem vilja einfaldlega lesa rafbókina þá má svo finna hana í ýmsum formöttum hérna. Svo er hægt að hita upp fyrir hlustunina með því að sjá Gregory Peck í hlutverki Ahab kapteins berjast við hann Moby okkar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.