Stuttmyndin Kanarí eftir Erlend Sveinsson var nýlega tilnefnd sem besta dramamynd ársins á streymisveitunni Vimeo og það er hægt að horfa á hana þar í opinni dagskrá. Við erum stödd á íslenskum þjóðvegi, sjáum víðskot af einum bíl – og í honum reynist ungt par sem hefur ákveðið að breyta lífi sínu – og kanarífuglinn sem gefur myndinni heiti sitt.

Þetta er útskriftarverkefni Erlendar úr kvikmyndanámi við Colombia-háskóla, en þaðan hafa íslenskir leikstjórar á borð við Ísoldi Uggadóttur, Ásu Helgu Hjörleifsdóttur og Erling Óttar Thoroddsen útskrifast.

Nánar má lesa um myndina á vef Klapptrés og viðtal við Erlend á vefsíðunni DirectorsNotes – en á vimeo má einnig horfa á hinar myndirnar sem tilnefndar eru til verðlaunanna. Þær eru tíu talsins í heildina – og í dómnefndinni sitja Stjörnustríðsstjarnan Oscar Isaac, stórleikarinn Alec Baldwin og stuttmyndaleikstýran Luci Shchroder, sem vann þessi verðlaun í fyrra.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.