Finnska stjórnmálakonan Sanna Marin varð í vikunni yngsti starfandi forsætisráðherra í heimi – en fyrir þremur árum var hún hins vegar grafalvarleg bíóstjarna í stuttri heimildamynd, Puheenvuoro – sem gæti útlegst sem „Hefur orðið.“

Þetta er finnska útgáfan af Borgarlínu-umræðunni (tja, eða málþófi Miðflokksins), þar sem borgarstjórnin í Tampere ræðir hvort koma eigi á sporvagnakerfi. Umræða sem hafði, ótrúlegt en satt, staðið frá því árið 1908, og heimstyrjöldin fyrri kom í veg fyrir að ráðist yrði í áætlaðar framkvæmdir 1914. En á þessum þremur árum síðan myndin var tekin hefur loksins verið hafist handa – og fyrst henni Sönnu tókst að koma þessu í gegn verður varla mikið mál að vera forsætisráðherra.

Og jú, það er rétt að árétta eitt: þetta er í alvörunni heimildamynd. Ég var sannfærður fyrst um að þetta væri einhver Office-paródía, en nei – finnskir heimildamenn mínir hafa staðfest að þetta gerðist allt saman í alvörunni og maðurinn sem segir: „Ekki rugla mig með staðreyndum eða rökum“ sagði þetta í alvörunni, þetta er ekki einhver djók-þýðing.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.